laugardagur, 24. nóvember 2001

Yndislegur snjór

Mikið er búið að snjóa mikið í dag, honum hefur hreinlega kyngt niður. Yndislegur, hvítur, þykkur snjór, ekkert er eins jólalegt. Við erum búin að viðra öll dýrin og setja þau út í snjó (nema Fríðu auðvitað) og skemmtum okkur við að reyna að ná myndum af kisu í loftinu. Baldur var nefnilega að henda henni út í snjóinn, hún er soddan prímadonna að hún fer ekki sjálfviljug út fyrir hússins dyr.

Við vorum að koma af Töfraflautunni eftir Mozart. Þetta var mín fyrsta óperuferð og því var þetta allt mjög áhugavert. Papagenó var frábær en Tamínó prins var slappur, hann er víst bariton en breytti yfir í tenor og því kom þetta mjög þvingað út. Næturdrottningin hafði greinilega sundið erlendis í mörg ár og við giskuðum réttilega á Þýskaland því essssssssin voru mjög sssssvo áberandi.

Í salnum var margt frægra manna fyrir utan okkur, t.d Flosi gamli, Móeiður Júníus og Eyþór Arnalds, Diddú og fréttakallinn frá stöð 2, Páll Magnússon. Við vorum greinilega að míngla með listaspírum.

föstudagur, 23. nóvember 2001

Fjöruferð í rokrassgati alheims

Þvílíkt og annað eins, ég segi nú bara ekki annað. Veðrið á þessu blessaða skeri getur stundu gert mig alveg orðlausa. Við Karitas fórum í fjöruferð í dag og byrjuðum á því að fara niður í Gróttu. Þar var löggubíll að laumupokast, líklegast löggur sem lásu einum of oft bækurnar hennar Enid Blyton, því þeir fóru ekki fyrr en þeir sáu að við vorum bara að tína skeljar og steina.

Það var brjálað rok og hrollkalt og þegar hundur kom á harðaspretti í átt til okkar, geltandi eins og hann ætti lífið að leysa, var Karitas nóg boðið, hentist í skelfingu inn í bíl og hélt sig þar.

Við gáfumst þó ekki svo auðveldlega upp og fórum að leita að annarri fjöru. Hún fannst ekki. Þá áttum við engra annarra kosta völ en að fara í Nauthólsvík og þar var ekki eins svakalegur stormur (aðeins ýkt) og við gátum því tínt nokkrar skeljar í poka.

Þegar heim var komið fórum við síðan að mála og lakka skeljarnar með naglalakki og nú er ég komin með lítinn kertastjaka. Við kíktum líka á kettlingana sem voru að fæðast í vikunni, þeir verða greinilega ekki sætir fyrr en seinna því þeir voru ósköp litlir en ekki þessi ótrúlegu kríli sem kettlingar eru alltaf.

Nú er spurningarkeppninni okkar Hve mörg gæludýr eigum við núna? lokið og þökkum við þeim 27 einstaklingum, sem sáu sér fært um að svara henni, kærlega fyrir þátttökuna.

Staðan undir lokin var þessi: 18% ykkar töldu okkur eiga 4 gæludýr, sama hlutfall taldi okkur eiga 7 gæludýr (það eru sem sagt 18% þeirra sem við þekkjum sem telja okkur vera geðveik!), 14% voru á því að gæludýrin væru 6, enginn var svo vitlaus að halda að þau væru 3 og 48% ykkar höfðu rétt fyrir sér. Til hamingju með það!

Nú er komin gáta á vefinn, skemmtið ykkur við að glíma við hana. Og jú, það er eitt rétt svar við þessari gátu. Að lokum: Það er kominn nýr linkur hér til hægri, linkur á ástarpróf úr dýraríkinu. Ég hvet ykkur öll til að kíkja á þetta, ferlega gaman að lesa niðurstöðurnar.

fimmtudagur, 22. nóvember 2001

Jólaklippingin í ár

Jæja, þá er það búið og gert, jólaklippingin er komin í hús og það er ekki einu sinni komin desember. Þetta kostaði litla fyrirhöfn og engan pening af því að Baldur tók sig til og særði neðan af hárinu mínu. Hann er ekki allur þar sem hann er séður hann Baldur minn.

Loksins er ég búin að skila af mér einni fullgerðri ritgerð. Ég kláraði ritgerðina um leiki barna á Íslandi 20. aldar í gær og skilaði henni í dag ásamt því að halda smá kynningu á ritgerðinni og skýra frá helstu niðurstöðum. Það var ágætlega skemmtilegt og mikið er ég fegin að vera búin með allavega eitt stykki ritgerð.

Þá á ég bara eftir að klára þrjár ritgerðir fyrir næsta miðvikudag, hjálp. Reyndar á ég að skila lokaverkefni á mánudaginn sem á að vera tops 2000 orð þannig að það verður piece of cake, ritgerðinni fyrir kenningar í félagsvísindum má ég skila 18. des. held ég þannig að það er ekkert áhyggjumál en síðan kemur ein stór og flókin kenningaritgerð sem ég veit enn ekki hvernig ég ætla að vinna. En ég er Íslendingur og hvað segja þeir ekki alltaf? Þetta reeeeeddast!

mánudagur, 19. nóvember 2001

Það er ljúft lífið á Læk

Í kvöld þegar ég var að elda þá var hringt í mig í gemsann. Ég rétt náði að svara og á hinum enda línunnar var einhver sem spurði hvort nokkur truflun væri af símtalinu. Ég sagði nei en hugsaði með mér að þarna væri á ferðinni einhver tímafrek skoðanakönnun eða enn frekari sölumanneskja. Ég ákvað sem betur fer að hlusta og var mér tjáð að Íslandssími hefði ákveðið að gefa mér nýtt símanúmer með 8000 króna innistæðu. Það er ekki bagalegt að fá að blaðra í símann frítt bara sisona. Meðan ég var að elda og þiggja símafé þá var Ásdís inn í stofu að sauma út. Við fórum nefnilega í Mjóddina í dag og keyptum hannyrðadót.

sunnudagur, 18. nóvember 2001

Bissí, bissí, bissí

Þvílík helgi! Á föstudaginn var ég á fullu í ritgerðinni, sótti síðan Karitas og við fórum heim að baka. Ég tók líka við hana smá viðtal um hvaða leiki krakkar í dag fara í. Síðan komu Baldur og Kiddi sem Baldur vinnur með og fengu sér smá kökubita. Við skutluðumst síðan með Karitas heim en komum við í föndurbúð og keyptum ýmislegt sniðugt fyrir jólaföndrið.

Þar næst var það pizza chez papa en þó ekki a la papa. Þar gláptum við á sæta söngleikinn Annie og fengum lagið góða á heilann "it´s a hard work life for us..."

Næsta dag teppalögðum við ganginn okkar með teppaflísum og það kemur rosalega vel út. Síðan var farið í IKEA og gerð góð kaup. Við fórum meira segja í Náralind og þorðum í þetta skiptið að fara út fyrir Hagkaup. Ég kíkti í Zöru og varð fyrir vonbrigðum, ég bjóst við einhverju öðru býst ég við. Annars var Náralind ágæt svona í návígi.

Um kvöldið sóttum við síðan hillusamstæðu sem var enn heima hjá pabba og á undraverðan hátt tókst okkur að koma henni allri fyrir í Skjóna. Við vorum reyndar á 30 alla leiðina heim og liðið sem var á leiðinni á djammið var ekkert of ánægt :)

Í dag var síðan hádegisverður í Hveragerði með Stellu ömmu og Pétri afa. Það var mjög kósý eins og venjulega. Í kvöld var síðan sunnudagsboðið the one and only og þar fengum við eðalmáltíð eins og ætíð. Við skruppum síðan í bíó að sjá Shadow of the Vampire, ágætismynd. Þegar við komum heim gerðum við þrjá músastiga og eitt jólakort.

Þyngd og þroski: Nú er þetta síðasta skiptið sem ég birti þennan "greinaflokk" hér því nú eru strákarnir hættir á spena og því ætlum við að hætta að vigta þá á hverjum degi eins og við höfum gert hingað til. Nú er bara vonandi að þeir fatti að borða matinn sem er á disknum þeirra. Þeir eru algjör kríli og ég ætla að fara að setja nýjar myndir af þeim á netinu svo þið getið sjálf dæmt hvort þeir hafi ekki blásið út.

fimmtudagur, 15. nóvember 2001

Bækur og bókatíðindi

Ég skrópaði í fyrsta sinn á önninni í dag. Það var í mannfræði barna og þar sem yfirferð á námsefninu er búin skiptir þetta ekki svo svakalegu máli. Ég notaði tímann til að vinna í ritgerðinni og var niðrá bókasafni Kennó (KHÍ) að skoða B.Ed. ritgerðir. Mér fannst þær óvenju óvandaðar og illa unnar en ég reyndi að finna ljósið í þeim og gat nýtt mér orð og orð úr þeim.

Síðan fór ég í liðveisluna eins og venjulega og það gekk vel. Við Baldur fórum með hann upp í kirkju því alla fimmtudaga er þar stund fyrir krakka sem kallast Kirkjuprakkarar. Þarna voru krakkar að keppa í bandí-móti og það voru svaka mikil læti og mikið fjör.

Við fórum síðan á bókasafnið í Gerðubergi en það hefur lengi verið mitt uppáhaldsbókasafn. Ég var að leita að bók um braggabörn sem kom út í fyrra en hún var ekki inni. En ég græddi eitt á þessari ferð, ég sá að Bókatíðindin eru komin út. Fyrir mér eru Bókatíðindin eins og gimsteinn og því heimtaði ég að fara niður í Kál og kenningu og ná í eitt eintak, vitandi að okkur hafði ekki borist það heim.

Bókatíðindin fengum við ekki því þau voru víst að koma út. Í staðinn skoðuðum við jólabækurnar og þar var af nógu að taka. Ég sá m.a. nýja bók um flökkusagnir úr samtímanum eftir Rakeli Páls. Hún er þjóðfræðingur og kenndi okkur Baldri einmitt í fyrrahaust. Okkur fannst hún alveg frábær kennari og miðað við gluggið í bókina er hún það líka. Þessi fer sko pottþétt á jólalistann minn.

Þyngd og þroski: Jæja, alltaf eru yndin að þroskast og stækka og ef ég vissi ekki að þeir munu ekki fljúga úr hreiðrinu væri ég farin að hafa áhyggjur af því núna. Bjartur var mjög kræfur í dag, gerði sér lítið fyrir og stökk upp úr búrinu. Það var ferlega fyndið að sjá þennan hnoðra stökkva af öllum mætti og enda síðan á hausnum hinu megin við "múrinn". Á morgun er seinasti dagur á spena fyrir þá, þeir verða 4 vikna á morgun og það er eins og Kaníka vita af því því hún virðist hafa mjög litla mjólk. Allavega drukku þeir aðeins um 4-6 g af mjólk og það er bara brotabrot af því sem þeir eru vanir að drekka.

P.s. Það er komin nýr linkur hér til hægri fyrir þá sem eru Harry Potter aðdáendur (eins og ég).

miðvikudagur, 14. nóvember 2001

Réttarhöld

Ég var að koma úr tíma í kenningum II, og þar sem næsti tími byrja ekki fyrr en eftir 40 mínútur ákvað ég að vera skynsöm og nota tímann og skrifa færslu dagsins. Þetta var óvenjulega skiljanlegur tími í kenningum enda sagði kennarinn sjálfur að "auðveldara væri að renna í gegnum þennan lygna sjó". Lesefnið sem við höfum áður verið með var greinilega öldugangssjór.

Í lok tímans voru síðan kynningar nemenda á ritgerðarefni og Lísa vinkona var með sína kynningu. Hún er reyndar ekki búin að ákveða hvað hún ætlar að skrifa um en ég hvatti hana samt til að halda kynninguna því maður getur alltaf grætt á því þegar samnemendur faraað spyrja og gefa manni hugmyndir.

En þar sem Lísa er engin venjuleg þá varð ekkert slíkt upp á teninginn. Hún sagðist því miður vera mjög illa undirbúin en að í gærkvöldi hafi verið sjónvarpskvöld og hún sæi ekkert eftir því. Eina spurningin sem hún fékk frá okkur krökkunum var hvað hún var að glápa á!

Annar er það helst að frétta að lögreglan hringdi í mig í morgun og vildi fá að tala við Baldur. Ég lét hana fá vinnusímann hans og beið síðan spennt eftir að hann hringdi heim. Þegar hann gerði það sagði hann mér að búið væri að boða hann í réttarsal sem vitni í ölvunarakstursmáli.

Þannig er sko mál með vexti að í september fórum við að sjá Með fulla vasa af grjóti, voða gaman. Þegar við komum síðan út úr leikhúsinu og að bílnum, sem í þetta sinn var jeppinn hennar Ólafar ömmu, var löggann að sniglast í kringum hann. Við héldum fyrst að við hefðum lagt ólöglega og okkur langaði helst að labba bara framhjá og þykjast ekkert kannast við skrjóðann. Þegar löggann afturámóti fór að taka niður bílnúmerið skiptum við snarlega um skoðun, hlupum til og spurðum hvað væri á seið.

Þá kom í ljós að stelpuhópur hafði orðið vitni að því að bíll keyrði beint á stuðarann á jeppanum og þær tóku niður bílnúmerið og létu lögguna vita. Síðan virðist hafa komið í ljós að ökumaðurinn, sem stakk af, hafi verið drukkinn og um það snýst þetta allt. Mér líður eins og ég sé í nýrri syrpu af Derrick eða Mattlock.

þriðjudagur, 13. nóvember 2001

Appelsínur og negull

Jæja, þá er maður aftur mættur til leiks, hressari en fyrir helgi. Ég fékk nefnilega heiftarlegt kvef og þeir sem til þekkja vita að það er ekkert grín þegar ég fæ kvef. Ég má ekki líta í ljós því þá fæ ég kast í augun sem lýsir sér sér í því að það fer að renna úr augunum. Þetta var sérstakleg hvimleitt þegar ég var yngri og á unglingsárunum, ég var alltaf svo hrædd um að fólk héldi að ég væri að grenja!

Við erum búin að hengja fyrsta jólaskrautið upp. Það er appelsína með negulnöglum sem við stungum í hana, síðan var bundið um hana skrautband og hún hengd upp. Ég hef aldrei gert svona áður og finnst þetta skemmtileg viðbót við jólaundirbúninginn.

Það er svo sem lítið annað að frétta fyrir utan það að maður er á kafi í ritgerðavinnu, ég er að gera fjögur stykki í augnablikinu. Eins og er er ég þó mest að fókusa á ritgerðina um leiki barna á Íslandi á 20. öldinni, ég þarf að klára hana helst á morgun eða hinn því síðan ætla ég að taka nokkur viðtöl sem ég þarf að ná að setja inn í ritgerðina.

Ég bað Baldur í gær að minnast á Vefspjallið og fá fólk til að skrifa þar ef það vildi. Hann var mjög kjarnyrtur (a.k.a. stuttorður) þannig að ég ætla að segja það sem ég vildi að kæmi fram:) Málið er að Vefspjallið hefur ekki verið notað mikið og það er synd því þar gætu allir spjallað saman ef þeir kærðu sig um. En málið er að við Baldur eigum náttúrulega að svara þegar einhver skrifar í vefspjallið og það höfum við ekki gert. Stella var náttúrulega fyrst til að vígja vefspjallið og nú loksins er komið svar við því sem hún sagði þar.

Þyngd og þroski: Jæja, nú er orðið langt síðan þið hafið fengið fregnir af strákunum. Þeir halda áfram að tútna út og þeir halda líka áfram að vera stelpu kanínur. Allavega erum við farin að halda að um tvær stelpur sé að ræða eins og ég hef áður sagt. Það verður þá bara að hafa það en ef þetta eru í raun og sann stelpur verða þær áfram Bjartur og Rúdólfur og ganga áfram undir nafninu strákarnir.

Nóg um það, Bjartur er núna 258 g og Rúdólfur 226 g. Þeir hafa mikla þörf fyrir hreyfingu og hoppa um allt þetta litla hamstrabúr. Baldur ætlar að koma heim með stóran pappakassa úr vinnunni ef hann finnur einn slíkan, þá geta þeir hlupið aðeins litlu skinnin.

mánudagur, 12. nóvember 2001

Átveislan mikla

Jæja ætli það sé ekki best að segja frá undanförnum dögum. Helgin var moggahelgi og á laugardeginum fór ég í þrjár heimsóknir. Það byrjaði á því að ég renndi moggabílnum í hlað hjá Ólöfu ömmu og þáði veitingar. Næsta heimsókn var um kvöldið þar sem ég og Ásdís heimsóttum Baddý, mömmu Ásdísar, og Sigga. Þriðja heimsóknin var svo til Bjarna vinar míns úr vinnunni sem átti 25 ára afmæli.

Á sunnudeginum fór ég svo í mat til Stellu ömmu og Péturs afa og fór ég þaðan eins og uppstoppaður fugl. Með herkjum kom ég mér inn í moggabílinn aftur og kláraði vinnudaginn. Þá mætti ætla að matarboðin væru nú liðin hjá. Það er ýmislegt sem má halda en staðreyndir málsins eru ljósar og samkvæmt vitnum þá fórum við í mat til pabba og mömmu á sunnudagskvöldið þar sem ég var meðhöndlaður eins og kalkúnn sem þyrfti fyllingu.

Það er sumsé búið að vera þó nokkuð ráp á okkur undanfarna daga og hefur ekki gefist tími til að skrifa dagbók á milli máltíða og eftir öll þessi hátíðahöld og átveislur þá var ákveðið að hafa látlausan og einfaldan kvöldmat í kvöld, brauð með hnetusmjöri. Að lokum vil ég hvetja gesti okkar að nýta sér vefspjallið og spjalla þar um heima og geima.

föstudagur, 9. nóvember 2001

Pabbi í Prag

Ég hitti Karitas í dag og við brölluðum margt skemmtilegt eins og endranær. Hún sýndi mér köttinn sinn sem er ansi mikið kettlingafullur. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að ég kíki á köttinn eftir got miðað við hversu hrifin ég er af kettlingum og miðað við hversu mörg dýr við erum þegar með á heimilinu...

Seinnipartinn í dag, þegar ég var að sækja Baldur, hringdum við í pabba til að spyrja hvort það væri ekki örugglega pizzakvöld og allt það. Pabbi sagðist nú ekki vera með það alveg á hreinu þar sem hann væri í Prag, en sagði okkur að hringja í Andra! Við vorum búin að steingleyma að pabbi færi til Prag þann áttunda. Svo hringdi hann ekkert í okkur áður en hann fór, alveg ferlegt þetta unga lið.

Þyngd og þroski: Strákarnir eru núna hvorki meira né minna en 385 g samanlagt, þar af er Bjartur 209 g og Rúdólfur 176 g.

fimmtudagur, 8. nóvember 2001

Meiri veikindi

Ég var inni í allan dag að fyrirskipan læknis míns, hans Baldurs (hehe).Hann heimtaði jafnframt að ég svæfi út og því var ekki erfitt að framfylgja. Þegar ég svo vaknaði í morgun leið mér rosalega vel og var stálslegin. Ég fór samt ekki í liðveisluna í dag til að vera ekki að ögra forlögunum því ég má ekki við því að verða veik núna.

Ég hef nefnilega heyrt að þessi pest sem er að ganga leggist á fólks eins og svefnsýki og fólk sefur og sefur og sefur. Þetta hljómar vissulega vel en þegar maður á að skilja ritgerð eftir helgi og á enn eftir að fatta megininntakið í því sem maður er að reyna að koma niður á blað þá held ég að það sé vissara að forða sér frá þessum hrótuvírusi.

Þyngd og þroski: Við erum ekki búin að gefa strákunum spena í dag og því liggja nýjustu þyngdartölurnar ekki fyrir. Í gær var staðan hins vegar þessi: Bjartur var 189 g (hlunkur) og Rúdólfur 157 g (líka hlunkur). Ég fór með Bjartu út í gærkvöld og ætli það hafi ekki verið með fyrstu skiptunum sem hann andaði að sér útilofti. Við hlökkum til að geta farið með þá í labbitúra út í garð en það verður ekki fyrr en þeir eru orðnir stálpaðri.

P.s. Hvernig leyst ykkur á nýja "innganginn" að dagbókinni? Þetta er svona þema hjá okkur, dagbókin í sviðsljósinu:)

miðvikudagur, 7. nóvember 2001

Mikið að gera á dekkjaverkstæðum

Í dag fór ég sérstaklega snemma úr vinnunni svo ég kæmist á dekkjaverkstæði áður en ég skutlaði Ásdísi í skólann. Ég fór jú á dekkjaverkstæðið og skutlaði Ásdísi í skólann, aðeins of seint, en ég lét ekki setja nein dekk undir mekkann.

Það var nefnilega þannig að þegar ég var búinn að bíða fyrir utan í hartnær klukkutíma þá kom að mér en þá hafði ég gjörsamlega ekki tíma lengur. Eftir að hafa skutlað Ásdísi í tíma þá fór ég að lyfta og þegar ég lyfti þá er sko ekkert hálfkák og ég pumpaði og svitnaði og kom út örmagna.

Þá sótti ég Ásdísi í skólann og við fórum að skoða Náralindina sem var nú bara nokkuð fróðlegt sérstaklega frá mannfræðilegu sjónarhorni þar sem hægt er að dvelja langtímum saman inn í hofi Mammons sem er á sama tíma sennilega stærsta frjósemistákn heims. Þetta var nú allt saman gott og blessað.

Loksins þegar við komum heim þá var ég orðinn svo svangur að ég nennti ekki að elda og hafði ekki þolinmæði í annað en brauð með hnetusmjöri en það hefur alltaf verið einn af mínum sérréttum.

mánudagur, 5. nóvember 2001

Troðið út úr dyrum

Þá er lesvikan hafin hjá mér, við í mann- og þjóðfræðiskor fáum alltaf eina viku frí frá fyrirlestrum til að gera ritgerðir og ná í skottið á lesefninu. Ég notaði því tímann í dag og byrjaði á ritgerðinni um Weber fyrir kenn. í fél. Í þessum kúrs er ekkert frjálst val um ritgerðarefni eins og það er alltaf í mannfræðinni, við höfðum um þrjú efni að velja, eitt frá hverjum kalli og mér leist best á að reyna við Weber (hehe). Ritgerðarspurningin er þessi:


"Mikið ósamræmi er á milli aðferðafræði Webers annars vegar og kenninga hans um lagskiptingu hins vegar". Ræðið rök með og á móti þessari fullyrðingu. Hver er þín skoðun?

Ég fór síðan í tíma í þessum sama kúrs kl. 10. Þetta er nefnilega sameiginlegur kúrs innan félagsvísindadeildar og við mannfræðingar sitjum hann ásamt stjórnmálafræðingum og félagsfræðingum. Þar sem þessar skorir hafa enga lesviku féll fyrirlesturinn ekki niður og þá var bara að mæta.

Reyndar felldi Þórólfur niður seinasta tímann af beiðni okkar í mannfræðinni, ekki af því að við nenntum ekki að sitja þarna, nei nei sei sei, heldur var ástæðan sú að í hádeginu hélt Waris Dirie fyrirlestur í hátíðarsalnum í Aðalbyggingunni og allir ætluðu þangað. Við Dögg fórum og gerðum heiðarlega tilraun til að komast inn en það var allt troðið út úr dyrum, maður heyrði ekki einu sinni að þarna fyrir innan væri verið að flytja fyrirlestur fyrir öllu skvaldrinu frammi.

Þetta var frekar súrt í broti að missa af þessum fyrirlestri því Eyðurmerkurblómið, eins og hún er kölluð, hefur skrifað mikið um umskurð kvenna í Afríku. Ég gerði einmitt ritgerð um umskurð kvenna og notkun blæjunnar í múslimskum ríkjum og þetta hefði án efa verið mjög athyglisverð hlustning. Það er kannski von að hún flytji hann aftur því það voru færri sem komust að en vildu.

Þyngd og þroski: Strákarnir eru núna orðnir algjörar hlussur, Bjartur er orðinn 160 g og Rúdólfur er orðinn 131 g. Við erum farin að hafa efasemdir um kyn þeirra, það sem við héldum fyrst að væri pungar lítur ekki út fyrir það lengur. Hvað ef þetta eru stelpur? Nú, þá verða þær bara að heita Bjartur Birta og Rúdólfur Rut.

sunnudagur, 4. nóvember 2001

Kaffiboð og matarboð

Baldur ætlaði í sund í dag með vini sínum Torfa til að ná úr sér kvefinu en varð ekki kápan úr því klæðinu. Hann fór og sótti Torfa og sat þar í mestu makindum þegar var Torfi og kærastan þurftu skyndilega að rjúka upp á slysó. Hann hafði misst þunga hurð á fótinn þannig að tánöglin splundraðist.

Ég vona svo sannarlega að allt sé í keyinu núna, það er ekkert grín að missa nögl. Ég missti nefnilega einu sinni nögl sjálf, það var nögl af öðrum hvorum þumlinum minnir mig og það gerðist í eltingaleik. Ég var að elta strákinn sem ég var svo skotin í, hann Ragnar, en hann var sá gáfaðasti í bekknum og kunni stjörnufræði. Ég elti hann svo ákaft í þessum eltingaleik að ég hrasaði og datt, rann eftir malbikinu og sat eftir með níu neglur. Þá var ég sjö ára.

Við fórum í heimsókn til Óla afa í dag, hann átti nefnilega afmæli 2. nóvember og varð 85 ára gamall. Við kíktum þangað með pabba og vinkonu hans, henni Siggu. Afi var í feikistuði og sagði okkur sögur af kisum og hestum, en þetta eru þær skepnur sem hann hefur mest dálæti á. Þegar umræðan fór hins vegar að snúast um að lóga dýrum, henda kettlingum út í sjó í plastpoka og skjóta hunda, var mér nóg boðið. Þetta var víst gert hér áður fyrr og það getur vel verið að þetta tíðkist enn án þess að ég hafi hugmynd um það. Ég vona þó ekki.

Matarboðið góða var á sínum stað í dag, við fengum frábæra súpu með linsubaunum, hrísgraunum og rófum. Svo fengum við líka æðislegan hnetuís í eftirrétt, namm. Það kom upp smá ágreiningur um heita potta, ég vildi meina að sá allra heitasti í Árbæjarlaug væri mjög heitur (sem hann er!) en þá sögðu Ólöf og Jói að hann væri nú bara ekki neitt neitt, Ólöf kallaði hann blöðrubólgupott því maður fengi blöðrubólgu af því að sitja í þessu kalda vatni og Jói sagði að maður þyrfti að vera í lopapeysu í slíkum pottum! Ýkjurnar, ég varð alveg orðlaus :)

Þyngd og þroski: Núna eru strákarnir komnir í eigið búr. Við fengum lánað hamstrabúr og þar kúra þeir núna. Þeir eru sívakandi og farnir að éta arfa big time og drekka vatn. Bjartur er núna 140 g og Rúdólfur er orðin heil 120 g. Það er ekkert smá hvað barnið hefur þyngst undanfarið.

laugardagur, 3. nóvember 2001

Jólastúss

Við vorum mjög forsjál í dag því við fórum á alla útsölumarkaði borgarinnar og versluðum inn jólagjafir. Við keyptum sex jólagjafir og eina afmælisgjöf. Við nennum nefnilega ekki að lenda í einhverju stressi rétt fyrir jólin.

Við erum nú samt ekki búin að kaupa allar gjafirnar og ætli við geymum ekki eina tvær til Þorláksmessu og förum þá á Laugarveginn. Ég hef reyndar bara einu sinni farið á Laugarveginn á Þorláksmessu og það finnst mér ekki nógu gott, þar er nefnilega allt fjörið.

Við enduðum síðan þennan jólatúr á Pítunni í Skipholtinu. Þangað hafði hvorugt okkar komið í mörg, mörg ár og margt hafði breyst þ.á.m. inngangurinn sem var komin á aðra hlið. Við stóðum því frekar vandræðaleg fyrir framan fyrrverandi innganginn og ég er viss um að gestirnir fyrir innan hafi haldið að við værum svangir gluggagægjar.

Ætli þetta jólastúss hafi ekki sett okkur í einhvern jólagír. Einhverra hluta vegna enduðum við í Rúmfatalagernum að skoða jólagardínur og keyptum jóladúk, jólaservettur og jólapappír. Nú geta þeir sem búsettir eru erlendis farið að vænta jólagjafa í pósti innan tíðar hint hint. Fyrst verð ég þó að finna þessa litlu jólamerkimiða sem maður setur á pakkana, ég get eiginlega ekki byrjað að pakka fyrr en þá.

Þegar við komum heim settum við síðan smá jólatónlist á, þvílíkt stuð, og Baldur fór inn í geymslu og setti gervijólatréð, sem hann fékk frá Pétri, saman. Ok, ok, verið róleg við erum ekki farin að skreyta eða neitt, þetta var bara svona prófraun, svona til að sjá hvernig tréð liti út og hvort það væri yfir höfuð jólahæft.

Þyngd og þroski: Strákarnir eru í óðaönn að verða stálpaðar kanínur. Í dag leyfðum við þeim að hlaupa frjálsum á gólfinu og það gerðu þeir með bestu lyst. Núna eru þeir báðir farnir að hlaupa eins og kanínur, svona hoppa með afturfótunum. Bjartur er þó greinilega í betri þjálfun einhverra hluta vegna.

Þeir eru strax farnir að óhlýðnast, við vorum að koma í veg fyrir að þeir færu undir kommóðuna og því sat ég á gólfinu og vísaði þeim frá eins og hershöfðingi. Þeir létu það ekki á sig fá og gerðu hernaðaráætlun sem fólst í því að einn hljóp af stað í átt að komóðunni og á meðan ég var upptekin við að hamla honum leið þangað undir kom hinn hlaupandi úr annarri átt. Ég átti því í fullu fangi með þessa tvo kanínustráka.

Þeir drukku mikið í dag, Bjartur þyndist um 14 g og er núna 134 g, Rúdólfur drakk 20 g og er núna 108 g!

föstudagur, 2. nóvember 2001

Úlfaldar og geitaskinn

Við Karitas hittumst í dag og gerðum margt okkur til skemmtunar. Við byrjuðum á því að fara niður í Bókhlöðu og ég útskýrði fyrir henni að þetta væri eitt stærsta bókasafn landsins og að þar inni væri að finna ógrynni bóka og flestar væru þær á útlensku. Það fannst henni mjög merkilegt. Ég útskýrði líka fyrir henni að þangað færu stúdentar að læra og lesa og því yrðum við að hafa mjög hljótt og að það væri stranglega bannað að tala þarna inni.

Á annarri hæð er ljósmyndasýning sem einn af mannfræðikennurum mínum stendur fyrir, hún Kristín Lofts. Þar er að sjá myndir af WoDaaBe fólkinu í Níger þar sem Kristín gerði vettvangsrannsókn sína. Þarna er líka að sjá nokkra muni WoDaaBe fólksins sem hún hafði með sér heim t.d. hnakkur fyrir úlfaldareið, vatnssekkur úr geitaskinni, sverð, ofið teppi o.fl.

Í vor sat ég námskeiðið Etnógrafía Afríku hjá Kristínu og þar lærðum við m.a. um WoDaabe fólkið. Ég gat því nýtt þá þekkingu núna og sagt Karitas frá þeim. Ég sagði henni m.a. að WoDaabe væru múslimar og að trú þeirra héti Islam. Ég sagði henni að heimili þeirra væri undir berum hinmi og að þarna væri fjölkvæni viðtekin venja.

Henni fannst þetta allt mjög heillandi og þegar kom að því að úskýra fyrir henni að þeir væru hirðingjar og væru því mikið á faraldsfæti og notuðu til þess asna og úlfalda, sagði hún mér frá því að þegar hún var í Ísrael fór hún í reiðferð á úlfalda. Væri ég til í það? Já!

Við fórum síðan heim og ég sýndi henni dýrin öll sömul, hún varð einkar hrifin af strákunum litlu og vildi fá að halda á þeim statt og stöðugt. Við fórum líka út með Kaníku og tíndum handa henni arfa í tvo poka. Ég vona að það dugi í nokkra daga en miðað við fyrri arfaát hennar er sú von í hæsta máta bjartsýn.

Núna erum við að fara í pizzu til pabba. Það er gaman að geta þess að þessi siður að hafa pizzu á föstudögum í fjölskyldu minni er eldgamall og ég get nánast sagt að hann hafi verið síðan ég man eftir mér. Það voru góðir tímar þegar Andri át bara skorpur og pizzurnar frá Pizzahúsinu voru góðar.

Þyngd og þroski: Strákarnir taka hröðum framförum. Í dag settum við arfa í körfuna þeirra og Bjartur smakkaði á honum en Rúdófur fékk sé bara stóran bita af honum. Þetta er í fyrsta sinn sem hann borðar eitthvað annað en mjólk.

Þeir eru alltaf að verða frakkari og frakkari, stökkva út höndum manns og taka sér langa göngutúra á rúminu, það er meira að segja farið að votta fyrir kanínugöngulagi (a.k.a hoppa) en hingað til hafa þeir staulast áfram eins og stirð gamalmenni.

Bjartur vegur núna 121 gr. og Rúdólfur 80 gr. Þessi mæling fór fram áður en þeir fóru á spena og því eru þeir ekki eins þungir og í gærkvöldi þegar þeir voru nýkomnir af spena.

fimmtudagur, 1. nóvember 2001

Jæja nú er ég víst orðinn góður af veikindunum, sem betur fer. Það var líka gott að komast í vinnuna þar sem heimilisbókhaldið fór í tóman mínus, það er nefnilega orðið svo vant því að Þráinn í vinnunni fóðri mig. Þegar ég var búinn að vinna í dag fórum við Ásdís í Fjarðarkaup og keyptum sitt lítið af hverju þar á meðal poppbaunir og svo poppuðum við eftir að Ásdís hafði gefið mér dýrindis máltíð. Nú er ég saddur og syfjaður og vil fara að sofa.

Þá koma dýrafréttir. Kisa er við hestaheilsu og hefur eitthvað verið að skána í maganum undanfarið. Fríða Sól er söm við sig og kanínurnar eru alltaf jafnsprækar. Fyrir mat í kvöld vó Bjartur 120g en eftir mat var hann 141g. Bróðir hans Rúdólfur var 79g fyrir mat en 94g eftir mat. Nú eru þeir farnir að sprella líkt og fullorðnar kanínur þ.e. hoppa eins og brjálæðingar. Bjartur er farinn að borða smá gras en Rúdólfur lætur mjólkina duga.