Ég var lengi búin að bíða spennt eftir að heimsækja Bangkok og eftir því sem nær dró heimsókn okkar því oftar spiluðum við lagið góða One Night in Bangkok sem ég heyrði svo oft síðasta sumar. Fyrsta kvöldið í Bangkok er að baki og gott betur en það; við erum búin að vera hér heila nótt og heilan dag og fyrstu kynnin gefa tilefni til toppeinkunnar: Við elskum Bangkok!
Eftir áfallalaust og meira að segja vel heppnað flug með hinu mjög svo vafasama flugfélagi Royal Nepal Airlines lentum við á últramóderna Suvarnabhumi flugvelli í Bangkok. Það fyrsta sem tók á móti okkur var mynd af konunginum á einum rampinum og skilaboðin Long Live the King!
Við tókum leigubíl niður í bæ og áttum ekki orð yfir að hann væri tandurhreinn, vellyktandi og loftkældur! Og engin flaut og læti í umferðinni! Og fólk keyrði á akgreinunum! Og enginn keyrði á móti umferð! Og við vorum aldrei í lífshættu! Við getum kallað þetta jákvætt menningarsjokk, okkur fannst við vera komin heim.
Við fundum súperhreint herbergi á hóteli nálægt Th Khao San (túristabælinu). Allt iðaði af lífi þótt klukkan væri að ganga tíu svo við hentum af okkur farangri og hafurtaski og fórum út á lífið. Upplýstar byggingar, auglýsingaskilti, sanseraðir leigubílar í öllum regnbogans litum, risastórir túk-túk, heilar gangstéttar og niðurföll, 7/11 og netkaffi opin 24/7, götusalar að selja grillkjöt á teini; ferska, niðurskorna ávexti; nýpressaða safa; núðlur og steikt grjón; vændiskonur á götuhornum og ladyboys í hverju horni, brosmilt fólk, hiti og raki en loftkæling allsstaðar, hljóðlát umferð og engin skítalykt... eiginleg of gott til að vera satt.
Þetta fyrsta kvöld borðuðum við á gangstéttaveitingastað og fengum besta mat í langan tíma. Skemmtum okkur svo vel í borg borganna að við vorum ekki farin að sofa fyrr en fjögur. Héldum fjörinu áfram daginn eftir með því að taka sundsprett í sundlauginni á þaki hótelsins og sólbaða okkur, ferðast svo með skærbleikum leigara niður í MBK verslunarmiðstöðina og skoða töskur, boli og sólgleraugu, borða kleinuhringi á Mister Donut, byrja svo að spjalla við Bandaríkjamanninn Bryan í anddyri hótelsins upp úr miðnætti og hætta því ekki fyrr en fjögur um nóttina. Úllala hvað það var gaman.
Öll fögru fyrirheitin, tilhlökkunin og eftirvæntingin, að ég tali ekki um allar væntingarnar, hafa staðið sína pligt. Það hefur kannski eitthvað að gera með að við vorum verulega lífsgæðasvelt eftir sex mánaða þvæling um hindúalönd. En samt... hver fílar ekki Bangkok?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli