þriðjudagur, 20. febrúar 2007

Ferð í þorpin

Asha á skrifstofunni býr í litlu þorpi fyrir utan Bangalore. Í þorpinu hennar og þorpunum í kring eru starfræktir sjálfshjálparhópar á vegum Masard. Í dag heimsóttum við Baldur, Maria og Pernille þessi þorp og þessa hópa.

Við byrjuðum á að heimsækja þorpið Chokknahalla. Þar kíktum við á umsjónarmann sjálfshjálparhópsins Dhoddmma og konu hans. Sem við sitjum á yfirbyggðir veröndinni og spjöllum ber skreytta, heilaga belju að garði og heilagan smala hennar. Indversku gestgjafir okkar hlupu til og náðu í ragi bollu og reykelsi: ragi bollunni var stungið upp í beljuna sem góðgæti og reykelsunum var stungið í höfuðfatið hennar til að gera reykin frá þeim heilagan. Síðan skiptust þau á að verða sér út um blessun með því að anda að sér reyknum og láta hann umlykja sig.

Fyrst reykurinn frá reykelsinu verður heilagur við það að komast í snertingu við beljuna getur maður ímyndað sér hvað annað frá beljunni telst heilagt. Ég get sagt ykkur það að hlandið úr henni telst til heilags vatns. Því varð úr að þegar beljan byrjaði að míga á gólfið gerði smalinn sér lítið fyrir og stakk höndinni undir bununa og tók að skvetta hlandinu á mig og dönsku stelpurnar. Í bland við skelfilega undrun og pirring voru viðbrögð mín að vernda myndavélina mína og stökkva upp á næsta bekk, hrista síðan höfuðið af offorsi og segja upp á hindi: Neineineinei. Grey smalinn, hann var agndofa á þessum útlendingum sem fúlsuðu við heilögu vatni.

Baldur slapp blessunarlega við allt pissiskvett því hann var einmitt sjálfur að skvetta vatni annars staðar. Við Pernille og Maria áttum hins vegar bágt með okkur, á milli hlátursrokanna reyndum við að finna hlanddropana og þurrka þá af okkur. Ég fékk einn á kinnina sem ég veit ekki hvort ég náði að þurrka eða ekki. Það er óhætt að segja að þetta hafi verið hátindur ferðarinnar og það sem mun sitja í minni það sem eftir er.

Annars var ferðin öll frábær og eftirminnileg. Mér fannst æðisleg upplifun að tala við konurnar í sjálfshjálparhópnum og heyra um þeirra viðhorf til stöðu kvenna á Indlandi. Ein þeirra var mjög á móti illum tungum og slúðri sem að hennar mati er notað sem stjórntæki á konur í þorpinu. Elizabeth frá skrifstofunni var alveg á móti því að börn bæru aðeins eftirnafn föður síns og varð mjög heilluð þegar hún heyrði af því að á Íslandi færðist það í vöxt að börn bæru eftirnafn beggja foreldra sinna. Á sama tíma fannst þeim flestum ótrúlegt að heyra að öll værum við útlendingarnir fædd utan hjónabands, þeim fannst það bæði fyndi og vandræðalegt.

Af öðru áhugaverðu má nefna litlu verksmiðjuna sem við heimsóttum í þorpinu Chagaliti. Sjálfshjálparhópurinn Namana framleiðir þar papadoum og fengum við að fylgjast með því ferli. Í sama þorpi fengum við líka að sjá safn í krukkum: snákar, leðurblaka, mús og kálfsfóstur í formalíni.

Við enduðum þessa ferði í Bagalur, þorpinu hennar Öshu. Þar fengum við að borða einfaldan síðdegismat sem móðir hennar framreiddi og áður en við kvöddum blessaði Elizabeth okkur með rauðum depli á ennið.

Myndir úr ferðinni, m.a. af heilögu beljunni, eru hér.

Engin ummæli: