mánudagur, 28. maí 2012

Sunnudagur á mánudegi

Það er algjör sunnudagur hjá mér þennan annan dag Hvítasunnu. Það eru búnir að vera gestir hjá okkur alla Hvítasunnuhelgina, foreldrar og yngsta systir annars sambýlingsins. Mikið fjör og mikið um að vera. Í dag fæ ég loksins smá pásu, allir eru farnir út að sinna mikilvægum erindum: Petra og Lisa fóru í fjallgöngu með nesti og Baldur, Alexander, Eric og Johanna fóru að fiska.
Ég er hins vegar heima að drekka Lime Mint te frá Yogi Tea og skoða vintage kjóla og fallega liti og form á netinu. Svo bíður mín líka iitala bæklingur frá Finnlandi, ég er reyndar búin að blaða í gegnum hann einu sinni en það er ekki nóg, verð að gera það aftur.

Ég hef félagsskap af Edith Piaf og gulum fíflum, ekki amalegt það. Og kisan er á pallinum okkar, situr á uppáhaldsstaðnum sínum sem er við svalahurðina og horfir inn til mín.

Skilaboð frá Yogi Tea: The path is the destination.

Eftirmiðdagssnarl: Hrökkbrauð með norsk gräddost og kavíar, og eplasafi.

Staðreynd: Tveir mánuðir í dag í brottför frá Lovund.

föstudagur, 25. maí 2012

miðvikudagur, 23. maí 2012

Texmex súpa


Þegar ég var að vinna á Ferðaskrifstofu Farfugla fórum við stelpurnar stundum í hádeginu á föstudögum á kaffiteríu Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Þar var nefnilega oft í boði texmex súpa með öllu tilheyrandi og hún var ansi góð.

Síðasta sumar, eftir tæplega ársdvöl í Indlandi og þar með tæpt ár af indversku fæði, fórum við skötuhjú í endurhæfingu í franskri sveit. Sú endurhæfing tók strax á sig mynd næringarbúða þar sem við vorum mögur eftir magaveikindi sem hrjáðu okkur á lokasprett Indlandsdvalar. Og hvar í heiminum er best að vera og mega borða eins og mann lystir í því skyni að þyngjast og styrkjast? Já, algjörlega rétt, auðvitað í Frakklandi!

Ég var svo áfjáð í að elda eitthvað annað en það sem við höfðum verið að borða í Indlandi að á fyrstu dögunum okkar í Bretaníusveit skellti ég í Texmex súpu. Vissulega eru baunir, chilli og cummin í uppskriftinni, en að öðru leyti minnir hún ekkert á það sem fæst í Indlandinu góða.

Hugsanlega kemur það til af því að súpuna eldaði ég á fallegum sólardegi að ég tengi hana við sumar. Og kannski að litadýrðin hafi eitthvað með það að gera líka því súpunni fylgir marglitað meðlæti sem lífgar upp á tilveruna og fær sál og líkama til að syngja í kór. Allavega, þá finnst mér hún tákngervingur ljúfu árstíðarinnar og ég bíð spennt eftir því að fá upp í hendurnar tilefni og veður sem hæfir súpunni. Kannski að Hvítasunnan sé það? Veðrið er allavega búið að vera nógu gott þessa vikuna, heiðskír bongoblíða upp á hvern einasta dag

Hér kemur svo uppskriftin:
2 hvítlauksrif
2 rauðlaukar
2 tsk cummin
½ tsk cayenne pipar
¼ tsk chilli duft
1 msk papríkuduft
2 tsk púðursykur
1 msk tómat purée
½ tsk oregano,
2x 400g dósir nýrnabaunir
1x 400g dós niðursoðnir tómatar
900 ml vatn

Meðlæti: Rauðlaukur, papríka, avokadó, ferskur kóríander, tortilla flögur, sýrður rjómi, rifinn ostur

Steikið laukinn í olíu í örfáar mínútur eða þar til hann hefur náð að mýkjast. Hrærið cumini, cayenne, chilli og papríku saman við laukinn og látið krauma í u.þ.b. mínútu. Bætið við pýðursykri, purée og oreganó og hrærið vel saman. Henda nýrnabaunum saman við vatnið í stórum potti ásamt niðursoðnum tómötum. Setjið lok á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 20 mínútur. Súpan látin kólna aðeins en síðan maukuð með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Borin fram með rifnum osti, blöndu af grænmeti, sýrðum rjóma og tortillum.

Til að bera enn frekari gleði fram með súpunni mæli ég með litríkum dúk til að dekka borð, skemmtilegum súpuskálum og fallegum drykk í könnu. Og blóm í vasa og jafnvel kerti í ljóskerjum myndi ekki skemma fyrir. Panta svo fallega birtu og still veður og þetta er unnið spil. 

laugardagur, 19. maí 2012

The Road To Ladakh

Untitled

Snemma morguns

Untitled

Blundur í rútunni

Næsthæsti fjallvegur heims

Blómin í fjöllunum

Sætur og saklaus að sjá

Heimasætan

Sólblóm

Glæsilegt útsýni

Sólarlagið nálgast


Það er með hálfgerðum trega og söknuði að ég set út seinustu myndirnar okkar frá Indlandi. Leh í Ladakh og Nýja Delhi voru síðustu áfangastaðirnir í tæpri ársferð okkar um Indland og nú þegar myndirnar eru komnar í albúm á flickr er þeim kafla endanlega lokið. Auðvitað lauk honum í júlí á síðasta ári þegar við flugum frá Delhi til London og þaðan yfir Ermasundið til Bretaníu, en þegar maður klárar að yfirfara myndirnar kemur yfir mann mjög opinber tilfinning, eins og maður hafi fengið tilkynningu í pósti frá Ríkisstofnun ferðalanga um að hérmeð sé þessu Indlandsbakpokaferðalagi 2010-2011 endanlega lokið. 

(Samkvæmt þessari lógík er hins vegar bakpokaferðalaginu 2006-2007 um Suðaustur Asíu ekki lokið því ég á enn eftir að setja inn myndir frá Ankor Wat í Kambódíu!)

Ferðin til Ladakh var vægast sagt ævintýraleg. Við keyptum okkur far með lítilli 13 manna rútu og vinalegum nepölskum rútubílstjóra. Við vorum tíu saman í þessu ævintýri: bílstjórinn, við Baldur, par frá Nýja-Sjálandi og breskur vinur þeirra, par frá Búlgaríu, Lawrence frá London og Ryan, ungur vínbóndi frá Kaliforníu.

Undir venjulegum kringumstæðum tekur þessi ferð tvo sólarhringa með einni gistinótt í fjöllunum. Á fyrsta deginum lentum við hins vegar strax í miklum hremmingum: aurskriða hafði fallið á veginn á leiðinni yfir fyrsta fjallskarðið og við sátum föst í 12 tíma á sama staðnum í langri röð af rútum, vörubílum og smábílum. Ég hef aldrei áður verið eins nálægt því að efast um hæfileika mína til að halda sönsum eins og á þessum 12 tímum. Fyrir hverja hundrað metra sem við mjökuðumst áfram urðum við að bakka tvö hundruð. Indverski herinn var nefnilega staddur þarna í tilefni þess að verið var að flytja herstöðvar milli staða og hertrukkarnir þeirra því fastir rétt eins og aðrir, og hermennirnir höfðu ekkert þarfara að gera en að skipta sér af rútum og ferðalöngum.

Við sátum föst frá hádegi til miðnættis með enga salernisaðstöðu. Hins vegar vantaði ekki upp á matarföng því jafnóðum og stefndi í teppu og stopp höfðu sölumenn komið upp litlum kerrum á hjólum og hafið sölu á núðlusúpum, kexi og gosi. Þá var erfitt að festa blund inn í litlu rútunni því sölumenn sem vildu selja manni saffran voru sífellt að banka á rúðurnar og bjóða manni alveg ekta saffran á kostakjörum. Seinnipart dags tók að rigna og fyrr en varði var vegurinn sem rútan stóð á orðinn að einu forarsvaði. Undir miðnætti, þegar blaðran gat ekki haldið vatni lengur, varð ég að ösla drulluna í Teva sandölunum mínum með Baldur mér við hlið sem siðgæðisvörð. Til að kasta af sér vatni varð maður nefnilega að fara út í vegkant og hafa einhvern hjá sér með teppi til að mynda skjól fyrir bílljósum og ótrúlega forvitnum Indverjum sem virtust vera í stöðugum gönguferðum meðfram veginum.

Þessa fyrstu nótt af ferðinni sváfum við hálfa nóttina í rútunni og hálfa nóttina á ómerkilegu hóteli sem við rétt náðum að komast inn á um blánóttina með því að vekja upp starfsfólkið sem svaf á dínum í lobbíinu. Fyrir vikið vorum við öll frekar illa sofin þegar við lögðum aftur í hann snemma dags á öðrum degi, og sérstaklega bílstjórinn okkar sem hafði sofið í rútunni og náð þriggja tíma svefni. Algjör bilun!

Á öðrum degi miðaði okkur betur en þó vorum við stopp hér og þar á leiðinni vegna aurskriða sem verið var að ryðja burt. Landslagið var grátt, brúnt og hrjóstrugt með einsdæmum. Þessa aðra nótt sömdum við við bílstjórann um að stoppa í örlitlum bæ með kannski átta hirðingatjöldum til að ná einhverjum svefni. Við fengum gistingu í tjaldi einnar fjölskyldunnar, svolgruðum í okkur núðlusúpu og heitu tei og vorum komin í háttinn rétt upp úr átta og komin á fætur í dögun. Við vorum öll svo þreytt eftir erfiði síðustu daga að það heyrðist ekki múkk í okkur alla nóttina, jafnvel þó við Baldur svæfum saman í 90 cm rúmi og restin af hópnum svaf saman í einni kös á 3ja-4ra metra breiðu rúmi. Það var eins og þarna svæfu steinar í stað fólks og kyrrðin í auðninni var algjör.

Á þriðja deginum keyrðum við í gegnum magnaðasta landslagið á leiðinni til Ladakh. Við fórum framhjá hirðingjum sem voru að reka jakuxahjarðir sínar áfram í morgunsárið og fórum yfir næsthæsta fjallveg heims. Þar stöðvuðum við bílinn til að fara út og upplifa hæðina. Við pössuðum okkur þó á því að fara okkur hægt og ekki spretta út spori til að komast hjá því að fá háfjallaveiki. Þetta var  mögnuð stund sem varð magnaðri þegar byrjaði að snjóa á okkur þennan júlímorgun. Landslagið eftir þennan áfanga var ekki síður dramatískt: þverskorin fjöll og klettar með fjólubláum blæ, grænar ár og gul engi. Við náðum síðan áfangastað okkar stuttu eftir hádegi á þessum þriðja degi ferðalagsins, sólahring á eftir áætlun, útkeyrð og skítug en einhverri ólýsanlegri reynslu ríkari.

Myndirnar úr för okkar til Ladakh og dvöl okkar þar auk mynda frá Lotushofinu í Nýju Delhi er að finna í Ladakh albúminu okkar.

föstudagur, 18. maí 2012

Baldur och Alexander badarNýtt stop-motion myndband til að fagna því að Baldur og Alexander stungu sér í hafið um daginn og urðu kaldir í gegn. Enda kaldir karlar á ferðinni!

Nú fer að koma að mér að stinga tánni í saltan sjó, úff úff.

fimmtudagur, 17. maí 2012

Sautjándi maí

Í dag er 17. maí og þá halda Norðmenn upp á Norges nasjonaldag, en 1814 urðu menn víst sammála um landets grunnlov og fagna þeim áfanga enn vel. Við ákváðum að taka þátt í hátíðarhöldunum og slógumst í för með skrúðgöngunni (barnetog) sem lagði af stað klukkan 11 í morgun frá skólanum. Reyndar má segja að fagnaðarlætin hafi hafist í nótt þegar 10. bekkingarnir, russ, hlupu um alla eyju undir morgun (klukkan fimm í nótt) með flautur og trommur, vekjandi foreldra og kennara. Og mig.

Konur, karlar og börn, allt niður í ungbörn, voru klædd í þjóðbúninga af ýmsum sortum og litum. Konur höfðu fléttað hárið og bundið saman með borða í norsku fánalitunum. Allir barnavagnar höfðu blaktandi fána og hlaupandi börn höfðu fána í hönd. Í broddi fylkingar voru fánaberar og lúðrasveitin og á eftir fyldi prúðbúin restin, veifandi og hlæjandi. Við gengum nokkra hringi um litla bæinn á eyjunni, hrópandi með mjög reglulegu millibili Hipp hipp húrra! og Húrra húrra húrra! Við elliheimilið höfðum við stutt stopp til að syngja þjóðsönginn og hlusta á hljómsveitina blása í stóru lúðrana.

Meðfram göngunni hlupu 10. bekkingarnir, russ, blásandi í flautur og veifandi fána, og tilheyrir það russefeiringen. Við leikskólann stóðu nokkur þeirra við grindverkið þar sem þau höfðu sett upp miða með þessum skilaboðum: Her er det fullt, vi spanderer denne gangen. Svo stóðu þau og dreifðu smokkum til sparibúna fólksins í skrúðgöngunni. Þá höfðu þessi russ farið um eyjuna í skjóli nætur og komið fyrir sams konar skilaboðum á húsum kennara og annarra saklausra eyjaskeggja. Hjá presthjónunum, sem flytja af eyjunni í ágúst, voru skilaboðin Takk for alt, en ekki fengu allir svona sæta kveðju. Utan á húsi eins kennarans stóð: It's not gay if it's a three way og utan á húsi eins af vaktstjórunum okkar í vinnunni var svo hljóðandi einkamálaauglýsing: Singel og spenstig bestefar søker spretten bestemor.

Göngunni lauk við kirkjuna þar sem þeir sem vildu fóru inn til að hlýða á ræðuhöld en aðrir fóru heim í hádegismat. Áframhald verður síðan á hátíðarhöldum í skólanum seinna í dag þar sem fram fer kaffi- og kökusala og almennt mingl.

Hér eru nokkrar myndir úr þessari fjörugu og skemmtilegu skrúðgöngu.


miðvikudagur, 16. maí 2012

Kjúklingabaunir í kókosmjólk


Hér er skemmtileg uppskrift að kjúklingabaunarétti í karrýkókosmjólk. Það er svolítill suður indverskur tónn í þessum rétti sem kemur af kókosmjólkinni. Rétturinn minnir mjög á einn af kjúklingabaunaréttunum í bókinni hennar Sollu, Grænmetisréttir Haugkaupa, en mér finnst að mörgu leyti léttari að henda saman í þennan.

Ég átti ekki kasjúhnetur og þær fást ekki í búðinni á eyjunni og rétturinn kom mjög vel út án þeirra, svo ef maður vill sleppa við þau útgjöld er það vel hægt. Einnig var enginn grænn chilli í boði svo ég bætti einni grænni papríku við og bætti síðan örlitlu af cayenne pipar út í réttinn til að fá þetta sterka.

Hér er síðan smá tips varðandi engiferrótina: best er að afhýða hana með skeið.

Hér er uppskriftin:
2 msk kókosolía
1 laukur
4 hvítlauksrif, marin
 3 sm engiferrót, afhýdd og rifin niður
2 msk Tandoori curry paste (ég notaði reyndar Mild Curry paste)
1 blómkálshöfuð
4 gulrætur
1 grænn chilli (ég notaði græna papríku)
200g kasjúhnetur
200 gr kjúklingabaunir
1 dós kókosmjólk
1 dós niðursoðnir tómatar
1 tsk grænmetiskraftur
1 tsk hafsalt

Ef notast er við ósoðnar kjúklingabaunir verður að leggja þær í bleyti í 24 tíma og sjóða þær síðan í 80-90 mín. Muna að fleyta froðunni ofan af á meðan á suðunni stendur.

Byrjið á því að hita olíuna á pönnu. Laukurinn er saxaður smátt og mýktur í olíunni á pönnunni. Síðan er hvítlaukurinn marinn og bætt út á ásamt ferska chilli piparnum og engiferrótinni. Næst er Tandoori curry paste bætt út á. Látið malla á pönnunni í 5-7 mín. Þá er niðurskornum gulrótum og blómkáli bætt á pönnuna og steikt í 6-8 mín. Því næst eru það kasjúhnetur, kókosmjólk, tómatarnir og kjúklingabaunir, ásamt grænmetiskraftinum og saltinu, og allt látið malla í 30 mín eða þangað til grænmetið er mjúkt undir tönn.

Gott er að bera réttinn fram með hýðisgrjónum og góðu mangóchutney.

mánudagur, 14. maí 2012

Kettirnir á LovundEins og ég hafði lofað þá er hér smá myndasería af köttunum á Lovund. Hér eru þrír kynntir til sögunnar: Þessi efsti er nýrakaður og fyrir vikið sérkennilegur útlits, en ósköp kelinn. Sá brúnröndótti næst efst er kötturinn hennar Sylviu dýralæknis og heitir Sylvester. Þessi á neðstu myndunum kom hlaupandi á móti okkur Baldri og vildi fá klapp og kel, klapp og kel og klapp og kel.