Ah, gott dagsverk að baki. Útbjó jólahnetusteikina í hádeginu, fór út að labba í sólarhádeginu og kláraði jólagjafainnkaupin í Kringlunni. Rölti svo heim með Baldri, reiðhjóli og mörgum bögglum, í léttri og endurnærandi rigningu. Já, nú er ekki mikið eftir af jólaundirbúningi. Búin að senda nokkur jólakort til Noregs og Svíþjóðar, búin að versla þorrann af jólamatnum og góðgætinu og búin að pakka flestum gjöfum inn. Já, ég er bara þrælsátt.
Ég ætla hér að deila með ykkur uppskriftinni að hnetusteik úr bókinni hennar Sollu, Grænn kostur Hagkaupa. Ég er núna búin að útbúa jólahnetusteik eftir þessari uppskrift þrjú jól, fyrst jólin 2008 og síðast í fyrra, í litla kofanum okkar við sjóinn, á litlu eyjunni utan við Helgelandsströndina. Það var þá sem ég áttaði mig á því að maður þarf enga matvinnsluvél eða fínar græjur til að útbúa hnetusteik, þetta er sáraeinfalt. Svolítil handavinna en afskaplega einföld og ef maður gefur sér tímann þá er þetta skemmtileg handavinna. Og fær maður að borða hana! Besta handavinna ever.
Tada, jólamaturinn í ár... Uppskriftin hér að neðan er fyrir fjóra, þ.e.a.s. hún hefur dugað okkur Baldri í tvær heilar máltíðir, aðfangadag og jóladag. Tvöfaldið hana ef þið eruð fjögur í heimili og viljið eiga afganga fyrir næsta dag.
Hvað:
Góð olía til steikingar
1 laukur
100 g sæt kartafla, skræld
100 g sellerírót, skræld
2 msk tómatmauk
1 msk timjan
1 msk karrý
chilli af hnífsoddi
hálf msk sjávarsalt eða Herbamare
100 g soðnar og skrældar kartöflur
150 g soðin hýðisgrjón
100 g kasjúhnetur
100 g heslihnetur
Raspur: 50 g sesamfræ
Hvernig:
Saxið laukinn og rífa niður sætu kartöfluna og sellerírótina. Steikið á pönnu ásamt tómatmauki og kryddi, látið malla í 20 mín. Leyfið að kólna. Ristið og malið hneturnar. Stappið kartöflurnar saman við hýðisgrjónin, bætið síðan við tómatblöndunni af pönnunni og hnetunum. Hrærið vel saman. Hægt er að nota hrærivél en ég hef alltaf notað handaflið og víða, góða skál.
Því næst þarf að móta hleif úr deiginu og þá er tvennt í boði: að sturta deiginu á bökunarpappír og móta með höndunum kræsilegan hleif, eða klæða form með bökunarpappír og sturta deiginu ofan í það. Það má síðan baka hleifinn í forminu en þá verður skorpan ekki eins bökuð og skemmtileg eins og hún verður ef hann er bakaður á plötu svo ég valdi að fara millileið. Ég sturtaði deiginu í form og notaði það til að hjálpa mér að forma hleifinn, en síðan mun ég kippa hleifinum upp úr forminu og baka á bökunarpappír.
Veltið hleifinum upp úr sesamfræjum til að mynda rasp. Bakið við 200°C í 30-40 mín., passið að hafa hleifinn ekki of lengi í ofninum svo hann þorni ekki.
Það sem er gott við hnetusteikina er að hægt er að útbúa hana tímanlega og frysta, sem er einmitt það sem ég geri fyrir þessi jól og hef gert áður. Þá er bara að muna að kippa steikinni úr frysti í tæka tíð!
Meðlætinu með hnetusteikinni eru auðvitað engin takmörk sett. Við höfum vanist því að borða hana með brúnuðum kartöflum, sveppasósu, rauðkáli og grænum baunum. Við höfum einnig prófað að hafa Waldorf salat með en fundist það of þungt og mikið. Einnig höfum við prófað sætkartöflumús sem var mjög ljúffeng. Ferskt gulrótasalat kemur líka mjög vel til greina.
Nú mega jólin bara koma, það held ég nú!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli