fimmtudagur, 29. ágúst 2002

HÆ HÓ!!! (2. bindi)

Ég sá að Baldur hafði bætt við smá færslu eftir ansi langt hlé frá bloggskrifum og mér fannst ég ómögulega geta verið verri maður. Ég var á leiðinni út úr þessu tölvuveri hér í VR II þegar ég hlammaði mér aftur niður og sagði bara: Nei, hættu nú alveg! En eins og Baldur sagði svo réttilega frá þá hefur allt verið á fullu hérna hjá okkur báðum, fyrst flutningar, svo hreiðurgerð (koma sér fyrir í nýja bælinu) og síðan drifum við okkur í átta daga hringferð um klakann sem var alveg svakalegt stuð. Meira af því seinna og kannski myndir líka!

En svo ég haldi áfram með smjörið þá er mannfræðin ekki enn hafin og ég fer ekki í minn fyrsta tíma fyrr en á miðvikudaginn næsta. Hins vegar hef ég nóg að gera þangað til því ég var að fá nýja vinnu! Já, þannig er mál með vexti að ég ætlaði að hafa það bara náðugt í vetur, læra smá, synda smá, slappa af og lifa á námslánum. En síðan var hringt í Unni Dís, vinnuveitenda minn þetta sumarið og áfram í vetur (kem síðar að því) og hún spurð hvort hún vissi af einhverri duglegri stelpu sem væri til í að vinna með skólanum í vetur. Skilyrðin voru eftirfarandi: stelpa, mjög dugleg, fljót að pikka á lyklaborð, gott vald á íslenskri tungu, sem sagt góð málvitund og gott málfar, snyrtileg og prúð o.s.frv. Unnur Dís á víst að hafa gefið mér svo góð meðmæli, að mér algjörlega óaðvitandi (enda einhversstaðar út á landi í ferð með snúffanum mínum) að það var hringt í mig um leið og ég mætti aftur til vinnu og ég spurð hvort ekki væri möguleiki að fá mig í viðtal. Jú, jú sagði ég og dreif mig niður til IMG Gallup en þeir voru að falast eftir vinnuafli mínu. Þar var ég ráðin á staðnum og eiginlega áður en ég gat ákveðið hvort ég vildi demba mér út í þetta eða ekki. En ég gat ómögulega neitað enda ágætiskaup í boði. Staðan er því svona, ég er orðin ritari hjá IMG Gallup. En áður en þið súpið hveljur þá vil ég bara koma því að að þetta er ekkert hefðbundið ritarastarf, heldur er ég að taka þátt í rýnihóparannsókn á vegum IMG þar sem ég sit á bak við spegil sem ekki sést í gegnum (spennó) og hinu megin við glerið sitja einstaklingar á fundi og það kemur í minn hlut að reyna að ná öllu því sem þeir segja niður á blað. Þetta er reyndar allt tekið upp á kasettu sem ég hlusta síðan á síðar til að fylla í eyðurnar.

Ég er strax byrjuð á fullu hjá þeim því ég var beðin um að taka að mér að vélrita átta djúpviðtöl. Allir sem einhvern tímann hafa reynt að skrifa orðrétt það sem einhver manneskja á kasettu segir veit að það er ótrúlega mikil vinna. Það er alveg magnað hvað fólk getur hikað mikið í samtölum og byrjar margoft á setningu og hættir síðan í miðju kafi. Síðan hef ég tekið eftir því að Íslendingar nota orðið náttúrulega alveg óspart. En þetta er ansi gaman, sérstaklega þegar viðmælendur eru skýrmæltir. Þetta er þar að auki ágætisæfing fyrir komandi misseri þar sem ég mun sitja námskeiðið Eigindlegar aðferðir sem felur einmitt í sér að taka djúpviðtöl og vélrita þau á blað, orð frá orði.

Ég sé því fram á erilsaman vetur og líst bara vel á. Þetta er lokaárið mitt í BA námi og því verð ég á fullu að vinna í BA ritgerðinni. Síðan verð ég líka að vinna áfram hjá Unni Dís því við fengum styrk til þess hjá aðstoðarmannasjóði. Það er reyndar ekki eins viðamikið og IMG vinnan, frekar eitthvað svona sem ég get dúllað mér í milli tíma. Ég þakka bara Guði fyrir að hafa verið forsjál á sínum tíma og tekið 21 einingu vorönn 2001 og 17 á síðustu önn. Það þýðir að ég á aðeins 22 einingar eftir í stað 30 og þess vegna get ég leyft mér þann munað að vinna með námi og fá tekjur!

Kannski ég sættist við Fríðu Sól og kaupi handa henni stærra búr eftir allt saman. Svo lengir sem hún bítur mig ekki aftur.

HÆ HÓ!!! (23)

Ég hef nú ekki verið duglegur að skrifa enda allt búið að vera á fullu. Eftir að við fluttum inn í nýju íbúðina fórum við hringinn í kringum landið (ferðasagan kemur síðar) og nú er það skólinn. Mér finnst frábært að vera byrjaður í skólanum og enn sem komið er gengur allt vel. Það er rosalega mikið að gera og sem betur fer hef ég bara gaman af því. :)

fimmtudagur, 8. ágúst 2002

Flutningar um verslunarmannahelgina

Eins og lesendur vita erum við Baldur núna flutt yfir í Hrauntunguna eftir mikið púl. Flutningarnir sjálfir eru efni í heila sögu sem ekki verður sögð hér nema í grófustu dráttum. Þannig var að daginn sem við fluttum var nóg annað að gera en að bókstaflega flytja. Við þurftum m.a. að fara á Hagstofuna og breyta þar heimilisfangi okkar í þjóðskránni. Stúlkan sem afgreiddi okkur þar sagði að það tæki viku til tíu daga að koma breytingunum inní þjóðskrá sem mér finnst óttarlega slappt. Síðan urðum við að gjöra svo vel oga fara á pósthúsið í Kópavogi og breyta þar póstfangi okkar eins og þeir vilja kalla það þar á bæ.

Glöð í bragði með að vera búin með skriffinnskupart flutninganna héldum við niður í Elko þar sem við ætluðum að festa kaup á hræódýrri ryksugu. Þegar til kastanna kom var hún uppseld og okkur boðin önnur verri og ljótari á sömu kjörum. En við létum ekki sölumenn Elko plata okkur svo auðveldlega, settum upp "þvílík vonbrigði" svipinn og var þá okkur boðin önnur ryksuga, langt um betri en sú sem við upphaflega ætluðum að kaupa. Hún var reyndar dýrari en fyrir vikið líka kraftmeiri, með stillanlegu skafti og innbyggðum fylgihlutum! Þar að auki fékk hún ekki sömu ummæli frá sölumanni Elko og sú ódýrari því þegar við sýndum þeirri ódýru áhuga dró sölumaðurinn mjög úr gæðum hennar og sagði að hún væri góð svona fyrir sumarbústaðinn! Við vorum alveg hæstánægð með nýju ryksuguna og ryksugupokana sem prangað var inn á okkur. Drifum okkur því beint heim í Hrauntungu að prufukeyra gripinn. Hún stóðst próf Baldurs með glæsibrag.

Ég ætla mér ekki að teygja loppann hvað flutningana varðar. Við fluttum, punktur. Því fylgir mikið puð, kassar útí bíl, kassar út úr bíl, húsgögn á faraldsfæti, taugaveiklaðar plöntur og skelkuð gæludýr. Prímadonnan Fríða Sól var flutt seinust úr af Digranesvegi rétt eftir miðnætti aðfaranótt 1. ágúst. Það var gert henni í hag svo hún þyrfti ekki að þola mikið umstang. Hún virtist ekki vera mjög þakklát fyrir þá hugulsemi sem við sýndum henni því á leiðinni út í bíl með búrið gerði hún sér lítið fyrir og beit mig beint í þumalinn. Til blóðs! Kaldhæðni örlaganna er að á þeirri stundu sem bitið var framið vorum við Baldur að tala um að fara að kaupa handa henni stærra og betra búr. Ha, sú getur nú beðið með það!

Nú nú, eins og reyndir menn vita er ekki nóg að flytja á nýjan stað því yfirleitt þarf að skila af sér fyrra híbýli í sæmilegu ástandi ásamt því að koma sér fyrir á nýja staðnum. Fimmtudagurinn fór því í að hreinsa Digranesveginn (íbúðina alt svo) og afhenta hana nýjum leigenda. Það er sorglegt að segja frá því en íbúðin hefur aldrei litið betur út. Hitt er þó meira um vert að eftir að hafa eytt allri helgi verlsunarmanna í að taka upp úr kössum, ryksuga, bora, skrúfa og negla var nýja íbúðin glæsileg og Digranesvegurinn hefði aldrei átt sjens í hana :) Þar að auki fengum við lánaðan ofninn sem Ólöf og Jói eiga og það er aldeilis góð búbót. Takk kærlega fyrir það.

fimmtudagur, 1. ágúst 2002

Flutttttt!

Í gær kláruðum við að tæma Digranesveginn yfir í Hrauntunguna. Þetta gekk allt saman mjög vel enda var unnið nánast stanslaust til þrjú um nóttina. Málið er það að við eigum miklu meira dót en okkur óraði fyrir. Flutningar gengu samt hratt og örugglega enda var stutt við bakið á okkur. Við fengum lánaða kerru hjá Kalla afa og Ólöfu ömmu, steisjon bíl hjá Elfari og svo kom Helgi vinur minn og hjálpaði til með þungu hlutina. Takk fyrir okkur. Næst á dagskrá er að taka upp úr öllum kössum og kannski henda og gefa meira dót. Þegar það er búið þarf bara að finna góðan stað fyrir hvern hlut.