Við ætluðum að vera voða sniðug í gær og fara snemma að sofa í eitt skipti. Klukkan 21:30 stóð ég upp frá bókunum, tannburstaði og ætlaði að vera sofnuð um tíu leytið. Örlögin sáu hins vegar til þess að svo fór ekki. Þegar ég kom inn í forstofu eftir tannburstun sá ég einhverja hreyfingu út undan mér, nálægt skógrindinni og þessari hugsun flaug í gegnum huga minn: Nei sko hamsturinn er sloppinn! Þetta var svona með fáránlegri hugsunum og ég held ég hafi hugsað hana í gríni upphaflega en það entist ekki lengi því þetta var í raun og sann Fríða Sól í göngutúr á gólfinu. Búrið hennar er hinsvegar alltaf harðlokað.
Ég leit því á búrið, svo á hamsturinn (sem stóð á afturlöppunum og glápti ámátlega á mig), aftur á búrið sem var harðlokað og hugsaði með mér: Guð þetta er annar hamstur. Athugið að þetta var allt hugsað í miklu paneki og þá er maður hvað síst skynsamur. Athugið líka að allt þetta gerðist á örfáum sekúndubrotum. Eftir að hafa útilokað að þetta væri annar hamstur datt mér í hug mús. En nei, þetta var hún Fríða Sól sama hvað ég reyndi að neita því. Ég tók hana upp, titrandi og skjálfandi, fegin að hafa ekki stigið á hana og hljóp með hana inn í stofu til Baldurs sem var í mestu makindum að rabba við Stellu á netinu. Til hans kom ég óðamála með hamsturinn í annarri hendi og sagði: Sjáðu hamsturinn, er þetta ekki Fríða okkar? Hún slapp úr búrinu, hvernig má það vera??! Þá var farið í spæjaraleik, Sherlock Holmes búningurinn þefaður uppi og fljótlega lá orsökin augljós fyrir: gat á botni búrsins.
Hamstrar eru nefnilega ekki nagdýr fyrir ekki neitt. Fríða okkar hafði nagað gat á botninn, ekki mjög stórt en samt nóg til að troða sér út um það, flaug þaðan niður af hillunni og lenti á gólfinu og fékk sér síðan þann labbitúr sem ég reif hana svona líka fruntalega úr þegar ég fann hana. Allt þetta varð til þess að við fórum miklu seinna að sofa heldur en við ætluðum. Hvers vegna? Nú, við urðum að finna eitthvað til að setja fyrir gatið á búrinu svo hamsturinn slyppi ekki aftur út og það tók drjúgan tíma. Það varð að vera eitthvað sem hamsturinn gæti ekki nagað og það er ansi fátt nema þá einhver málmur. Að lokum fundum við lausnina: Plastgrind teipuð við búrið. Nú lítur litla, sæta, bleika hamstrabúrið út eins og grill á bíl.
P.s. Ég notaði tækifærið og lagaði hamstrahlaupakúluna sem brotnaði um daginn. Ég teipaði hana bara saman og það kemur vægast sagt mjög illa út svona útlitslega séð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli