laugardagur, 28. janúar 2012

Nýársheit 2012

Jæja, það er ekki seinna vænna að setja sér nýársheit ætli maður það sér á annað borð. Ég hef fram til þessa lítið sem ekkert tekið þátt í þessum sið, sem er kannski kaldhæðið í ljósi þess að ég er markmiðsdrifin allra jafna og kann vel við að marka stefnu.

Mér skilst að vænlegast til árangurs sé að setja sér vel skilgreind og nákvæm markmið. Ég á ekki erfitt með það, það er frekar að mér reynist erfitt að vera ekki of nákvæm. Hér eru 12 nýársheit fyrir 2012:

- prjóna á sjálfa mig lopapeysu
- ganga Laugaveginn
- blogga reglulegar en ég hef gert síðustu ár, helst vikulega yfir vetrarmánuðina
- gera mína fyrstu time lapse eða stop motion myndaseríu og fá mér í þeim tilgangi þrífót á Rebelinn minn og kannski fjarstýringu
- heimsækja allavega eitt nýtt land á árinu
- lesa The Course in Miracles
- taka a.m.k. mánaðarnammibindindi og huga meira að hráfæðinu
- lesa fimm klassísk bókmenntaverk, t.d. Frankenstein og Les Misérables
- ganga hringinn í kringum Lovund - það væri líka gaman að fara upp á fjallið en það verður ekki neitt sem ég ætla að lofa mér eða öðrum að gera
- byrja að hugleiða aftur
- skrifa smásögu - frekar mikil áskorun að setja þetta undir nýársheit en ég vil frekar gera það heldur en að gleyma þessum draum og rifja hann upp á níræðisaldri
- kraftganga reglulega og lyfta lóðum í litla gymminu

Svo eru önnur markmið sem ég hef velt fram og til baka, inn og út af listanum. Að endingu ákvað ég að setja þau ekki undir nýársheitin mín en læt þau hins vegar fljóta hér með svo ég gleymi ekki að láta af þeim verða:

- kaupa mér nýja jógadínu og fá hana senda á eyjuna
- kaupa mér upptökuvél og safapressu
- horfa á Star Wars myndirnar
- lesa allar bækurnar sem ég fékk í jóla- og afmælisgjafir, og Baldurs líka
- hlusta á Neil Young og Bítlan
- vera tímanleg í gjafakaupum

Nú er bara að bretta upp ermarnar og byrja að massa nýársheitin. Eitthvað segir mér að að eitt þeirra verði uppfyllt mjög fljótlega.

þriðjudagur, 24. janúar 2012

Rjúkandi rauðlinsusúpa

Áferðafalleg rauðlinsusúpa

Hér er afskaplega einföld uppskrift að linsusúpu sem hentar einstaklega vel til að nýta grænmetið í ísskápnum sem liggur undir skemmdum. Þar að auki er hún full af góðri næringu úr linsunum og svo er hún rjúkandi heit þannig að vetrarkvöldin eru kjörin félagsskapur með súpunni.

1 laukur
2 hvítlauksgeirar
2 gulrætur
1/2 kúrbítur
smá bútur af blómkáli
1 bolli rauðar linsur (ósoðnar)
1 dós tómatar
góð olía til steikingar
1-2 tsk cumin
1 tsk túrmerik
2-3 tsk papríka
2 tsk þurrkaður chilli (miðast við mildan chilli)
Salt og pipar eftir smekk
Grænmetiskraftur eftir smekk

Laukurinn skorinn smátt og steiktur upp úr olíu í potti í 3 mín. Kreista hvítlauksgeira út á og steikja í 2 mín. Því næst hræra allt krydd út í laukinn (fyrir utan salt, pipar og kraft) og steikja í 2 mín. Bæta við niðursneiddum gulrótum, kúrbít og blómkáli og leyfa að eldast í 3-5 mín. Skola linsurnar vel og bæta þeim út í. Hræra öllu saman. Því næst bæta við tómötum úr dós og vatni eftir smekk, u.þ.b. 1,3 l. Það má síðan alltaf bæta meira við meira vatni í lokin. Salti, pipar og grænmetiskrafti bætt út í.

Leyfa súpunni að sjóða í 45 mín með lokinu hálftylltu. Múla súpuna með töfrasprota. Smakka til og bæta við kryddum eftir smekk.

Með súpunni er frábært að bera fram heimagerða hvítlauksbrauðið hennar Salome. Einfalt, fljótlegt og síðast en ekki síst: Skemmtilegt!

sunnudagur, 22. janúar 2012

Myndband: 2011 í myndum og tónum

Síðustu helgi sat ég við lengi lengi og vann að því að púsla saman myndum og myndbandsbútum frá 2011. Árið var svo viðburðaríkt að mér fannst ég verða að sýna því tilhlýðilega virðingu og hér er afraksturinn.


laugardagur, 21. janúar 2012

Badstu og spilakvöld

Það er að komast á hefð fyrir þvi að við förum í badstu á föstudagskvöldum ásamt sænsku nágrönnunum okkar Alexander og Petru. Badstu er heit sána, allt að 90°C. Þegar við förum að basta eins og nágrannarnir kalla athöfnina tökum við oft með okkur eitthvað að drekka, eins og áfengislaust öl eða flösku af ísköldu vatni, og sitjum svo inni sveitt og kjöftum af okkur tuskurnar. Þetta er fínasta æfing fyrir okkur í sænsku (reyndar lærum við af krökkunum sértæka Nordland sænsku) en þetta er líka gott fyrir húð og kropp og svo hefur andinn af þessu mikla upplyftingu.

Eftir badstu spiluðum við yatzi með krökkunum. Þetta er annað spilakvöldið okkar og annað sinn sem við spilum yatzi. Við sjáum fram á að halda áfram að spila yatzi og bara yatzi. Vissulega eiga krakkarnir úr öðrum spilum að moða en þau hafa ekki komið til greina fyrir sakir tungumáls- og menningarmunar. Hvernig eigum við t.d. að vita hvað orðið yfir sumabústað er á norður sænskri mállýsku?

Auðvitað bætum við upp fyrir fábreyttni í spilavali með gotteríi og almennri glaðværð. Svo má líka alltaf hugsa sér að taka fram spilastokk, svona sem maður stokkar, og leggja upp í þannig spilamennsku. En þá þyrftum við að viðurkenna að það er ekki endilega tungumála- og menningarmunur sem stendur okkur fyrir þrifum, við kunnum bara ekkert svo vel að spila. Að því sögðu þá komum við öllum á óvart í gær með því að lenda í fyrsta og öðru sæti og þannig taka yngri kynslóðina í nefið eins og tóbak.

Nammi í skál

Yatzi

föstudagur, 20. janúar 2012

Te fyrir þrjá

Við fengum gest í kvöldmat áðan og buðum við upp á ítalska súpu, baguette, hvítlauksrjómaost, kertaljós og huggulegheit. Helltum svo upp á te eftir mat svo samræðurnar tækju á sig virðulegan blæ. Við töluðum meðal annars um steingeitur og lógík, tvö hugtök sem eru nánast óaðskiljanleg, og vandann við að lifa ekki bara lógísku lífi, heldur leyfa lífinu sinn gang af og til.

Svo var heimildarmynd um RAX á NRK 2 og þá langaði mig að taka nokkrar myndir. Líka að fara til Grænlands. Og soldið líka heim.

miðvikudagur, 18. janúar 2012

Góss og góðir grannar

Við urðum fyrir agalegu gjafmildi af hendi nokkurra Svía í dag, alveg óvænt og óvart. Fyrst voru það veiku nágrannarnir okkar Petra og Alexander sem eru núna búin að vera frá vinnu alla þessa viku. Þeim hefur augljóslega verið farið að leiðast þófið því þau hentu í bláberjapæ og gerðu vel við sig með því að bæta við þessari týpísku norsku vanillusósu. Þegar Baldur bankaði upp á til að huga að sjúklingunum réttu þau honum eldfast mót með hálfri bláberjapæ og fernu af vanillusósu og sögðu værsogú.

Varla var Baldur búinn að leggja frá sér pæið þegar Amanda litla kom með poka fulla af góssi sem hún vildi gefa okkur áður en hún flytur af eyjunni. Ólívuolía, hunang, pestó, chai og síðast en ekki síst hummus sem hún bjó til sjálf og setti í skreytta krukku. Talandi um að vera sæt í sér! Það er eins gott að kveðjudinnerinn sem við erum búin að bjóða henni í annað kvöld standi sig.

Pæið var algjört nammi og ég hlakka til að smakka hummusinn á morgun, en skemmtilegust er hlýjan í hjartanu yfir því hvað fólk getur verið sætt.

Góss

Bláberjapæ nágrannanna

mánudagur, 16. janúar 2012

Jól og áramót á Lovund

Þá eru jólin og áramótin hér á Lovund komin og farin. Lífið er aftur að falla í sínar skorður, jólakortin eru komin niður af vegg og svo ætlum við að kveikja í restinni af skrautinu, þ.e. kertunum. Jafnvel þó eitthvað sé liðið á nýárið er ekki úr vegi að segja örlítið frá jólahaldinu hér á Lovund þar sem það var nú með aðeins óvenjulegu sniði. Vissulega ekki eins óvenjulegu og jólin þar áður í hita og mannmergð Indlands, en þó ekki það sem kalla mætti hefðbundin jól.

Í lok nóvember fórum við á jólahlaðborð í boði vinnunnar og innifalið í því boði var hótelgisting í bænum Mo i Rana. Við gripum tækifærið fegins hendi, ekki af því að norskur jólamatur væri svona ómótstæðilegur í okkar augum heldur freistaði það okkar að fá að versla annars staðar en í litlu búðinni á eyjunni okkar. Þannig æxlaðist það að við slógum eigið met í því að vera snemma í því með jólagjafirnar þessi jólin, og reyndar með jólamatinn líka því við notuðum tækifærið til að versla inní hnetusteikina og annað sem ekki má vanta í jólahaldið. Við fengum versta veður sem mögulegt er að fá í svona bæjarferð, stormurinn Berit sem gekk berserksgang í Færeyjum gekk yfir nóttina fyrir ferðina og var hvergi nærri hættur um morguninn þegar við fórum fótgangandi út að höfn til að taka bílferjuna þar sem hurtigbåten hafði verið aflýst vegna veðurs. Við náðum að rennblotna við það að arka götur Mo i Rana og verða skítkalt en eftir standa samt bara hlýjar minningar frá deginum.

Við gerðum okkar besta til að halda upp á aðdraganda jóla, m.a. með því að baka á aðventunni og gæða okkur á piparkökum. Reyndar voru súkkulaðismákökurnar hrærðar saman úr pakkadeigi og piparkökurnar komu í öskju keyptri í búðinni, en þegar haft er í huga að við erum ekki með ofn inn í kofanum okkar heldur verðum við að klæða okkur í skjólfatnað og rölta yfir sleipar klappir og vaða polla til að komast að ofninum, þá finnst mér það vel af sér vikið.

Á Þorláksmessu vorum við komin í jólafrí og gátum notið þess að útbúa hnetusteik í ró og næði og gera lokajólainnkaupin um kvöldið. Já, um kvöldið sagði ég! Búðin okkar var opin til hvorki meira né minna en níu um kvöldið! Það var varla að við vissum hvaðan á okkur stæði veðrið.

Á aðfangadag ákváðum við að sækja messu klukkan fjögur sem hafði verið auglýst í áðurnefndri búð. "Sing in julen sammen" var loforðið sem dreif okkur af stað, og sá ég fyrir mér að við sætum prúð og stillt og syngjum með englaröddum Heims um ból og aðra jólasálma. Því varð ég ekki lítið hissa þegar að loknu ávarpi öll sóknarbörn stóðu upp sem einn maður og tóku að færa til stóla svo við ættum nú öll auðveldara með að athafna okkur í kringum þetta líka stóra jólatré sem hafði verið skreytt og komið fyrir á miðju kirkjugólfinu. Já, nú skyldi dansað í kringum jólatréð. Ég var eitthvað efins í fyrstu en svo fellur hver heilvita maður fyrir jólalögum og hringdans, annað er bara ekki hægt.

Þegar heim var komið gerðumst við mjög þjóðrækin og hlustuðum á Rás 1 hringja kirkjuklukkunum og til að vera í takt við íslenska vitund og þjóð hringdum við inn jólin að íslenskum tíma. Svona erum við rómantísk inn við beinið. Jóladegi vörðum við svo framanaf heima með nef ofan í bók og lúkur í konfektkassa, og seinnipart dags röltum við svo yfir í næsta hús til að fagna jólum að filippískum sið. Þar tók á móti okkur anganin af soðnum grjónum og steiktum fisk í soja sósu. Þetta var eins fjarri hefðbundu íslensku jólahlaðborði og hægt er að hugsa sér og ég hugsaði bara: Júhú! Maturinn var frábærlega góður og nú verða varla jól héðan af án soðinna grjóna og soja sósu!

Gamlárskvöldi vörðum við svo í félagsskap nokkurra vina. Kvöldið var skemmtileg blanda af norskum, kanadískum og búlgörskum hefðum. Mest þótti mér koma til búlgörsku bökunnar banitsa. Hún er einhvers konar ósætt ostabrauð sem hefð er fyrir að bera fram á þessu kvöldi í Búlgaríu. Í bökuna er svo stungið nokkrum vel völdum óskum og kveðjum sem maður svo fær í hendurnar með sneiðinni sinni. Mér var spáð mikilli hamingju og nýju húsi á nýju ári á meðan Baldri var lofuð ný vinna.

Á miðnætti fórum við svo út til að fylgjast með herlegheitunum á eyjunni. Ólíkt öðrum byggðarkjörnum í Noregi má skjóta upp flugeldum á svona afskekktri eyju og það ku vera árleg keppni milli eyjanna Lovund og Sleneset, um það hver skyldi ná að skjóta upp meiru. Það kemur kannski engum á óvart að heyra að fyrir okkur var þetta óttalegt blístur og væl enda vön algjörri bilun heima fyrir.

Gleðilegt nýtt ár 2012! Megi nýja árið færa okkur öllum mikla gleði og hamingju, hugrekki til að grípa tækifæri sem okkur bjóðast og sjálfsöryggi til að vera við sjálf. Þetta verður massa fínt ár, ég er alveg með það á hreinu!

Aðventa

Jólamaturinn

Afmæli

Búlgörsk banitsa með heillaóskum

Nýtt ár!