laugardagur, 30. júní 2012

Laugardagsmorgunn









Appelsínur, jarðarber og ísmolar í blandarann, tónlist frá Grænhöfðaeyjum í spilaranum, mjaðmir dillast, skýin hörfa hægt en bítandi frá sólinni, kavíar og ostur á hrökkbrauðið, lax á diski úti á palli og kötturinn sleikir út um, sambýlingarnir enn í bólinu, sólarhylling á pallinum, kíló af soðnum grjónum í pottinum og fullur pottur af soðnum, grænum linsum á hellinu.

Laugardagsmorgunn. Besti morgun vikunnar, hands down.

Þetta er síðasta helgin okkar saman með Svíunum okkar Alex & Petru (fýlukall). Þau fara í sumarfrí til Lycksele föstudaginn næsta og verða í burtu í tvær vikur og þegar þau koma til baka eru við í startholunum með að sigla/aka/fljúga heim (broskall!). Því ætlum við að gera eitthvað skemmtilegt þessa helgina, kannski skella okkur í sjóinn og badstu, og pottþétt verður bakað. Ég er búin að kaupa banana og vefja inn í dagblöð, niðursoðna mjólk, kex og rjóma. Hvað ætli ég sé að fara að fara að gera?

fimmtudagur, 28. júní 2012

A child said, What is the grass?







A child said, What is the grass? fetching it to me with full
hands;
How could I answer the child?. . . .I do not know what it
is any more than he.

I guess it must be the flag of my disposition, out of hopeful
green stuff woven.

Or I guess it is the handkerchief of the Lord,
A scented gift and remembrancer designedly dropped,
Bearing the owner's name someway in the corners, that we
may see and remark, and say Whose?

Or I guess the grass is itself a child. . . .the produced babe
of the vegetation.

Or I guess it is a uniform hieroglyphic,
And it means, Sprouting alike in broad zones and narrow
zones,
Growing among black folks as among white,
Kanuck, Tuckahoe, Congressman, Cuff, I give them the
same, I receive them the same.

And now it seems to me the beautiful uncut hair of graves.

Tenderly will I use you curling grass,
It may be you transpire from the breasts of young men,
It may be if I had known them I would have loved them;
It may be you are from old people and from women, and
from offspring taken soon out of their mother's laps,
And here you are the mother's laps.

This grass is very dark to be from the white heads of old
mothers,
Darker than the colorless beards of old men,
Dark to come from under the faint red roofs of mouths.

O I perceive after all so many uttering tongues!
And I perceive they do not come from the roofs of mouths
for nothing.

I wish I could translate the hints about the dead young men
and women,
And the hints about old men and mothers, and the offspring
taken soon out of their laps.

What do you think has become of the young and old men?
What do you think has become of the women and
children?

They are alive and well somewhere;
The smallest sprouts show there is really no death,
And if ever there was it led forward life, and does not wait
at the end to arrest it,
And ceased the moment life appeared.

All goes onward and outward. . . .and nothing collapses,
And to die is different from what any one supposed, and
luckier.

Walt Whitman

þriðjudagur, 26. júní 2012

Sveitasælan í máli og myndum

Plómuuppskeran

Verkamaður í appelsínugulu

Snatmundur

Brauð úr ofninum

Litríkt og sumarlegt

Untitled

Asnar

Brómber!

Í rólunni

Eldhringir

Untitled

Hopp

Ég var að enda við að setja inn myndir frá dvöl okkar í Frakklandi síðasta sumar. Betra seint en aldrei!

Foreldrar Baldurs búa í sveitasælu rétt utan við litla þorpið Montreuil-sur-Ille, á gömlu sveitabýli umlykið stórum og gróðursælum garði. Í þessum garði vaxa epli og perur, plómur og ferskjur, vínber, kúrbítur, tómatar og fleira góðgæti. Heimasætan heitir Snati, íslenskur fjárhundur sem lætur franska og ókunnuga fánu ekki stöðva sig, hvort sem hún er í formi broddgalta eða snáka. Í þessari sveitasælu vörðum við þremur góðum vikum síðasta sumar og reyndist sveitasælan vera hinar kjörnustu aðstæður til að aðlagast vestrænni menningu eftir langa dvöl í Austurlöndum fjær. Svo var ekki verra að tvær litlar frænkur voru í heimsókn hjá ömmu og afa á sama tíma og við.

Utan við Lande Basse sveitabýlið eru akrar og skóglendi, litlir bugðir sveitavegir, kanalar byggðir af Napóleon og þorpið sjálft sem hefur að geyma kjörbúðir, boulangeries og hársnyrtistofu. Við nýttum okkur þjónustu allra þessara aðila í heimsókn okkar og gott betur en það því við heimsóttum líka stærsta kjarnann á svæðinu, Rennes þar sem við versluðum í H&M og borðuðum galettes og crepes á útikaffihúsi í miðbænum. Við fórum líka í dýragarðinn, á ströndina, borðuðum mat grillaðan á báli og fengum notið eldsýningar. Fyrst og síðast þá borðuðum við góðan mat og höfðum það gott í sveitinni.

Hér að ofan er að finna nokkur góð sýnishorn en albúmið í heild sinni er að finna á flickr síðunni okkar, í albúminu Bretanía 2011.

sunnudagur, 24. júní 2012

Grillgleði í sólinni








Þvílíkt veður! Og það á laugardegi! Maður lifandi!

Við lágum í sólbaði allan fyrripart dags, vorum fimm þegar mest lét, þ.e. við fjögur sem stöndum á tveimur fótum og svo kisan Hvítloppa. Við stelpurnar skelltum okkur í bikíni og drógum fram dínur og teppi til að liggja á. Ég útbjó engiferdrykk með hunangi og hakkaði appelsínur í smoothie til að ná fram enn frekari sumarstemmningu. Fór svo reglulega inn í hús til að hvíla kroppinn á sólinni eins og lög gera ráð fyrir.

Það eina sem kom okkur úr baðfötunum og af pallinum var nauðsynina að komast í búðina áður en hún lokaði klukkan þrjú. Í búðinni voru allir skælbrosandi á stuttbuxum og kjólum, komnir með sundbola- og broshrukkufar. Við rétt náðum næstseinasta pakkanum af maískólfum og seinasta pakkanum af romano salatblöndunni sem er venjulega löngu uppselt rétt fyrir lokun á laugardögum. Keyptum líka papríkur í þremur litum og risapoka af stórum sveppum. Vinur okkar Olle keypti sér lítið grill fyrir 50 NOK, dúndurkaup í annars dýrri búð.

Seinnipartinn var sólin farin af pallinum bakatil en framan við húsið naut enn sólar við og þangað komu góðir gestir og skelltu upp litlum grillum. Þetta voru sænsku vinnufélagarnir okkar þau Olle (vinur okkar frá Indlandi), David, Teresa og Peter, en öll búa þau steinsnar frá okkur, í litlu verkamannagámunum sem við Baldur neyddumst til að dvelja í fyrstu vikurnar okkar á eyjunni. Þau komu öll í midsommar skapi og sum vel rauð eftir sólbað dagsins.

Á grillin fóru m.a. marineraðir sveppir, laukur og papríkur, lax, maískólfar, kjúklingabringur, hamborgarar og marineruð svínalund. Meðlæti var ýmsu tagi en við Baldur bárum grillmatinn okkar fram með geggjaðri heimagerðir hvítlaukssósu og salati. Eftir matinn sátum við svo á pallinum fram eftir kvöldi og vissum ekkert hvað tímanum leið því sólin skein allan tímann sterkt framan í okkur.

laugardagur, 16. júní 2012

Litlu lömbin









Ég tók þessar myndir af litlu lömbunum fyrir akkúrat mánuði síðan. Kom heim af kvöldvakt uppúr tíu, hentist í sturtu og síðan í fötin og var farin út að mynda geggjað sólarlagið. Var úti fram yfir miðnætti, sat í mosanum og horfði á sjóndeildarhringinn og litadýrðina sem himinhvolfin voru með í sýningu.

Kvöld var hins vegar ekki bara um sólina og litina á himninum, heldur hitti ég tvær ær með lömbin sín. Þvert á væntingar mínar sýndu þær ekki hinn minnsta vott um styggð heldur horfðu pollrólegar á mig og leyfðu mér að smella af eins og mig lysti. Ég fékk meira að segja leyfi til að koma ansi nálægt þeim og ungviðinu án þess að uppi yrði eitthvert fjaðrafok.

Ekki nóg með það heldur urðu fagnaðarfundir þegar leiðir okkar lágu aftur saman. Ég hafði klöngrast upp á hól og villst af leið, fundið hvíta fjöður sem stóð upp á rönd í berjalynginu og vakti forvitni mína, en náði að lokum að koma mér aftur niður í Vassvika niður bratta hlíðina. Þar í fjörunni fyrir neðan höfðu ærnar komið sér fyrir og þegar þær urðu mín varar komu þær hlaupandi á móti mér með lömbin í eftirdragi. Vissi ekki alveg hvort mér ætti að standa saman eður ei svo ég stóð bara kyrr og beið þess sem verða vildi. En þær vildu bara koma og segja hæ, hvað ert'að gera?

mánudagur, 11. júní 2012

Allt að gerast





Þá er eins og sumarið sé loksins komið. Við vorum í morgun í sólbaði út á palli með kisunni Hvítloppu sem núna er búin að stunda það að sitja á pallinum og horfa inn til okkar í næstum fjórar vikur. Slíka hollustu verður að verðlauna með í það minnsta smá athygli og klappi.

Af okkur er helst að frétta að við erum loksins búin að taka ákvörðun varðandi framhaldið og það er Ísland 12 stig! Já, hugmyndin er að snúa aftur heim og segja það gott af útlöndum  í bili . Maður getur bara verið svo og svo lengi frá sundlaugum og góðu drykkjarvatni.

Við sögðum upp vinnunni í síðustu viku og því eru núna aðeins sjö vinnuvikur eftir. Við erum farin að huga að búrskápnum og það lítur út fyrir að það verði hýðisgrjón í matinn næstu sjö vikurnar. Til marks um það var Baldur rétt í þessu að sjóða eitt kíló af grjónum. Þetta er æsispennandi keppni, náum við að klára birgðirnar, eða ná þær að komast undan?

Mig langaði að fá smá liti á síðuna og deili því með ykkur myndum sem ég tók í byrjun mánaðarins. Ég held uppteknum hætti og fer út að ganga nánast daglega og stundum tek ég myndavélina með. En ég tek alltaf mp3 spilarann með og er alveg yfir mig hrifin af þessu nýja tveir-fyrir-einn fyrirkomulagi : Ganga og góð saga. Var að klára Frankenstein og er núna byrjuð á Les  Misérables. Sú saga á eftir að endast mér næstu sjö vikur og gott betur.

Og ég held ég sé búin að ákveða hvernig lopapeysu ég ætla að prjóna á mig í ágúst. Allt að gerast, ég er að segja ykkur það!

sunnudagur, 3. júní 2012

Salat a la tengdó





Við fengum fínt sumarveður í gær, svona gluggaveður samt, en nóg til þess að ég bretti upp ermarnar og henti í sumarsalat. Við köllum þetta Salat a la tengdó, því tengdamamma tengdapabba (þ.e. Stella amma Baldurs) gerði oft áþekkt salat að mér skilst. Nú er það svo að mínir tengdaforeldrar gera oft svona salat og ávallt við mikla hrifningu mína og því ætla ég snöggvast að deila uppskriftinni hér.

Leiðbeiningar að salati fyrir 4:
Sjóða 1-2 bolla af hýðisgrjónum eftir kúnstarinnar reglum
Sjóða lítilræði af grænum/brúnum linsum (1/2 bolla kannski)
Sjóða 4-6 egg
Skera niður 3 gulrætur og sjóða í söltu vatni í 10 mínútur

Leyfa ofangreindu að kólna eftir suðu. Gott að klára þetta að kvöldi dags eða snemma dags ef á að henda í salat seinnipartinn.

Hrærar saman í franska salatdressingu: ólívuolíu og Dijon sinnepi blandað saman, bætt út í góðum slurk af eplaediki til að fá dressinguna létta. Kreista út í hvítlauksgeira og bæta við salti og pipar.

Hella dressingunni yfir hrísgrjónin og hræra vel. Betra að setja minna til að byrja með en meira. Saxa niður 4 skarlottulauka og bæta út í. Bæta því næst við linsunum og gulrótunum og hræra vel.

Eftir þetta má bæta hvaða góðgæti við sem vill. Ég setti pikklaðar papríkur, sólþurrkaða tómata og sítrónufylltar ólívur og hrærði saman. Skar síðan út á ferska tómata og skar eggin í báta, og voila, salatið var tilbúið. Bar fram með frönsku sveitabrauði og frönskum hvítlauksrjómaosti.

Ég sé fram á að gera þetta salat ansi oft á næstu vikum. Við erum byrjuð að saxa á birgðirnar okkar nú þegar átta vikur eru í flutning. Ekki svo að skilja að við séum svo vel birgð, en engu að síður þá eigum við nokkur kíló af hýðisgrjónum keyptum í Svíþjóð, og rauðum og grænum linsum. Nú vonast ég eftir góðru verði næstu helgar svo hægt sé að skipuleggja lautarferð í einni af lautum eyjunnar.