föstudagur, 17. júlí 2009

Yfir og til baka, í útgáfu Ásdísar

Ok, ég veit að þessi færsla kemur sooooooldið seint, hehemm, svona í ljósi þess að nú er mars 2010 og þessi færsla er fyrir 17. júlí 2009, en staldrið ekki við það og leyfið mér þessa sérvisku. Ég mundi bara allt í einu eftir þessu breikþrúi, þegar ég synti yfir Fossvoginn og til baka og mig langar að pára það niður áður en ég gleymi þessu alveg (sagði hún og byrjaði að pikka inn með tinandi hendi).

Í fimmtu sjósundferðinni minni, sem bar upp á föstudaginn 17. júlí, var heiðskírt og fallegt veður. Dagurinn var merkur fyrir þær sakir að það var akkúrat mánuður liðinn frá fyrstu sjósundsferðinni, en líka fyrir það að vera fyrsti dagurinn í sjö daga langri safaföstu. Og ég ákvað að fagna báðum áföngum, upphafi föstu og mánaðarafmæli, með góðum sundspretti.

Það besta við sjóinn er að mínútu eftir að maður er kominn ofan í og er kannski búinn að synda út í innri bauju þá hefur maður alveg vanist hitastiginu (sem er misvísandi orð því það er ekkert heitt við sjóinn nota bene). Í þetta skipti hefur sjórinn verið á bilinu 12-14°C, semsé alveg fín færð í góðan sundsprett. Til að halda upp á mánaðarafmælið ákvað ég að synda lengra en ég hafði hingað til gert og fara alveg út að miðju eða út að Jónasi feita. Þegar þangað var komið og við B. búin að skoða Jónas feita og klöngrast upp í hann og stinga okkur út í aftur, þá vildi ég halda örlítið lengra. Og svo aðeins lengra. Og jú, kannski bara aðeins lengra. Þangað til að fór a glitta í stöndina Kópavogsmegin. Þá var þetta eiginlega gefið mál og við syntum að nýju landfyllingunni (sem B. kallar Gunnarshólma í nokkrum hæðnistón) og hengum þar í þaranum á steinunum nógu lengi til að mér fyndist ég hafa synt yfir 100%, alveg án vafa, alveg örugglega (ég er soldið þannig sko). Þá snerum við við og dóluðum okkur til baka.

Þegar ég kom í land var ég uppfull af þessari tilfinningu að hafa áorkað einhverju. Ég var hreint og beint rígmontin af sjálfri mér :) Þegar við komum ofan í heita pottinn og sögðum Helenu og Benna frá afrekinu fullyrti ég að ég gæti þá og þegar endurtekið leikinn og enn þann dag í dag er ég fullviss um það, enda var þetta ekkert mál - bara gaman.

mánudagur, 6. júlí 2009

Fimmvörðuháls

Það virðist vera nokkur stígandi í gönguferðum okkar skötuhjúa því þessa helgi gengum við yfir Fimmvörðuháls frá Skógum og inn í Þórsmörk. Ferðin hófst með því að við ókum að Seljalandsfossi og þaðan að fyrstu sprænunni sem skilur Þórsmörk frá alfaraleið.

Þar sem allir bílar í hópnum okkar voru fullir var ekkert annað en að redda sér. Ég var varla byrjaður að húkka far þegar ungt fjölskyldufólk á heimabreyttum húsbíl bauð okkur að hoppa uppí. Fyrsti bíllinn, frábært!

Vitanlega þáðum við farið. Í upphafi ferðar vorum við eitthvað hrædd um að farangurinn okkar væri of umfangsmikill fyrir far-þega en hann var eins og krækiber aftast í bílnum og enginn tók eftir honum. Skammt undan hálflágum við í fleti og nutum landslagsins útum gluggana. Eftir að hafa dúndrað yfir hverja ánna á fætur annarri komum við í Þórsmörk.

Þar sem ekkert gsm samband er í Þórsmörk röltum við um tjaldstæðið, leituðum að og fundum okkar fólk. Tjöldun gekk svo að mestu vel nema hvað tappinn í vindsængina hafði misst af bílnum þegar ég keyrði úr Kópavogi -líklega fúll að fá ekki að koma. Þar sem allt hafði gengið eins og í sögu fram til þessa þá var tappinn eins líklegur til að eiga frænda á svæðinu.

Við röltum frá tjaldinu og spurðum fyrsta mann sem við hittum hvort hann ætti ekki tappa í Hagkaupavindsæng. Svarið var nei. Þá var bara að spyrja annan. Svarið var já! Hann átti eins vindsæng með eins tappa nema hvað vindsængin hans var sprungin, einnar vindsængur dauði er annarar vindsængur tappi :)

Eftir yndislega nótt á frábæru tappaþéttu vindsænginni okkar fórum við upp í rosalega rútu, sem er eiginlega bara blanda af rútu og heimili, aftur hálflágum við í fleti meðan þeyst var aftur yfir allar árnar og alla leið að Skógum. Hófst þá gangan.

Veðrið var milt og landslagið í kringum Skóga gróið og fallegt. Gaman að sjá hvað fossarnir fyrir ofan Skógafoss eru stórkostlegir og gefa bróður sínum í raun ekkert eftir. Ég mæli eindregið með þessum hluta leiðarinnar sem þægilegri skoðunarferð fram og til baka fyrir hvern sem treystir sér upp tröppurnar við Skógafoss.

Eftir gróna fegurðina tók við hrjóstrugt og kaldranalegt landslag og þannig var það nú stóran hluta leiðarinnar. Við Baldvinsskála áðum við örstutt og héldum svo áfram. Á svæðinu í kringum skálann er hellingur af snjó og var þá komin bjartasól svo við gengum píreyg þann kafla, reyndar hálfskíðaði ég brekkuna frá skálanum.

Ég veit ekki hvað það er í kílómetrum talið sem lá undir snjó en þeir voru tímafrekari en kílómetrarnir á undan þar sem fönnin hafði bráðnað nokkuð í sólinni. Ekki er þó á vísan að róa með veður á íslensku hálendi. Um það leyti sem við komum að minnisvarðanum um fólkið sem varð þar úti á áttunda áratugnum var komið hávaðarok og rétt áður en við komum að Bröttufönn var varla stætt. Þar féllu fossar svæðisins til himins. Á Bröttufönn var svo dúnalogn en á Heljarkambi aftur hávaðarok, upplifelsi.

Þá gerðist það sem svo margir hafa sagt mér frá. Þegar við sáum yfir Kattarhryggina og Þórsmörkina kom bara alltíeinu sóóóól og blíííiða. Algert himnaríki! 20 stiga hiti og ekkert annað að gera en að fara úr gönguskónum, leggjast í sólbað og fá sér smá rjómasúkkulaði, tölta svo restina þegar maður nennti.

Við vorum afskaplega ánægð með dagsverkið þegar við komum á tjaldstæðið og eftir kalda sturtu og mat var gengið til náða. Þegar við vorum nýlögst til hvílu byrjaði að rigna og hvað er betra en að sofa inni í tjaldi í mátulega mikilli rigningu?