sunnudagur, 25. mars 2012

Vorveður

Það var skipt yfir í sumartíma í nótt svo við töpuðum þessum tíma sem við græddum fyrr í haust. Hér kemur reikningurinn sem maður lærði í grunnskóla í góðar þarfir, plús og mínus, tímastærðfræði.

Það er hiti í lofti og létt rigning. Ég fór í göngutúr með myndavélina til að
a) fá hreyfingu
b) hressa mig við eftir langa helgi (frí á föstudegi)
c) taka myndir af vorinu
d) taka myndir af marsmánuði (er að hugsa um ársmyndband 2012)

Að hitta kisuna var algjör bónus. Hún var reyndar svolítið illa lyktandi en það finnst ekkert á mynd.

Þessi árstíð er svona hvorki vetur né vor heldur millibilið sem mörg okkar kalla mars. Í ayurveda fræðunum er talað um marsmánuð sem mánuð öfganna þar við erum stöðugt undir ofurvald veðurbreytinga sett: heitt/kalt, heitt/kalt. Þetta kallar á ójafnvægi í líkamanum, dosha okkar, þar sem vatnið í kerfinu er í stöðugri þenslu og samdrætti. Þess vegna eru veikindi svo algeng í mars. Baldur er einmitt lasinn núna.

miðvikudagur, 21. mars 2012

Ítölsk grænmetissúpa


Hér er ein af mínum mest elskuðu uppskriftum: Ítölsk grænmetissúpa. Þessi súpa getur allt! Hún er frábær hversdags því hún er einföld og alltaf góð, og síðan er hægt að spariklæða hana og þá er hún frábær í veislur líka.

Mamma eldaði hana fyrir mig þegar ég mætti í partý til Iðunnar spænskukennara í 6. bekk í MR, ég eldaði hana þegar við Baldur byrjuðum að búa á Digranesveginum vorið 2001, ég eldaði hana aðra hverja viku í Kaupmannahöfn sumarið 2006. Á Hraunbrautinni eldaði ég hana reglulega á sunnudögum og hitaði upp afganginn á mánudögum. Ég bauð góðum gestum upp á súpuna í þrítugsafmælinu mínu með pestó, steinselju, ferskum parmesan og heimagerðum tiramísú í eftirrétt. Ég hef meira að segja eldað hana í litlum sjávarkofa með hafið ruggandi undir gólfum á smáeyju í Norður Noregi.

Ég elska þessa súpu.

Svona er hún einföld:

2 laukar
3-4 hvítlauksgeirar
Ólívuolía til steikingar
Hálft blómkálshöfuð
3-4 gulrætur
3-4 sellerístilkar
1 dós niðursoðnir tómatar
3 msk tómatþykkni
2 l vatn
4 grænmetisteningar
3 dl pastafiðrildi
salt og pipar
ferskur parmesan
ferskt búnt af steinselju

Skerið laukinn smátt og steikið í olíunni í rúmgóðum potti í 3-5 mín. Pressið hvítlaukinn út á og steikið í 1-2 mín. Kljúfið blómkálið í lítil blóm, skerið gulrætur og sellerí í 0,5 cm sneiðar og bætið öllu úr í pottinn. Steikið í 3-4 mín.

Bætið 2 l. af vatni út í pottinn, dósatómötunum og tómatþykkninu og hrærið. Bætið út í grænmetissteningunum, saltið og piprið og leyfði suðunni að koma upp. Sjóðið súpuna í 20 mín, bætið þá pastafiðrildunum út í og sjóðið skv. leiðbeiningum á pakka (10 mín).

Það er frábært að rífa ferskan parmesanost yfir súpuna og saxaðri steinselju líka. Svo er ég svo mikið nautnadýr að ég vil helst alltaf hafa sem meðlæti heilhveitibaguette og hvítlauksrjómaost.

sunnudagur, 18. mars 2012

Sunnudagssalat

Sparisalat

Hér er eitt af mínum uppáhaldssalötum. Það sem er svo skemmtilegt við það er að þarna mætast sterka bragðið úr vorlauknum og sætan úr döðlum. Sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana!

1 poki af góðri salatblöndu, eða rífa sjálf í blöndu að eigin vali
brokkolí í smáum bitum
appelsínugul papríka í teningum
vorlaukur, smátt skorinn
rauð vínber, skorin til helminga
döðlur, þurrkaðar eða ferskar, skornar í þunnar sneiðar
Herbamare og jafnvel pipar ef vill

dressing: blanda saman ólívuolíu, balsamik ediki og hunangi, salti og pipar.

Hér er í raun ekki hægt að gefa upp nein mál heldur verður maður að prófa sig áfram til að fá fram rétta áferð og bragð í dressinguna. Mér finnst best ef dressingin er frekar sæt en beisk og því á ég það til að setja slatta af hunangi og svolítið af salti til að draga fram sætuna. Skemmtilegast er þegar dressingin er tiltölulega þétt í sér, þéttari en olían en þó þannig að hún dreifir sér vel á salatblöðin.

Til að poppa upp salatið enn frekar hef ég prófað að bæta út í það muldum nacho flögum með skemmtilegum árangri.

Njótið vel og heilsusamlega :)

fimmtudagur, 15. mars 2012

Lísa í Undralandi

Eitt af áramótaheitum mínum var að lesa í það minnsta fimm klassísk verk bókmenntanna. Það fyrsta sem varð fyrir valinu var Alice's Adventures in Wonderland eftir Lewis Carrol, eða Lísa í Undralandi eins og við Íslendingar þekkjum söguna sem. Bókin kom fyrst út árið 1865 svo hún er vel komin til ára sinna en óvenju spræk miðað við aldur myndi ég segja. Ég hlustaði á söguna af hljóðbók og hlóð henni niður af vefnum LibriVox. Á þessum vef er hægt að hlaða niður miklu úrvali af klassískum verkum sem hafa verið lesin upp af sjálfboðaliðum.

Ég hlustaði á Lísu í göngutúrum um eyjuna og á leið í og úr vinnu. Ég skellti oft upp úr og brosti í kampinn enda margir skemmtilegir orðaleikir í sögunni og lesanda boðið að hlusta á órökrétt samtöl og sérkennilega dregnar ályktanir.

Sagan leið fyrir það að lesandinn (ég) er óvanur því að meðtaka bókmenntir á upplestrarformi. En það er ekki allt tekið út með sældinni, ég vil frekar hlusta á sögu í göngutúrunum og ná 80% af því sem fram fer en að sleppa því alfarið og jafnvel aldrei lesa söguna. Nú hef ég altént lesið þetta fræga verk og sé sannarlega ekkert eftir því. Kem eflaust til með að lesa hana aftur einn daginn, og þá upphátt af bók.

Hér eru síðan tvær af mörgum skemmtilegum tilvitnunum úr sögunni:

"Would you tell me, please, which way I ought to go from here?"
"That depends a good deal on where you want to get to," said the Cat.
"I don’t much care where--" said Alice.
"Then it doesn’t matter which way you go," said the Cat.
"--so long as I get SOMEWHERE," Alice added as an explanation.
"Oh, you’re sure to do that," said the Cat, "if you only walk long enough."

"Then you should say what you mean," the March Hare went on.
"I do," Alice hastily replied; "at least--at least I mean what I say--that's the same thing, you know."
"Not the same thing a bit!" said the Hatter. "You might just as well say that 'I see what I eat' is the same thing as 'I eat what I see'!"
"You might just as well say," added the March Hare, "that 'I like what I get' is the same thing as 'I get what I like'!"
"You might just as well say," added the Dormouse, who seemed to be talking in his sleep, "that 'I breathe when I sleep' is the same thing as 'I sleep when I breathe'!"

þriðjudagur, 13. mars 2012

Linsur og risanúðlur

Linsupasta með heilhveitirisanúðlum

Hér er ein gömul og góð uppskrift sem hefur fylgt mér síðustu sjö ár eða svo. Uppskriftina fékk ég frá Stellu mágkonu og er um að ræða afskaplega einfaldan og bragðgóðan rétt, en einnig næringarríkan.

1 laukur
3 gulrætur
1/2 kúrbítur
3 msk púðursykur
Oreganó
1 bolli ósoðnar grænar linsur

Linsurnar soðnar skv. leiðbeiningum á pakka. Laukurinn skorinn smátt og steiktur á pönnu í smá stund, smátt skornum gulrótum og hálfum smátt skornum kúrbít bætt við og steikt með við vægan hita í 5-7 mínútur. Þrjár teskeiðar af púðursykri og ein skvetta af oreganói eru steiktar með. Ég hef reyndar verið að nota hunang eða agave síróp undanfarið í staðinn fyrir strásykur eða púðursykur með góðum árangri.

Dós af heilum tómötum og dós af skornum krydduðum tómötum er bætt út í og látið malla. Saltað vel með maldon salti og piprað með pipar. Linsubaunirnar settar síðastar útí og látnar malla þar til þær eru heitar í gegn.

Frábært að bera fram með heilhveitipasta og hvítlauksbrauði, og já salati ef maður er svona á annað borð byrjaður :)

laugardagur, 3. mars 2012

Flutningar

Þá erum við flutt út litla kofanum okkar við sjóinn og komin í stórt 4ra herbergja hús sem líka liggur að sjónum. Hins vegar gengur sjórinn ekki undir húsið eins og hann gengur undir kofann svo ég á eflaust eftir að sakna þess að sofna við öldugjálfur. En það er í sjálfu sér óskaplegt lúxusvandamál.

Nýja húsið stendur á Hamnholmen, og er þetta eitt af verulega fáum staðarheitum á eyjunni. Hér eru nefnilega götur ekki nefndar, þannig að ég bý í húsi 18 á eyjunni Lovund. Fyndið í einfaldleika sínum.

Húsið er tiltölulega nýtt, 3-4 ára, með parketi á gólfi og flísum í hólf og gólf á baðherbergjunum. Rúmgóð eldhúsinnrétting, uppþvottavél og svo er bakaraofn líka, sem er algjör draumur eftir heilan vetur af því að hita brauð í þvottahúsinu! Í ofanálag þá keyptum við notaða þvottavél í gær svo ljúfa lífið virðist engum takmörkum háð.

Við deilum herlegheitunum með sænsku nágrönnunum sem nú geta víst ekki kallast nágrannar lengur heldur sambýlingar. Við hlökkum mikið til þess að sólin farin að skína því þá ætlum við að setjast út á risapallinn okkar sem liggur að sjónum og drekka eitthvað heitt úr bolla á meðan við öndum að okkur fersku sjávarloftinu. Og kannski gerum við nokkrar jógaæfingar til að halda mávunum á tánnum.