þriðjudagur, 17. apríl 2007

Kerala - allt annað Indland

Nú þegar við kveðjum Kerala er við hæfi að taka aðeins saman upplifun okkar af því fylki þar sem það var eins og allt annað land í samanburði við Tamil Nadu og Karnataka. Hvar sem við komum virtist andinn allur vera annar. Kenning okkar er sú að vegna betri menntunar, sem annaðhvort er tilkomin vegna kristni eða kommúnisma, sé fólk hér með aðrar áherslur en víðast hvar í Indlandi. Hér kjósa foreldrar t.d. að eignast fá börn og koma þeim vel til manns frekar en mikla ómegð.

Almennnt var viðmót fólks glaðlegra og meiri vandvirkni gætti í öllu eins og hinn vandvirki Fartesh á gistiheimilinu okkar er gott dæmi um. Dansandi þjónninn á Chrissy’s og félagar okkar á bátnum settu líka sinn svip á ferðina.

Í Kerala heyrir til undantekninga að sjá konu klædda í sarí og þær undantekningar eru yfirleitt konur frá öðrum fylkjum í ferðalagi. Hér klæðast konur einföldum kjólum sem þær steypa yfir höfuðið á sér, lítur út fyrir að vera þúsund sinnum þægilegra en sarí og örugglega þúsundsinnum fljótlegri leið til að klæða sig, að ekki sé talað um léttari þvott

Enn annað sem gerði Kerala öðruvísi en allt annað og það er kardimommulyktin og –bragðið sem má finna allvíða. Kemur svo sem ekki á óvart að hæðirnar utan við Kumily séu nefndar Kardimommuhæðir. Ef leið mín mun liggja til Indlands einhvern tímann í hinu dularfulla fyrirbæri framtíð er Kerala garanteruð stoppistöð.

-----UPPFÆRT-----
Í kerölsku dagblaði sem við lásum í flugvélinni á leið til Dehli sáum við fréttaskot um glæpagengi sem hefði náðst í Kerala. Gengu blaðamenn skrefi lengra en Akureyringar, sem alltaf segja utanbæjarmenn, og tók skýrt og greinilega fram að allir meðlimir gengisins væru frá Tamil Nadu. Íslendingar og Indverjar eiga greinilega ýmislegt sameiginlegt og er hrepparígurinn gott dæmi.

Engin ummæli: