föstudagur, 30. nóvember 2012

Jólasmá

Þá er ég aðeins farin að setja upp skraut fyrir jólin, bara smá hér og þar. Jólafjölskylda sem við fengum í Ikea hangir nú í eldhúsglugganum, mandarínur eru étnar í öll mál og (því er nú verr) piparkökur líka, og með heitu kakói á kvöldin.

Að öðru. Fórum að sjá hina frábæru sýningu Sögu þjóðar í Borgarleikhúsinu í gær. Mæli með'enni.

Jólapabbi
 
Jólastrákur og Jólastelpa
 
Mandarínukassi
 
Jólamamma
 
Mandarínur
 
Kakó og piparkökur

miðvikudagur, 28. nóvember 2012

Chana masala

Chana masala 
Ég er búin að vera með nefið ofan í bókinni The Inheritance of Loss eftir Kiran Desai undanfarna daga. Því fylgir mjög svo fyrirsjáanlegt hungur í indverskan mat.

Ég fór og fann glósubækurnar okkar úr Indlandsferðinni 2010-2011 og fletti upp á uppskriftunum sem ég páraði niður þegar við sóttum matreiðslunámskeið í Rishikesh fyrir tveimur árum. Mig langaði nefnilega alveg ferlega í chana masala, sem er kjúklingabaunaréttur, gómsætur mjög.

Í tilefni þess að ég ætlaði að elda indverskt opnuðum við indverska kryddpakkann sem við sendum frá Dharamsala í júní fyrir rúmu ári. Hugsa sér, bara rúmt ár síðan! Mér finnst eins og það hafi verið fyrir ári og öld. Við fórum þá til kryddsalans Harry og konu hans, bæði mjög hrum og virtust ævagömul. En svona ævagömul og eldhress, sem er held ég bara besta kombóið.

Harry heimtaði að ég tæki mér sæti í eina stól pínulitlu búðarinnar á meðan hann afgreiddi pöntun okkar. Afgreiðslan fór þannig fram: Baldur bar upp enska heitið á kryddinu sem var á listanum okkar, Harry tók þá fram lista með heiti helstu krydda þýdd yfir á þrjú tungumál (ensku, hindi og tíbetsku) og í sameiningu fundu þeir umrætt krydd. Þá kinkaði Harry kolli og hripaði hjá sér á hindi heiti kryddsins. Þess ber að geta að listinn var langur, enda Indland land kryddanna ef eitthvað.

Svo kom Harry mér á óvart með því að stilla sér upp á mynd með mér og taka þétt utan um mig. Það kom svolítið á mig, en sést það nokkuð á myndinni?

Á matreiðslunámskeiði Boðið heiðursætið Óvænt faðmlag!

Við höfðum pakkað kryddinu inn rækilega, vafið hvern smáan pappapokann inn í plastfilmu, vafið svo öllum smábögglunum saman í einn vöndul, plastað kirfilega, sett í einn poka og svo annan. Urðum nánast að brjótast inn í kryddin okkar. Þegar við opnuðum svo herlegheitin lukum við upp fyrir ilmi og í allan dag lyktaði heimilið eins og indverskur markaður, nú eða litla búðin hans Harry.

En vindum okkur í uppskriftina áður en ég fer að plana fleiri ferðir til Indlands! Hér er allt eins og okkur var kennt af meistaranum í Rishikesh, nema hvað ég dró aðeins úr olíunni, nóg er nú samt.

Hvað:
80 g olía
1 tsk broddkúmenfræ (cuminfræ)
3 rauðlaukar (smátt skornir)
2 tsk rifið engifer
1 tsk rifinn hvítlaukur
1 tsk túrmerik
1 tsk salt
1 1/2 tsk chhole ka masala (chana masala krydd)*
5 ferskir tómatar (hakkaðir í blandara)
200 ml vatn
500 g soðnar kjúklingabaunir
1/2 tsk garam masala
ferskt kóríander

Hvernig:
Hitið olíu á pönnu og þegar olían er heit bætið út í hana kúmenfræjum, rauðlauk, engifer og hvítlauk. Hitið við vægan hita og hrærið í af og til. Þegar þessi krydd- og laukblanda er orðin vel brún (tekur tíma) bætum við túrmeriki, salti og chhole ka masala út á. Því næst bætum við hökkuðum tómötunum og vatninu út í og leyfum suðu að koma upp. Þegar suða hefur náðst bætum við kjúklingabaununum við og hrærum saman. Garam masala bætt út í og hrært. Látið malla í 10 mín.
Fínt söxuðum kóríander dreift yfir þegar borið fram. Þennan rétt er kjörið að bera fram með grjónum en einnig er vinsælt að bjóða upp á gott flatbrauð, t.d. garlic butter naan.

Hér eru svo myndir frá dvöl okkar í Rishikesh, svona fyrir þá sem vilja fá sjónrænt bragð líka.

Chana masala hráefni Kryddið Broddkúmenfræ

*Chana masala er kryddblanda einkum ætluð kjúklingabaunauppskriftum. Þar sem ég keypti mitt chana masala í Indlandi veit ég ekki hvort það fáist á landinu svo ég læt fljóta með helstu innihaldsefni chana masala kryddblöndunnar, þá er í það minnsta hægt að líkja eftir henni að einhverju marki: Kóríander, þurrkað mangó, pomgranate fræ, chili, broddkúmen, musk melon, svartur pipar, svart salt, fenugreek lauf, kardimomma, mynta, múskat, þurrkað engifer, kanill, lárviðarlauf. 

mánudagur, 26. nóvember 2012

Helgin sem leið

Þetta var sannarlega jólahelgi helgin sem leið!

Á laugardaginn fór ég og tók jólamyndir af litlu skáfrænkunum í og við Ásmundarsafn. Það var svakalega hálka á vegum og því tóku reglurnar við myndatökuna mið af því:

Leika sér og hafa gaman
Engin gervibros
Bannað að detta á bossann

Þess ber að geta að þær duttu báðar á bossann og ljósmyndarinn tók líka nokkra góða spretti á svellinu, svona óvænt og óglæsilega.

Þegar við vorum orðnar kaldar af því að máta okkur við styttur og hlaupa um grasbalann við safnið fórum við inn og hlýjuðum okkur. Fengum piparkökur og lékum við mandarínur. Sú eldri heimtaði að fá að sýna mér hvísluvegginn og svo sátum við þrjár og hvísluðust á um prumpusvín og önnur dýr merkurinnar.

Á sunnudaginn tókum við Baldur strætó upp í Ikea og gengum frá Góu yfir hraunið til að komast í stórverslunina. Það er heppilegt hvað hraunið er hrufótt, hálkan bítur bara ekkert á það. Í Ikea vorum við að jólajólast eins og allir hinir, fengum meira að segja að smakka nýbakaðar engifersmákökur og það var eins og að stíga inn í barnæskuna.

Enduðum svo sunnudaginn á því að kíkja í Bíó Paradís á myndina Safety Not Guaranteed. Við skötuhjú vorum ekki alveg á einu máli um ágæti þeirra myndar en það er alltaf gaman að fara frítt í bíó og narta í vel saltað popp.

En hvað er annars með veðrið, á ekkert að fara að snjóa hérna?

föstudagur, 23. nóvember 2012

Í blóma

Ég kynni:

Amaryllis

Í blóma
Svo fallegur
Takið sérstaklega eftir glimmerskreyttum blöðunum
Ég kom þar hvergi nærri
Á ekki einu sinni glimmer
(held ég)
En amaryllisinn, hann á glimmer
Hann er tilbúinn á djammið frá náttúrunnar hendi
En á þessu heimili tölum við reyndar um að vera tilbúin í leikhúsið

Amaryllis
 
Amaryllis
 
Amaryllis
 
Amaryllis
 
Amaryllis

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

Baldurs sviti, púl og tár

Baldur réð mig sem ljósmyndara í dag og vildi að ég kæmi með sér út á Klambratún að mynda hann í hinum ýmsustu æfingum. Hann klifraði í kaðli, sveiflaði fótunum, sveiflaði höndunum, fór í V, fór í kollhnís milli hangandi handleggja og gerði armbeygjur út í hið óendanlega.

Svo varð myndavélin batteríslaus og þá urðum við að fara heim, sem mér þótti ekkert voðalegt því mér var orðið kalt, en Baldur brennibolti skildi ekkert í því að vera kalt, hann var sjálfur funheitur.

Tarzan
 
Hreyfður
 
Fótalaus
 
V
 
Snúningur
 
Untitled
 
Vinkil upphífa
 
Þröngar armbeygjur

sunnudagur, 18. nóvember 2012

Bæjarferð með markmiði

Ég vaknaði í gærmorgun og það eina sem mig langaði að gera var að lesa. Lesa lesa lesa. Ég tók mér pásu frá lestri núna í meira en mánuð og ég get alveg sagt að sú tilraun er ekki tilraunarinnar virði. Páraði niður í miklum flýti bækur sem mig langaði að lesa, sagði svo við Baldur að við værum að fara í göngutúr, langan og strangan, "taktu bakpokann með!"

Það var ferlega kalt og hvasst. Við gengum meðfram Sæbrautinni og mættum þar vel klæddum ferðamönnum með ýfðar og rauðar kinnar. Við vorum auðvitað engu betri. Biðum eftir því að kæmi að okkur hjá Sólfarinu, tókum þá mynd. Það verður vel hált á pallinum undir farinu og þeir liðugustu geta hæglega misst fótana og lent í splitti eða spíkati, nú eða hvoru tveggja, en þó ekki á sama tíma (vona ég).

Þegar við vorum komin niður í Tryggvagötu áttuðum við okkur á því að við vorum of tímanlega í því. Hentum okkur inn á næsta kaffihús sem var bókakaffi Iðu þar sem Baldur húrraði yfir því að fá svona óvænta afsökun til að panta sér eðalespresso á meðan ég fletti í gegnum bók um huldufólk á ensku.

Á bókasafninu tókst mér að ná í allar bækurnar sem ég ætlaði mér og rúmlega það - auðvitað. Kom engum á óvart. Troðfyllti bakpokann og skellti honum svo á axlirnar hans Baldurs, ah minn eigin burðarklár.

Við vorum orðin glorsoltin þegar hér var komið sögu svo við örkuðum lengri leiðina upp á Garðinn og nýttum okkur hálf/hálf möguleikann á matseðli: hálfa súpu og hálfan aðalrétt. Það er allt svo gott á Garðinum, það er engu lagi líkt. Splæstum í gulrótakökusneið í eftirrétt, sem líka er hægt að fá hálfa ef maður vill. En hver vill svo sem hálfa sneið af gulrótaköku?

Nú er húsið fullt af bókum og sunnudagurinn teygir úr sér og ef ég stikla á steinunum sem ég kasta á undan mér kem ég til með að ná langt með lestur í dag. Bara kos kos kos, heimakos.


Ég og Sólfarið
 
Untitled
 
Fimma!
 
Untitled
 
Setið á grein
 
Borði á grein
 
Súpa og hummus á Garðinum

þriðjudagur, 13. nóvember 2012

Marinerað grænmeti


Þessi uppskrift kemur úr tveimur áttum: frá Sollu Eiríks og frá hráfæðisdrottningunni Karen Knowler. Í fréttabréfinu hennar Karenar um daginn var að finna uppskrift að marineruðu grænmeti sem mér leist mjög vel á að prófa. Síðan var ég að fletta í gegnum bókina hennar Sollu, Heilsurétti Hagkaupa, og rakst þá á sambærilega uppskrift að marineruðu grænmeti.
 
Svo ég henti saman í salat og notaði það sem ég átti í ísskápnum en studdist við dressinguna frá Sollu því bara við það að renna augunum yfir innihaldslistann fóru munnkirtlarnir að framleiða munnvatn og ég var næstum því farin að slefa.
 
Í stað gúrku má nota kúrbít og þá ætti salatið líka að geymast lengur í ísskáp. Svona marinerað grænmeti er frábært með öllum mat. Ég hef reyndar aðallega verið að borða þetta sem salat í hádegismat eða hvenær sem grænmetishungrið kikkar inn. Þetta salat er svo gott að maður sleikir diskinn á eftir, trúið mér!
 
Ég tek fram að ég keypti mér bókina hennar Sollu um daginn, reyndar var það eitt af fyrstu verkum mínum við komuna til landsins, og mér líst alveg rosalega vel á hana. Og fyrst ég er að birta uppskrift úr bókinni hennar er alveg augljóst að ég mæli með bókinni!
 
Hvað:
 
Hráefni
1 brokkolíhaus
hálf rauð papríka
hálf gul papríka
hálf gúrka/kúrbítur
2 gulrætur, rifnar
4 stilkar af vorlauk
handfylli af ferskri steinselju, niðursneiddri
 
Dressing
3 msk olívuolía
1 msk ristuð semsamolía
2 msk tamarisósa
2 msk sítrónusafi
2 msk ferskur engifersafi*
 
* Til að ná safa úr fersku engiferi þarf að rífa niður eins og 3 sm bút og kreista svo safann úr rifna engiferinu 
 
Hvernig:
 
Brokkolíið klofið niður í smærri bita, papríkan skorin í teninga, gúrka/kúrbítur skorið í sneiðar, gulrætur rifnar niður, vorlaukur og steinselja saxað. Blandað saman í góðri skál.
 
Dressingin: Öllum innihaldsefnum blandað saman í smærri skál og svo hellt yfir grænmetið. Hræra dressingunni vel saman við grænmetið. Láta standa inn í ísskáp í 10-30 mínútur.




sunnudagur, 11. nóvember 2012

Jarðnæði

Ég kláraði bókin Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur fyrr á árinu (í vor á eyjunni Lovund) og er fyrst núna að hamra saman einhverri vitrænni umfjöllun. Um er að ræða sögu sem liggur á mörkum skáldskapar og sjálfsævisögu, eða kannski væri best að líta á hana sem dagbókarskrif með heimspekilegum og hversdagslegum vangaveltum. Hún er í það minnsta langt frá því að vera snert af hinu þreytandi dagbókarformi "Í dag vaknaði ég snemma og..."

Ég var ekki viss hvar ég hafði söguna í byrjun eða hvort ég ætti að gefa færi á mér, hvort ég ætti að leyfa mér að líka við hana. En þetta voru efasemdir og hugsanir sem mjög hratt hurfu á braut því stíll og viðfangsefni höfundar fönguðu mig algjörlega og áður en ég vissi af var ég búin með bókina. Hún er vissulega enginn doðrantur, aðeins 210 síður, en þegar maður byrjar á bók á sunnudegi og fer svo í  kaffi í nágrannahús um eftirmiðdaginn og heldur áfram að lesa þegar heim er komið og þarf að halda aftur af sér til að klára ekki verkið, þá er óhætt að segja að stíllinn sé leiðandi.

Ástæður fyrir því að ég vildi ekki lesa bókina of hratt eru
a) það er yfirlýst markmið hjá mér að lesa  h æ g a r
b) til að njóta lengur
c) til að meðtaka betur

Hins vegar hef ég tekið eftir því að það er ekki mikilvægt að beita þessari reglu á allar bækur, allavega held ég ekki fyrir minn smekk. Til dæmis fannst mér í lagi að lesa Konuna við 1000° hratt og fannst ég aldrei þurfa að hægja á mér ella myndi ég missa af einhverjum blæbrigðum. Kannski af því ég vissi að ég myndi alveg geta hugsað mér að lesa þá bók aftur, á meðan þessi bók, eins góð ég mér fannst hún (tek það fram og undirstrika) er ekki eins líkleg til að verða lesin aftur. En hver veit, vil ekki loka á neitt!

Ég punktaði hjá nokkrar pælingar á meðan á lestrinum stóð. Það varð líka til þess að auðveldara var að lesa  h æ g a r:

leiðandi texti
eitthvað vandað
heimspekilegt
gaman að kynnast hugsunum fólks
mikil berskjöldun - heiðarleiki og hugrekki
skemmtilegur ritstíll, skemmtileg leið til að skrifa
djúphugull og meðvitaður taktur, eins og að lesa vandað hjartarit nema hvað þetta er ekki lína heldur texti í orðum
meðvitund og pælingar
trú og von fyrir framtíðina eru stefin
laus við böl, hún leitar fremur að svörum framtíðar í lífi fyrri kynslóða. Ég heyri alveg í gagnrýnisröddum véfengja þá leit, að það sé eitthvað að finna í lífi fyrri kynslóða, en þá má ekki gleyma að við komum öll til manns með því að vera alin upp af kynslóðunum sem komu á undan okkur, og að því leytinu til tilheyra fyrri kynslóðir okkur alltaf og eiga alltaf erindi við líf okkar

Svo punktaði ég líka þetta hjá mér og læt það fljóta með svo ég muni: Anais Nin? athuga betur hver það er. Ég er í millitíðinni örlítið búin að grennslast fyrir um það, en það var ekki gert meðvitað út frá þessum punkti, ég var búin að gleyma því að ég hefði plantað þessum ásetningi eftir lestur bókarinnar.

Margar skemmtilegar, fallegar og framúrstefnulegar hugmyndir og pælingar er að finna í bókinni. Nokkrar tilvísanir sem snertu mig sérstaklega:

"Þar á ég fund með baráttusystrum mínum og ég hef á tilfinningunni að sá fundur muni opna augu mín fyrir einhverju lykilatriði, að klippt verði á borðann sem bundinn er fyrir augun. Mann dreymir alltaf um það: að eitthvað opni augun og opni allt í manni." (bls. 36) Þessi pæling minnir á þær hugmyndir sem ég hef um forlög/örlög vs. frelsi til athafna.

"Ég held að í húsnæði framtíðar þurfi að vera lítil heilunarskot þar sem hægt er að leggja sig eins og undir torfu eða ofan í mold og láta jörðina lækna sig." (bls. 46-7) Ég er sammála henni, þetta hljómar alveg sem tilraunarinnar virði!

Oddnýju er tíðrætt um vatnið okkar og mér varð létt þegar hún sagði: "Loksins er verið að viðurkenna lagalega að vatn sé auðlind" (bls. 171).

Svo rakst ég óvænt á líkindi milli þessara skrifa og Konunnar við 1000°, þ.e.a.s. umfjöllun um ÞÖGGUN (bls. 172).
Þöggunarfeðraveldi
Sléttað og tyrft svo yfir
Er þetta verk næstu kynslóða?
Tala út?

Fyrst og síðast er hugðarefni hennar þó næði: næði til að hugsa, lifa, búa í sátt við menn, náttúru, sögu og sjálfan sig. Eða eins og hún segir sjálf: "Það er nefnilega ótrúlegt hvað maður þarf mikið næði vilji maður hugsa heila hugsun" (bls. 174). Láttu mig þekkja það!

Ólíkt öðrum bókum sem ég á vanda til að hrífast að og með (sögulegur skáldskapur), þá er hér frekar á ferðinni nútímaleg sjálfsævisaga. Í Kiljunni talaði Egill um að verkið væri mjög intellektúal, og ég er sammála því og kann vel að meta akkúrat þessa gerð intellkektúalisma, hann er góð tilbreyting frá þeim sem maður allra jafna les ef maður á annað borð les solleiðis.

Núna vil ég óð og uppvæg lesa hinar tvær bækurnar hennar og ætli ég byrji ekki á Ilmskýrslunni.

föstudagur, 9. nóvember 2012

Íslandsheimsókn 2011

Já, það er vel rúmt ár síðan við komum í sumarfrí til Íslands frá Indlandi og héldum svo til Noregs, en ég læt samt flakka smá kynningu á þeim tíma því ég er ekki búin að því enn. Svo ef ég er dugleg þá fer ég að henda inn myndum frá síðasta hausti, hvernig væri nú það?

Árið er 2011: Eftir dvölina í Indlandi og góðu hvíldina í Frakklandi lá leiðin heim í stutt stopp. Við náðum að hitta fjölskyldu og vini, kíkja í IKEA og Mývatn, hitta á Menningarnótt og sjá ljósin í Hörpu tendruð. Fórum í hjólatúra og sund, fengum okkur ýsu og bláber. Algjört himnaríki. Fórum svo til Noregs en ætli ég geri ekki grein fyrir þeirri ævintýralegu ferð og dvöl síðar á þessum síðum.

Hér að neðan er smá sýnishorn af myndunum sem við tókum í heimsókninni og restina má finna á flickr síðunni okkar, í albúminu Ísland  2011.

Út að borða

La familia Rodriguez

Jökullinn af Holtinu

Á Holtinu

Í göngutúr

Á flugi

Krækiberjatunga

Stígurinn

Saman

Gulrótin og stelpuskottið