Við héldum frá Phonsavan og Krukkusléttu í dag og tókum rútuna til Vang Vieng. Það skondna var að við vorum umvafin sömu vestrænu ferðamönnunum og tóku rútuna með okkur frá Luang Prabang til Phonsavan, og sem fór með okkur í rúntinn um Krukkusléttu. Við hlið okkar sat kólumbísk/sænska parið, fyrir framan okkur katalónska parið, belgísku hjónin einhversstaðar fyrir aftan og skáhallt við okkur sat svo indverski gaurinn frá Goa sem samkjaftar ekki.
Við komumst síðan að því að kólumbísk/sænska parið (Fernando & Sofia) flýgur frá Bangkok til Stokkhólms degi á undan okkur og, það sem meira er, Fernando á flug til Íslands á sama degi og við. Eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að við erum í sama flugi! Nú eru að sjálfsögðu uppi plön um að hittast í Stokkhólmi enda Sofia heimamaður og búin að bjóðast til að sýna okkur eitthvað af borginni.
En við komum semsé til Vang Vieng fyrr í dag og erum búin að taka einn hring um bæinn. Annar hver veitingastaður er með sjónvarpsþættina Friends í botni og dósahlátur ómar því um allar eyðilegu göturnar. Hér eru nefnilega allir timbraði fram eftir degi og skríða ekki úr fylgsni fyrr en myrkva tekur, rétt eins og móskíturnar og vampírurnar. Og það er kannski ágætt að fólk láti renna af sér áður en það fer á stjá. Gott dæmi um hvernig annars fer er ungi maðurinn í hjólastólnum sem við mættum á göngu okkar um bæinn.
Hann var útúr dópaður og eflaust brotinn á báðum ef eitthvað var að marka umbúðirnar á fótunum hans. Hann renndi sér yfir götuna í þessu annarlega ástandi, virtist ekki átta sig á því að hann sat fastur í stengdum plastborða og hvað þá að hann tæki eftir Baldri sem hjálpaði honum úr sjálfheldunni. Þegar hann kom að kanti tók hann að prjóna á hjólastólnum sem endaði auðvitað með því að hann skall aftur fyrir sig með miklum dynk. Við sjáum til hve lengi við endumst í plássinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli