Ég fékk áttundu afmælisgjöfina mína í dag frá Baldri. Þannig er mál með vexti að jóladaginn næsta verð ég 22 ára og Baldur ákvað í sumar að gefa mér 22 afmælisgjafir í tilefni þess(!!). Í þetta sinn var gjöfin kennslubók í HTML því ég er orðin svo mikið tölvunörd. Fyrsta gjöfin sem hann gaf mér var Mastering FrontPage 2000 og þessi síða er gerð í því forriti. Nú er greinilegt að ég á að fara að bæta við mig vitneskju, gera síðuna flottari og það er frábært. Ég er sko alveg til í að geta fíneserað hana betur en það er takmarkað sem maður getur gert ef maður kann ekki HTML.
Í dag fór ég í viðtal varðandi Mentor-starfið og við sem sóttum um förum á námskeið laugardaginn þarnæsta þar sem verkefnið verður kynnt okkur, sálfræðingur kemur og talar við okkur um erfiðleika sem upp geta komið í samskiptum okkar við börnin og hvernig leysa eigi úr slíkum málum. Þetta hljómar allt mjög spennandi og mér finnst frábært að fá tækifæri til að verða fyrirmynd einhvers barns því út á það gengur þetta verkefni, leyfa börnunum að kynnast eldra fólki sem er þeim góð fyrirmynd.
Leshópurinn Verð að skilja sat sinn fyrsta fund í Odda í dag. Nú orða ég þetta allt mjög formlega en þannig var það alls ekki, þetta líktist helst kjaftaklúbbi en leshópi. Við höfðum einsett okkur að komast yfir lesefni tveggja fyrstu viknanna sem samanstóð af fjórum köflum í bók einni afspyrnu leiðinlegri. Okkur tókst með naumindum að komast yfir fyrsta kaflann. Allur tíminn fór nefnilega í harmakvein, við skiljum ekki efnið o.s.frv. en þetta hjálpaði nú samt. Nú erum við allar búnar að fá útrás fyrir gremju okkar í garð ákveðinna kennara, námskeiða og bóka og næst þegar við hittumst munum við væntanlega (vonandi) vera afkastameiri.
Annars var lyftingardagur í dag og Baldur kom með mér niðrí Háskólagym því Biggi komst ekki á æfingu, var að fara í kórferðalag. Það var bekkpressan í dag í annað sinn á ævi minni og ég bætti mig um 25%, Baldur var mjög stoltur af mér og þá varð ég það líka. Hann eyddi reyndar mestum tíma í að spotta einhvern gaur í bekknum og gat ekki á sér setið að kenna honum réttu handtökin: Nei, settu hælana í gólfið, þannig nærðu að spyrna þér, nei sko það er betra að stöngin sé hér en ekki..... Hann er ótrúlegur, hann er hinn sjálflærði einkaþjálfari.
Eftir lyftingar var það pizza hjá pabba. Reyndar var pabbi út í sveit, Yngvi Páll var að þjálfa held ég svo Andri var bara einn heima. Við horfðum á uppáhaldsþáttinn minn, Frasier, sem Andri hafði tekið upp. Stundum er leiðinlegt að hafa ekki sjónvarp en það er samt þess virði bara svo lengi sem Andri tekur upp alla Frasier þættina!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli