laugardagur, 30. júní 2007

Hugleiðingar í rútunni

Í dag tókst okkur að ná rútu til Ninh Binh og endurtókum í raun leikinn sem við lékum þegar við tókum rútuna til Halong borgar frá Hanoi um daginn. Mættum á rútustöðina upp úr hádegi eftir að hafa kvatt Hanoi í annað sinn á stuttum tíma og vorum fimm mínútum síðar komin upp í mínívagn á leið til Ninh Binh.

Þegar maður situr orðið svona mikið í rútum fer ekki hjá því að einhverjir hugrenningar slæðist upp á yfirborðið. Það er til að mynda gott að nota rútuferðir til að vega og meta landið sem maður er að heimsækja þá og þá stundina. Víetnam er ekkert öðruvísi en Indland með það að rúturferðir eru kjörin leið til að kynnast landi og þjóð betur.

Þannig höfum við tekið eftir sérkennilegu háttarlagi Víetnama í kringum loftkælingu í rútum. Fyrst þegar við fórum í loftkældan vagn hér í Víetnam gekk allt snuðrulaust fyrir sig en þegar við tókum Klepp hraðferð í gær var annað upp á teningnum og sama vitleysan endurtók sig síðan í dag. Þessi vitleysa lýsir sér í því að farþegar og miðasölumenn sérstaklega eru að opna glugga og dyr rútunnar í tíma og ótíma. Fyrir vikið verður loftið rakt og heitt og fljótlega verður alveg óbærilegt inn í rútunni.

Í dag fengum við þá útskýringu frá heimamanni að fólk kærði sig oft einfaldlega ekki um alla þessa loftkælingu og opnaði öll fög til að hleypa raka og hita inn. Og við sem héldum að þetta væri á einhverju órökréttum viðbrögðum byggt!

Annað sem er skemmtilegt að minnast á eru auglýsingaskiltin sem maður rekur augun í á vegum úti. Algengast er að verið sé að auglýsa com (hrísgrjón), (nautakjöt) og pho (núðlur). Einnig er mjög algengt að sjá fólk í umferðinni með maska fyrir vitunum og fást þessir maskar að því er virðist í öllum regnbogans litum, sbr. sá guli sem xe om bílstjórinn okkar bar fyrsta daginn okkar í Hanoi.

Að lokum eru það háu hanskarnir sem konur skarta margar hverjar utandyra og er sú tíska í takt við hvítunarkremin sem fást hér í Suðaustur Asíu. Hver vill svo sem fá sólbrúna upphandleggi þegar maður getur gengið með frúarhanska uppfyrir olnbogabót í 40 stiga hita?

föstudagur, 29. júní 2007

Kleppur - hraðferð

Ekki er hægt að segja að neitt hafi gengið eftir áætlun í dag, eða í það minnsta ákaflega fátt. Til að yfirgefa Halong borg þarf að kaupa rútumiða og til að kaupa hann þarf að eiga peninga og til að nálgast þá þarf að komast í hraðbanka.

Í bænum eru tveir hraðbankar og virkaði hvorugur sem skyldi og þá vorum við nú fegin að hafa í fórum okkar ferðatékka, gengum í bankann. Þar sem hann var auðvitað lokaður fórum við aftur í hraðbankann og jesssssss, hann virkaði!

Þegar komið var á rútustöðina reyndist síðasta rútan til Ninh Binh (bæjarins sem við ætluðum til) vera nýfarin og til að komast örugglega í burtu stoppuðum við rútu sem var að renna úr hlaði og spurðum hvert hún færi, Hanoi var svarið og við um borð.

Þess ber að geta að eftir rútuferðina frá Hanoi bjuggumst við aðeins við hinu besta: Loftkælingu, farangursrými og rólegu fólki. Í þessari rútu var jú loftkæling en hún var sjaldnast notuð, rólega fólkið og farangursrýmið voru ekki í boði.

Fyrir framan okkur sat blindufullur karl með lifandi fiska í fötu og við hliðina á mér sat miðavörðurinn sem sennilega borðar rítalín í morgunmat. Báðir skoðuðu okkur í krók og kring, störðu, og sögðu eitthvað við okkur á víetnömsku. Þegar miðavörðurinn var farinn að strjúka mér um handleggina og klípa var mér öllum lokið og á íslensku bað ég hann að gjöra svo vel að hafa sig hægan, það gekk eftir.

Ferðin var í sjálfu sér alger lúxus við hliðina á því sem við kynntumst í Indlandi en ég get ekki sagt annað en að ég hafi verið feginn þegar við komum til Hanoi. Það besta við þessa ferð var að hún setti okkur í hinn margfræga Indlandsgír, engin miskunn, og fékk leigubílstjóri nokkur að finna fyrir því.

Þegar rútan kom til Hanoi lágu leigubílstjórarnir á gluggum langferðabílanna í von um ferskt blóð og taldi einn sig hafa komist í feitt þegar við völdum bílinn hans. Eftir nokkurn spöl sáum við að gjaldmælirinn gekk á a.m.k. tvöföldum hraða. Í sannkölluðum Indlandsham flettum við upp orðinu lögregla á víetnömsku, sögðum kauða að beygja út í kant og tókum hann á beinið.

Skemmst er frá því að segja að við komumst á sanngjörnu verði, heilu og höldnu, á sama hótel og síðast. Kleppur hraðferð er orðinn að skemmtilegri minningu.

fimmtudagur, 28. júní 2007

Óvinur ríkisstjórnarinnar

Eftir bátsferðina um Ha Long flóa í dag ákváðum við að ganga frá höfninni heim á hótel og gæti ég best trúað að það væri um hálftíma ganga. En það var heitt og rakt á göngunni svo svitinn perlaði framan í okkur, hreinlega bogaði af enni okkar. Sem betur fer fundum við loftkælt kaffihús á leiðinni og leituðum skjóls þar.

Ég ákvað að panta mér Shirley Temple mocktail : epla- og appelsínusafi, Sprite og Grenadine síróp. Drykkurinn var borinn fram í háu glasi með kokteilpinna, regnhlíf og lime sneið, sem sagt öllu til tjaldað. Nema hvað þegar ég bar drykkinn upp að vörunum tók ég eftir litlum, svörtum doppum á floti í drykknum og þegar ég veiddi eina doppuna upp úr komst ég að raun um að þetta voru maurar. Maurar í mocktailnum mínum! Og fluga í súpunni í gær!

Ég held að enginn geti álasað mér fyrir að vilja komast frá Ha Long sem fyrst, það er augljóslega verið að byrla mér skorkvikindum. Baldur heldur að sósíalistarnir telji mig til óvina ríkisstjórnarinnar, ég held að þeir séu bara að reyna að vera andstyggilegir við mig.

Ha Long flóaferð

Meginástæða veru okkar í Halong borg er flóinn sem hún stendur við og sigling um hann. Í morgun héldum við til hafnar til að finna bát með áhöfn sem væri tilbúin til að sýna okkur flóann á viðráðanlegu verði. Leiðbeiningar ferðahandbókarinnar voru frekar slappar og ef við hefðum fylgt þeim hefðum við endað með að greiða u.þ.b. $28 fyrir fjögurra tíma siglingu.

Með okkar alkunnu ráðvendni og útsjónarsemi enduðum við á því að fá sama túr fyrir rúma $5. Fleyið var tveggja hæða og festum við okkur sæti með góðu útsýni við skipstjórnarhúsið. Siglt var á milli skógivaxinna eyja, dranga og kletta sem sumir báru skemmtileg nöfn eins og Hundurinn og Kyssandi kjúklingarnir.

Halong flói þýðir á íslensku Drekaflói (bókstaflega: Þar sem drekinn heldur til hafs) og segir sagan að dreki hafi mótað þetta merkilega landslag á leið sinni út flóann. Þar sem nú á dögum er ekki mikið um skúlptúrasýningar dreka er flóinn allur á heimsminjaskrá UNESCO.

Á ferðinni heimsóttum við lítið, fljótandi fiskimannaþorp og skoðuðum tvo risastóra hella. Hellarnir heita Tien Cung og Dau Go sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýðir en ætla að kalla þá Mörgæsahelli og Höfrungahelli þar sem ruslatunnurnar voru eftirmyndir þessara ágætu dýra.

Til marks um hve þægilegt lífið er þessa dagana þá var okkar stærsta deiluefni á siglingunni hvort sjórinn í kring væri sægrænn (Ásdís) eða Nílargrænn (ég). Auðvitað var hann sægrænn, grænn sjór, en ekki eins og sjórinn heima. Á palettuspjöldum í málningabúðum heitir þessi litur Nílargrænn.

Eftir að hafa tekið deilumálið mikla af dagskrá fundum við okkur nýtt tómstundagaman og var það að njósna um víetnamskt kærustupar sem var með okkur á bátnum. Þau báðu nú reyndar um athygli, svona lítil og sæt með kúrekahattana sína.

En hvað er ég að blaðra, myndir segja oft meira en orð og gef ég sýnishorn hér en að sjálfsögðu er hellingur í viðbót á myndasíðunni!

Fluga í súpunni

Við tókum rútuna í dag frá Hanoi (bless bless) yfir til Ha Long borg sem er nokkurn veginn beint austan af Hanoi og kúrir við Ha Long flóa. Við vissum ekki hvenær rúta þangað færi en vorum svo heppin að mæta tveimur mínútum fyrir brottför og fá fín sæti í loftkældum míní vagni.

Á leiðinni til Ha Long keyrðum við framhjá ótalmörgum hrísgrjónaökrum og á þeim sáum við m.a. Víetnama með hattana sína típísku að beita uxa fyrir plóg, hvítar Andrés andar endur í sefinu, vatnabuffala að tyggja sefið og forfeðraölturu. Við fengum líka okkar skammt af víetnamskri tónlist því í vagninum var bílaspilari með litlum skjá og miðasalinn heimtaði að spila klassísk tónlistarmyndbönd. Ólíkt upplifun okkar af tónlist í indverskum rútum voru víetnömsku myndböndin skemmtileg og tónlistin þægileg.

Eftir þriggja og hálfstíma ferð með vagninum vorum við loks komin á áfangastað. Eftir mikla leit fundum við herbergi með loftkælingu á ásættanlegu verði ($8) í þeim hluta bæjarins sem kallast Bai Chay. Við drifum farangurinn upp þessar fjórar hæðir og að sturtu lokinni héldum við út að finna okkur eitthvað í gogginn. Enduðum á velja á milli tveggja alveg eins veitingastaða sem voru meira að segja hlið við hlið.

Þegar núðlusúpan mín var borin fram kom í ljós að hún var ekkert spes. Hún varð þó enn síður skemmileg þegar ég fann flugu í henni. Við það tækifæri varð ég að gjöra svo vel og nota setninguna góðkunnu: Þjónn, það er fluga í súpunni minni. Sem betur fer var þjónninn ekki vel að sér í þessum brandaraflokki og kom ekki með eitthvert sniðugt tilsvar sem gæti hafa látið mig líta út eins og fáfróða ferðamanninn. Í þetta sinn hafði viðskiptavinurinn með flugu í súpunni rétt fyrir sér, flugan átti bara ekki neitt að vera í súpunni.

þriðjudagur, 26. júní 2007

Kíkt á kommúnistafélaga

Við heimsóttum tvo háttsetta kommúnistafélaga í dag: Ho Chi Minh og Lenin. Það er ekki hægt að heimsækja Víetnam án þess að kíkja á blessaðan Ho Chi Minh, jafnvel þó hann sé dauður og grafinn. Nei, bíddu, hann er ekki grafinn, lík hans er varðveitt í grafhýsi hér í Hanoi og straumur af fólki kemur að heimsækja hann á degi hverjum.

Við gerðumst svo fræg að bætast í þennan straum í gær, nema hvað grafhýsið og safnið var lokað og aðeins hægt að ganga um grundir forsetahallar hans og skoða stultuhúsið sem hann bjó í um tíma.

Í dag gerðum við aðra tilraun til að sjá Ho frænda (ekkert grín, hann er kallaður Uncle Ho!). Í þetta sinn notuðumst við við cyclo sem eru hjólaléttivagnar, nema hér á bæ sitja farþegar framaná en ekki að aftan eins og í Indlandi. Baldur hafði gerst svo djarfur að klæðast rauðum hlírabol sem ekki þótti standast skilyrðin sem uppfylla þarf fyrir heimsókn í grafhýsið. Helstu skilyrðin eru þau að fólk klæði sig sómasamlega (need to have strictly, dress neatly and tidily) og alls ekki ófrómlega (no permit to objects entering […] in unserious costume), maður má ekki vera veikur eða slæmur til heilsunnar né vera laus við mannasiði (culturedless manner).

Við skemmtum okkur stórvel að lesa þessar reglur en eins og áður segir þótti annað okkar ekki nógu prúðbúið og varð því að kaupa dömusjal á $2 (herraskyrtur voru á $5, betri kaup í sjalinu). Síðan urðum við að skila myndavél og vatn eftir, ganga í gegnum öryggishlið og þá loksins fengum við að fara í langa röð. Sem betur fer gekk hún hratt fyrir sig, hvítklæddu öryggisverðirnir sáu til þess.

Inn í grafhýsinu sjálfu var svalt og gott að vera. Lík Ho Chi Minh liggur í glerkistu (eins og Mjallhvít) sem er niðurgrafin og varin með vegg svo enginn komi of nálægt. Ef til þess skyldi koma eru fjórir vopnaðir verðir til taks við hlið kistunnar. Verðir meðfram veggjum stugga við fólki og koma í veg fyrir að hægist á röðinni, allt mjög skilvirkt. Þeir sjá einnig til þess að maður taki af sér hatta og sólgleraugu og sýni tilhlýðilega virðingu, ég var bara fegin að enginn ætlaðist til þess að við færum að grenja.

Eftir grafhýsið tókum við rúnt um Ho Chi Minh safnið (sem er skemmtilega framsett), héldum þaðan með xe om að Lenin Park. Áður en við heimsóttum Lenin fengum við okkur þó hressingu á veitingastað við vatn, sárast tók mig að eftirrétturinn mous sôcôla skyldi vera búinn.

Lenin Park er grænn eins og allt Víetnam en má greinilega muna fífil sinn fegurri. Fáir gestir í garðinum, örfáir íþróttálfar að æfa og kærustupör að kela á bekkjum. Í miðjum garðinum er mikið vatn og kringum það liggur göngustígur. Í garðinum eru járnbrautateinar, ryðgaður rússíbani og hringekja fyrir börnin, ekkert þeirra þó í gangi og enginn í kring til að nota þau.

Við sáum Lenin ekki að þessu sinni, þurfum víst að halda til Moskvu til þess. Það bíður bara betri tíma.

mánudagur, 25. júní 2007

Helgin í Hanoi

Við vorum dugleg þessa helgi í Hanoi. Eftir ferskan mangósafa á kaffihúsinu Little Hanoi 2 (sem tengist veitingastaðnum Little Hanoi 1 ekki neitt!) tókum við xe om á Etníska safnið í Víetnam. Xe om eru mótorhjól sem virka eins og leigubílar og skutla manni um alla borg. Hér flauta menn í umferðinni og keyra eins og bjánar og við héngum hjálmlaus aftan á mótorhjóli og héldum dauðahaldi í Víetnama með grænan kúluhatt og gula tusku fyrir vitunum. Við komumst þó heilu og höldnu á áfangastað, urðum reyndar að kreista aftur augun á stundum.

Á safninu skoðuðum við handverk hinna mörgu etnísku hópa sem búa í Víetnam: leirkerasmíð, kopar, lakk, útskurð, vefnað, hattagerð, veiðigildrur, húsagerð, frjósemisstyttur, altari til forfeðradýrkunar o.s.frv.

Frá safninu héldum við niður að Cam Chi götu sem er rómuð fyrir góðan götumat. Þar fengum við okkur núðlusúpu og nýbakaða bagettu út á stétt innan um heimamenn í helgarfíling. Við gengum frá Cam Chi um Gamla hverfið og reyndum að finna leiðina heim. Þar sem Víetnamar notast við rómanskt letur ólíkt öðrum nágrannaþjóðum ætti að vera auðvelt að komast leiðar sinnar en einhvern veginn villtumst við um allt, inn á ómerktar götur og útimarkaði. Enduðum á því að kíkja á gömul áróðursspjöld kommúnistanna, borða á Bar 69 og finna leiðina heim á hótel.

Á sunnudeginum keyptum við okkur sitthvorn hattinn til að verja okkur gegn geislum sólar, Baldur fékk sér derhúfu með kommúnistastjörnu, ég fékk mér hefðarfrúarhatt með stóru barði og slaufu! Kíktum því næst á morgunsýningu vatnabrúðuleikhússins hér á bæ. Vatnabrúðuleikhús er norður víetnömsk hefð sem hrísgrjónabændur fundu upp í fyrndinni og á hátíðum sýndu þeir brúðuleik sinn á vatnsfylltum ökrunum fyrir þorpsbúana.

Eftir sýninguna röltum við í kringum Hoan Kiem vatn og fylgdumst með Hanoibúum á sunnudegi: fjölskyldur á kaffihúsum og kærustupör á bekkjum. Komum við í bakarí og keyptum okkur bánh sôcôla (f. pain au chocolat) sem stóðst allar væntingar og var franskt út í gegn.

Eftir hvíld inn á loftkælda herberginu okkar yfir heitasta og rakasta tíma dagsins kíktum við í Memorial House og sáum hvernig kaupmenn og hinir velmegandi lifðu áður fyrr í Hanoi borg. Sáum hauskodda úr bambus, flotta tekatla og bolla, skeiðar og gaffla úr skeljum, matarprjóna og allt sem þeim fylgir, mandarín letur á hrísgrjónapappír.

Eftir helgina þekkjum við aðeins betur inn á Víetnam og fólkið sem hér býr. Maturinn er verulega góður en dýr, allt er gefið upp í dollurum en svo borgar maður í dong, sölumenn og leigubílstjórar eru ótrúlega uppáþrengjandi en aðrir íbúar virka afslappaðir. Umferðin gefur ekkert eftir og rautt ljós hefur litla sem enga merkingu, til að komast yfir götu þarf maður að sigla hægt og rólega inn á hraða götuna og smeygja sér milli mótorhjóla og vespa. Við erum líka búin að læra að bera Víetnam fram rétt: Vjedd naaaam. Og hafa það nefmælt takk fyrir!

laugardagur, 23. júní 2007

Hæ frá Víetnam!

Þá erum við komin til Víetnam. Við lentum í gærkvöldi í Hanoi eftir tíðindalaust flug með lággjaldaflugfélaginu Air Asia. Þurftum að fylla út komuspjald með grænu eða svörtu letri (!), fengum því næst stimpil í vegabréfið hjá innflytjendaeftirlitinu á flugvellinum: Velkomin til sósíalíska lýðveldisins Víetnam!

Á flugvellinum héldum við beint í hraðbankann til að taka út seðla í víetnamskri mynt, dong. Víetnömsk mynt er augljóslega mjög veik því við tókum út 1 milljón dong sem samsvarar tæpum fimm þúsund krónum. Við höfum nú aldrei tekið út svo háa upphæð í hraðbanka en einhvern tímann er allt fyrst :o)

Við hraðbankann hittum við tvo Svía og deildum með þeim leigubíl niður í bæ. Þegar ég settist inn í leigubílinn fannst mér eitthvað skrýtið við leigubílstjórann, gat þó ekki sett fingurinn á nákvæmlega hvað ylli þessari tilfinningu. Þegar við komum síðan út í umferðina áttaði ég mig á því hvað málið var. Í Víetnam er hægri umferð sem þýðir að bílstjórinn sat vinstra meginn í bílnum og það fannst mér svo skrýtið. Hægri umferð er skrýtin!

Við fengum strax þarna á byrjunarreit smá nasasjón af kommúnistastjórninni. Við höfðum ekki keyrt lengur en í þrjár mínútur með leigaranum þegar flugvallalöggur stöðvuðu bifreiðina og tóku bílstjórann á beinið. Við vorum vinsamlegast beðin um að fara út úr bílnum með allt okkar hafurtask og okkur lofaður nýr leigari. Við botnuðum að sjálfsögðu ekkert í málinu og léleg enskukunnátta víetnömsku lögreglunnar hjálpaði ekki, eina sem þeir gátu sagt var "problem with security".

Robert, annar Svíanna, var meira að segja beðinn að fylla út skýrslu, en þá var farið að sjóða á mér því ég vildi komast inn á hótel sem fyrst en ekki standa út á miðri hraðbraut með farangurinn milli fótanna eins og flóttahundur. Svo ég lét í mér heyra og kom f-orðinu fyrir í annarri hverri setningu, Víetnömunum til undrunar. Þeir báðust afsökunar á ónæðinu í bak og fyrir en ég sagði bara að þeir væru crazy. Allt í boði Indlandsreynslunnar :o)

Þegar við loksins fengum að halda för okkar áfram fundum við flott herbergi á hóteli í hjarta gamla hverfisins. Og ég meina alvöru flott með drifhvítu líni, dökkum og lökkuðum viðarhúsgögnum, veggfóðri og veggljósi, sjónvarpi og DVD spilara, ísskáp og loftkælingu, algjört dekur. Fórum síðan með Svíunum á veitingastaðinn Little Hanoi 1, flissuðum yfir verðlaginu á matseðlinum, fengum mjög góðan mat og sátum að snakki fram til hálfeitt en þá urðum við að fara til að ná heim fyrir útgöngubann.

föstudagur, 22. júní 2007

Haltu mér, slepptu mér Bangkok!

Ó, við erum að fara frá Bangkok í eftirmiðdaginn!

Og ég vil ekki fara!

En það er næstum alltaf svona, ég er spennt fyrir næsta áfangastað og pínu taugastrekkt en vil þó ekki kveðja allt sem ég er búin að venjast. Og það er svo auðvelt að venjast lífinu í Bangkok, þess vegna er öfgaerfitt að segja bless.

En hvað er ég að kvarta, áður en ég veit af verðum við komin hingað aftur, við eigum nefnilega stefnumót hér í lok júlímánaðar. Og þá get ég aftur fengið mér ferskan papaya og sætan mangó í morgunmat, keypt mér grillmat með sætri chilisósu upp úr miðnætti, virt fyrir mér flottu, retró vespurnar sem allir keyra um hér á bæ og ferðast um með leigurum sem yfirleitt eru til í að nota mælinn svo maður sleppur við allt prútt um verð fyrir ferð.

Þetta er einhverskonar haltu mér-slepptu mér samband því á sama tíma og ég græt yfir því að kveðja Bangkok er ég spennt að heimsækja nýtt land, heyra nýtt tungumál, prufa annarskonar mat og drykk, sjá nýjar borgir og grænar sveitir. Og þess vegna erum við á förum, rekin áfram af furðulegri ferðahvöt og þeirri staðreynd að verki okkar hér í borg er lokið, þ.e. að verða okkur úti um vegabréfsáritun.

Í kvöld verðum við komin til höfuðborgar Víetnam, Hanoi. Við erum að leggja þá heimsókn á okkur bara til þess eins að geta verið óþolandi í öllum pinnaboðum, héðan í frá ætlum við nefnilega að byrja allar sögur á "When I was in Nam"...

P.s. Myndir frá Borg borganna eru komnar á netið, skoða, kíkja, skoða!

Chinatown, Siam Sq. & Lumphini Park

Við fórum í mjög skemmtilega bæjarferð í dag og höfum nú skýrari mynd af því hvað Bangkok hefur upp á að bjóða. Við byrjuðum á Kínahverfinu og skoðuðum þar kínverskar kvikmyndir og tónlistardiska til sölu, fylgdumst með því hvernig furðulegir ávextir eru verkaðir, fengum blævæng frá skrautlegum karakterum, kíktum í raftækjaverslun (sem er eitt af aðaláhugamálum okkar!) og keyptum lichi í poka.

Við sáum líka þurrkaða sæhesta í krukkum og hákarlaugga í búðarglugga, kastaníur í ristun, kínversk rittákn, þurrkaða fiska með allskonar krydderingu, ferskar ostrur og krabba með bundnar klær, girnileg kirsuber, epli og vínber á ávaxtamarkaðnum, grillaðar og útflattar Peking endur og afhoggna hausa með langan háls til hliðar. En hvort við heyrðum nokkurn tímann kínversku talaða get ég ekki sagt til um, ég er ekki það sleip í að þekkja tónamál í sundur.

Frá Kínahverfinu tókum við leigara niður á Siam Sq. sem er eitt helsta verslunarhverfi borgarinnar (MBK verslunarmiðstöðin góða stendur einmitt við torgið). Siam Sq. er mekka táninga Bangkok og til marks um það var allt morandi í unglingum í skólabúningum. Ekki að maður hafi í fyrstu fattað að allar stúlkurnar væru í skólabúning, míní pils, pinnahælar og flegnar skyrtur voru augljóslega haute couture í þeirra augum. Við gerðum okkur leik að því að festa táningana á filmu en náðum því miður ekki að skjalfesta stystu pilsin og svæsnustu hælana.

Siam Sq. virkaði á okkur sem Barbieheimur eða draumaveröld verslunarfríksins: endalaust úrval af varningi og mat, bleikir ljósastaurar og appelsínugulir plastbekkir til að tilla sér á í amstri verslunarleiðangurs, húsin öll lágreist, hreinar og hellulagðar gangstéttar, skærlit auglýsingaskilti og tré í beðum.

Frá MBK tókum við Skytrain yfir í Lumphini Park. Himnalestin er það sem ég myndi kalla últramódern fararmáti, hún rennur þægilega eftir teinunum, er hrein og loftkæld og auðveld í notkun. Við fórum út á Ratchadamri stöð og gengum þaðan yfir í garðinn. Þar bættumst við í hóp skokkandi og hlaupandi Tælendinga, frá 12 til 82 ára. Við létum okkur nægja að ganga í rólegheitum eftir fallegu hlaupabrautinni sem liggur samsíða stilltu vatni. Við fundum reyndar lítið útiþrek sem við prufuðum, ég kíkti á göngubrautina og Baldur gerði upphífur. Því miður var bekkpressan lok, lok og læs.

Á slaginu sex fór þjóðsöngurinn að óma úr nærliggjandi hátölurum og þá var sem mynd á skjá hefði verið fryst því allir stöðvuðu í miðju spori til að hlýða á. Þegar þeim álögum var létt héldum við röltinu áfram og gengum fram á fólk í tai chi og jóga, horfðum á heilan her af fólki í úti aerobic tíma og aðra í badmínton. Loks áðum við á bekk við leikvöllinn og fylgdumst með litlum ungum klifra í rennibrautum og róla sér til himins. Þegar tekið var að skyggja spegluðust upplýstu skýjakljúfarnir svo fallega í vatninu, einkar ljóðrænt. Sáum líka tvær ponkulitlar kisur, önnur hvít, hin svört.

Frá garðinum gengum við eftir Th Silom götu með öllum sínum verslunum og sölubásum og varla að þverfótað væri fyrir varningi. Fengum okkur síðan kvöldmat á tælenskum heilsustað, Wai Thai. Baldur segir að rauði drekasorbetinn þar sé góður, ég segi að mangósorbetinn þeirra beri sterkan keim af kardímommum.

miðvikudagur, 20. júní 2007

Smooth talking

Mr. Armani suits í Bangkok, á nafnspjaldinu stendur:

Tailoring is an art.
Art is beautiful.
Beautiful is satisfaction.
Satisfaction is our guarantee.
Our guarantee is our success.
Our success is our buisness.
To do buisiness with you is our future.

Jóakim aðalönd og Kolbeinn kafteinn kveðja

Þessar ágætu hetjur voru sendar lönd og leið að sinni þegar ég lét hið margumtalaða skegg fjúka. Þar sem ég hafði látið ræktunina ganga algerlega náttúrulega fyrir sig var þetta orðin einhver blanda af Kimma og Kobba, þ.e. Jóakim aðalönd og Kolbeini kafteini.

Nú eru rúmir tveir mánuðir síðan tilraunin hófst og því ágætt að breyta til. Rakarinn sem ég fór til var sá alnatnasti í greininni og snurfusaði mig allan fram og til baka: rakaði skeggið af í tveimur eða þremur umferðum, klippti nefhárin, rakaði eyrun, ennið og andlitið allt.

Eftir allan þennan rakstur var ég smurður fram og til baka með olíum, rakspíra og talkúmi og fékk að auki axlanudd og einhverja sérmeðferð á ennið (blautur, ilmandi og ískaldur þvottapoki beint úr ísskápnum!). Nú ætla ég bara að byrja að safna aftur svo ég geti drifið mig til rakarans og farið aðra salíbunu!

Fyrir

og eftir...

þriðjudagur, 19. júní 2007

Megabíó á degi konungsins

Mánudagar eru konungsdagar í Tælandi og hylla allir kónginn með því að klæðast gulri skyrtu, stutterma- eða pólóbolum. Ég hafði verið að pæla í því hvað málið væri eiginlega þegar gestir eins veitingastaðar nokkurs voru nánast allir í eins fötum. Hélt þetta væru kannski vinnufélagar að fá sér bita eftir vinnu en þá voru þetta bara þegnar sama konungsins.

Á þessum ágæta konungsdegi skelltum við okkur í bíó, ásamt félögum okkar Bryan og Diane, og sáum Oceans 13. Það var mjög svo viðeigandi að velja þennan dag því fyrir hverja bíósýningu í Tælandi er þjóðsöngurinn spilaður og allir standa upp. Laginu fylgir heljarinnar myndband með fallegum landslögum og hamingjusömum Tælendingum.

Tælendingar viðhalda þeim góða sið að hafa númeruð sæti í kvikmyndahúsum og velur maður sætin einfaldlega af tölvuskjá í afgreiðslunni. Á leið til salarins eru einkennisklæddir starfsmenn sem allir heilsa með hinu vinalega sabadí og vísa manni veginn að snyrtilegum sal og merktum sætum.

Ég mæli eindregið með tælenskum kvikmyndahúsum og óska þess að Íslendingar taki þá sér til fyrirmyndar í þessum málum. Við fengum nefnilega að horfa á alla myndina, hverja einustu sekúndu, því það var ekkert hlé og aðstaða öll eins og best er á kosið. Það eina sem mætti setja út á var miskunnarlaus kuldinn, loftkælingin var alveg ofvirk og var ég feginn að fá að kúra mig undir pasmínunni hennar Ásdísar.

mánudagur, 18. júní 2007

Sautjándi júní í Borg englanna

Tælendingar kalla Bangkok Krung Thep sem útleggst sem Borg englanna á íslensku. Englarnir í þessari borg ganga flestir í mínipilsum og pinnahælum og það er erfitt að giska á hver er af hvaða kyni. Yfirleitt er sú kvenlegasta þó jafnframt sú dimmraddaðasta.

Þessir tælensku englar halda ekki upp á 17. júní eins og við gerum heima (gisp!). Við urðum því að gera það besta í stöðunni og spinna upp okkar eigin hátíðarhöld. Og við gerðum það með stæl, tælenskum stæl. 17. júní snýst nefnilega um þrennt: neyslu, veðrið og mannfjöldann en ekki endilega staðsetningu.

Neyslan: Við stóðum okkur með stökustu prýði í neysludeildinni. Við fórum á Th Khao San þar sem allir túristarnir skottast um. Við keyptum falafel af götusala, drukkum gos á gangstéttarkanti og gæddum okkur á þurrkuðum og krydduðum smokkfiski. Við fengum okkur ferskt papaya af götusala, skoðuðum vöruúrvalið, dreyptum á ferskum safa í risaglösum, forðuðum okkur undan kexrugluðum Þjóðverja sem sagðist vera hjónabandsráðgjafi og vildi að ég giftist gæjanum á næsta borði, fundum svo hliðartösku handa Baldri. Fórum því næst á Star Bucks með Bryan og hann splæsti á okkur góðum drykkjum. Borðuðum að þessu sinni tælenskt á sjálfan þjóðhátíðardaginn og fengum kúluís í eftirrétt.

Veðrið: Það var skýjað eins og sæmir 17. júní, svo kom mjög létt rigning sem að sjálfsögðu á heima á þessum degi.

Mannfjöldinn: Á Th Khao San var allt fullt af fólki og minnti helst á miðbæ Reykjavíkur á merkisdegi. Engar blöðrur að þessu sinni en uppstrílað fólk, hávær tónlist og ölvun á almannafæri.

Allir lögðu sem sagt sitt af mörkum til að gera daginn sem þjóðhátíðarlegastan fyrir afvegaleiddu Íslendingana.

sunnudagur, 17. júní 2007

Loksins One Night in Bangkok

Ég var lengi búin að bíða spennt eftir að heimsækja Bangkok og eftir því sem nær dró heimsókn okkar því oftar spiluðum við lagið góða One Night in Bangkok sem ég heyrði svo oft síðasta sumar. Fyrsta kvöldið í Bangkok er að baki og gott betur en það; við erum búin að vera hér heila nótt og heilan dag og fyrstu kynnin gefa tilefni til toppeinkunnar: Við elskum Bangkok!

Eftir áfallalaust og meira að segja vel heppnað flug með hinu mjög svo vafasama flugfélagi Royal Nepal Airlines lentum við á últramóderna Suvarnabhumi flugvelli í Bangkok. Það fyrsta sem tók á móti okkur var mynd af konunginum á einum rampinum og skilaboðin Long Live the King!

Við tókum leigubíl niður í bæ og áttum ekki orð yfir að hann væri tandurhreinn, vellyktandi og loftkældur! Og engin flaut og læti í umferðinni! Og fólk keyrði á akgreinunum! Og enginn keyrði á móti umferð! Og við vorum aldrei í lífshættu! Við getum kallað þetta jákvætt menningarsjokk, okkur fannst við vera komin heim.

Við fundum súperhreint herbergi á hóteli nálægt Th Khao San (túristabælinu). Allt iðaði af lífi þótt klukkan væri að ganga tíu svo við hentum af okkur farangri og hafurtaski og fórum út á lífið. Upplýstar byggingar, auglýsingaskilti, sanseraðir leigubílar í öllum regnbogans litum, risastórir túk-túk, heilar gangstéttar og niðurföll, 7/11 og netkaffi opin 24/7, götusalar að selja grillkjöt á teini; ferska, niðurskorna ávexti; nýpressaða safa; núðlur og steikt grjón; vændiskonur á götuhornum og ladyboys í hverju horni, brosmilt fólk, hiti og raki en loftkæling allsstaðar, hljóðlát umferð og engin skítalykt... eiginleg of gott til að vera satt.

Þetta fyrsta kvöld borðuðum við á gangstéttaveitingastað og fengum besta mat í langan tíma. Skemmtum okkur svo vel í borg borganna að við vorum ekki farin að sofa fyrr en fjögur. Héldum fjörinu áfram daginn eftir með því að taka sundsprett í sundlauginni á þaki hótelsins og sólbaða okkur, ferðast svo með skærbleikum leigara niður í MBK verslunarmiðstöðina og skoða töskur, boli og sólgleraugu, borða kleinuhringi á Mister Donut, byrja svo að spjalla við Bandaríkjamanninn Bryan í anddyri hótelsins upp úr miðnætti og hætta því ekki fyrr en fjögur um nóttina. Úllala hvað það var gaman.

Öll fögru fyrirheitin, tilhlökkunin og eftirvæntingin, að ég tali ekki um allar væntingarnar, hafa staðið sína pligt. Það hefur kannski eitthvað að gera með að við vorum verulega lífsgæðasvelt eftir sex mánaða þvæling um hindúalönd. En samt... hver fílar ekki Bangkok?

föstudagur, 15. júní 2007

Suður á bóginn

Tíu dagar í Kathmandu að baki eins og hendi væri veifað. Við vissum ekki hvað beið okkar þegar við héldum frá Indlandi og hefðum við fengið að vita að það væru beinverkir og hiti hefðum við að öllum líkindum haldið okkur fjarri!

Þrátt fyrir veikindin náðum við að njóta þess að vera í Kathmandu, borgin er eftir allt saman lítil, lifandi og viðráðanleg. Við gengum mikið um Thamel túristabælið, lentum oft í rigningu og neyddumst einu sinni til að taka hjólarikkara heim þegar götur urðu ófærar. Við keyptum fjórar heitustu Bollywood myndirnar og eina ferðahandbók, borðuðum fáránlega margar búrrítúr á skömmum tíma og uppgötvuðum bestu pítsur Asíureisunnar fram til þessa... á næstseinasta deginum.

Heimsóknin hingað hefur fært mér heim sannindi um að Nepal sé vel þess virði að heimsækja. Heimsóknin var eiginlega hugsuð sem úttekt, sjá hvort hingað væri gaman að koma og trekka, og nú er endanlega komið á ferðalistann trekk um Annapurna svæðið einhvern október eða nóvembermánuð og útsynisflug yfir Everest. Ef einhver annar hefur hugsað sér að koma hingað í trekk get ég sagt ykkur það að hér er hægt að fá allt til að undirbúa slíka gönguferð, eina sem maður þarf að hafa í farteskinu er spenningurinn, áhuginn og smá gönguþrek.

Nú ætlum við að kveðja Nepal í bili og halda suður á bóginn. Ég ætla ekki að gefa upp hvert við höldum en segi bara að við höfum ekki séð tilgang í að fara á tælenska veitingastaði hér í Kathmandu.

Að venju eru myndir komnar á netið, að þessu sinni í Nepalalbúmi: Hér!

fimmtudagur, 14. júní 2007

Háfleygur búddismi

Fyrir skömmu rákumst við á bókaflokk sem skrifaður er til að kynna búddisma fyrir hinum ýmsu spendýrum, svosum björnum og kindum. Ekki hef ég séð neina slíka bók fyrir apa og eru mögulegar ástæður:

1. Hin dýrin vilja ekki að apar kynni sér önnur trúarbrögð en hindúisma, þar hafa þeir sinn eigin guð Hanuman.
2. Apar eru blankir, ólíkt kindum og björnum, og því enginn markaður fyrir bækur af þessu tagi.
3. Apar vita allt um búddisma og hafa því ekki áhuga á einföldum byrjendaritum.

Í dag komumst við að því að þriðja ástæðan er allíklegasta skýringin. Við fórum í göngutúr að hofi sem heitir Swayambhunath en meðal heimamanna gengur það undir heitinu Apahofið. Eins og nafnið gefur til kynna er allt krökkt af öpum, bæði með og án myndavéla.

Ekki er hlaupið að því fyrir hvern sem er að heimsækja staðinn því til að komast inn fyrir hliðin þarf að klífa 365 þrep og þegar maður er búinn að því rukkar hliðvörðurinn aðgangseyri. Sniðugt að láta ekki vita að það kosti inn fyrr en fólk er komið alla leið upp.

Frá hofinu nutum við útsýnis yfir allan Kathmandudalinn, slöppuðum af eftir pallaleikfimina og keyptum geisladisk með hinni frægu búddísku möntru om mani padme hum. Auðvitað eru kippur af Búddamunkum á svæðinu, ýmist að ræða heimsmálin, kyrja eða gefa apafjölskyldum Maríukex.

miðvikudagur, 13. júní 2007

Leikið með linsuna

Við uppgötvuðum nýja hlið á myndavélinni okkar í dag þegar við sátum og biðum eftir nachós á Jesse James. Fyrst tókum við myndir af okkur með retró stillingunni:

Næst uppgötvuðum við pastelstillinguna og prufuðum hana:

Loks prufuðum við illustration stillinguna:

Ferlega gaman að taka flippaðar myndir :o)

mánudagur, 11. júní 2007

Bestu búrríturnar

Þegar maður lætur berast á öldum örlaganna rekur mann oft á góða staði. Að þessu sinni rak okkur á bar Jesse James, amerískan veitingastað með mexíkósku ívafi. Orðið ívaf er sérdeilis viðeigandi þar sem við pöntuðum okkur nokkurs konar ívaf: baunir og úrval grænmetis vafið í væna búrrítu með salsa, sýrðum rjóma og öllu tilheyrandi.

Þetta var reyndar önnur heimsókn okkar til Jesses og hefur dómnefnd veitingastaða í Suðaustur Asíu og nágrenni þegar fengið fjárveitingu fyrir þriðju heimsókninni. Það er skylda okkar sem sjálfskipaðrar dómnefndar að veita almennilega úttekt og þar sem nachós með jalapeño, baunum, sýrðum rjóma og bráðnum osti hafa ekki enn fengið einkunn neyðumst við til að fara aftur.

Ekki veit ég hvenær Jesse karlinn hafði tíma til að sanka að sér öllum þessum girnilegu uppskriftum eða koma sér til Himalaya. Hann hefur augljóslega ekki verið allur þar sem hann var séður og er dómnefndin sammála um að bestu búrríturnar séu frá honum komnar.

sunnudagur, 10. júní 2007

Skítapleis

Það á ekki af okkur að ganga. Fyrst fær Baldur hita og er rúmliggjandi, loks þegar hann hressist kvefast ég, fæ því næst beinverki og hita og verð að halda mig innandyra. Út af öllum þessum veikindum höfum við séð miklum minna af Kathmandu en við höfðum gert okkur í hugarlund og miklu meira af Simpsons, Seinfeld og Grey’s Anatomy.

En það er svo sem ekki staðnum að kenna að við veiktumst svo ég er ekki að vísa í það þegar ég tala um skítapleis. Kathmandu er nefnilega merkilega skemmtileg, lítil og krúttleg borg og augljóslega ólík indverskum borgum. Svo lengi sem litið er framhjá kvöldinu í kvöld.

Þar sem ég var orðin sprækari af hita og pest fórum við út úr húsi til að finna okkur eitthvað í gogginn og glugga í bækur og búðarglugga. Bókabúðin Barnes & Nobel var svo óheppin að missa viðskipti okkar í kvöld, fyrir framan hana hafði flætt upp skólp og ef lyktin var viðbjóðsleg getið þið ímyndað ykkur hve skemmtileg aðkoman var. Sem sagt skítapleis í bókstaflegri merkingu.

fimmtudagur, 7. júní 2007

Fyrsta kvefið

Ég vaknaði í morgun og var þá komin með kvef. Ég veit ekki betur en að um sé að ræða fyrsta kvef Asíureisunnar svo varla get ég kvartað. Ég er samt ekki sátt því kvef eru mér alltaf til ama, með nefrennsli og tárugum augum.

Ég er búin að drekka sólhattsgostöflur, tyggja Selen + A, C, E vítamíntöflur og bera Vicks á gagnaugun, nasirnar og efri vörina. Ég kenni viftunni um að hafa ofkælt mig í svefni nóttina sem leið. Ég neita alfarið að sjá fylgni milli lakkrískaupa og kvefsins.

Lakkrís í búðinni

Baldur var kominn með hita í gær svo við tókum því rólega í dag eftir flóð og regnveður gærdagsins. Við erum með sjónvarp inn á herbergi svo það er ekki erfitt að hanga inni um daginn, sérstaklega þegar rignir mikið út og Scrubs er í sjónvarpinu inni :o)

Undir kvöldið var Baldur orðinn hress svo við fórum á stjá til að finna eitthvað í gogginn. Við römbuðum á lítinn súpermarkað sem hafði gríðarlegt úrval af vestrænum varningi. Bara hnetusmjörsúrvalið var nóg til að augun stæðu á stilkum.

Þegar ég sneri mér frá hnetusmjörinu og niðursokknum hnetusmjörs-Baldri rak ég augun í nammideildina. Nú vorum við að tala saman sykurpúði. Þau voru með Haribo hlaup! Og það sem meira var, þau voru með Haribo lakkrís!

Það er gaman í Kathmandu þegar lakkrís er í boði.

miðvikudagur, 6. júní 2007

Flóð á götum og blautar tær

Við fórum að skoða Kathmandu í dag í samfloti við vin okkar Jonathan og unga Chilibúann Ben. Þar sem borgin er lítil og umferðin ekki mjög truflandi er auðvelt að ganga um og skoða og milt loftslagið hjálpar einnig.

Við gengum um helsta ferðamannahverfið sem heitir Thamel og skoðuðum útivistarvarninginn sem er í boði. Við gengum um Freak Street sem ekki ber nafn með rentu en kallast þetta því hipparnir kusu að setjast þarna að á sínum tíma. Við gengum fram hjá mörgum búdda- og hindúahofum, festumst í lítilvægum umferðarhnútum með litríkum og skreyttum hjólaléttivögnum, keyptum jarðarberjamentos og lentum loks í grenjandi rigningu.

Við leituðum skjóls í verslunarmiðstöð en meira að segja þar rigndi í gegnum þakið. Við fylgdumst með vatninu byrja að mynda litla læki á götunum, síðan steig það hærra og hærra því það hélt stöðugt áfram að rigna. Að lokum urðum við að hverfa frá verslunarmiðstöðinni og halda út á flæðandi göturnar, ekkert okkar með regnhlíf og við Baldur í opnum sandölum.

Upp að byggingum liggja yfirleitt tvær brattar og mjóar tröppur og á þeim ganga heimamenn til að forðast flóðið á götunni. Við hermdum að sjálfsögðu þessa hegðun eftir þeim og náðum þannig að forðast að vaða yfir verstu sundin. Vandamálið er hins vegar að umferð gangandi vegfarenda er í báðar áttir og að mætast á þessum mjóu þrepum er hægara sagt en gert. Til að liðka fyrir þarf maður að skáskjóta sér, beygja sig í hnjánum, sveigja sig í S og draga sig saman í atóm.

Við enduðum á því að leita skjóls á kóreskum stað, blaut og hrakin. Ég var með sand milli tánna og Guð veit hvað annað og peysan mín var svo skítug eftir tröppugönguna að það mætti halda að ég hefði hlaupið til og þvegið hana upp úr götuflóðinu.

Það mætti ljúga því að mér að monsoon væri hafið.

þriðjudagur, 5. júní 2007

Í Konungdæmi Himalaya

Við erum komin til Kathmandu, höfuðborgar Nepal sem kallar sig konungdæmi Himalayafjallanna. Flugið frá Delhi gekk vel þrátt fyrir mikla þreytu eftir erfiða nótt í næturrútunni. Fluginu seinkaði reyndar um tvo tíma en það þýddi bara að Air Sahara bauð okkur upp á Subway samlokur og við fengum meiri tíma til að lesa í tímaritunum sem við keyptum á flugvellinum.

Kathmandu er staðsett í Kathmandu dalnum og þegar maður flýgur að vellinum eru hólar og hæðir beggja megin við mann, sem er svolítið geggjað að sjá. Þegar við vorum búin að kaupa sitthvora vegabréfsáritunina upp á $ 30 var okkur frjálst að stíga inn í Nepal. Við urðum samferða Þjóðverjanum Jonathan niður í bæ og saman leituðum við að ásættanlegu hóteli.

Meðan við leituðum að hóteli fengum við smá nasasjón af borginni. Hún er mun afslappaðri og skemmtilegri en borgir sem við höfum heimsótt í Indlandi. Göturnar eru hreinni og breiðari, blómapottar og garðar út um allt, húsin mörg hver í evrópskum stíl og fólk vestrænna í hugsun. Andinn meðal Nepala er allur annar en meðal Indverja og það er mjög góð tilbreyting.

Eina sem við kvörtum undan er maturinn sem við neyddumst til að borða í kvöld. Þar sem við vorum seint á ferð (tíu) var búið að loka öllum stöðum og við urðum að borða á nepölskum stað sem heimamenn sækja. Maturinn var vondur, svo vondur að Baldur snerti ekki einu sinni á honum!

sunnudagur, 3. júní 2007

Nepal kallar

Seinasti dagurinn okkar í Indlandi er í dag, í kvöld tökum við næturrútu til Delhi og á morgun fljúgum við þaðan til Kathmandu í Nepal. Sumsé ný borg og nýtt land.

Við erum búin að kveðja Indland undanfarna daga eins og sést hefur á færslunum. Það er skrýtin tilhugusun að fara héðan, eins sérkennilegt og það hljómar á Indland núna einhvern part í manni. Hvort það sé litla eða stóra tá veit ég ekki en tengslin eru til staðar.

Við erum búin að versla það sem til stóð í þessum bæ, búin að koma tveimur stórum kössum í póst og einum litlum böggli sem einhver heima á klaka fær, búin að kveðja góða ferðafélagann okkar Indlandsbókina og búin að festa kaup á tveimur notuðum Nepalsbókum.

Við vitum ekki alveg út í hvað við erum að fara í Nepal. Við erum ekki búin undir nein trekk og árstíðin fyrir slíkt er hvort sem er liðin. Við stefnum sem sagt beint í óvissuna og ætlum bara að sjá hvað kemur út úr því. Eina sem er víst er að það er heitara í Kathmandu en McLeod Ganj og að þar er töluð nepalí.

Myndir frá dvöl okkar í McLeod Ganj eru komnar á netið: Hér!

Sérlákur fer á kostum

Í dag uppfærðum við vírusavörnina enda ekki vanþörf á. Tölvan er góður ferðafélagi og þarf að geta varið sig þegar hin ýmsu aðskotadýr (þó ekki amöbur) ráðast á hana á framandi netkaffihúsum.

Nýja vírusavörnin, sem hér eftir gengur undir nafninu Sérlákur, hefur bráðskemmtilegan karakter og ýmislegt gáfulegt til málanna að leggja. Eftirfarandi orð lét hún falla um okkar ástkæru heimasíðu:

Although suspicious, this new software or change may serve a legitimate purpose. Please investigate further before taking steps to correct this possible problem.

Ég er þó feginn að Sérlákur taldi þessa grunsamlegu heimasíðu, með sinn mögulega réttlætanlega tilverurétt, ekki teljast mikla ógn því hún féll í flokkinn Low Risk.

föstudagur, 1. júní 2007

Indland í baksýnisspeglinum

Bráðum verður Indlandi ekki lengur allt umlykjandi í okkar lífi þar sem við höldum fljótlega héðan eftir tæpt sex mánaða ferðalag um þetta ótrúlega land andstæðna. Við erum búin að gera upp dvölina í hjartanu og þetta er afraksturinn af því þegar við litum um öxl.

Svipmyndir: Beljur á götunum rótandi í ruslinu, fáránlega háværar bílflautur, kæfandi mengun, apar á grindverkum og upp á rafmagnssnúrum, rafmagnsleysi daglega (m.a. út af öpum á rafmangssnúrunum), mannmergð, litadýrð, Bollywood tónlist í strætó, karlmenn sem leiðast, betlandi börn, götusalar að selja blóm í hárið eða djúpsteiktar bollur með grátsterkri chilisósu, glansandi glerbyggingar og heimili úr pappakössum, horaðir hundar, saríar og dothis, rauðir tikka punktar á enninu, hringlandi ökklabönd, síðar, svartar hárfléttur og glansandi af kókosolíu, yfirvaraskegg á öllum (!), svalt loft og þrúgandi raki, skærgrænn gróður og rauðir vegir, dökkgræn grenitré og snæviþaktir tindar, Sikkar á fínum jeppum og sveitafólkið í fjöllunum með sjálfsþurftarbúskapinn sinn. Við þessar myndir þarf að skeyta lyktinni og hávaðanum.

Mælum með: Kochi, kerölskum morgunverði, Auroville og Farm Fresh bakaríinu þar, masala dosa, Kumily, útilegu á kettu vallam í Kerala, Hampi, falafeli og hummus í pítubrauði, Mysore, kókoshnetuvatni, McLeod Ganj, mangó, samósum, papaya, ostanaani eða butternaani, litlum kvikmyndahúsum í afskekktum fjallaþorpum, indverskri tónlist, jóga á ströndinni, troðast í biðröðum og njóta þess, bókabúðum og bókakaupum og bókalestri, tíbetsku brauði með hnetusmjöri, höfrungaskoðun í Palolem, ayurvedíska magalyfinu Pudin Hara, avókadó- eða mangólassa.

Mælum ekki með: Rajasthan í aprílmánuði. Ekki heldur Delhi-Agra hringurinn í apríl. Eða versla við Kashmírbúa. Indverskar rútur eru ekki sniðugar. Indversk umferðamenning er heldur ekki hátt skrifið. Indverskar bílflautur er á Fólk er fífl listanum okkar. Ekki standa nálægt umferðalöggu með blístru. Ekki vingast við Nepali sem þú ætlar að stunda viðskipti við, nema þú sért þeim mun harðari í viðskiptum. Ekki nota sterkt DEET spray, notaðu frekar Citronellu eða Odomos, þannig forðastu útbrotin.

Góðir ferðamátar: Mælum sérlega með næturlestum og lestum Indlands yfir höfuð. 2 tier eða 3 tier A/C er besti kostur vilji maður tryggja sér svefn. Mælum með rútuferð frá Kumily til Alappuzha, umhverfið frábært, stemmningin yndisleg og svo eru varnarorð til ökumanna svo skemmtileg á leiðinni. Local ferjur eru skemmtilegur ferðamáti. Einkabílstjóri á loftkældum bíl er viturlegasti valkosturinn í stórborgunum. Flug með lággjaldaflugfélögunum er ódýr og fljótleg leið til að koma sér milli suðurskagans og norðurhjarans. Mótorhjól í sveitabyggðum er allra skemmtilegasti ferðamátinn.

Viljum ekki gleyma: Appelsínur eru grænar hér á landi. Við vorum farin að tala um að eitthvað væri appelsínugrænt, sérlega viðeigandi. Indverjar þykjast alltaf vita hvað maður vill og hvert maður er að fara. Svo hjálplegir að það hálfa væri nóg. Hér á bæ notast menn við gömul en sterkbyggð hjól til að ferja heilu klasana af grænum kókoshnetum. Að sama skapi ferja þeir stóra plastbrúsa á hjólum og selja þá vatnsberum.

Indland er land andstæðna. Á einu augnabliki getur maður fundið lykt af jasmínum og reykelsi og á því næsta kúgast maður af klóakkstybbunni. Niðurföllin eru oftar en ekki hinu megin í baðherberginu, sem lengst frá sturtunni. Á veitingastöðum fyrir norðan skrifar maður sjálfur pöntunina niður á blað.

Í Mamallapuram geymdi ég hýðið af eplinu mínu til að gefa það ráfandi geitum og öpum. Hins vegar kom lítill strákur til mín og bað um pokann og varð hæstánægður þegar honum var afhentur hann. Í Auroville fann ég Þakklætissteinninn minn. Við komumst aldrei á Bollywood mynd í Indlandi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Gengur betur næst.

Hindí orðin sem við kunnum: namaste/namaskar (kveðja), pani (vatn), neinei (alls ekki), chello (farðu), bass (hættu/stopp), gobi (kartafla), palak (spínat).

Maður er búinn að vera lengi í Indlandi þegar: maður vaggar hausnum í hverri setningu og talar með höndunum; maður talar vísvitandi málfræðilega ranga ensku; eyrun á manni hætta að nema köll sölumanna; maður getur sent betlihópa í burtu án þess að það trufli samtalið sem maður heldur uppi; maður hlær upp í opið geðið á gráðugum ricksaw bílstjórum; manni finnst nútímaþægindi eins og þvottavélar ósjálfsögð; manni finnst betra að fá sér chai en kaffi, maður fílar betur að borða með höndum en skeið; ná að fara yfir bílagötu þrátt fyrir að engin glufa sé í umferðinni.

Maður er búinn að vera lengi á sama stað þegar: bókabúðin er farin að veita manni magnafslátt; maður er farinn að skiptast á tónlist við strákana á netkaffihúsunum; maður fær að hringja frítt innanbæjar því maður er svo góður viðskiptavinur; maður er farinn að lesa yfir formleg bréf kunningja og leiðrétta stafsetninguna; maður er farinn að hugga syrgjandi vini; þjóninn veit hvað maður ætlar að panta áður en maður veit það sjálfur. En þá er maður kannski líka búinn að vera of lengi á sama stað :o)