miðvikudagur, 31. október 2007

Angkor í öllu sínu veldi

Angkor, rústir horfins Khmerastórveldis, voru upphafleg ástæða endurkomu okkar til Siem Reap. Angkor er khmer, tungumál heimamanna, og þýðir einfaldlega borg og lýsir það orð rústunum vel, borg með mörgum hofum. Byggingarnar eru flestar frá 9.-15. öld og bera þess ákaflega skýr merki að vera reistar af hindúum, allt flúrað í styttum af dönsurum og guðum sem koma Indlandsförum kunnuglega fyrir sjónir. Rústirnar eru á heimsminjalista UNESCO og ef fólk hefur engan áhuga á hofum þá er þetta ekki rétti staðurinn, þau eru fleiri en þúsund í Angkor.

Í fyrradag keyptum við okkur þriggja daga passa, tveir dagar reyndust okkur þó alveg nóg, inn á svæðið og fórum strax upp á eitt hofið, ásamt trilljón túristum, til að fylgjast með sólinni setjast. Þetta var smápríl en vel þess virði, sólin var á sínum stað og umhverfið hið fegursta.

Af öllum þessum trilljón túristum vorum við þó eingöngu samferða tveimur, hollensku pari sem við hittum í flugvélinni og ákváðu að fljóta með okkur á gistiheimilið, og ákváðum við að deila með þeim fararskjóta. Nú þegar við vorum búin að sjá sólina hátta í Angkor þótti öllum nauðsynlegt að sjá þessa rosastjörnu fara framúr en til þess þarf að vakna snemma.

Planið stóðst og næsta morgun vorum við öll komin um borð í léttivagninn um fjögurleytið og að aðalhofi rústanna, Angkor Wat (Borgarhofi), vel fyrir sólarupprás. Þar fengum við öll að leika okkur með vasaljósin okkar í smá Tomb Raider fílingi. Mitt í allri dulúðinni og myrkrinu birtist vægast sagt spélegur spói klæddur rauðum kufli, tilheyrði greinilega allt annari mynd, og spurði okkur í hvaða átt orgían væri, við lugum að hún væri löngu búin.

Auðvitað var hún ekkert búin, en hvað um það. Sólarupprásin var mál málanna og öðru sinni stóðum við í þvögu trilljón túrista og fylgdumst með undrinu vakna. Eftir því sem ljósmagnið jókst komumst við að því að bestu sætin voru frátekin því nokkrir pattaralegir skýhnoðrar höfðu troðið sér í fremstu röð svo stórstjörnuna sáum við ekki fyrr en löngu eftir dögun. Það verður þó að segjast að Angkor Wat er gullfallegt við hvaða birtuskilyrði sem er og breytti nærvera skýjanna engu þar um.

Angkor Wat var stórkostlegt á að líta og hefði ég gaman af því að ferðast aftur í tíma og sjá það í fullri dýrð, umkringt miklu síki og fullt af fallegum smáatriðum. Við gáfum okkur drjúga stund í að ráfa um og þegar við höfðum fengið nægju okkar leituðum við uppi bílstjórann okkar og báðum um næsta dagskrárlið. Að mínu mati var Angkor Wat hápunktur þessa dags.

Eftir þetta hófum við það sem kallað er litli hringurinn. Nafnið er tilkomið af því að eknir kílómetrar eru mun færri en í stóra hringnum en fyrir okkur ferðamennina er þetta akkúrat öfugt því á litla hringnum er miklu meira að skoða og mun meiri ganga um rangala rústanna. Meðal sýningaratriða voru Fílastallurinn (Terrace of Elephants) og Stallur holdsveika konungsins (Terrace of the Leper King). Orðin stallur og terrace eru samt frekar villandi þar sem Fílastallurinn er t.d. 300 metra langur, kannski meira eins og risavaxið svið.

Ekki skoðar maður neitt í Angkor án þess að eiga samskipti við hina bráðfyndnu heimamenn, þeir spretta upp út um allar rústir eins og gorkúlur sem selja bækur, föt og skartgripi ýmsa. Ekki keyptum við neitt af þeim en fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á t.d. sögu Angkor er hægt, með svolitlu prútti, að gera reifarakaup á svæðinu.

Litríkustu sölumennirnir eru yfirleitt á aldrinum 6-12 ára og eru jafnframt þeir harðsvírustu, alls ekki á neikvæðan hátt þó. Þau hafa til sölu mikið af einföldu dóti og er verðið oftast einn bandaríkjadalur. Þegar útlendingaradarinn þeirra nemur nærveru okkar koma þau þjótandi með orðunum one dollah, borið fram með hágæða suðurríkjahreim. Virki það ekki byrja þau að telja upp að tíu á hinum ýmsu tungumálum, t.d. ensku, frönsku, þýsku og dönsku.

Þessi fyrsti heili skoðunardagur var langur en skemmtilegur, endaði um hálftvöleytið og þótti okkur þá nóg komið af rústum í bili. Seinni dagurinn var mun léttari, færri staðir og meiri akstur. Það hentaði okkur vel því þá gat maður stoppað lengur á hverjum stað fyrir sig og einfaldlega notið þess að vera í Angkor án þess að skoða allt í krók og kima, enda skoðunarþörfinni svalað rækilega daginn áður.

Ég er sérlega feginn að við gerðum okkur aukaferð til Kambódíu til að sjá þessar sögufrægu rústir, algerlega þess virði. Ég mæli með þriggja daga passanum við þá sem ætla sér á svæðið því hann kostar jafnmikið og tveir stakir dagar, sem í okkar tilfelli var alveg mátulegt, en býður upp á möguleika á frekari rannsóknarferðum ef sá gállinn er á manni.

mánudagur, 29. október 2007

Kambódía, seinni hluti

Það kom þá að því að við heimsæktum Kambódíu í annað sinn. Héðan urðum við að hverfa í lok júlí með mig draghalta og mína sýktu löpp. Nú er öldin hins vegar önnur, löppin í góðum málum og við tilbúin til að sjá merkustu minjar Suðaustur Asíu.

Við flugum hingað til Siem Reap með Lao Airlines. Flugið tók einn tíma og því var aðeins um flugtak og lendingu að ræða, ekkert beint flug þar á milli. Vélin var full af Hollendingum og Frökkum í pakkaferðum, við sárvorkenndum þeim að þurfa að hanga svona saman. Því þó við tölum ekki reiprennandi frönsku eða skiljum orð í hollensku þá skynjuðum við vel spennuna í sitthvorum hópnum. Oh la la.

Við erum komin á sama gistiheimilið og við vorum á síðast, Queen Villa Angkor, og ég heimtaði meira að segja sama herbergið. Það kom nefnilega í ljós að það var langstærst. Eina sem hefur breyst á þessum vígstöðvum er að við heimilishaldið hefur bæst lítill og hrjáður kettlingur sem er óðum að vaxa og dafna.

Í kvöld ætlum við að njóta þess að heimsækja mexíkóska veitingastaðinn sem hér er að finna, og ef mig minnir rétt þá er hægt að fá þar alveg ruddalega góðan appelsínu/mangó hræring.

sunnudagur, 28. október 2007

Síðasti dagurinn í Laos

Á okkar síðasta degi í elsku Laos tókum við rútuna frá Tat Lo aftur til Pakse. Rétt eins og á leiðinni út eftir var okkur troðið inn í gamla rútu með viftum í loftinu sem bílstjórinn, af sinni alkunnu skynsemi, slökkti samviskusamlega á þegar skrjótan var komin á fljúgandi ferð. Hver þarf viftur þegar til eru opnir gluggar, ég bara spyr.

Að þessu sinni var öll aftasta röð rútunnar undirlögð munkum í appelsínugulu kuflunum sínum. Með í för voru líka litlir hænuungar sem við sáum aldrei sama hve við snérum upp á okkur, en heyrðum aðeins tístið í. Kannski voru þeir í farangurshólfinu, eða upp á þaki, hver veit. Svo var líka ein hæna með okkur í rútunni en við urðum lítið vör við hana, það var aðeins fyrst þegar við vorum nýsest að hún gerði tilraun til að sleppa úr prísund sinni og tók að blaka vængjunum framan í vagnstjórann. Ótrúlega tilviljunin er sú að ég var einmitt að taka mynd yfir vagninn þegar hænan tók að steyta görn svo nú á ég mynd af hnökkum samferðafólksins, viftunum í loftinu og hálfu vænghafi.

Ferðin til Pakse gekk þrautalaust fyrir sig og ég náði að horfa ekki of tregafullum augum á landslagið þjóta hjá. Við erum eftir allt saman að kveðja Laos og þetta var síðasta rútuferðin okkar svo þið láið mér ekki að hafa verið smá angurvær. Það var helst að reykingastybban færi í mann því einhver var alltaf að svæla reyk yfir okkur hin með því að púa sígarettur. Þegar við fórum að leita að sökudólgnum sáum við okkur til mikillar undrunar að einn af munkunum sat og reykti milli þess sem hann dreypti á eitruðum koffíndrykk!

Ég get óhikað mælt með Laos við alla, komið hingað og upplifið. Við bjuggumst aldrei við að vera heilan mánuð í landinu en svona er að hrífast af landspildu, þá vill maður vera um kjurrt. En vegabréfsáritunin er að renna út og þá fyrst nennum við Baldur að drattast af stað og segja bless. Knús í krús elsku Laos, kop chai lai lai.

Í fyrramálið er það morgunflugið til Siem Reap í Kambódíu.

laugardagur, 27. október 2007

Gönguferð um Boliven hásléttuna

Við vöknuðum snemma í morgun, ekki við hanagal þar sem hanarnir í Asíu byrja alltaf að gala upp úr þrjú að nóttu og við því búin að venja okkur af því að taka mark á þeim, heldur við vekjaraklukku. Ætlunin var að fara í dagsgöngu um svæðið kringum Tat Lo sem er rómað fyrir náttúrufegurð og skemmtileg þorp heimamanna.

Við lögðum af stað átta að morgni, galvösk og spræk að vanda. Með okkur í gönguför var ein frönsk og önnur svissnesk samferðakona og svo leiðsögumaðurinn á áttræðisaldri, vel til hafður, nýgreiddur og með nýpússaðan göngustafinn til taks.

Við gengum frá morgni fram á miðjan dag og ekki annað hægt að segja en að margt hafi fyrir augu borið. Við sáum nokkra gullfallega fossa sem við urðum að brjóta okkur leið gegnum kjarr og akra til að komast að og klifra upp hlíðar til að njóta betur. Við óðum smásprænur og litla læki og meira að segja hrísgrjónaakra þangað til við urðum drullug upp að hnjám. Meðfram vegunum sem við gengum var allsstaðar sægur af skærgulum fiðrildum sem minntu helst á fljúgandi sóleyjar.

Við heimsóttum mörg hefðbundin þorp á göngunni, þorp þar sem líf þorpsbúa hefur lítið breyst í gegnum aldirnar ef frá eru talin sjónvarpstækin, rafmagnið og gervihnattadiskar. Það var ansi skemmtilegt að sjá andstæðurnar: bastkofar á stultum og börn með hor niður á höku annars vegar og svo skínandi nýjar vespur og sjónvarpstæki hins vegar.

Af því hefðbundnara sem við sáum var vinna heimamanna. Í öllum þorpunum hafði fólk lagt til þerris ýmist rauðan chili, tóbak eða banana í skífum. Maískólfar voru hins vegar strengdir upp á þráð til þurrkunar. Smástelpurnar báru ungbörn í sling á mjöðminni á meðan eldri telpur hömuðust við að berja hrísgrjónin til að skilja að hismið og grjónið. Drengirnir vörðu tíma sínum niðri við ánna að veiða fisk eða heima við að veiða gulu fiðrildin í glerflöskur. Innan um allt þetta hlupu að sjálfsögðu húsdýrin milli fótanna á manni: hænsnin og hinir fjölmörgu ungar þeirra, svínin svört og bleik með litla rítandi grísi í eftirdragi og hundar með nefið í öllum koppum, tjóðraðar geitur og beljur á flakki, endur í sefinu, meira að segja sáum við einn dúfnakofa!

Í síðasta þorpinu áðum við í skugganum af stóru tré og fengum okkur sæti á stultupalli. Þar bar tannlaus, gömul kona papaya á borð og banana líka. Svo sat hún og tottaði vatnspípuna sína en gjóaði augunum á okkur falang af og til, kannski vildum við líka fá smá smakk af vatnspípunni?

Á leiðinni heim var aldraði leiðsögumaðurinn okkar, sem var okkar allra sprækastur, svo sætur að sýna okkur ýmislegt úr viðjum náttúrunnar. Við fengum að sjá jurtina sem spinnur baðmull og hve mjúk hún er svona óunnin beint úr fræinu. Hann óð líka inn á akra til að skýra fyrir okkur hrísgrjónaræktun og hvernig uppskeran er unnin með þreskivélum. Öðru sinni óð hann inn á akur og tók að grafa upp rætur, kom síðan sigri hrósandi með ferskar jarðhnetur beint úr jörðinni. Þær bragðast eins og baunaspírur, stökkar og safaríkar, algjört nammi.

Þegar við komum heim í kofa eftir gönguferðina vorum við öll orðin ansi sólstungin og þreytt, sumir meira að segja sólbrunnir eins og gengur og gerist. En það er kannski vel af sér vikið svona á fyrsta vetrardegi.

föstudagur, 26. október 2007

Í sveitasælunni

Í gær vorum við í látunum og borgarlífinu í Vientiane og núna erum við komin í sveitasæluna á Boliven hásléttunni. Talandi um æpandi andstæður!

Við tókum VIP næturvagn frá Vientiane til Pakse fyrir sunnan. Að þessu sinni var næturrútan með rúmum og sængum og öllu. Mér leið eins og ungbarni sem sett hefur verið út í vagn: mér var heitt undir sænginni en ég var með ískaldar kinnar og nebba út af loftkælingunni.

Til Pakse komum við eldsnemma í morgun og urðum að skipta yfir á aðra rútustöð til að ná rútunni þangað sem við ætluðum okkur, þ.e. að litlu þorpi sem stendur við Tat Lo fossana á Boliven hásléttunni. Við hossuðumst eftir veginum, ein fárra ferðamanna, og fylgdumst með stultuhúsum og litlum þorpum með hlaupandi hænsnum og grísum líða hjá.

Reyndar leið þetta ekki alveg svona áreynslulaust fyrir sig því þegar við vorum búin að koma okkur vel fyrir í vagninum, óvenjuhress svona eldsnemma í morgunsárið, og voru mitt í því að teygja okkur í hnetur og japla á skrældu epli, æddu heimamenn allir sem einn út úr vagninum og við tvö, einu túristarnir um borð, sátum eftir með spurningarmerki á andlitinu. Það kom í ljós að búið var að hlaða nýjum vespum á þakið á öðrum vagni og þessum vespum skildi komið á áfangastað. Svo við skiptum um vagn og yfir í miklu verri vagn, takk fyrir.

Þegar við komum til Tat Lo fundum við gistingu í bastkofa á stultum. Hann er allur út í basti og kóngulóarvef og við deilum baðherbergi með öðrum kofum. Um lóðina vappa hænsnin og ein önd nartar í grasið undir kofanum okkar, tíkin á svæðinu á fimm hvolpa sem varla eru farnir að opna augun og nágranninn á beljur og nokkur svín.

Bærinn var hljóðlátur fyrir þegar við löbbuðum í gegn og skoðuðum en eftir að tók að skyggja datt öll umferð niður, umferð sem samanstóð af hjólandi og hlæjandi börnum. Hér dimmir mjög hratt og allt er með kyrrum kjörum en samt er svo mikið að hljóðum í náttúrunni.

Hátíð drekans

Hér í Vientiane er allt að fyllast af fólki. Fyrsta kvöldið okkar í borginni var allt fullt af fólki, okkur til mikillar undrunar (Laos hefur verið frekar rólegt fram til þessa). Enn furðulegra þótti okkur að sjá að það voru aðallega heimamenn og asískir ferðamenn sem fylltu strætin sem er ansi óvanalegt, iðulega eru það aðrir bakpokaferðalangar sem maður rekur augun í.

Frá því við komum hefur heimamönnum og asískum ferðamönnum hins vegar farið fjölgandi á degi hverjum, og miðað við fjölda sölubása sem spretta nýir upp úr jörðinni á hverjum degi, var augljóst að eitthvað var í aðsigi. Nú höfum við fengið skýringu á fyrirbærinu, í vændum er nefnilega hátíð drekans hér á bæ.

Hátíð drekans virðist fela ýmislegt í sér: föstu munkanna er að ljúka og haldið er upp á endurkomu Búdda (hef aldrei heyrt af þeirri endurkomu fyrr en hér í Laos), upp úr Mekong skýst yfirnáttúrulegt ljós sem vísindamenn kunna enga skýringu á, aðeins er vitað að það gerist einu sinni á ári á hátíð drekans. Til að halda upp á þetta allt saman koma heimamenn og ferðamenn úr nágrannalöndunum til höfðuborgarinnar til að sýna sig og sjá aðra.

Það sem trekkir fólk ekki síður að borginni er róðrakeppnin sem fer fram á laugardaginn næsta. Þá er róið á stórum drekabátum sem, í þessum rituðum orðum, er verið að smíða út á Mekong. Þeir eru glæsileg sýn á kvöldin þegar kveikt hefur verið á ljósaseríunum sem einhver svo snilldarlega vafði utan um drekabátana.

Til að koma til móts við þann mikla fjölda sem hingað er mættur eru sölubásar á hverju strái. Verið er að selja fáránlega ódýr föt í öllum regnbogans litum, vörukynngar á hinum furðulegustu vörum eru í fullum gangi, kjöt á teini og armar af smokkfiskum grillast í rólegheitum, sojamjólk í fernum og gos í gleri fljóta um í bráðnu ísvatni, smástelpur ganga um og bjóða tyggjó pakka til sölu, önnur börn selja uppblásnar blöðrur.

Hér er hægt að fá sticky rice í bambushólkum, sígarettur og lottómiða, karamelíserað poppkorn, snakk og brjóstsykur, bananapönnukökur og djúsa á 1000 kip glasið. Í hofgarðinum er hoppukastali fyrir krakkana, sumir stíga á ferðavigtir sem spá fyrir manni, aðrir spila í lottó sem er svo vel græjað að hafa kúlur og sérlottóvél, blöðrukastið er að sjálfsögðu vinsælt sem og að henda tennisboltum í áldósir, svo bjóða munkarnir upp á blessun. Leikir, leikir, leikir....

Ekki má gleyma tónlistinni! Maður þarf að halda fyrir eyrun á göngugötunni, hún er svo hávær. Skemmtiatriðin á sviði eru í boði Beer Lao og þar er Lao popptónlist í hávegum höfð og poppdívur í Lao tísku (stuttum smekkbuxum) stíga á svið. Á horni hótelsins okkar er verið að selja geisladiska og til marks um það hefur tveimur risastórum og ógnvænlegum hátölurum verið komið fyrir og þrykkja þeir út með gríðarlátum þremur lögum aftur og aftur og aftur: Daddy Cool með Boney M, Brother Louie með Modern Talking og Lambada með Kaoma. Ég þakka bara fyrir að hafa sama smekk og þessir Laobúar, annars yrði sambúðin með háværu tónlistinni óbærileg. Í staðinn dilla ég mér við Lambada í þriðja hverju lagi og raula Brother Louie Louie Louie eða I'm crazy like a fool í öðru hverju lagi.

Dásamlegt, dásamlegt, dásamlegt...

fimmtudagur, 25. október 2007

Í garði Búdda

Við gerðum okkur ferð út fyrir borgarmörkin í dag. Sú ferð fól í sér rútuferð um rykuga sveitavegi en þó ekki í rútu, nær lagi væri að tala um stórt rúgbrauð. Ferðinni var heitið í lítinn garð 25 km fyrir utan borgina sem gengur undir heitinu Búddagarðurinn.

Eftir klukkutíma rúnt í rúgbrauðinu, með viðkomu á landamærum Tælands og Laos, vorum við komin í garðinn. Í garði Búdda er að finna búddastyttur og aðrar trúarlegar styttur, en auk þess eru þar fiðrildi, kyrrð og ró og óviðjafnanleg lykt af kerfli í loftinu, rétt eins og á Vífilsgötunni hjá Rut ömmu.

Stytturnar í garði Búdda er vel yfir fimm hundruð ára gamlar og voru flestar fluttar inn til Laos frá Indlandi. Það kom mér alveg á óvart hve fallegar margar þeirra eru og hve uppröðun þeirra gefur garðinum mikinn sjarma. Eins og nafnið gefur til kynna eru að sjálfsögðu ógrynnin öll af Búddastyttum í garðinum, smáum og stórum, þó sú stærsta sé óumdeilanlega hinn 20 metra liggjandi Búdda. Þá eru líka margar styttur af hindúa goðum með brugðin sverð og gyðjum með vænan barm, kyrrsett skjaldbaka liggur í sólbaði, risaslangan Naga með sína sjö hausa hræðir úr manni líftóruna, og nautið Nandi og Cupid* eiga vel heima í þessum kokteil.

Við vörðum dágóðum tíma í garðinum og prísuðum okkur sæl með að hafa komið seinnipart dags, þegar hitinn og sólin keppast um að hníga niður og birtuskilyrði verða öll hagstæðari mannfólki. Við gátum því óáreitt gengið nokkra hringi í garði Búdda og notið þess að vera til í Asíu.

-----------------
* Ég stenst ekki mátið að láta eina sögu af Baldri fylgja hér með fyrst minnst var á ástarengilinn Cupid í færslunni. Einhverju sinni var ég með mynd af föllnum cupid á tölvuskjánum, ör í hjartastað og kramdir vængir. Baldur gengur framhjá, staldrar andartak rýnandi á skjáinn og spyr svo: Hver er þessi cupid? Einhver fugl?

miðvikudagur, 24. október 2007

Lao menning í hnotskurn

Lao menningardagurinn var í dag! Mikill fjöldi lagði af stað frá Joe Guesthouse og heimsótti Þjóðarsafn Lao. Fjöldinn samanstóð af tveimur manneskjum á aldursbilinu 27-28 ára og voru algengustu nöfn: Ásdís, Baldur og María (stafrófsröð).

Dagurinn var semsagt Lao menningardagur fyrir okkur, ekkert opinbert. Þjóðarsafnið hafði til sýnis muni og upplýsingar frá tímum risaeðla til vorra daga. Margt áhugavert var þar að sjá en framsetningin þótti mér almennt frekar óspennandi og gengum við nokkuð greiðlega í gegnum nokkra salina, þó fegin að hafa kíkt.

Eftir safnið röltum við aðeins um götur höfuðstaðarins á rólegum nótum og fundum m.a. fallegt torg með stórum og gullfallegum gosbrunni í miðjunni. Rétt hjá þessu torgi er til húsa laóískur dans- og tónlistarhópur sem heldur daglega menningarsýningu, í takt við þema dagsins keyptum við okkur vitanlega miða.

Þegar inn var komið reyndumst við einu gestirnir, kannski skiljanlegt þar sem drekahátíðin er í fullum gangi og nóg af lífi úti um allan bæ. Fljótlega bættust þó tvær manneskjur í hópinn svo ekki var um algera einkasýningu að ræða.

Atriðin voru hverju öðru fallegra, safnið átti ekki séns í þetta menningarsýnishorn. Í fyrsta sýningarlið var sýndur dans sem túlkar gestgjafa að bjóða gesti velkomna, það tókst sannarlega, og í lok atriðisins fengum við fullar ilmandi lúkur af krónublöðum fallegra blóma.

Punkturinn yfir i-ið var svo þegar gullfalleg Laomær bauð mér upp í dans, sem ég vitanlega þáði, og myndarlegasti karldansarinn bauð Ásdísi í dans. Ásdís stóðst freistinguna og dokúmenteraði tignarlegan limaburð minn þegar ég sýndi og sannaði allt sem ég hafði ekki lært á meðan á sýningunni stóð.

Sýningunni mæli ég tvímælalaust með og hvet alla sem eiga leið um Vientiane að skella sér. Í ferðahandbókunum kallast hún Lao Traditional Show.

þriðjudagur, 23. október 2007

Gufubað à la Laos

Seinnipart dagsins í dag áttum við stefnumót við sænsk-kólumbíska vinaparið okkar, Fernando og Sofiu. Fundarstaður var gufubað á lóð stórs klausturs hér í bæ en gufuböð eru víst mjög vinsæl meðal heimafólks.

Þegar okkur bar að garði var hverju okkar fenginn litríkur sarong, stór bómullarstrangi á stærð við lak, til að vefja utanum okkur í þágu almenns siðgæðis. Gufubaðið var einföld smíð, járntunna fyllt af vatni og kryddjurtum (engifer meðal annara) sett yfir hlóðir og úr tunnunni var gufan leidd í stokk inn í viðarskúr á stultum.

Einfalt var augljóslega gott því í gufunni sátum við og svitnuðum drjúga stund og vitanlega ræddum við flókna og háfleyga heimspeki sem ekki er pláss fyrir á hvunndagsvefsíðu sem þessari. Hvers vegna að leggjast undir feld þegar hægt er að hlamma sér á rökstóla í jurtagufu?

Eftir fyrstu salíbunu var okkur boðið upp á nudd en afþökkuðum það pent, virtist vera algert káf, og fengum okkur tebolla meðan við kældum okkur fyrir næsta sett. Sem við dreyptum á teinu veittum við því athygli að hópur munka sat fyrir neðan og mændi á það sem við þeim blasti: Sveitt norræn kvenmannsbök. Fleiri kunnu að meta viktoríanska nektarsjóvið, auðvitað moskítóflugurnar :)

mánudagur, 22. október 2007

Fyrsta kvöldið í borginni

Í gær...

- var fysta kvöldið okkar í höfðuborg Laos, Vientiane. Það var mjög skemmtilegt kvöld.

- fórum við á ítalskan veitingastað með spænska parinu Ferran & Mireia og Fernando & Sofiu. Þegar Baldur spurði þjónustustúlkuna út í hvaða grænmeti væri á pizzunni, sem hann hafði augastað á, fékk hann að vita að það væri white, clean and mushrooms. Þetta er auðvitað klassískt svar úr veitingabransanum, ekki satt, við vorum samt svo vitlaus að reka upp stór augu.

- hlustuðum við á margt góðra sagna. Við hlustuðum á sögur um fólk sem lætur illa í svefni, hlógum að hetjusögum úr kajakferðinni og grenjuðum af hlátri yfir því hvernig Fernando & Sofia sigldu upp á sker og tóku þaðan flugið yfir ánna með svakalegri lendingu sem kom kajaknum á hvolf og þeim ofan í vatnið með björgunarvestin fráhneppt og hjálmana lausa (varhugavert gáleysi hjá Kólumbíumanninum). Fyrir tilstuðlan varnarorða Sofiu - Haltu í árina! - tókst að bjarga blessaðri árinni, en Fernando flaut með straumnum og hékk á skeri, með árina í annarri.

- fræddumst við um tungumálaörðugleika. Spánverjarnir þurftu t.d. að glíma við það að spænska sögnin coger (að taka/grípa) hefur kynferðislega merkingu í Argentínu og því er ekki vel séð að rétta argentíska landamæraverðinum vegabréfið sitt til með boðhætti sagnarinnar coger.

- fengum við að heyra af afrekum Fernando í Indónesíu. Hann vildi nota frasa úr Lonely Planet og lagði sig fram um að læra að segja góðan daginn á bahasa indónesísku. Honum til mikillar undrunar forðuðu viðmælendur hans, sem í öll skiptin voru unglingsstúlkur, sér á brott; litu fyrst á hann undrandi með uppglennt augun og tóku svo á rás. Þegar hann, ráðvilltur og ringlaður, tjáði einum heimamanni frá erfðileikum sínum við að bjóða góðan daginn fékk hann loks skýringu. Í stað þess að bjóða ungu dömunum góðan daginn var hann að spyrja þær í léttum og brosandi tón hvort þær væru giftar!

- enduðum við kvöldið á göngutúr um bakka Mekong þar sem allt var fullt af fólki, sölubásum og smábörnum að selja uppblásnar blöðrur. Í sölubásunum var verið að kynna sápur og bleyjur, sojamjólk og gos, og hjá götusölunum var hægt að fá heil egg á grilli, með skurninni og öllu.

- prufuðum við hið sér sérlaóíska pílukast, þrjár pílur og fullur rekki af marglitum blöðrum, ef maður sprengir þrjár fær maður verðlaun. Allt þetta fyrir 1000 kip, eða 7 krónur. Ég fékk pepsí í gleri í verðlaun enda hitti ég allar þrjár blöðrurnar.

sunnudagur, 21. október 2007

Á kajak til Vientiane

Á kajak til Vientiane eru kannski svolitlar ýkjur en það hljómaði betur en: Á vörubílspalli í einn og hálfan tíma, þrír tímar á kajak og einn og hálfur tími í viðbót á vörubílspalli. Æi, ég veit það ekki. Ætti ég kannski að skipta fyrirsögninni út fyrir þetta rugl? Allir samtaka nú: NE-HEI!

Okkur var semsé skutlað, með öllu hafurtaski, af hótelinu og niður að mikilli á. Við vorum í góðum félagsskap tveggja annarra para, Fernando og Sofiu frá Kólumbíu og Svíþjóð en hitt parið frá Katalóníu (auðvitað Barcelona).

Niðri við ána var haldið námskeið um öryggi og hvernig skyldi bera sig að við kajakaróður niður flúðir og hvað skyldi gera þegar bátnum hvolfdi. Ég verð nú að játa að maður hafði ekkert sérstaklega þungar áhyggjur af þessu öllu en setti þó upp öll þau öryggi sem ætlast var til; hjálm og björgunarvesti ásamt sérstökum þurrpoka fyrir verðmæti.

Ekki höfðum við róið lengi þegar mikill gusugangur blasti við, fyrstu flúðirnar, og straumurinn gerðist allharður. Við ákváðum að fara síðust í halarófuna og sjá hvernig hinum vegnaði og fór meirihluti þátttakenda á bólakaf, árar og kajakar úti um allt, og voru vinir okkar frá Kólumbíu og Svíþjóð í miklu aðalhlutverki þar. Við héldum hins vegar góðum sönsum og komumst svotil skraufþurr í gegn.

Við næstu flúðir vorum við því aðeins öruggari og ákváðum að fara aðeins framar í röðina. Ein mistök gerðum við þó því á síðustu stundu kallaði leiðsögumaðurinn á okkur og sagði okkur að fara niður miðjar flúðirnar, ekki til hliðar eins og við ætluðum. Auðvitað hlýddum við kennaranum, hrekklaus börnin, og vitanlega fór kajakinn á hvolf og við á bólakaf.

Eins og glöggir lesendur taka eftir þá lifðum við þetta af og reyndist baðið bara hressandi þrátt fyrir að sumum okkar hafi ekki litist á blikuna. Við lærðum líka af þessu að hlusta ekki á svona hrekkjótta leiðsögumenn framar og varð úr að við héldumst í bátnum það sem eftir var ferðar ef frá er talið eitt stopp til að grilla hádegismat og borða hrísgrjón.

Eftir kajakróður dagsins beið okkar túk-túk með farangurinn okkar og alla leiðina til Vientiane kjöftuðum við frá okkur vit og rænu við áðurnefnd vinapör og lærðum margt áhugavert, t.d. að í Kólumbíu borðar fólk kókakólahrísgrjón og að í Katalóníu er stytta af karli sem situr á hækjum sér og hægir sér notuð sem jólaskraut!

Að lokum lærðum við að spænskumælandi segja ekki guð hjálpi þér og að þegar maður á annað borð er byrjaður að hnerra er allt eins gott að gera það þrisvar. Á fyrsta hnerra segir fólk salud (heilsa) og á öðrum er það dinero(peningar). Þriðji hnerrinn kemur svo öllu í jafnvægi og gefur heilsu og peningum aukið vægi, amor (ást)!

laugardagur, 20. október 2007

Vinabærinn Vang Vieng

Við héldum frá Phonsavan og Krukkusléttu í dag og tókum rútuna til Vang Vieng. Það skondna var að við vorum umvafin sömu vestrænu ferðamönnunum og tóku rútuna með okkur frá Luang Prabang til Phonsavan, og sem fór með okkur í rúntinn um Krukkusléttu. Við hlið okkar sat kólumbísk/sænska parið, fyrir framan okkur katalónska parið, belgísku hjónin einhversstaðar fyrir aftan og skáhallt við okkur sat svo indverski gaurinn frá Goa sem samkjaftar ekki.

Við komumst síðan að því að kólumbísk/sænska parið (Fernando & Sofia) flýgur frá Bangkok til Stokkhólms degi á undan okkur og, það sem meira er, Fernando á flug til Íslands á sama degi og við. Eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að við erum í sama flugi! Nú eru að sjálfsögðu uppi plön um að hittast í Stokkhólmi enda Sofia heimamaður og búin að bjóðast til að sýna okkur eitthvað af borginni.

En við komum semsé til Vang Vieng fyrr í dag og erum búin að taka einn hring um bæinn. Annar hver veitingastaður er með sjónvarpsþættina Friends í botni og dósahlátur ómar því um allar eyðilegu göturnar. Hér eru nefnilega allir timbraði fram eftir degi og skríða ekki úr fylgsni fyrr en myrkva tekur, rétt eins og móskíturnar og vampírurnar. Og það er kannski ágætt að fólk láti renna af sér áður en það fer á stjá. Gott dæmi um hvernig annars fer er ungi maðurinn í hjólastólnum sem við mættum á göngu okkar um bæinn.

Hann var útúr dópaður og eflaust brotinn á báðum ef eitthvað var að marka umbúðirnar á fótunum hans. Hann renndi sér yfir götuna í þessu annarlega ástandi, virtist ekki átta sig á því að hann sat fastur í stengdum plastborða og hvað þá að hann tæki eftir Baldri sem hjálpaði honum úr sjálfheldunni. Þegar hann kom að kanti tók hann að prjóna á hjólastólnum sem endaði auðvitað með því að hann skall aftur fyrir sig með miklum dynk. Við sjáum til hve lengi við endumst í plássinu.

föstudagur, 19. október 2007

Krukkuslétta

Við heimsóttum eitt hættulegasta fornminjasvæði heims í dag, nánar tiltekið Krukkusléttu sem er í Xieng Khouang sýslu í Norður Laos. Það eru ósprungnar sprengjur (UXOs), sem varpað var á sléttuna af Bandaríkjamönnum í hinu svokallaða Leynda stríði á 7. áratugnum, sem gera Krukkusléttu að einu hættulegasta fornminjasvæði heims. Maður ber að vara sig á því hvar maður stígur fæti og hyggilegast er að ganga innan hvítu steinanna sem marka örugg göngusvæði. Af þeim 400 svæðum sem krukkurnar hafa fundist á eru aðeins þrjú þeirra opin almenningi þar sem önnur svæði eru teppalögð ósprungnum sprengjum.

Krukkuslétta ber nafn með rentu, þar er að finna þúsundir krukkna, misstórar og þungar en þó flestar mannhæðarháar. Fræðimenn áætla að þær séu um tvö þúsund ára gamlar. Gamlar sögusagnir meðal heimamanna segja að krukkurnar hafi verið búnar til af kynþætti sem var mun hávaxnari og kraftmeiri en fólkið sem í dag byggir Xieng Khouang svæðið. Konungur þessa risamannkyns, Khun Cheung, á að hafa staðið að baki krukkugerðinni og notað þær til að brugga Lao hrísgrjónavín.

Fornleifafræðingar og mannfræðingar hallast þó á að krukkurnar hafi verið notaðar undir greftrun og renna mannabein, sem fundist hafa í krukkunum, stoðum undir þá kenningu. Leiðsögumaðurinn okkar bar hins vegar á borð fyrir okkur gömlu sögusagnir heimamanna af mikilli ákveðni og fullyrti að í fyrndinni hefði fólk verið hávaxnara, sterkara og sköllótt í þokkabótt! Það þótti mannfræðingnum í hópnum mjög fyndið og þegar hann fór að tala um að krukkurnar hefðu verið hitaðar yfir eldi til að herða steininn, fór finnski jarðfræðingurinn í hópnum að flissa. Það var í stuttu máli sagt gagnlegra að skoða krukkurnar á eigin spýtur en að hlusta á leiðsögumanninn okkar, nema til að heyra gróusögur og þannig kynna sér aðra hlið á Lao menningunni.

En hver svo sem ástæðan fyrir krukkunum er get ég fullyrt að þær eru stórfenglegar, og slétturnar sem þær er að finna á eru dásamlega friðsælar og fallegar. Slétturnar eru í þúsund metra hæð og loftið því svalara en víða annars staðar í Laos. Allt um kring eru síðan sléttir akrar og skógivaxnar hæðir og blár, blár himinn.

Við áttum yndislegan dag á Krukkusléttu og ekki spillti samferðafólk okkar fyrir, finnskt par sem spjallaði heilmikið við okkur um Múmínálfana og kenndi okkur að segja kisa og hundur upp á finnsku: kisa og gojra!

fimmtudagur, 18. október 2007

Villta austrið

Þessi ágæti dagur leið hjá í ótalmörgum beygjum, hlykkjum, hæðum og öllu því sem einkennir kræklótta vegi um fallegt landslag. Við vorum á leið frá Luang Prabang til Phonsavan, ferðin gekk vel en var ævintýraleg engu að síður.

Rútur af þessu tagi stoppa út um hvippinn og hvappinn til að bæta fleiri farþegum í hópinn. Yfirleitt er um að ræða landsbyggðafólk á leið milli bæja, stundum með varning til sölu eða skipta.

Í einu stoppinu sté maður um borð og get ég svo svarið að spagettívestrastefið úr The Good, the Bad and the Ugly var spilað undir. Hann hafði enga fjöruna sopið (Laos liggur ekki að sjó) en í beltinu hékk hulstur og í því skammbyssa og byssukúlur voru nógar. Við gláptum sennilega smá en svo vandist þetta nú allt saman og tónlistin varð minna áberandi.

Ekki var ég fyrr orðinn sáttur við tilhugsunina um vopnaðan mann í næsta sæti en ung hjón með lítið barn vippuðu sér í sætið á ská fyrir aftan okkur. Allt gott um það að segja nema hvað haldiði? Maðurinn var EKKI með skammbyssu heldur með stóreflis riffil, ég legg nú ekki meira á þig lagsmaður. Þarna sátu þau bara voðasæt með barnið og riffilinn á milli sín og auðvitað þótti þeim ekkert eðlilegra.

Ég tók ekki alveg eftir hvaða spagettívestratónlist kom hjá unga parinu en kannski var það eitthvað í takt við A Fistful of Dollars. Allir hegðuðu sér þó prúðmannlega og voru hlykkirnir flestum til meiri trafala en byssurnar, t.d. ældi enginn af þeirra völdum.

Við komumst því heilu og höldnu alla leið inn á hótel í Phonsavan en þegar ég opnaði gluggann á herberginu okkar blasti heldur betur hressilegur kokteill við: Hríðskotabyssa, sprengjuvarpa, hermannahjálmur og flugvélasprengjur. Hljómar eins og rútan hafi verið fyrir smápatta en þetta hafi verið harkan sex. Í ofanálag er bærinn allur eins og klipptur útúr Lukku-Lákabók, breiðar götur, fáir á ferli og einhvern veginn sandblásið pláss. Lofar góðu og gengur hér eftir undir nafninu Villta Austrið :)

miðvikudagur, 17. október 2007

Einn dag enn

Það ætlar að verða erfitt fyrir okkur skötuhjúin að rífa okkur frá Luang Prabang, enda yndislegur staður. Í gærdag sögðum við: Við förum á morgun! Í gærkvöldi var hins vegar kominn aðeins annar tónn í okkur: Sénsinn bensinn, við förum ekki fet! Þetta er í þriðja sinn sem flóttaáætlunin misheppnast en eins og máltækið segir: Allt er þegar þrennt er!

Þetta er eitthvað svo voðalega þægilegur lítill bær og svo verður að segjast eins og er að eftir allt þetta flakk um Asíu þá er maður ekki alveg jafn þyrstur og þegar lagt var af stað frá Bangalore. Gírinn verður allur hægari en það finnst mér persónulega betra.

Stundum hugsa ég um hve erfitt það verði að yfirgefa Asíu og þá sérstaklega í ljósi þess að við getum varla rifið okkur frá einum fallegum smábæ í Laos. Ástæða þess að ég leiði hugann að þessu er einföld, flugmiðar frá Asíu eru dagsettir 21. nóvember og mér finnst allt of stutt í það!

Á næturmarkaðnum

Við kíktum á næturmarkaðinn í kvöld. Um er að ræða litla, samliggjandi bása undir lágreistum tjöldum, þar sem ungbörn sofa undir moskítóneti, smábörn hlaupa um í eltingaleik, fullorðna fólkið borðar núðlusúpu innan um varninginn sem lagður hefur verið snyrtilega á dúk á jörðinni og ferðamenn ganga um meðfram básunum og krjúpa stöku sinnum til að grandskoða og handfjatla varninginn.

Markaðurinn er lýstur upp með litlum lugtum og marglitum lampaskermum. Rauður og appelsínugulur bjarminn frá þeim hrekur svartnættið á brott en þó ekki svo langt að maður sjái ekki í stjörnubjartan himin. Á markaðnum kennir ýmissa grasa eins og vera ber, er sér í lagi er mikið um handavinnu; töskur og veski, púðaver og sængurver í miklu úrvali, en einnig stuttermabolir og baðmullarbuxur. Þarna fást einnig hefðbundin og handofin Lao sjöl og pils, svo falleg, úr silki eða bómull.

Ég keypti mér tvö Lao pils á markaðnum, annað úr fínasta silki og hitt úr silkiblöndu. Sú sem seldi mér annað pilsið snaraði sér í það og sýndi mér hvernig maður vefur sig inn í Lao pils. Ég keypti mér líka tvö gullfalleg sjöl, annað æpandi appelsínu- og rauðröndótt, hið seinna handofið úr silki, fokdýrt að sjálfsögðu. Mér tókst reyndar að prútta það niður um tíu dali með því að rétta reiknivélina fram og til baka að sölustúlkunni, þangað til við hittumst á miðri leið. Þegar stúlkan rétti mér síðan sjalið fylgdu orðin Lucky, lucky með í kaupbætið.

Baldur heimtaði að kaupa púðaver með fílum, fannst ekki hægt að hafa verið í Asíu og koma fílalaus heim. Svo varð ég að kaupa mér einn stuttermabol með orðunum takk upp á fallega Lao letrið. Hann var reyndar fyrir sex mánaða, six moins, en ég veit ekki alveg hvort ég eigi að taka mark á því.

Það er afskapega notalegt og róandi að rölta gegnum markaðinn í rökkrinu. Það eru fáir á ferli og mikil ró yfir öllu. Það er í það minnsta svolítið annað en að versla í kringlum stórborganna, þar sem orðin notalegt og róandi eiga nær aldrei við.

sunnudagur, 14. október 2007

Göngutúr dagsins

Varla þarf að fjölyrða um hve heillandi okkur þykir bærinn Luang Prabang vera, menningarsamsuðan er svo æðisleg og lýsir göngutúr dagsins henni ágætlega. Við hófum ferðina klukkan sex árdegis með því að fylgjast með þorpsbúum gefa Búddamunkum ölmusu dagsins, oftar en ekki sticky rice. Það er eitthvað svo fallegt að sjá þá lulla í saffranlitaðri halarófu innan um reisuleg frönsk nýlenduhús. Hver og einn ber með sér stóra málmkrukku og setur krjúpandi fólk matinn þar ofaní.

Handan við hornið beið okkar angi af Mekong ánni þar sem fiskimenn voru í óða önn að leggja og taka upp bæði fiskigildrur og net. Það virtist ekki angra þá mikið að það væri sunnudagur, sennilega heitir hann eitthvað allt annað, morgunverkin spyrja ekki að slíku frekar en fiskurinn í ánni.

Ekki vorum við ein um að horfa yfir ánna því fyrir aftan okkur gnæfði Phousi hæð í allri sinni dýrð. Við gengum upp á hana og ef ég man rétt samanstendur gangan upp og niður á öðrum stað af rúmlega 700 þrepum. Tilgangurinn með prílinu var þó alls ekki að nota staðinn sem tröpputæki því hæðin gegnir allt öðru hlutverki.

Um hæðina þvera og endilanga eru hof og styttur Búdda til heiðurs og er hæðin í raun öll einn stór tilbeiðslustaður. Þegar þannig er tjalda Laosbúar öllu til og fær hvert einasta smáatriði að leika aðalhlutverk, semsagt flúrað og fallegt að hætti SA-Asíubúa. Sérstaka athygli okkar vakti að sérstytta af Búdda var fyrir hvern vikudag.

Niðri á jafnsléttu lentum við svo á kjaftatörn við ungan munk sem ólmur vildi læra ensku og kenndi okkur sitthvað um búddisma í staðinn, sýndi okkur hof sem alla jafna stendur lokað og læst öðrum en reglubræðrum.

Þrátt fyrir mikið af flúruðum hofum höfðum við samt ekki fengið fylli okkar og var ferðinni heitið í elsta hof bæjarins, Wat Xiang Thong. Hof er reyndar allt of lítið orð til að lýsa staðnum því þetta er risastór lóð og um hana alla stórar og smáar byggingar skreyttar innan og utan með sérdeilis fallegum listaverkum. Eftir það var hofþorstanum algerlega svalað og kominn tími á eitthvað léttmeti.

Léttmetið var róleg ganga um íbúðahverfi og gaf hofunum ekkert eftir. Þarna fékk maður svolitla innsýn í líf heimamanna sem í fljótu bragði virðist vera af bestu gerð, göturnar iða af lífsgleði barna á hjólum og hlaupum. Húsin voru sum í dæmigerðum Laosstíl, bast- eða svartlökkuð timburhús með sætum skökkum girðingum í kring og allir bjóða glaðlega góðan dag: sabadí. Í einni dyragættinni brosti smástrákur til okkar. Ekkert kunni hann sabadíið en í staðinn fórum við saman í einföldustu gerð feluleiks, svona gerð þar sem nóg er að fela andlitið bakvið lófana.

laugardagur, 13. október 2007

Nýja gistiheimilið

Við urðum að skipta um gistiheimili í dag. Í gærkvöldi, þegar við vorum að tygja okkur í háttinn, byrjaði allt í einu vatn að spretta út á milli flísafúgunnar inn á baðherbergi, rautt af ryði. Fljótlega var farið að fljóta út af baðherberginu og inn á herbergi.

Við létum húsráðendur vita, róleg Lao stórfjölskylda sem telur ömmu og afa, ung hjónakorn og stelpuna þeirra. Þau tóku á það ráð að skrúfa fyrir aðalinntakið og byrjuðu að þurrka allt upp með handklæðum. Á meðan hentum við öllu okkar hafurtaski í töskur og fluttum í herbergið á hæðinni fyrir neðan. Það er kannski ekki alveg það sem maður hefur í huga rétt fyrir miðnætti þegar maður er hálfháttaður, hálfur í sturtunni og hálfpartinn farinn að lúlla.

Herbergið sem við fengum var tölvuvert minna og umtalsvert verri kaup. Ég svaf til dæmis lítið sem ekkert um nóttina því gormarnir í dínunni voru ónýtir og ég var þar með alveg ónýt í bakinu. Okkur fannst því ekki annað hægt en að tékka okkur út í morgun og fara á gistiheimili þar sem væri í það minnsta hægt að fara í sturtu.

Við kvöddum því Lao stórfjölskylduna sem fannst afskaplega leitt að við værum á förum. Þau vildu fá að vita á hvaða gistiheimili við færum, hvað það kostaði mikið og hve lengi við ætlum að vera í viðbót. Okkur fannst við vera að stórsvíkja þau með því að færa okkur úr stað.

fimmtudagur, 11. október 2007

Myndir frá Singapore

Kíkið í Singaporealbúmið, myndir af borginni hreinu og flottu eru komnar á netið: Hér!

Smá sýnishorn:

Fórnir til handa hungraða draugnum
 
Risapeningur
 
Pappapeningar og fleira glingur
 
Dúrían bannaður um  borð MTR
 
Á brúnni
 
Allt í bland, háhýsi og nýlendubyggingar
 
Lentir á snakki
 
Merlion styttan sérkennilega
 
Af Boat Quay
 
Sjónvarpsviðtal í Little India
 
Hjólarickshaw er umhverfisvænn og vinsæll
 
Húsin í Singapore
 
Asia Civilization Museum
 
Góðar andstæður
 
Ljósin í myrkrinu
 
Boat Quay að kveldi
 
Fáninn
 
Krókópókó
 
Verðlaun að sýningu lokinni
 
Klappi klapp
 
Hvítur tígur
 
Lemúri í loftfimleikum
 
Gíraffi

miðvikudagur, 10. október 2007

Saffran og íslam

Hversu margar nýlegar bækur geta haft orðið saffran í titli sínum? Þessi spurning skaut upp kollinum þegar ég tók upp bókina Saffron Skies sem var til sölu í einu bókabúð Luang Prabang. Ég var á höttunum eftir metsölubók sem ég vissi að hefði nýlega komið út í íslenkri þýðingu, og í titli hennar var einmitt orðið saffran.

Ég skellti mér á Saffron Skies en strax eftir fyrstu kaflana fór ég að undra mig á því að þetta væri metsölubók. Ekkert merkilegt hér á ferðinni, engin stórbrotin saga, hrífandi myndmál eða ljóðrænn texti. Af einskærum bókaskorti las ég þó áfram enda kannski ekki um arfaslappa frásögn að ræða.

Nema hvað, bókin endar snarplega í miðri frásögn. Einhver hefur skipt út bakkápunni fyrir auglýsingu á íslömskum bókmenntum og kippt síðustu blaðsíðunum út. Ekki veit ég hvernig á því stendur. Þessi bakkápa er hins vegar ansi áhugaverð. Innan á bakkápunni er bókaauglýsing, nýjasta bók Ahmed Deedat, Muhammed the Greatest, er komin út. Efst á síðunni trónir tilvitnun í Dr. Joseph Adam Pearson:

People who worry that nuclear weaponry will one day fall in the hands of the Arabs fail to realise that the Islamic bomb has been dropped already. It fell the day Mohammed was born.

Utan á bakkápunni eru auglýstir 20 fríir bókatitlar, þar á meðal "50 000 Errors in the Bible?", "Christ in Islam", "Is the Bible God's Words?", "Crucifixion or Cruci-Fiction?", "The Muslim at Prayer" og "Way to the Qur'an". Með einu símtali til höfuðstöðva Islamic Propagation Centre International í Suður Afríku er hægt að tryggja sér eintak!

Til að setja punktinn yfir i-ið er Saffron skies alls ekki bókin sem ég hafði í huga! Ég var að rugla henni saman við bókina The Saffron Kitchen sem nýverið kom út í íslenskri þýðingu hjá JPV útgáfu undir heitinu Saffraneldhúsið. Enn skondnara er samt að eftir að hafa lesið rúmar 500 blaðsíður af bók sem mér þykir ekkert svo mikið koma til er ég samt alveg í mínus yfir að ná ekki endinum.

þriðjudagur, 9. október 2007

Loksins alvöru te

Allan tímann sem við vorum í Indlandi flissuðum við yfir því hve erfitt var að fá eitthvað annað en svart te að drekka, t.d. jurtate. Það var nánast ógerlegt, Indverjar drekka nefnilega bara chai, þ.e. mjög sykrað mjólkurte.

Það var ekki fyrr en í dag sem við römbuðum á alvöru te. Við vorum orðin uppiskroppa með bækur og tókum því stefnuna á einu bókabúð bæjarins, L'etranger books & tea. Þegar okkur varð litið á marglitann og plastaðan matseðilinn sáum við okkur til ómældrar gleði að hér var jurtate í boði. Og ekki hvaða jurtate sem er, heldur Celestial Seasonings tein! Vá, þvílík gleði, tvö hjörtu tóku kipp. Villiberjate, ferskjute, pipparmyntute, sítrónute, Sleepy Time... Við pöntuðum bláberjate, hölluðum okkur aftur í púðum klæddum stólunum og sötruðum fyrsta alvöru tebollann í nokkra mánuði.

Svo spillti nú ekki deginum að finna allar bækurnar í hillunum. Ég keypti mér bókina Saffron Skies því einhverjum bjöllum klingir titillinn, og Baldur fékk sér Lestat the Vampire.

sunnudagur, 7. október 2007

Lekima yfir Laos

Loksins höfum við fengið haldbæra skýringu á þessari stanslausu rigningu. Í gær var þriðji í rigningu, og rétt eins og hina dagana rigndi linnulaust frá morgni fram undir næsta morgun. Við höfum ekki farið varhluta af rigningu í ferðalaginu fram til þessa, en aldrei hefur rignt svo klukkutímum og dögum skiptir og iðulega rignir aðeins síðdegis og á nóttunni, sem er að mínu mati afskaplega hagkvæmt og hyggilegt af veðurguðunum.

Það var svo í gærkveldi sem við lásum á fréttavef Morgunblaðsins um fellibylinn Lekima sem gekk yfir miðhluta Víetnam með látum á dögunum og reikar nú um Laos. Þó ekkert hafi verið minnst á rigningar í Laos í kjölfar þessa má reikna með að þetta úrhelli skrifist á Lekima. Allavega er þetta í fyrsta sinn á okkar rúmu níu mánuðum í Asíu sem eitthvað þessu líkt gerist, rigning dag eftir dag. Þess vegna get ég sagt: Af fenginni ferðareynslu myndi ég segja að ástandið væri óeðlilegt og ekki í takt við Asíu almennt.

laugardagur, 6. október 2007

Þriðji í rigningu

Já, það heldur áfram að rigna á okkur. Mikil mildi að við tökum því rólega, annars værum við kannski í sömu sporum og margir aðrir ferðalangar, sem leigja sér hjól í ofsaveðrinu og láta sig hafa það. Nei, ég er algjörlega að ýkja, það er ekkert ofsaveður, en maður blotnar nú samt af því að hjóla útí rigningunni.

Á svona degi er gaman að kynna til sögunnar fígúrurnar Dingó og Bingó, sem ég gat af mér einhvern tímann í Chiang Mai og sem ég hef gefið svigrúm til að vaxa og dafna í samtölum okkar Baldurs. Ég kynni þá hér meira fyrir mig en aðra, ég vil ekki að þeir falli í gleymskunnar dá, svo sýnið mér skilning.

Dingó og Bingó eru hundar af ástralska dingó kyninu, Dingó er töffari sem talar ensku með mexíkóskum hreim (ég veit ekki af hverju) og Bingó vill ná fram mýkri hlið á Dingó. Það tekst þó ekki alltaf. Enn sem komið er vill Bingó ganga í augun á Dingó og vera töffari eins og hann.

Mottó Dingó þessa dagana:
Dingo no like cat. Dingo pee on cat. Dingo pee on cat tail, hahahahahaha.
Bingó vill ekki vera eftirbátur Dingós og þvert á eigin sannfæringu, því hann er mikill kattavinur, þá segir hann stundum:
Bingo kick cat. Bingo kick cat ass, hahahaha.

Hmmmm, er ég búin að vera of lengi í eigin félagsskap, segið þið.

föstudagur, 5. október 2007

Annar í rigningu

Rigning aftur í dag. Ekki að það hafi mikil áhrif á plön okkar, við sitjum á góðum kaffihúsum og lesum. Í stuttu máli sagt höldum við okkur innandyra, eða í það minnsta í vari. Við höfum þurft að taka fram þýsku stríðsstakkana okkar því við eigum bara eina regnhlíf og rúmumst ekki bæði undir henni.

Luang Prabang heldur áfram að vera falleg, ekki spurning. Konurnar, ungar sem aldnar, ganga flestar í síðum pilsum sem eru hluti af hinum ansi glæsilega og hefðbundna Lao klæðnaði. Kannski að ég fái mér eitt svoleiðis fyrir jólin, í þeim tilgangi að sækjast ekki lengur eftir að vera lagleg um jólin heldur Laoleg.

Annars gefur allt þetta tal um rigningu og pilsaþyt ekki alveg rétta mynd af upplifun okkar þessa dagana. Við verjum mestum tíma okkar á netinu, sólgin í nýjar fréttir. Allt bliknar nefnilega í samanburði við nýju frænku sem kom í heiminn á þriðjudaginn var. Við óskum Stellu, Kristjáni og Áslu táslu að sjálfsögðu hjartanleg til hamingju með fjórða froskinn! Við iðum í skinninu eftir að berja hana augum.

fimmtudagur, 4. október 2007

Rigningardagur

Luang Prabang: gullfalleg smáborg sem kúrir við Mekong ánna. Hér búa aðeins um 25 þúsund sálir en engu að síður var bærinn, allt fram til daga kommúnistanna, konungleg höfuðborg Laos. Í dag er borgin á heimsminjalista UNESCO og er hún talin vera ein best varðveitta borg Suðaustur Asíu.

Í dag er annar dagur okkar í Luang Prabang og það rignir. Það kemur ekki að svo mikilli sök því hér eru kaffihús á hverju strái sem öll þiggja viðskipti okkar með þökkum. Og við fúlsum ekki við að setjast undir skyggni og komast í skjól undan regninu.

Úr öruggu sæti er síðan afskaplega viðeigandi, verandi í Laos, að fylgjast með búddamunkunum sem eru litríkasti hluti mannlífsins hér í Luang Prabang. Þeir ganga nefnilega um í æpandi appelsínugulum kuflum og með sólhlífar sem breytast í regnhlífar á degi sem þessum. Fólkið á vespunum þýtur framhjá með sambærilegar sólhlífar, margar hverjar með blúndum í kantinum, og svölustu töffarar eru ekki að víla slíkt fyrir sér.

Búddamunkarnir falla vel inn í þetta ótrúlega fallega umhverfi, þar sem allt er ýmist grænt eða gyllt. Hofin eru dýrðleg og litrík og umfram allt lifandi, í þeim fer mikið fræðslustarf fram og ungir búddamunkar, allt niður í smápatta, verja nokkrum mánuðum og upp í nokkur ár í búddahofum.

Ó, hún er falleg hún Asía.

þriðjudagur, 2. október 2007

Leiðin til Laos

Í fréttum er það helst að við sluppum frá Tælandi og komumst í örugga höfn í Laos. Í gærmorgun var Baldur orðinn sprækur sem lækur svo við kýldum á Laosferðina. Við tókum rútu frá Chiang Mai yfir til landamærabæjarins Chiang Khong og þótt vegalengdin sé ekki mikil og ástand vega gott, tók ferðin drjúga stund. Við höfðum upphaflega keypt pakkaferð með öllu inniföldu (rútuferð, hótel og bátsferð niður Mekong allt að Luang Prabang), en á þeim forsendum að farið væri yfir landamærin samdægurs. Það kom hins vegar í ljós að því var búið að breyta og ætlunin var að gista Tælandsmegin og fara yfir landamærin daginn eftir.

Við vorum mætt í landamærabæinn upp úr fjögur þennan eftirmiðdag og samferðafólk okkar tók að týnast inn á herbergin sín. Við ákváðum hins vegar að fara yfir landamærin þennan sama dag og gista frekar Laos megin, það kom nefnilega ekki til greina að vera einn auka ólöglegan dag í landinu.

Okkur til mikils létti gekk allt vel á landamærunum Tælandsmegin, við greiddum sitthvora dagsektina og héldum svo út í langbát sem ferjaði okkur yfir Mekong. Fram til þessa höfðum við keyrt, haltrað og runnið á teinum yfir landamæri en þetta var í fyrsta sinn sem við sigldum yfir landamæri. Á hinum bakka Mekong fengum við stimpil í vegabréfið og þar með var það komið: við vorum í Laos.

Næsta dag hófst síðan sjö tíma bátsferð niður Mekong ána. Við völdum að fara með svokölluðum spíttbát og fannst tilhugsunin um sjö tíma í speedboat betri en tveir dagar á slowboat. Spíttbáturinn bar nafn með renntu, eintrjáningur og fyrir vikið lítill og nettur, með stórri Toyota bílvél afturí, frammí voru hjálmar fyrir farþega. Ekki var reiknað með neinu rými fyrir fætur svo þá urðum við að hafa upp við bringspalir.

Svo hófst ferðin: fyrst var spítt í lófana, svo var spíttað áfram. Fyrstu augnablikin vorum við frosin í framan, ég hefði aldrei getað ímyndað mér að báturinn færi svona hratt. Við urðum að halda dauðahaldi í derhúfurnar okkar og fengum auðvitað mjólkursýru í handleggina af því. Eftir klukkutíma siglingu þurfti ég ekki lengur að hafa áhyggjur af því, húfan fauk nefnilega af þrátt fyrir viðleitnina og flýtur nú einhversstaðar í makindum sínum á Mekong.

Að undanskildum stöku mýflugnagerum sem við svifum í gegnum og regnskúrum sem við lentum í, gekk ferðin furðuvel. Fyrstu klukkutímana naut maður þess að horfa á grænar hæðirnar, bleiku vatnabuffalana og berrössuð börnin við árbakkann sem veifuðu eins og þau framast gátu. Einnig að finna kinnarnar klesstar upp við eyrun og hárið standa beint aftur eins og á hármódeli. Seinni hluta ferðarinnar var maður farinn að leyfa sér að detta ofan í bók, og þykir mér undrum sæta að það hafi gengið eftir. Stundum var reyndar svolítil áskorun að fletta í blæstrinum en alveg þess virði.

Við lentum svo við fljótandi bambuspramma við sólsetur og þar með var ferðinni lokið. Þaðan tókum við túk-túk út til Luang Prabang með þýsku samferðafólki okkar. Við höfðum fengið að heyra sögur annarra ferðalanga sem höfðu þvælst um Laos og ein var á þá leið að sprungin dekk væru daglegt brauð í Laos. Jæja, það er ekki hægt að segja að þetta hafi verið ýkjur, því eftir korters ferðalag var túk-túkinn kominn útí kant: sprungið. Við komumst þó heilu og höldnu til Luang Prabang og það er fyrir öllu.

Annars verð ég aðeins að minnast á þýska samferðafólkið okkar, sem er án efa óheppnasta fólk sem ég hef fyrir hitt. Í byrjun ferðar tafðist að leggja af stað því þau voru á hlaupum um allan bæinn í leit að veskinu sínu með öllum greiðslukortum og ferðatékkum. Þau fundu hvorki tangur né tetur af því veski og sátu upp með nokkra dollara og kip (Lao gjaldmiðillinn) og eitt greiðslukort til vara. Í bátsferðinni sjálfri var stelpan veik alla leiðina, þau glötuðu regnstakki og myndavélatöskum þegar við skiptum um bát og þegar við svo stigum upp í túk-túkinn uppgötvuðu þau að peningaveskið þeirra, sem þau voru með í höndunum fimm mínútum áður, var horfið. Ástand á bænum, ég segi ekki annað.