Ok, ég veit að þessi færsla kemur sooooooldið seint, hehemm, svona í ljósi þess að nú er mars 2010 og þessi færsla er fyrir 17. júlí 2009, en staldrið ekki við það og leyfið mér þessa sérvisku. Ég mundi bara allt í einu eftir þessu breikþrúi, þegar ég synti yfir Fossvoginn og til baka og mig langar að pára það niður áður en ég gleymi þessu alveg (sagði hún og byrjaði að pikka inn með tinandi hendi).
Í fimmtu sjósundferðinni minni, sem bar upp á föstudaginn 17. júlí, var heiðskírt og fallegt veður. Dagurinn var merkur fyrir þær sakir að það var akkúrat mánuður liðinn frá fyrstu sjósundsferðinni, en líka fyrir það að vera fyrsti dagurinn í sjö daga langri safaföstu. Og ég ákvað að fagna báðum áföngum, upphafi föstu og mánaðarafmæli, með góðum sundspretti.
Það besta við sjóinn er að mínútu eftir að maður er kominn ofan í og er kannski búinn að synda út í innri bauju þá hefur maður alveg vanist hitastiginu (sem er misvísandi orð því það er ekkert heitt við sjóinn nota bene). Í þetta skipti hefur sjórinn verið á bilinu 12-14°C, semsé alveg fín færð í góðan sundsprett. Til að halda upp á mánaðarafmælið ákvað ég að synda lengra en ég hafði hingað til gert og fara alveg út að miðju eða út að Jónasi feita. Þegar þangað var komið og við B. búin að skoða Jónas feita og klöngrast upp í hann og stinga okkur út í aftur, þá vildi ég halda örlítið lengra. Og svo aðeins lengra. Og jú, kannski bara aðeins lengra. Þangað til að fór a glitta í stöndina Kópavogsmegin. Þá var þetta eiginlega gefið mál og við syntum að nýju landfyllingunni (sem B. kallar Gunnarshólma í nokkrum hæðnistón) og hengum þar í þaranum á steinunum nógu lengi til að mér fyndist ég hafa synt yfir 100%, alveg án vafa, alveg örugglega (ég er soldið þannig sko). Þá snerum við við og dóluðum okkur til baka.
Þegar ég kom í land var ég uppfull af þessari tilfinningu að hafa áorkað einhverju. Ég var hreint og beint rígmontin af sjálfri mér :) Þegar við komum ofan í heita pottinn og sögðum Helenu og Benna frá afrekinu fullyrti ég að ég gæti þá og þegar endurtekið leikinn og enn þann dag í dag er ég fullviss um það, enda var þetta ekkert mál - bara gaman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli