fimmtudagur, 23. febrúar 2012

Vetrarævintýri með múmínívafi

Þá erum við komin heim eftir ævintýralega vetrarferð um Svíþjóð og Finnland. Í stuttu máli sagt: ferðin var frábær í alla staði. Við fengum risaskammt af frosti og snjó borinn fram á heiðbláum himni með gulri sól. Gerist vart betra!

Við fengum far með sænsku nágrönnunum okkar til heimabæjar þeirra Lycksele og þaðan fórum við síðan til Umeå þar sem við leigðum okkur bíl. Á leiðinni frá Lovund til Lycksele fór frostið niður fyrir -40°C og þegar við Baldur heimtuðum oftar en einu sinni að stíga út úr bílnum til að taka myndir frusu bifhárin í nefinu á nokkrum sekúndum. Það var mjög skemmtileg reynsla og virkjaði áður óþekkta nefvöðva.

Það sem heillaði okkur mest við Norður Svíþjóð var allur skógurinn að sjálfsögðu, verandi börn merkurinnar þá skal hið framandi ævinlega tæla. Skógurinn er svo þéttur þarna fyrir norðan að það sést ekki í byggðir og bæi eða til sjávar. Og í þessu mikla frosti voru greinar allra trjánna sem húðaðar hvítri glimmer málningu, og í loftinu svifu ískristallar sem kölluðu á marga lóðrétta regnboga á himninum. Ef þetta hljómar ævintýralega þá er það af því að þetta var alveg afskaplega ævintýralegt.

Við keyrðum í gegnum ýmsa skemmtilega bæi þarna í Norður Svíþjóð, eins og Skellefteå og Luleå, á leið okkar til Finnlands. Húsin sem kúra sig við aðalæðina eru öll rauð og hvít með A þaki og ofan á þökum lá hálfs meters lag af hvítum hvítum snjó. Ég held ég hafi aldrei séð svona mikinn snjó á ævinni. Þegar við komum yfir til Finnlands hélt þessi sama blanda landslags og vetrarhörku velli, eina sem var öðruvísi fyrir utan óskiljanlegt tungumálið í útvarpinu voru húsin sem voru frekar litdaufari en í Svíþjóð. Auk þess voru með reglulegu millibili skilti sem vöruðu við umferð elgdýra og það átti við bæði í Svíþjóð og Finnlandi þó svo að elgurinn á sænska skiltinu hafi haft stærri horn.

Á landamærum Svíþjóðar og Finnlands liggja bæirnir Haparanda (sænsku megin) og Tornio (Finnland) og á milli þeirra rennur á, Torneälven, sem þjónar sem náttúruleg landamæri. Við gerðum okkur leik að því að keyra marg oft yfir brúnna, frá Sverige yfir til Suomi, aftur og aftur. Og við vorum ekki bara að leika okkur að rúminu heldur einnig tímanum því það er svo ótrúlegt að þessir nágrannabæir eru á sitthvoru tímabeltinu. Við fórum yfir til Tornio og misstum einn tíma af deginum, fórum yfir til Haparanda og græddum hann aftur.

En svo ég geri langa sögu stutta þá kíktum við í nyrstu Ikea verslun heims sem er að finna í Haparanda, gistum í finnska bænum Rovaniemi sem er höfuðstaður Lapplands og heimabær jólasveinsins, fórum að pólbaug og yfir pólbaug, heimsóttum pósthús jólasveinsins þar sem starfsfólk stimplar allan póst með jólasveinastimpli, með bros á vör og jólasveinahúfu á höfði. Við fórum í finnska saunu og borðuðum finnskan lakkrís og versluðum finnska hönnun (iitala og Arabica baby), og rétt eins og í Svíþjóð urðum við að stinga bílnum í samband í hvert sinn sem við lögðum honum svo ekki frysi í vélinni. Út af frosthörkum urðum við að drasla öllu okkar dóti inn á herbergi hverja einustu nótt af ótta við að eitthvað myndi frjósa í köggul. Við fórum á æðislegt safn, Arktikum, í Rovaniemi, rétt renndum í gegnum borgina Oulu til að borða ógeðslegasta mat sem við höfum fengið og gistum á farfuglaheimili rétt utan við smábæinn Haukipudas þar sem við vörðum deginum á snjóþrúgum að þramma um finnskan skóg og elta kanínuslóð. Við komum við á múmínsafninu í Tampere, fórum hring í sporvagni í Helsinki og tókum ferju yfir til Stokkhólms. Við hittum mömmu og Sigga í Skövde, borðuðum mikið af góðum mat, heimsóttum Gautaborg, fórum í þrítugsafmæli í Stokkhólmi, versluðum og versluðum og síðast en ekki síst keyrðum og keyrðum.

Við keyrðum eina 4200 km. Það er fjögurÞÚSUND og tvöhundruð kílómetrar. Og keyrðum ekki á einn einasta elg, sáum ekki einu sinni elg nema á Arktikum safninu í Rovaniemi.

Það sem situr eftir svona ferð, þ.e. það sem ferðin hefur fært mér, er skýrleiki í hugsun og vorið! Já, allur þessi vetur, snjór, frost, heiðríkja og sól færðu mér sól í hjarta og mér finnst núna sem vorið sé á næsta leiti.

Þegar ég hef tækifæri til uppfæri ég einhverjar myndir úr þessari frábæru ferð yfir á flickr síðuna okkar.

föstudagur, 3. febrúar 2012

Vetrarfrí

Við erum á leið í fríið! Framundan er tveggja vikna stopp í laxinum og við höfum ákveðið að fara í smá vetrarfrí um Skandinavíu. Við erum búin að bóka bíl í Svíþjóð og ferju í Finnlandi og ætlum síðan í góðan bíltúr um löndin tvö í vetrarbúningi. Veðurspáin talar um alvöru kuldakast og í bænum Lycksels er víst 40°stiga frost núna. Og við verðum þar annað kvöld. Hvar er húfan mín, hvar er hettan mín?

Hér er ferðaáætlunin okkar fyrir næstu tvær vikurnar.