Tælendingar kalla Bangkok Krung Thep sem útleggst sem Borg englanna á íslensku. Englarnir í þessari borg ganga flestir í mínipilsum og pinnahælum og það er erfitt að giska á hver er af hvaða kyni. Yfirleitt er sú kvenlegasta þó jafnframt sú dimmraddaðasta.
Þessir tælensku englar halda ekki upp á 17. júní eins og við gerum heima (gisp!). Við urðum því að gera það besta í stöðunni og spinna upp okkar eigin hátíðarhöld. Og við gerðum það með stæl, tælenskum stæl. 17. júní snýst nefnilega um þrennt: neyslu, veðrið og mannfjöldann en ekki endilega staðsetningu.
Neyslan: Við stóðum okkur með stökustu prýði í neysludeildinni. Við fórum á Th Khao San þar sem allir túristarnir skottast um. Við keyptum falafel af götusala, drukkum gos á gangstéttarkanti og gæddum okkur á þurrkuðum og krydduðum smokkfiski. Við fengum okkur ferskt papaya af götusala, skoðuðum vöruúrvalið, dreyptum á ferskum safa í risaglösum, forðuðum okkur undan kexrugluðum Þjóðverja sem sagðist vera hjónabandsráðgjafi og vildi að ég giftist gæjanum á næsta borði, fundum svo hliðartösku handa Baldri. Fórum því næst á Star Bucks með Bryan og hann splæsti á okkur góðum drykkjum. Borðuðum að þessu sinni tælenskt á sjálfan þjóðhátíðardaginn og fengum kúluís í eftirrétt.
Veðrið: Það var skýjað eins og sæmir 17. júní, svo kom mjög létt rigning sem að sjálfsögðu á heima á þessum degi.
Mannfjöldinn: Á Th Khao San var allt fullt af fólki og minnti helst á miðbæ Reykjavíkur á merkisdegi. Engar blöðrur að þessu sinni en uppstrílað fólk, hávær tónlist og ölvun á almannafæri.
Allir lögðu sem sagt sitt af mörkum til að gera daginn sem þjóðhátíðarlegastan fyrir afvegaleiddu Íslendingana.
2 ummæli:
Bara en og aftur VELKOMIN til TÆLANDS!
Takk fyrir það og allar ábendingarnar. Velkomin er mjög lýsandi orð fyrir upplifun okkar af borginni og fólkinu sem hér býr.
Skrifa ummæli