Ég demdi mér í jólabaksturinn í gær og tók hann á einu bretti. Ég varð reyndar að fara til mömmu til að komast í bakarofn og fyrir vikið varð ég að undirbúa mig vel heima áður. Hnoða í deig, hræra í hrærur, vega og mæla. Sparaði mér að burðast með öll kílóin af hveiti, púðursykri, hjartarsalti, matarsóda, negul, engifer og kanil og svo mætti lengi telja. Í staðinn rogaðist ég bara með tilbúin deigin, pökkuð svo fallega inn í álpappír að það var næstum synd að taka utan af þeim.
Ég bakaði hvorki meira né minna en fimm sortir: hálfmána, lakkrístoppa, engiferkökur, sesamkex og súkkulaðibitakökur. Með dyggri hjálp mömmu náðist þetta í tæka tíð en það eru engar ýkjur að dagurinn fór í þetta. Ekki amaleg leið til að verja degi.
Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa því í orðum hvað það var gaman að baka og hvað smákökurnar voru fallegar og gómsætar. Læt myndirnar tala sínu máli.
Læt þó fljóta með að þær eru algjör nammi!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli