Þvílíkt og annað eins, ég segi nú bara ekki annað. Veðrið á þessu blessaða skeri getur stundu gert mig alveg orðlausa. Við Karitas fórum í fjöruferð í dag og byrjuðum á því að fara niður í Gróttu. Þar var löggubíll að laumupokast, líklegast löggur sem lásu einum of oft bækurnar hennar Enid Blyton, því þeir fóru ekki fyrr en þeir sáu að við vorum bara að tína skeljar og steina.
Það var brjálað rok og hrollkalt og þegar hundur kom á harðaspretti í átt til okkar, geltandi eins og hann ætti lífið að leysa, var Karitas nóg boðið, hentist í skelfingu inn í bíl og hélt sig þar.
Við gáfumst þó ekki svo auðveldlega upp og fórum að leita að annarri fjöru. Hún fannst ekki. Þá áttum við engra annarra kosta völ en að fara í Nauthólsvík og þar var ekki eins svakalegur stormur (aðeins ýkt) og við gátum því tínt nokkrar skeljar í poka.
Þegar heim var komið fórum við síðan að mála og lakka skeljarnar með naglalakki og nú er ég komin með lítinn kertastjaka. Við kíktum líka á kettlingana sem voru að fæðast í vikunni, þeir verða greinilega ekki sætir fyrr en seinna því þeir voru ósköp litlir en ekki þessi ótrúlegu kríli sem kettlingar eru alltaf.
Nú er spurningarkeppninni okkar Hve mörg gæludýr eigum við núna? lokið og þökkum við þeim 27 einstaklingum, sem sáu sér fært um að svara henni, kærlega fyrir þátttökuna.
Staðan undir lokin var þessi: 18% ykkar töldu okkur eiga 4 gæludýr, sama hlutfall taldi okkur eiga 7 gæludýr (það eru sem sagt 18% þeirra sem við þekkjum sem telja okkur vera geðveik!), 14% voru á því að gæludýrin væru 6, enginn var svo vitlaus að halda að þau væru 3 og 48% ykkar höfðu rétt fyrir sér. Til hamingju með það!
Nú er komin gáta á vefinn, skemmtið ykkur við að glíma við hana. Og jú, það er eitt rétt svar við þessari gátu. Að lokum: Það er kominn nýr linkur hér til hægri, linkur á ástarpróf úr dýraríkinu. Ég hvet ykkur öll til að kíkja á þetta, ferlega gaman að lesa niðurstöðurnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli