miðvikudagur, 31. janúar 2007

Í kvennavagni

Ég held áfram að taka strætó til vinnu þó um sé að ræða morðvopn mikil og skæð. Ástæðan er einföld: strætó er ódýrari en auto, þægilegri því maður situr hærra og verður því síður var við mengunina og síðan þarf maður ekki að semja um verð fyrir ferð.

Eina sem autoar hafa fram yfir strætó er plássið, í strætó er maður yfirleitt kraminn upp við næsta mann. Það sem gerir þetta bærilegt er þó að indverskir vagnar er kynjaskiptir: karlar að aftan og konur að framan. Þannig sleppur maður alveg við glápandi augu og áreitni.

Á leiðinni heim í dag fékk ég síðan lúxusmeðferð: ég fékk sæti í bleikum vagni sem einvörðungu er ætlaður konum. Ekki það að ég sé neitt á móti indverskum körlum, það er bara óneitanlegra rýmra um mann ef þá vantar.

mánudagur, 29. janúar 2007

Klæjar í fingurna

Undanfarnar vikur og mánuði, eða allt síðan ég kláraði MA ritgerðina, hefur þörfin fyrir að skapa eitthvað verið að angra mig. Nánar tiltekið hefur það verið skriftarþörfin - handakláði - sem hefur plagað mig enda sakna ég tímans þegar ég vann á MA ritgerðinni.

Undanfarin kvöld hef ég sest niður með tölvuna í fanginu og fundist ég þurfa að skrifa eitthvað en ekki vitað hvað eða hvernig. Um daginn keypti ég bókina Creative writing the easy way og þar eru nokkrar góðar ráðleggingar og leiðbeiningar. Í gær fékk ég síðan aðgang að rithringnum og ég hef eytt frítíma mínum í að lesa skrif annarra og umræður um skrif.

Ein af ráðleggingum bókarinnar er að ganga ávallt með litla stílabók á sér og krota í hana allar hugmyndir. Alla vikuna er ég því búin að pára í glósubókina hugleiðingar og hugdettur hvar sem ég er stödd (erfiðast að lenda í því í strætó að fá hugmynd, eða þegar maður er nýlagstur til svefns). Þá hef ég líka verið að gera æfingar upp úr bókinni og er búin að komast að því að skrifin þarf að nálgast eins og allt annað: skipulega og markvisst. Ef það hljómar óspennandi í eyrum einhverja get ég glatt ykkur með því að ég er núna mjög spennt fyrir skrifunum og næ núna að fullnægja skriftarþörfinni.

Mig hefur alltaf dreymt um að vera ein af þeim sem segist hafa gengið með bók í maganum, ég tala nú ekki um að vera ein af þeim sem er með nokkur handrit tilbúin í handraðanum. Hver veit nema ég láti þann draum rætast.

sunnudagur, 28. janúar 2007

Athuganir mínar

Það fer ekki hjá því að mannfræðingurinn taki eftir ýmsu í fari mannanna í kringum hann. Ég er þar engin undantekning. Af athugunum mínum hef ég dregið þá ályktun að Indverjar séu afskaplega óþolinmóð þjóð.

Til marks um það eru t.d. umferðarljósin. Jafnvel þótt umferðin sé algjört öngþveiti og ekki miklu púðri eytt í eftirlit þá er engu að síður sekúnduteljari á öllum umferðarljósum. Nokkrum sekúndum fyrir græna ljósið byrjar allir að ræsa bílana sína og á sama andartaki og smellur í græna ljósinu byrjar öll hersingin að flauta á bílana fyrir framan.

Svo verð ég að minnast á annað sem ég hef tekið eftir. Svo virðist sem Indverjar séu með rím á heilanum. Og það slæmt rím meira að segja. Hurt never, help ever er gott dæmi frá Sataya Sai Baba í Puttaparti. Eða auglýsingin um lán sem ég sá í strætó á dögunum: Learn and earn more income. Just smartly not hardly.

föstudagur, 26. janúar 2007

Heimsókn á munaðarleysingjahælið

Við heimsóttum í dag munaðarleysingjahælið sem MASARD rekur. Það heitir Ashanilaya og er í Ejipura hverfinu. Á heimilinu búa um 40 börn og starfsmenn eru fimm talsins.

Þegar við stigum út úr autonum þyrptust börnin að okkur, spyrjandi okkur að nafni og vildu fá að taka í höndina á okkur. Við fengum sýnisferð um húsið og leist okkur vel á. Stelpurnar gista saman í herbergi á einni hæð og strákarnir á annarri hæð. Þá hafa þau til umráða tölvuherbergi þar sem kennsla á tölvur fer fram, í samveruherberginu taka þau á móti gestum og á lóðinni fyrir utan húsið eru leiktæki sem gefa börnunum færi á að leika sér.

Það var sérlega heppilegt að við völdum að heimsækja heimilið í dag því velgjörðafólk Ashanilaya hafði boðað komu sína á heimilið í því skyni að halda bænastund með börnunum. Þó stofnandi heimilisins, Fernandes, sé kristinn og börnunum því kennd kristin fræði, var bænastundin til minningar um vin Fernandes sem var hindúi og því urðum við vitni að hindúa bænastund. Bænastundin minnti að mörgu leyti á jógatíma: fyrst voru börnin látin loka augunum og vísa lófunum upp, þá var ómað og loks kyrjað.

Að bænastund lokinni fengu börnin og gestirnir sérstakan hátíðarmat: grillaðan makríl. Ég smakkaði fiskinn reyndar ekki en get staðfest að pula hrísgjónrarétturinn sem ég fékk var ansi góður.

Annars má ekki gleyma að minnast á að í dag er hvoru tveggja þjóðhátíðardagur Indverja og afmælisdagur pabba. Hamingjuóskir til allra!

fimmtudagur, 25. janúar 2007

Bretónskt rokk og ról

Í gærkvöldi fórum við á tónleika með bretónsku rokkhljómsveitinni Merzhin í Alliance Française. Vart þarf að taka það fram en stemningin var rosaleg og stuðið mikið. Gott rokk á ferðinni með kunnuglegum þjóðlagaáhrifum, góðum hljóðfæraleik og söng. Fullt var útúr dyrum og var gaman að sjá að þarna var samankomið fólk á öllum aldri.

Þegar Merzhin hafði lokið sínu prógrammi stigu tveir indverskir flautuleikarar á svið og léku fyrir gesti. Eitthvað fannst bretónska trommaranum þeir einmana svo hann læddist á sviðið og sló létt á húðir í bakgrunninn. Þetta fannst gítarleikaranum sniðugt og nokkrum mínútum síðar voru allir Bretónarnir komnir á sviðið og farnir að djamma með flautuleikurunum, fjölþjóðleg gæðasulta.

Á leiðinni út heilsuðum við aðeins upp á hljómsveitarmeðlimi en bara stutt því þeir áttu fullt í fangi með að sinna viðtölum. Samtalið varð þó nógu langt til að ástæða væri til að kveðja og það á kumpánlegan, bretónskan máta: Kenavo!

miðvikudagur, 24. janúar 2007

Af kakólakki

Hér um slóðir er mikið um kakkalakka, bæði úti og inni. Einn af þeim sem tilheyrir fyrri flokknum (úti) ákvað að skipta um grúppu og flaug inn um dyrnar á Robertson House. Þar stóð fyrir félagi minn Simon sem óðara tók af sér annan inniskóinn og með klaufalegum tilburðum kastaði honum í átt að meindýrinu.

Ótti greip um sig hjá bæði kakkalakkanum og árásarmanninum því annar hljóp niður vegginn og kom sér fyrir á straubrettinu meðan hinn teygði sig skjálfandi eftir inniskónum. Ég spurði Simon hvort hann þyrfti hjálp og fékk ákaflega einlægt já að launum auk þess sem mér var veitt hið riddaralega kakkalakkasverð, inniskór Simons.

Þar sem ég sem Íslendingur er ekki vanur að umgangast skordýr spurði ég, eftir að hafa kramið kvikindið, hvort kakkalakkar gætu gert manni eitthvað. Ég hafði að vísu aldrei heyrt neitt um svoleiðis en allur er varinn góður. Simon þagði nokkur augnablik en sagði svo án þess að blikna: Yes, they scare people.

þriðjudagur, 23. janúar 2007

Ýtnir Indverjar

Indverjar eru svo ýtnir! Á biðstöðinni í dag beið ég eftir vagni nr. 330 til að komast upp í Shivaji Nagar, þaðan tæki ég síðan vagn 300 eða 302 heim. Að garði bar aðra konu sem tók til við að bíða eftir vagninum eins og ég.

Eftir um fimm mínútna bið leit hún skyndilega á mig og sagði með öryggi þess sem allt veit: "Vagninn kemur ekki, við verðum að labba út á næstu stöð," og bendi út veginn. "Komdu!" sagði hún svo og gerði sig líklega til að tosa í handlegginn á mér eins og góðra Indverja er siður.

Ég hélt nú ekki og reyndi að koma konunni í skilning um að stundum þyrfti maður að bíða lengur en fimm mínútur eftir vagninum. Það var eins og að skvetta vagni á gæs, ekkert hreyfði við henni og hún hélt á brott, móðguð yfir því að ég skyldi ekki hlýða henni og eins og góðum rakka sæmir. Ég var hins vegar fegin að hafa staðið á mínu því þremur mínútum síðar renndi vagninn að gangstéttabrúnni.

mánudagur, 22. janúar 2007

Ófriðarástand á enda

Þá hefur ófriðarölduna lægt í bili og er það léttir eftir óeirðahelgina sem leið. Mótmæli múslíma á föstudaginn kynntu svo undir hindúa hér í borg að allan laugardaginn mátti heyra trommuslátt frá mótmælagöngum hindúa sem kalla sig Virat Hindu Sabha. Þá blöktu appelsínugul flögg hindúa út um allt og annar hver autó bílstjóri sýndi tryggð sína við hindúa með því að flagga í appelsínugulu. Ég hef það frá Hollendingunum í Robertson House að miðbær Bangalore nú um helgina hafi helst líkst hollenskum miðbæ þegar fótboltakeppni stendur yfir, svo ríkjandi var appelsínuguli liturinn.

Á laugardag og sunnudag var vatns- og rafmagnslaust. Þá voru allar verslanir lokaðar og fólk varað við að vera á ferðinni utandyra að óþörfu. Það var því lítið við að vera en sem betur fer hafði ég The Thirteenth Tale mér til halds og trausts, auk vænna birgða af mjólk, vatni og brauði í skápnum.

Á laugardagskvöldið kíkti ég á fréttirnar og fékk þá að vita að ástandið í borginni væri í bókstaflegri merkingu eldfimt: óeirðaseggir höfðu kveikt í strætisvögnum, léttivögnum og leigubílum og lögreglan hafði beitt táragasi og hafið skothríð þar sem einn drengur lést og 22 særðust. Ég komst líka að því að við værum í hringiðju látanna. Eldfimustu svæðin voru Bambooo Bazaar, Ulsoor Lake svæðið, Shivaji Nagar, Indira Nagar og sjálfur Frazer Town (þar sem við búum). Þá höfðu yfirvöld komið á útgöngubanni frá 22 til 7 á sunnudagsmorgun en við höfðu ekki hugmynd um það þegar Baldur fylgdi mér heim þá um kvöldið.

Á sunnudaginn var ástandið svo óstöðugt að Baldur tók ekki annað í mál en að fylgja mér upp í Robertson House og í farteskinu hafði hann hlaupaskó sem hann vildi að ég færi í, svona ef ske kynni. Á meðan við gengum þennan stutta spotta milli heimila okkar vorum við vöruð við af heimamönnum að vera á ferli og við tókum þá á orðinu. Við tókum síðan eftir því að rúður höfðu verið brotnar hjá nágrönnum Baldurs og fréttum af útlendingum sem höfðu orðið að taka til fótanna kvöldið áður til að komast undan æstum Indverjum. Við héldum okkur því innan dyra þann daginn og ég gisti í Robertson House.

Í dag var svo frí í skólum en verslanir hér í Frazer Town opnuðu í morgun og eftir fábrotið fæði helgarinnar gerðum við Baldur stórinnkaup. Rafmagn og vatn er komið í lag og útgöngubanni hefur verið aflétt. Til öryggis held ég mig samt heima í dag, mig langar ekki að lenda aftur í hringiðju mótmælanna eins og á föstudaginn.

föstudagur, 19. janúar 2007

Mótmæli í uppsiglingu

Á leiðinni heim úr vinnunni í dag kom babb í bátinn. Öllum farþegum var hent úr vagninum á Cubbons Road og átti það sama við um alla vagna sem leið áttu frá miðbænum niður að stóru strætóstöðinni í Shivaji Nagar.

Ég stóð stjörf á gagnstéttinni og fylgdist með öðrum farþegum sem af öryggi tóku stefnuna þangað sem þeir ætluðu sér. Ég var aftur á móti alveg áttavillt því þennan sama dag hafði ég skilið kortið af borginni eftir heima. Þá gat ég heldur ekki skilið hver ástæðan fyrir þessu öllu var því allar útskýringar höfðu verið gefnar á kannada, tungumáli heimamanna.

Ég gerði það eina sem hægt er í stöðu sem þessari: elti hina. Með því að spyrja til vegar komst ég loks að Indian Express og þaðan þekkti ég leiðina niður í Shivaji Nagar. Á leið minni þangað mætti mér straumurinn af fólki á leið frá Shivaji Nagar, gangandi á götunum þar sem venjulega er þung bílaumferð. Þá glumdu hávær skilaboð í hátölurum í kringum Indian Express sem minnti helst á stríðstíma, við það fóru að renna á mig tvær grímur. Hins vegar reyndust allir vera rólegir og yfirvegaðir svo ég ákvað aftur að gera eins og hinir og vera sjálf róleg og yfirveguð.

Áður en ég náði niður að Shivaji Nagar gekk ég fram á fjöldamótmæli múslíma. Flestir voru hvítklæddir og margir héldu á mynd Saddams Husseins. Ég sneri við á stundinni og hélt aftur til Indian Express. Þangað komu hins vegar engir vagnar og engir autóar voru í umferð svo ég hélt áfram upp Cunningham Road. Plan A var að ná strætó heim og plan B var að setjast inn á Coffee Day og bíða björgunar.

Plan A gekk upp því sem ég gekk meðfram götunni keyrði einn af mínum vögnum framhjá og ég stökk upp í. Ég komst því heim heil á höldnu en varð fyrst skelkuð þegar ég sá verslanir í Frazer Town vera að loka og fólk að flýta sér heim. Strákarnir í Robertson House fræddu mig svo á því að múslímar væru að mótmæla aftöku Saddams Husseins og að borgarbúar væru að búa sig undir óeirðir. Nú er bara að sjá hvernig málin þróast.

fimmtudagur, 18. janúar 2007

Helreið daglega

Það er ekki heiglum hent að keyra strætó í Bangalore. Það er ekki heldur fyrir heigla að sitja í sem farþegi í strætisvögnum Bangaloreborgar. Vagnstjórarnir víla ekki fyrir sér að keyra farþega niður telji þeir það þjóna sínum hagsmunum, að troða sér inn í vagninn á álagstímum er eins og að ætla sér að sofa í sardínudós og þar að auki verður farþegi að búa yfir þeim hæfileika að stökkva úr ökutæki á ferð.

Ef farþegi er svo heppinn að komast inn í vagn á annað borð taka aðrar pyndingar við. Oftast þarf farþegi að standa og þá er hann iðulega með svarta hárfléttu af einum farþega yfir öxlina á sér, rasskinnina á öðrum í bakinu og kinnina á þeim þriðja á höndinni sem heldur dauðahaldi í nálæga stöng.

Best settur er farþegi fái hann sæti. Samt þarf hann að vara sig á ýmsu. Til að mynda er slæmt að horfa út um framrúðuna, þá blasir við farþeganum brjálæðið sem hér á bæ kallast umferð. Besta ráðið er því að horfa út um hliðarrúðuna. Þá nær farþegi kannski að sjá belju með skærblá horn og rauða dúska bundna við hornin, og bjöllu fasta í dúskunum.

miðvikudagur, 17. janúar 2007

Gúllíver í Puttapartí

Um helgina barst okkur tölvupóstur frá Sigrúnu þess efnis að okkur væri boðið í heimsókn til Puttapartí og sótti hún okkur á mánudagsmorgun með einkabílstjóra sér til fulltingis. Á leiðinni ræddum við heima og geima, meðal annars áfangastaðinn.

Puttaparti og tilvera þess snýst öll um mann að nafni Sai Baba sem ku vera mikill kraftaverkakarl og hafa margir lagt leið sína til hans í þeim tilgangi að styrkja sig andlega eða jafnvel fá bót við meinum af ýmsu tagi.

Ekki er hann alveg tengslalaus við efnisheiminn því hann hefur þá skemmtilegu skoðun að byggingar eigi að færa fólki gleði. Þegar ég barði sumar bygginganna augum byrjaði ég ósjálfrátt að brosa svo þetta plan hans virðist virka.

Á göngum okkar um bæinn settum við allt á annan endann með myndatökum, sáum leðurblökuger um hábjartan dag, lásum spakmæli Sai Baba á ótal tungumálum og heimsóttum óskatré. Óskatréð virkar þannig að maður skrifar ósk á blað og hengir á tréð sem við auðvitað gerðum og nú er bara að sjá hvort það virki.

Þessir tveir dagar í Puttapartí voru æðislegir og sýndi Sigrún okkur allt sem hægt er að sjá á svo þeim tíma í þessum litríka bæ. Eins og venjulega átti hið fornkveðna ÖRNK spakmæli við: Time is fun when you're having flies.

Hér eru myndir úr ferðinni.

mánudagur, 15. janúar 2007

Jólalautarferð Ashanilaya

Í gær var haldið í árlega jólalautarferð Ashanilaya og við skötuhjú flutum með. Ferðin skiptist í fernt: rútuferðin úteftir, pikk-nikk í fuglafriðlandi, heimsókn í hindúa hof og rútuferðin til baka. Með í för voru spariklædd og skælbrosandi börn frá munaðarleysingjahælinu og fátækrahverfum í kring, soðin grjón í stórum stömpum, þrjátíu vatnsmelónur, starfsmenn og tveir útlendir draugar.

Ferðinni var fyrst heitið í fuglafriðlandið Ranganathittu. Á leiðinni þangað sungu börnin hástöfum og kepptu sín á milli í nýjustu Bollywood dönsunum. Þegar við áðum hentust þau út og héldu rakleitt að sölubásunum til að kaupa gos, snakk og tyggigúmmí. Við Baldur fengum hins vegar kókoshnetuvatn að drekka og masala dosa að borða.

Hópmynd

Vinkonuhópurinn
 
Þegar við komum á áfangastað stukku börnin á melónurnar og tóku að bera þær niður í skuggsæla laut þar sem við pikk-nikkuðum. Við fórum líka í bátsferð um vatnið og sáu þar fugla og einn stilltan krókódíl. Í hvert sinn sem við munduðum myndavélina kváðu við köll: Aunty, aunty, take picture! Oncle, oncle me, me!

Gaman á vatninu
 
Tígurlegur
 
Eftir fuglaparadísina héldum við að hindúa hofinu Sri Ranganathaswamy. Á meðan við skötuhjú skiptumst á að fara inn í hofið (annað þurfti að passa skó og töskur), hlupu krakkarnir inn í hofið og út aftur og tóku eftir það til við að prútta við sölumennina um póstkort, útskorna muni og leikföng.

Á leiðinni heim sátum við í síðan í forsælunni og nutum þess að finna svalann sem fylgir sólsetrinu. Til að drepa tímann lékum við við krakkana (þeim fannst skemmtilegast að beina rauðum laser geisla á nefið á Baldri) og virtum fyrir okkur sveitir og landsbyggð Indlands. Þannig urðum við til að mynda vitni að upphafi hátíðarinnar Pongal þar sem beljur eru skreyttar (máluð horn með bjöllum) og fólk safnast í kringum þær, ber trommur og syngur þeim til heiðurs. Mér finnst við ættum að gera eitthvað svipað við okkar beljur, þær eru svo sætar og blíðar að þær eiga það alveg skilið.

Myndir úr ferðinni má finna hér.

föstudagur, 12. janúar 2007

Robertson House

Ég bý í húsi sem gengur undir nafninu Robertson House, sennilega af því að það stendur við Robertson Road í Frasertown. Húsinu deili ég með strákum frá eftirfarandi stöðum: Bandaríkjunum, Frakklandi, Hollandi, Hong Kong, Kanada, Tyrklandi og Þýskalandi.

Herbergisfélagi minn er frá Frakklandi og gengur sambúðin ákaflega vel. Hann sagði mér um daginn að hann hefði kviðið því að fá herbergisfélaga en þegar smáreynsla var komin á dæmið sá hann að ég er ekki ropandidrekkabjórprumputýpan og var hann því feginn.

Stemningin í húsinu er almennt mjög góð og er svolítið fyndið að sjá hvað piltarnir eru orðnir góðu vanir. Það kemur nefnilega kona daglega og vaskar allt upp, þurrkar af, sópar, skúrar og setur allt á sinn stað. Ljóst er að sumir munu eiga erfitt með að láta þessi aukalífsgæði lönd og leið þegar þeir flytja frá Indlandi aftur.

Húsið er rúmgott og á þakinu eru svalir þar sem mér gefst færi á að stunda mína líkamsrækt í friði, sippa eins og ég eigi lífið að leysa, gaman af því.

miðvikudagur, 10. janúar 2007

Bókaormar

Eins og flestir vita erum við Ásdís bókaormar í meira lagi og vill svo til að í Bangalore eru flottar bókabúðir. Ein þeirra selur notaðar bækur og heitir einmitt Bookworm. Það er að mínu mati draumabúð bókaorma. Þar er að finna stafla af bókum upp um alla veggi í akkúrat mátulega reglulegri óreiðu.

Bækur eru hlutfallslega dýrar miðað við annað hér en það skiptir okkur ekki sérlega miklu máli þar sem við höfum það markmið að þyngja töskur ekki um of. Algengt verð eru 250-400 rúpíur eða 400-600 krónur. Þrátt fyrir dæmalausan sjálfsaga og fögur fyrirheit lúta bókaormar nú bara ákveðnum náttúrulögmálum sem seint verður breytt og því slæðist alltaf ein og ein bók með heim.

þriðjudagur, 9. janúar 2007

Heimilið er þar sem sængin er

Eins og kom í ljós á fyrsta degi okkar í Bangalore tíðkast ekki að kynin gisti í sama húsi, hvað þá sama herbergi. Aiesec í Bangalore gerði víst tilraun með það á sínum tíma en kvartanir frá nágrönnum, sem kváðust fá fyrir brjóstið við að sjá pör kyssast á svölunum, urðu til þess að bundinn var endir á þá tilraun. Fyrir vikið búum við Balduro mio í sitthvoru lagi í fyrsta skipti í tæp sex ár.

Ég verð nú að viðurkenna að ég varð frekar pirruð þegar þetta kom í ljós enda höfðum við pakkað niður með rýmissparnað í huga og í þeirri trú að við byggjum saman allan tímann. Þannig vorum við aðeins með einn sjampóbrúsa, eina kroppasápu, eina túpu af body lotion og einn tannbursta (nei djók).

Núna aftur á móti er ég farin að hafa lúmst gaman af þessum sporum sem við skötuhjú erum í. Húsið sem ég bý í hefur öryggisvörð sem hleypir engum inn nema leigendum sem eru allt stelpur, herbergið mitt hefur sturtu sem ekki virkar og heita krana sem hleypir út óheitu vatni. Herbergisfélagar eru tveir: ein indversk stelpa sem kemur heim um miðjar nætur og sefur um miðjan daginn og svo indversk stelpa sem róterast, á fjórum dögum hafa þrjár mismunandi stelpur gist í herberginu. Þess fyrir utan eru allir leigendur mjög einangraðir í sínum herbergjum og aldrei hræðu að finna í sameiginlega rýminu.

Af þessum sökum eyði ég öllum frítíma mínum heima hjá Baldri. Eftir vinnu fer ég rakleitt til Baldurs, þar borðum við og sósjalíserum við aðra Aiesecera og þegar kominn er háttatími fylgir Baldur mér heim eins og sönnum herramanni sæmir. Þar býður mín síðan það eina sem skiptir mig máli: sængurverið mitt sem ég get bómullarperrast með og rósótta teppið sem ég prúttaði niður í 250 rúpíur.

mánudagur, 8. janúar 2007

Fyrsti vinnudagurinn

Ég mætti til fyrsta indverska vinnudagsins í dag og virðist hafa lifað það af :0)

Sami bílstjórinn og sótti okkur Baldur á rútustöðina koma og skutlaði mér í vinnuna. Það er reyndar hefð fyrir því að fulltrúi frá Aiesec komi með þennan fyrsta dag en mér stóð það einhverra hluta vegna ekki til boða. Ég grét það nú reyndar ekki mjög sárt.

Ég er að vinna hjá frjálsum félagasamtökum (NGO) sem kallast MASARD. Þau hafa á sínum snærum munaðarleysingjahælið Ashanilaya, styðja fátæk börn úr slömmunum og veita fólki smálán til að koma sér upp smáviðskiptum eins og götusölu. Stofnandi og aðalsprautan er Dr. J.L. Fernandes sem einmitt er nýi yfirmaðurinn minn.

Á þessum fyrsta degi bauð Fernandes mér í hádegismat á hóteli í grennd við skrifstofuna, en MASARD er með aðsetur í Mittel Towers á M.G. Road, háhýsi sem hefur enga 13. hæð. Mér leið eins og Hollywood stjörnu í þessum hádegismati því ég var sérstaklega beðin um að skrifa ummæli um upplifunina í þartilgerða bók.

Eftir hádegismat sat ég á spjalli við samstarfskonur mínar tvær, önnur er Elizabeth og hin er Asha. Þær vinna á skrifstofunni við að svara í síma og fara í sendiferðir og þess á milli kíkja þær í slömmin og að huga að börnum þar. Mitt starf verður að safna styrkjum fyrir samtökin, uppfæra heimasíðuna, útbúa fréttabréf og heimsækja munaðarleysingjahælið. Ég vona að nái að gera þetta allt, bæði er þetta stuttur tími og síðan er ég þegar búin að fá nasaþef af hægaganginum sem indverskar stofnanir eru þekktar fyrir.

laugardagur, 6. janúar 2007

Lent í Bangalore

Þá erum við komin á áfangastaðinn okkar, Bangalore, og hér verðum við næstu átta vikurnar. Við komum hingað í fyrradag ferðaþreytt og rykug eftir 13 tíma skrölt í næturrútu. Í svona næturrútum er hvorki klósett né farangursrými en þar eru kojur og kakkalakkar, æði.

Það þýddi að við sváfum með farangurinn til fóta og urðum að sofa laust til að missa ekki af pissustoppunum. Í einu þeirra náðum við að vakna og hlaupa í runna við veginn til að pissa. Það gekk reyndar ekki þrautarlaust því lífsglaður hundur vildi endilega leika og gerði ekki annað en ráðast á lappirnar okkar. Ekki nóg með að það var mið nótt og við nývöknuð og alveg á leiðinni í háttinn aftur heldur dundi viðvörun í höfðinu á mér: hundaæði. Ég var í fyrsta og eflaust ekki seinasta skiptið þakklát fyrir að hafa spreðað í bólusetningu gegn hundaæði.

Annað sem gerði þessa næturferð eftirminnilega var kuldinn. Ég hafði búið mig undir svefnleysi af völdum hristings en þegar til kastanna kom var það kuldinn sem nísti inn að beini. Um miðja nótt þegar hvað kaldast var varð ég að gjöra svo vel og klæða mig í alla boli og peysur sem ég fann, breiða yfir mig handklæði, binda slæðu um höfuðið og kúra mig þétt að Baldri.

Þegar við komum svo til Bangalore tók á móti okkur bílstjóri sem keyrði okkur á gistiheimilið sem Aiesec hafði reddað okkur. Það kom í ljós að öll gistiheimili sem Aiesec hefur yfir að ráða eru kynjaskipt enda lítið um að pör komi í starfaskipti á þeirra vegum. Svo við gistum á sitthvoru heimilinu í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá hvort öðru.

Restin af þessum fyrsta degi fór í að hitta fulltrúa frá Aiesec, Archie, sem fór með okkur í auto (léttivagni) niður í bæ, sýndi okkur M.G. Road og helstu verslunarmiðstöðvar, bestu bókabúðina og útvegaði okkur kortabók og símanúmer.

Indversku símanúmerin gilda meðan við erum í Bangalore.
Ásdís: +91 99 86 60 96 30
Baldur: +91 99 86 60 96 31

fimmtudagur, 4. janúar 2007

Þægileg aðlögun

Þá er dvölin okkar hér í Goa að renna sitt skeið, í kvöld tökum við næturrútuna til Bangalore. Þó vissulega sé spennandi kafli framundan er ég treg til að yfirgefa Goa því hér höfum við haft það svo gott. Við erum búin að njóta þess að slappa af, lesa góðar bækur og borða góða matinn en Goa er einmitt rómuð fyrir sérstaklega gómsæta matseld, blöndu af portúgölskum og indverskum áhrifum (enda Goa fyrrum portúgölsk nýlenda).

Ekki nóg með að við höfum notið þess að vera í fríi upp á hvern einasta dag heldur hafa þessar tvær vikur verið ansi þægileg aðlögun að Indlandi. Nú er maður búinn að venjast því að úða á sig flugnafælu við sólsetur, taka alltaf með sér klósettpappír hvert sem maður fer, þurfa að prútta um verð á flestu og vera alltaf með starandi augnráð föst við sig. Þó svo að Goa sé vissulega mild útgáfa af Indlandi vona ég að þessi lærdómur sem við höfum dregið komi að góðum notum í Bangalore.

Ég minni á myndaalbúmið, myndir frá Palolem eru komnar á netið og þær má nálgast hér.

þriðjudagur, 2. janúar 2007

Water from cock

Í morgun kom Ayurveda nuddari hótelbúðanna og spurði hvort við vildum ekki fá nudd. Þegar við sögðum honum að við treystum okkur ekki í það vegna nýliðinna veikinda tók hann að gefa okkur góð ráð við niðurgangi.

Hann mælti t.d. með því að fasta heilan dag og drekka aðeins vökva eins og svart te með sítrónu eða mjólkina úr kókoshnetu. Þetta síðastnefnda vafðist eitthvað fyrir Baldri því hann kinkaði bara undrandi kolli á meðan ég lét í ljós ánægju við tilhugsunina (enda um að ræða sætari drykk en svart te með sítrónu).

Þegar nuddarinn góði var á braut sat Baldur dágóða stund þögull og hugsi. Þegar við fórum síðan að ræða ráð nuddarins gat hann ekki orða bundist og fór að velta fyrir sér upphátt af hverju maðurinn hefði mælt með við okkur að drekka vatnið úr krananum. "Water from coconut" varð í meðförum Baldurs að "water from cock", og þó honum þætti skrýtið að ráðleggja útlendingum að drekka kranavatnið fannst honum enn skrýtnar að vísa í það sem water from cock.

Tíbeskar strætóstoppustöðvar

Bók bókanna þessa daganna er að sjálfsögðu Indlandsbókin góða sem við keyptum í fyrrasumar. Þó við höfum gott úrval af öðrum bókum hér á Palolem strönd kíkjum við nær daglega í Indlandsbókina, ýmist til að fá upplýsingar um staðinn sem við erum á eða til að skipuleggja seinni tíma ferðir.

Eitt einkenni svona ferðabóka er að pappírinn í þeim er mjög þunnur. Yfirleitt eru þær nefnilega upp á þúsund blaðsíður og mega ekki vera of þungar í bakboka ferðalanga. Fyrir vikið vilja blaðsíðurnar gjarnan halda hópinn í þeim skilningi að maður flettir oft yfir heila opnu án þess að gera sér grein fyrir því.

Áðan var Baldur til að mynda að lesa mjög háfleygan texta um tíbeska hugleiðslu og lækningaaðferðir og var orðinn mjög uppnuminn. Hins vegar varð honum ansi hverft við þegar hann fletti og hélt lestrinum áfram því textinn hafði skyndilega tapað hátíðleika sínum, misst marks og valdið Baldri vonbrigðum. Það sem Baldur las var: India, with its large Tibetan diaspora, has become a major centre for those wanting to study Tibetan (flett yfir á nýja síðu) bus station.

Ég vildi að allir dagar byrjuðu á svona fyndnum mislestri, ég skellihló nefnilega vel og lengi.

mánudagur, 1. janúar 2007

Fall er fararheill

Ég heilsaði nýju ári skjálfandi úr kulda undir þykku lagi af teppum. Pestin sem Baldur talaði um náði loks í skottið á mér og gerði það að verkum að ég gat ekki farið út að borða munkakvöldverðinn á gamlárskvöld. Til útskýringar þá var munkakvöldverðurinn hugmynd sem var til komin af því hve listarlaus við vorum á gamlársdag og höfðum við hugsað okkur að borða bara hrísgrjón og dahl til að espa ekki magann.

Þrátt fyrir fyrrgreind veikindi get ég þó upplýst að á Palolem strönd var skotið upp miklu af flugeldum, og það löngu fyrir miðnætti og löngu eftir. Mér tókst reyndar að sofna upp úr níu um kvöldið (skjálfandi að kulda) og að vakna rétt fyrir miðnætti til að óska Baldri gleðilegs nýs árs (þá stiknandi úr hita). Ég svaf því áramótin sjálf ekki af mér, bara for- og eftirréttinn.

Í dag er ég öll að koma til og sé fram á að geta fengið mér munkakvöldverð að þessu sinni. Gleðilegt nýtt ár elsku allir!