þriðjudagur, 16. mars 2010

Menningarlíf vetrarins

Ég var að hugsa hve sorglegt það væri að hafa hvergi miðil til að skrásetja menningarviðburði sem maður sækir. Yfirleitt dugar myndaalbúmið ágætlega til þess brúks, þ.e. að rifja um hvað var gert og hvenær, en hins vegar á það ekki við um t.d. leiksýningar. Þá mundi ég allt í einu eftir kærri hnotskurninni og fannst tími til kominn að hleypa smá lífi á síður hennar með því að skrifa fáein orð um menningarlíf vetrarins.

Við Baldur höfum aldrei verið mjög leikhúsrækið fólk. Hins vegar virðist hafa orðið töluverð breyting þar á eftir heimkomuna frá Asíu, og eflaust má skrifa það jöfnum höndum á meiri tekjur, fleiri frístundir og meiri framkvæmdagleði. Þannig sáum við í það minnsta fjórar sýningar á fyrsta árinu okkar heima: Kommúnan, Fólkið í blokkinni, Ökutímar og Fló á skinni - allar sýndar í Borgarleikhúsinu.

Fyrir leikárið 2009-10 keyptum við okkur áskriftarkort hjá Borgarleikhúsinu á eftirtaldar sýningar: Jesú litli, Fjölskyldan, Fást og Rómeó & Júlía. Þar að auki notuðum við gjafabréf sem við áttum hjá Þjóðleikhúsinu til að útvega okkur miða á Brennuvargana.

Við sáum Jesú litla í desember, fyrir jól, og ég skemmti mér alveg stórvel. Til marks um hve hrifin við vorum þustum við í miðasöluna að sýningu lokinni til að athuga hvort enn væri verið að sýna Dauðasyndirnar, og okkur til ómældrar sorgar reyndist sýningin ekki lengur vera á fjölunum. Að sýningunni standa trúðarnir Barbara og Úlfur og með í för í þetta sinn var Kristjana trúður. Hvað get ég sagt meira? Bara dásamleg, dásamleg sýning sem ég hvet alla til að sjá fyrir næstu jól. Sýningin hreppti nýverið menningarverðlaun DV í leiklist. Pas mal.

Við fórum að sjá Brennuvargana í janúar og nú þarf ég að vera pínu hreinskilin. Við hefðum eflaust aldrei farið á sýningu í Þjóðleikhúsinu nema af því við áttum gjafakort, og eflaust aldrei á Brennuvargana nema af því að áðurnefnt gjafakort var við það að renna út. Spark í rassinn og við komin með miða á næstu sýningu sem var Brennuvargarnir. Kannski af því að við fórum að sjá sýninguna á föstudagskvöldi, og ég þreytt eftir vinnudaginn, þá átti ég erfitt með að halda einbeitingunni fyrir hlé, sérstaklega þegar kórinn tók til máls. Mér finnst frekar óþægilegt að sitja prúðbúin í leikhúsi og skilja ekki baun í því sem fer fram á sviðinu og finnast ég alltaf þurfa að grípa þráðinn aftur og aftur. En fyrir utan það þá var verkið vel út fært eftir minni bestu vitund, leikurinn góður (sérstaklega Ólafía Hrönn) og heildar útlitið allt hið ásættanlegasta. Brenn samt ekkert í skinninu að sjá Brennuvargana aftur...

Þá erum við komin að bestu sýningunni - og þá á ég ekki við aðeins þetta leikár heldur af öllum þeim sem ég hef séð (ok, þær eru vissulega ekki margar) en það er Fjölskyldan. Eftir nokkrar tilfærslur með miðana okkar enduðum við á að fara á sýninguna 13. febrúar og það er í rauninni sambands/sambúðarafmæli okkar B. svo við notuðum tækifærið og héldum upp á það með því að fara á Ítalíu fyrir leikhúsferð og þannig gera okkur dagamun. Í framhjáhlaupi langar mig að hripa niður að við héldum einmitt upp á sjö ára afmælið með ferð á Kommúnuna í febrúar 2008 og átta ára afmælið með Fló á skinni í febrúar 2009. Þetta er að verða trend hjá okkur skötuhjúum. Hvað um það, Fjölskyldan er dásamlega galin, öflug, fyndin, geysivel leikin og flutt, sorgleg, frábær... það væri kaldhæðið að segjast ekki eiga orð en þannig líður meir samt helst. Sjón er sögu ríkari (guði sé lof fyrir orðatiltækin).

Viku eftir að við sáum Fjölskylduna, og enn í vímu held ég, fórum við að sjá Fást í flutningi Vesturports. Alveg kreisí flott sýning, sérstaklega skemmtilegt að hafa hluta af sýningunni á neti strengdu yfir áhorfendur. Hjólastólakallinn vakti sérstaka lukku í hléinu. Þess utan var allt svo flott: loftfimleikarnir, sprengingar, klifrið í grindum, mannlegu fallbyssukúlurnar að ofan sem lentu í netinu, tónlistin hans Nicks Cave. Mmmm, algjört nammi þessi sýning.

Eina sýningin sem eftir er á áskriftarkortinu er Rómeó & Júlía í flutningi Vesturports. Þetta er ein af þessum sýningum sem ég hafði áhyggjur af að hafa aldrei séð, þið getið því ímyndað ykkur gleði mína þegar ég sá að taka átti verkið aftur til sýningar í maí. Get varla beðið ég hlakka svo til.

Af öðrum menningarviðburðum framundan ber helst að nefna Gerplu í Þjóðleikhúsinu í apríl og Dúfurnar í Borgarleikhúsinu (eigum eftir að kaupa miða). Síðast en ekki síst - og ótengt leikhúsum - förum við á tónleika með Amadou & Mariam í maí! Og það í annað sinn! Í fyrsta skiptið sáum við þau í Kaupmannahöfn haustið 2005 og það var frábært.