þriðjudagur, 31. maí 2005

Líf og fjör

Í gær byrjaði ég að vinna hjá Þjónustumiðstöð Vinnuskóla Reykjavíkur, öðru nafni lagernum. Ég hef fengist við ýmislegt á þessum stutta tíma eins og að mála og setja saman hjólbörur, raða í verkfærakistur og svona altmúlígt. Gott að vera svona mikið úti.

þriðjudagur, 24. maí 2005

Hörkutól

Síðustu daga hef ég verið að stússast svona ýmislegt út af Danmerkurreisunni og að sjálfsögðu að lyfta. Á sunnudaginn fórum við Ásdís í sund og Grasið í Hveragerði ásamt Stellu Soffíu og Pétri afa. Þótt ótrúlegt megi virðast þá hefur mér gengið mjög vel að aðlagast hinum erfiðu aðstæðum að vera ekki í prófum. Það var stór biti að kyngja að sætta sig við að prófin væru búin en ég þrauka þetta einn dag í einu.

föstudagur, 20. maí 2005

All out of luck

Forkeppni Eurovision var haldin í gær og horfðum við á hana heima hjá mömmu hennar Ásdísar. Ég þarf nú varla að kynna úrslitin en Íslendingum virðist svíða það sárt að komast ekki áfram og hafa verið á lofti alls konar misheimskulegar samsæriskenningar. Ég held að málið sé einfalt, aðeins fjórum sinnum (að mig minnir) hafa Íslendingar verið í fyrstu tíu sætunum og þá var Eurovision mun minni keppni og lagið sem við sendum núna var bara ekki eins gott og hin lögin. Kannski Ísland hafi verið all out of luck í þetta sinn og kannski þarf meira til en heppni. Mér finnst leitt að fylgjast með samsærislágmenningarumræðunni og mæli með því að fólk hætti henni strax því annars verður þjóðin þekkt fyrir sterkustu karlmennina, fallegustu konurnar og leiðinlegustu væluskjóðurnar!

þriðjudagur, 17. maí 2005

Grill

Í dag kom pabbi heim frá Frakklandi og í tilefni af því héldum ég, Ásdís og Stella smá grillteiti með honum. Það var mikil stemning og spjallað um margt. Ég held þó að það sé komið þögult samkomulag meðal viðstaddra að láta mig ekki sjá um grillvökvann aftur þar sem ég er svo sérstaklega örlátur að eðlisfari (hehe). Ég held að ég sé bara líka með í þessu samkomulagi, ekki láta mig sjá um grillvökvann aftur og heyriði það.

sunnudagur, 15. maí 2005

Prófalok

Í gær tók ég síðasta próf annarinnar og er því kominn í sumarfrí. Eftir prófið fór ég og fagnaði gullbrúðkaupi Kalla afa og Ólafar ömmu ásamt góðum hópi fólks á BSÍ. Þar hitti ég systur mína í fyrsta sinn síðan hún kom til landsins sem var mjög gaman. Í framhaldi af brúðkaupsafmælinu fórum við Stella heim og sóttum Ásdísi og var farið í sund, út að borða og í bíó á myndina Diarios de motocicleta.

föstudagur, 6. maí 2005

Eurovision rokkar!

Já ég ætla sko að horfa á söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva. Ég geri mér fyllilega ljóst að þessi játning kann að koma flatt upp á landann en þannig er mál með vexti að fulltrúar Noregs eru með slíkt gæðaglysrokkslag að ekki verður hjá því komist að horfa á þann sögulega viðburð þegar rokklag vinnur keppnina. Lagið er svo töff glys að Bon Jovi þarf að fara í felur þar sem hljómsveitin sameinar hæfileika hans í mátulegum skammti af AC/DC ásamt klæðskiptingsfílíng Kiss (þó ívið hóflegri). Já þetta er sko alvöru glys og ekkert múður! Ég hvet því alla glysrokkhneigða menn með snefil af sjálfsvirðingu að greiða Noregi atkvæði sitt og auka þannig menningargildi keppninnar. Vissulega var Húbbahúlle-lagið gott á sínum tíma en Wig Wam er málið í ár.

mánudagur, 2. maí 2005

Afmælisdagur

Í dag á annar af eigendum heimasíðunnar hjólkoppar, nánar tiltekið Kalli afi, afmæli og óska ég honum alls hins besta í tilefni af því. Dagurinn í dag er líka silfurbrúðkaupsafmælisdagur (náði bara ekki að búa til lengra orð úr þessu án þess að bulla) mömmu og pabba og fá þau líka opinberar hamingjuóskir hér með. Einhverjir velta því fyrir sér hvort þau hafi þá verið 5 ára þegar þau giftust. Sú tilgáta er röng, þau voru bæði orðin 7 ára.

Ég var í prófi í morgun og skýrir það nú kannski efnislega uppbyggingu bloggsins. Eftir prófið fór ég í hádegismat með pabba hjá manni nokkurum sem lifandi er, þar sem við fengu þetta fína baunadal.