miðvikudagur, 21. mars 2012

Ítölsk grænmetissúpa






Hér er ein af mínum mest elskuðu uppskriftum: Ítölsk grænmetissúpa. Þessi súpa getur allt! Hún er frábær hversdags því hún er einföld og alltaf góð, og síðan er hægt að spariklæða hana og þá er hún frábær í veislur líka.

Mamma eldaði hana fyrir mig þegar ég mætti í partý til Iðunnar spænskukennara í 6. bekk í MR, ég eldaði hana þegar við Baldur byrjuðum að búa á Digranesveginum vorið 2001, ég eldaði hana aðra hverja viku í Kaupmannahöfn sumarið 2006. Á Hraunbrautinni eldaði ég hana reglulega á sunnudögum og hitaði upp afganginn á mánudögum. Ég bauð góðum gestum upp á súpuna í þrítugsafmælinu mínu með pestó, steinselju, ferskum parmesan og heimagerðum tiramísú í eftirrétt. Ég hef meira að segja eldað hana í litlum sjávarkofa með hafið ruggandi undir gólfum á smáeyju í Norður Noregi.

Ég elska þessa súpu.

Svona er hún einföld:

2 laukar
3-4 hvítlauksgeirar
Ólívuolía til steikingar
Hálft blómkálshöfuð
3-4 gulrætur
3-4 sellerístilkar
1 dós niðursoðnir tómatar
3 msk tómatþykkni
2 l vatn
4 grænmetisteningar
3 dl pastafiðrildi
salt og pipar
ferskur parmesan
ferskt búnt af steinselju

Skerið laukinn smátt og steikið í olíunni í rúmgóðum potti í 3-5 mín. Pressið hvítlaukinn út á og steikið í 1-2 mín. Kljúfið blómkálið í lítil blóm, skerið gulrætur og sellerí í 0,5 cm sneiðar og bætið öllu úr í pottinn. Steikið í 3-4 mín.

Bætið 2 l. af vatni út í pottinn, dósatómötunum og tómatþykkninu og hrærið. Bætið út í grænmetissteningunum, saltið og piprið og leyfði suðunni að koma upp. Sjóðið súpuna í 20 mín, bætið þá pastafiðrildunum út í og sjóðið skv. leiðbeiningum á pakka (10 mín).

Það er frábært að rífa ferskan parmesanost yfir súpuna og saxaðri steinselju líka. Svo er ég svo mikið nautnadýr að ég vil helst alltaf hafa sem meðlæti heilhveitibaguette og hvítlauksrjómaost.

Engin ummæli: