Ég kláraði bókin Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur fyrr á árinu (í vor á eyjunni Lovund) og er fyrst núna að hamra saman einhverri vitrænni umfjöllun. Um er að ræða sögu sem liggur á mörkum skáldskapar og sjálfsævisögu, eða kannski væri best að líta á hana sem dagbókarskrif með heimspekilegum og hversdagslegum vangaveltum. Hún er í það minnsta langt frá því að vera snert af hinu þreytandi dagbókarformi "Í dag vaknaði ég snemma og..."
Ég var ekki viss hvar ég hafði söguna í byrjun eða hvort ég ætti að gefa færi á mér, hvort ég ætti að leyfa mér að líka við hana. En þetta voru efasemdir og hugsanir sem mjög hratt hurfu á braut því stíll og viðfangsefni höfundar fönguðu mig algjörlega og áður en ég vissi af var ég búin með bókina. Hún er vissulega enginn doðrantur, aðeins 210 síður, en þegar maður byrjar á bók á sunnudegi og fer svo í kaffi í nágrannahús um eftirmiðdaginn og heldur áfram að lesa þegar heim er komið og þarf að halda aftur af sér til að klára ekki verkið, þá er óhætt að segja að stíllinn sé leiðandi.
Ástæður fyrir því að ég vildi ekki lesa bókina of hratt eru
a) það er yfirlýst markmið hjá mér að lesa h æ g a r
b) til að njóta lengur
c) til að meðtaka betur
Hins vegar hef ég tekið eftir því að það er ekki mikilvægt að beita þessari reglu á allar bækur, allavega held ég ekki fyrir minn smekk. Til dæmis fannst mér í lagi að lesa Konuna við 1000° hratt og fannst ég aldrei þurfa að hægja á mér ella myndi ég missa af einhverjum blæbrigðum. Kannski af því ég vissi að ég myndi alveg geta hugsað mér að lesa þá bók aftur, á meðan þessi bók, eins góð ég mér fannst hún (tek það fram og undirstrika) er ekki eins líkleg til að verða lesin aftur. En hver veit, vil ekki loka á neitt!
Ég punktaði hjá nokkrar pælingar á meðan á lestrinum stóð. Það varð líka til þess að auðveldara var að lesa h æ g a r:
leiðandi texti
eitthvað vandað
heimspekilegt
gaman að kynnast hugsunum fólks
mikil berskjöldun - heiðarleiki og hugrekki
skemmtilegur ritstíll, skemmtileg leið til að skrifa
djúphugull og meðvitaður taktur, eins og að lesa vandað hjartarit nema hvað þetta er ekki lína heldur texti í orðum
meðvitund og pælingar
trú og von fyrir framtíðina eru stefin
laus við böl, hún leitar fremur að svörum framtíðar í lífi fyrri kynslóða. Ég heyri alveg í gagnrýnisröddum véfengja þá leit, að það sé eitthvað að finna í lífi fyrri kynslóða, en þá má ekki gleyma að við komum öll til manns með því að vera alin upp af kynslóðunum sem komu á undan okkur, og að því leytinu til tilheyra fyrri kynslóðir okkur alltaf og eiga alltaf erindi við líf okkar
Svo punktaði ég líka þetta hjá mér og læt það fljóta með svo ég muni: Anais Nin? athuga betur hver það er. Ég er í millitíðinni örlítið búin að grennslast fyrir um það, en það var ekki gert meðvitað út frá þessum punkti, ég var búin að gleyma því að ég hefði plantað þessum ásetningi eftir lestur bókarinnar.
Margar skemmtilegar, fallegar og framúrstefnulegar hugmyndir og pælingar er að finna í bókinni. Nokkrar tilvísanir sem snertu mig sérstaklega:
"Þar á ég fund með baráttusystrum mínum og ég hef á tilfinningunni að sá fundur muni opna augu mín fyrir einhverju lykilatriði, að klippt verði á borðann sem bundinn er fyrir augun. Mann dreymir alltaf um það: að eitthvað opni augun og opni allt í manni." (bls. 36) Þessi pæling minnir á þær hugmyndir sem ég hef um forlög/örlög vs. frelsi til athafna.
"Ég held að í húsnæði framtíðar þurfi að vera lítil heilunarskot þar sem hægt er að leggja sig eins og undir torfu eða ofan í mold og láta jörðina lækna sig." (bls. 46-7) Ég er sammála henni, þetta hljómar alveg sem tilraunarinnar virði!
Oddnýju er tíðrætt um vatnið okkar og mér varð létt þegar hún sagði: "Loksins er verið að viðurkenna lagalega að vatn sé auðlind" (bls. 171).
Svo rakst ég óvænt á líkindi milli þessara skrifa og Konunnar við 1000°, þ.e.a.s. umfjöllun um ÞÖGGUN (bls. 172).
Þöggunarfeðraveldi
Sléttað og tyrft svo yfir
Er þetta verk næstu kynslóða?
Tala út?
Fyrst og síðast er hugðarefni hennar þó næði: næði til að hugsa, lifa, búa í sátt við menn, náttúru, sögu og sjálfan sig. Eða eins og hún segir sjálf: "Það er nefnilega ótrúlegt hvað maður þarf mikið næði vilji maður hugsa heila hugsun" (bls. 174). Láttu mig þekkja það!
Ólíkt öðrum bókum sem ég á vanda til að hrífast að og með (sögulegur skáldskapur), þá er hér frekar á ferðinni nútímaleg sjálfsævisaga. Í Kiljunni talaði Egill um að verkið væri mjög intellektúal, og ég er sammála því og kann vel að meta akkúrat þessa gerð intellkektúalisma, hann er góð tilbreyting frá þeim sem maður allra jafna les ef maður á annað borð les solleiðis.
Núna vil ég óð og uppvæg lesa hinar tvær bækurnar hennar og ætli ég byrji ekki á Ilmskýrslunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli