laugardagur, 30. september 2006

Septemberannáll

Um september er aðeins hægt að segja eitt: ertu ekki alltof bissí Krissí? Jú! Við vorum svo sannarlega alltof bissí. Auk þess að mæta til vinnu unnum við sleitulaust að því að klára lokaverkefnin okkar og árangurinn lét ekki á sér standa. Ég skilaði mínu verkefni 14. september og Baldur sínu 22. september.

Strax og ég hafði skilað lokaverkefninu kom sérlegur gestur í heimsókn, gestur sem bjó í Danmörku um nokkurt skeið en hafði ekki stigið fæti hér í tæp 30 ár. Með pabba náðum við að túrhestast um borgina og sjá merka staði eins og Kastallet og Litlu hafmeyjuna, að ógleymdum fíl og kameldýri í Fælled Parken. Auk þess kíktum við í seinasta sinn á Morgenstedet í Kristjaníu en þar er alltaf hægt að fá góðan mat.

Af öðru skemmtilegu í september má nefna að við komum á fót myndasíðu, kvöddum vinnustaðinn þar sem við vorum fiðrildi í allt sumar, heimsóttum Drageyri, steiktum grænbeinóttan fisk, fluttum af Frederikssundsvej og kvöddum Kaupmannahöfn. Geri aðrir betur!

Borgin kvödd

Síðan við skiluðum af okkur íbúðinni á fimmtudaginn höfum við reynt að hlaða batteríið með því að sofa og slappa af. Froskaheimilið hefur reynst kjörinn vettvangur til þess.

Við höfum líka verið að undirbúa okkur andlega undir að kveðja borgina. Við höfum rölt um miðbæinn og Kongens Have og hjólað um Nørrebro og NordVest. Í dag var síðasti dagur til að kasta kveðju á Kaupmannahöfn og gerðum við það með því að fara í rólegan hjólatúr um Østerbro, sitja við Søerne í ró og næði og borða á Govindas í góðum félagsskap.

Árið okkar í Kaupmannahöfn er á enda komið og kveðjum við borgina með þónokkrum trega en einnig dásamlegum minningum. Nú höldum við á vit nýrra ævintýra.

fimmtudagur, 28. september 2006

Skúrað við kertaljós

Í gær buðum við Jóni vini okkar í kaffilaust kaffiboð. Kaffiboðið var kaffilaust því kannan var í einum af kössunum sem við bárum niður í sendibíl. Þetta gekk eins og í lygasögu og áður en við vissum af vorum við búin að raða kössunum á pallettu, plasta allt heila gilimóið og senda það af stað til Íslands.

Heim komum við Jónslaus en fengum í staðinn Hilmar og fleiri í soðið og var íbúðin meira og minna tæmd á örskotsstundu. Við tóku svo ýmsir smásnúningar og ævintýri, þar á meðal að sitja föst í trafík martraðar og þurfa að keyra inn einstefnugötu og leggja þar á móti umferð til að ná að kasta kveðju á Froskana áður en þeir héldu til Íslands.

Eftir að hafa kvatt Froskafjölskylduna og tekið við lyklavöldum í slottinu þeirra tóku við lokaþrif á Frederikssundsvej.Íbúðin var galtóm og því auðvelt að þrífa nema hvað ekki var mikið um lýsingu þar sem allir lampar voru á bak og burt. Úr varð að við skúruðum, skrúbbuðum og bónuðum við kertaljós.

þriðjudagur, 26. september 2006

Cirque du freak

Í fyrrakvöld kláraði ég fyrstu bókina í seríunni Cirque du Freak eftir Darren Shan. Upphaflega uppgötvaði ég þessa bók fyrir algera tilviljun þegar ég var staddur í bókabúð CBS og kíkti af rælni í tilboðshornið, rak augun í þennan líka áhugaverða bókartitil og ekki fyrir nema 10 kall.

Ég greip bókina og las baksíðuna. Það fyrsta sem ég rak augun í voru meðmæli J.K. Rowling, móður Harry Potters og félaga. Hún sagði bókina þess eðlis að lesandann þyrsti sífellt í meira og ef hún segir það, þá er ég hræddur um að það sé svakalegt.

Ég hakkaði bókina semsagt í mig um leið og tími gafst til og nú þyrstir mig í meira. Ég mæli með þessari bók fyrir alla sem fíla Harry Potter, Lestat og ýmislegt þar á milli, ekki spillir að þetta sé allt í sömu bókinni. Nú hætti ég svo ég tali ekki af mér en bið ykkur að varast að lesa eitthvað um bókina á heimasíðum, það er kjaftað frá allt of miklu.

mánudagur, 25. september 2006

Steikt goðsögn

Síðasta vinnudag okkar hjá KTK vorum við Ásdís leyst út með gjöfum, þ.á.m. því sem Danir kalla hornfisk en ég kýs að kalla einhyrning. Einhyrningurinn er eins og blanda af makríl, ál og sverðfiski, semsé efni í góðan mat. Eitt af því skemmtilegasta við þennan fisk er að beinin eru græn, fríkað!

Á meðan ég flakaði og roðfletti fiskinn hugsaði ég hvað ég ætti eiginlega að gera við hann. Ég nennti ekki útúr húsi enda örþreyttur svo ég varð að takmarka ímyndunaraflið við það sem til var í kotinu. Hmmm, einhyrningur með sinnepi, einhyrningur með múslíi, einhyrningur með harðfiski, einhyrningur með jógúrt...

Úr varð þetta:
Nokkrir hvítlauksgeirar skornir í sneiðar og steiktir í slatta af ólífuolíu ásamt teskeið af raja hvítlauksdufti. Þegar hvítlaukurinn var farinn að láta á sjá og húsið fullt af ilmi bætti ég slatta af grænu gæðapestói út á og lét allt dótið malla saman ásamt myndarlegum skammti af graslauk.

Þegar húsið var svo endanlega mettað af þessari matarlykt henti ég flökunum, í bitum, á pönnuna, steikti og sneri þartil allt var reddí. Þar sem ég á hins vegar erfitt með að hætta, þegar ég á annað borð er kominn af stað, sáldraði ég svolitlum parmesan yfir allt heila klabbið á endasprettinum og halelúja, þetta var gott.

Fríkuð græn bein

sunnudagur, 24. september 2006

Heimsókn í Dragør

Fyrri partur þessa sunnudags fór í að pakka í kassa og sem vegleg verðlaun fyrir aðdáunarverða frammistöðu og þrautseigju stukkum við seinnipart dags upp í strætó og kíktum til Drageyrar. Sú heimsókn var liður í prógramminu okkar Borgin kvödd en á því prógrammi er einnig að finna heimsókn til Hróarskeldu og glugg í Louisiana safnið, hjólreiðatúr um Østerbro og glugg í Glyptotekið.

Drageyri er lítill, gulur bær í um klukkutíma fjarlægð frá NordVest. Þar er víst dýrt að búa og get ég vel skilið það eftir heimsókn þangað. Bærinn er einstaklega huggulegur og kúrir við sjóinn. Rík hefð er fyrir síldveiði þar um slóðir og fyrir vikið er mikil fiskimenning í bænum.

Bæjarbúar virðast við fyrstu sýn natnir úr hófi fram. Til marks um það sáum við einn eldri herramann dytta að glugga á húsinu sínu og ungt par mála girðinguna kringum húsið sitt. Allt þetta dútlerí gaf mjög svo skemmtilegan brag á bæinn þó unga parið hafi frekar verið að mála hann svargrænan en rauðan.

Við kvöddum síðan bæinn með því að kasta hálfétinni, belgískri vöfflu til andanna sem svömluðu um í höfninni. Þá varð uppi fótur og fit meðal andanna og teljum við það stafa af uppnámi sem þær komust í yfir brottför okkar.

laugardagur, 23. september 2006

Ritgerð skilað

Í gær skilaði pabbi minn B.Sc. ritgerð í markaðsfræði til Háskóla Íslands fyrir mína hönd. Þar með er námi mínu í viðskiptafræði lokið að sinni og annar kafli hafinn. Ég man þegar ég sagði fólki fyrst frá því að ég ætlaði að hefja nám í viðskiptafræði, mér finnst vera stutt síðan. Þá þótti mér hins vegar langt þangað til að nútíðin þokaðist um þrjú ár. Skrítið.

föstudagur, 22. september 2006

Vores sidste fyraften

Loksins rann upp síðasti vinnudagurinn. Við mættum í morgun til vinnu, vösk og kát að vanda. Tilhlökkunin yfir væntanlegum vinnulokum var mjög mikil hjá mér enda komin með alveg nóg af arfahreinsun í bili. Tilhugsunin um að eiga aðeins eftir að fagna því einu sinni í viðbót að fyraften væri skollið á hélt mér alveg gangandi yfir daginn.

Ég veit að vinnudagur Baldurs var í rólegri kantinum þar sem Shosh og Andreas vildu að hann ynni sem minnst og verði deginum þeim mun frekar í almennan kjaftagang. Við Tina tókum deginum líka rólega og ég hætti tímanlega til að geta tekið til í skápnum mínum. Eftir að hafa kvatt samstarfsfélagana með virktum (þ.e. handabandi og faðmlögum) hjóluðum við heim frá vinnu og með í för var vitneskjan um að við þurfum ekki að hjóla aftur að Enghavevej 84 í bráð. Það var góður förunautur.

Það sem nú tekur við hjá okkur er að pakka í kassa, losna við húsgögn, skrá sig úr landinu, afhenta íbúðina og kveðja Kaupmannahöfn. En fyrst ætlum við að passa litlu skvís hana Áslaugu Eddu og það bara strax í kvöld.

miðvikudagur, 20. september 2006

Myndasíða í loftið

Eins og glöggir lesendur dagbókarinnar hafa kannski tekið eftir erum við skötuhjú búin að koma okkur upp myndaalbúmi á netinu. Nú þegar eru komin nokkur albúm sem hægt er að skoða, notið tengilinn hægra megin undir Okkar síður til að komast á síðuna.

Það er mögulegt að skrifa ummæli við hverja mynd en til þess þarf maður að vera skráður notandi á vef flickr. Það er frítt svo þau ykkar sem vilja geta gert það. Svo eru ummæli við færslur líka alltaf vel þegin :0)

sunnudagur, 17. september 2006

Á hafnarslóð 2

Í fyrra fórum við skötuhjú í skemmtilegan rúnt um borgina sem við kölluðum Á hafnarslóð 1. Ætlunin var alltaf að fara fljótlega í túrinn Á hafnarslóð 2, þar sem við skoðuðum fleiri merka muni við höfnina, en aldrei varð úr því.

Í dag, nákvæmlega ári frá fyrsta hafnartúr, létum við loks gamlan draum rætast og fórum í seinni hafnarferðina. Að þessu sinni var pabbi með í för sem sérlegur gestur og leiðsögumaður. Við tókum hjólin með og höfðum fengið eitt aukahjól að "láni" frá ruslahaugunum í vinnunni svo sérlegur gestur gæti líka hjólað um.

Af því sem helst ber að nefna var að í Fælled Parken hrópaði Baldur allt í einu upp fyrir sig: Fíll framundan!

Sirkus Dannebrog var sem sagt með sýningartjald sitt í einu horni garðsins og þar kenndi ýmissa grasa: lamadýr, póníhestar og kameldýr.

Við fengum einnig símtal frá Öldu frænku í Ameríkunni, settumst á huggulegt kaffihús við Søerne, gengum hringinn í kringum Kastallet, kíktum á Litlu hafmeyjuna og nýju systur hennar, hjóluðum meðfram Löngulínu, skoðuðum Gefjunarbrunn á bakaleiðinni og mötuðumst á Nýhöfn. Hjóluðum síðan heim í myrkrinu, eitt okkar á stolnu hjóli og ljóslausu í þokkabót.

laugardagur, 16. september 2006

Fornar slóðir

Í dag vorum við algerir túrhestar og hjálpaði Elfar okkur að haldast í karakter. Túrinn hófst í Jónshúsi þar sem við skoðuðum sýningu sem haldin er Jóni og Ingibjörgu konu hans til heiðurs. Sýningin var hin fróðlegasta. Bakvið Jónshús er gamalt hverfi og gengum við um það en ekki eru þó öll húsin gömul, þó þau séu byggð í sama stíl. Elfar tjáði okkur að það hús sem hann hefði búið í við Rigensgade væri þar ekki lengur.

Það að húsið hefði verið rifið kom engum á óvart því tengdafaðir minn hafði kosið að búa þar einmitt af því að það átti að rífa þau og því var það ókeypis. Í nostalgíu gamalla tíma gengum við í humátt að þeim veitingastað sem Elfar og félagar sóttu á þessum tíma. Ólíkt húsinu við Rigensgade var Kínó á Dronningens tværgade á sínum stað. Þaðan vinkuðu fastagestir drottningunni þegar hún leið rólega hjá í Jagúarnum.

Ekki gátum við verið þekkt fyrir að hunsa Krónprinsessugötu svo við bönkuðum þar uppá og fékk krónprinsessan timbraðan dachshund frá ferðamanninum. Eftir notalegt kaffi og spjall var haldið áfram að túrhestast og var rúnturinn eftir þetta í stuttu máli: Kongens Have, Marmarakirkjan, Amalienborg, Christianshavn og óhjákvæmilega Morgenstedet í Kristjaníu.

Metró- og strætisvagnar voru því kærkomin hvíld fyrir þreytta fætur eftir góðan dag.

föstudagur, 15. september 2006

Ritgerð farin og komin

MA ritgerðin sem fór og kom svo strax aftur, tíhí

Eftir nær heila andvökunótt sendi ég MA ritgerðina frá mér rétt um hálf sex í gærmorgun. Ég dró það á langinn eins lengi og mér var unnt því ég trúði því einfaldlega ekki að tveggja ára starfi væri lokið og það samþjappað í 133ja blaðsíðna PDF skjali. Ég upplifði sem sagt einhvers konar aðskilnaðarkvíða. Mér tókst þó að senda ritgerðina af stað í prentun og náði meira að segja að leggjast niður í tíu mínútur áður en ég hjólaði af stað til vinnu.

Í dag kom ritgerðin síðan aftur til mín, en núna á föstu formi. Við sóttum pabba á Kastrup í hádeginu í dag og upp úr bakpoka hans komu nokkrir pokar af Þristi og lakkrískonfekti, Ópal og Draumi og síðast en ekki síst, MA ritgerðin, innbundin, áþreifanleg og endanleg. Hún er svo fín og ég er svo ánægð. Dönsum á húsþökum, dillum okkur í sólinni, ég er búin með MA námið!

Afskaplega þreytt en á sama tíma afskaplega hamingjusöm :0)

þriðjudagur, 12. september 2006

Ógeð 2006

Yfir sumarið hef ég safnað í sarpinn nokkrum pirringskúlum sem mig langar afskaplega að þrykkja eitthvert annað og létta þannig á sarpnum. Hér kemur crème de la crème af pirringi sumarsins:

1. Hundaskítur og hundaeigendur sem ekki þrífa eftir hundinn sinn. Það er eitt að skilja skítinn eftir í beðum, þar er hann þó ekki fyrir manna fótum (nema minna), en að skilja hann eftir út á miðri göngubraut eins og um rósarblöð sé að ræða, það skil ég ekki. Kaupmannahöfn er að verða eins og Bordeaux, algjör Lorteby.
2. Reykingar og reykingafólk. Komin með ógeð af því að það sé reykt ofan í mig hvar sem ég er. Hættið þessum vibba strax, þolinmæði okkar er á þrotum!
3. Geitungar. Þarfnast engrar útskýringar, bendi þó á að ég hef séð þá kjammsa á hundaskít, sjá viðhorf til þess í lið 1.
4. Muggur. Sjúga blóð og eru þar með vampírur, er hrædd við vampírur.

Ah, þetta var betra. Enn betra er þó að hugsa til þess að ég á aðeins tvær vikur eftir af því að stíga í hundaskít, vera blásin niður af reykjandi samstarfsfólki og eiga á hættu að vera stungin og bitin. Ég hlakka sem sagt mikið til að hætta í vinnunni, svo mjög reyndar að kannski ætti arfahreinsun að verma fyrsta sætið.

sunnudagur, 10. september 2006

Lokaspretturinn

Ég rölti yfir í Døgnarann áðan og keypti mér fjórar dósir af Hustler. Þetta er ekki dónatímarit og heldur ekki kraftlyftingartímarit. Hustler er hins vegar orkudrykkur sem bragðast eins og tyggigúmmí. Varla þarf að taka fram að slíkt er orkudrykkjum ekki til framdráttar frá mínum bæjardyrum séð.

Ég legg þó á mig að súpa á veigunum af og til því ég er komin á lokasprettinn í MA skrifum og vil helst ná í mark áður en skilafrestur nær í skottið á mér. Á sko að skila á fimmtudaginn svo andrúmsloftið á heimilinu er rafmagnað þessa daganna, hárið á mér stendur örugglega út í loftið. Vona að ég nái því niður fyrir útskrift.

föstudagur, 8. september 2006

Ég reyki

Oft hef ég talað illa um reykingar og gert gys að reykingafólki. Fíkn reykingafólks lýsir sér þannig að það byrjar að fikta og svo smáeykur það skammtinn, jafnt og þétt. Nú telja flestir sem þekkja til mín að ég sé ímynd heilbrigðs lífernis, meitlaður í marmara eins og stytta af grísku goði.

Ég verð hins vegar að hryggja ykkur með þeim sláandi fréttum að ég reyki. Það er hins vegar ekkert nýtt af nálinni. Ég byrjaði að reykja sem barn og reykti þá bæði heima hjá mér og úti um hvippinn og hvappinn. Síðar meir þróaði ég neysluna þannig að ég gat reykt allt að fimm tegundir í einu. Eina prinsippið er að reykingarnar eru selskapsnautn, ég reyki aldrei einn.

Ég átti nokkur reyklítil ár á Íslandi ef frá er talin árstíðabundin neysla á asfalti. Eftir að ég flutti hingað til Danmerkur hef ég hins vegar, eins og svo margir, smáaukið neysluna. Í dag reyki ég aðallega það sem nágranninn og samstarfsfélagar velja fyrir mig og ef ekkert annað er í boði læt ég dísel eða blýlaust duga en asfaltið hef ég að mestu látið eiga sig undanfarið ár. Það besta við þennan ómerkilega löst minn er að hann kostar ekki svo mikið sem skitna krónu og svo er þetta svo gott!

fimmtudagur, 7. september 2006

Þegar fólk lætur undarlega

Um daginn varð ég vitni að skemmtilegum látbragðsleik. Leikarinn var reyndar ekki fagmaður heldur frekar leikmaður en engu að síður fékk sýning hans mig til að glotta. Sýningin gekk út á það að láta undarlega og ná með því athygli borgara á borð við mig. Hann stóð sem sagt upp við eitt af trjánum við Halmtovet og strauk stofninum blíðlega eins og hann væri að klappa kisu.

Í fyrstu hélt ég að um væri að ræða samstarfsmann í dulargervi (hann var klæddur að hætti óbreyttra borgara) en svo áttaði ég mig á því að svo var ekki. Eina skýringin sem kom í huga mér eftir það var að hann væri ekki alveg eins og fólk er flest. Einhverja hluta vegna fannst mér sú greining þó ekki passa við kauða, það var eitthvað venjulegt við hann.

Svo rak ég augun í sökudólginn. Þessi sökudólgur er sekur um að breyta eðlilegasta fólki í dýrindis trúða, sérstaklega ef það er á almannafæri. Trjástrokurnar skrifast á það að hann stóð og talaði í gemmsann.

miðvikudagur, 6. september 2006

Tungutaksþjálfun

Þið haldið kannski að ég sé að vísa í dönskuna með þessari fyrirsögn. Það er alls ekki málið, ég er að tala um þjálfun í íslensku. Þegar maður vinnur að MA ritgerð verður málfarið að vera upp á sitt allra besta og þegar níðst hefur verið á því í gegnum árin með enskum fræðitexta, og nú undir það síðasta með poppaðri dönsku úr dagblöðunum MetroXpressen, Urban og Dato, er hætta á að eitthvað gefi sig.

Þar sem ég er forsjál ung kona var ég búin undir þennan vanda og tók á sínum tíma góðar bækur með mér út til Danmerku, ef ske kynni að ég týndi niður móðurmálinu. Með það fyrir augum að auðga hið ástkæra ylhýra íslenska hef ég lesið Alkemistann og Söguna af Pí. Eins og þær eru skemmtilegar hefur þetta ekki verið skemmtilesning ein því í hvert sinn sem ég rek augun í orðfæri sem hrífur mig neyðist ég til að skrifa það niður.

Núna er ég líka komin með dágott frasasafn til að ganga í. Eða hvað mynduð þig kalla lista sem m.a. samanstendur af orðfæri á borð við njörvað á klafa, segja deili á, loku skotið fyrir og uppáhaldið mitt, enginn fitnar af fögrum orðum. Ég sé samt ekki hvernig ég kem þeim frasa inn í ritgerð um pólska innflytjendur á Íslandi.

þriðjudagur, 5. september 2006

Saga af Tine

Hér kemur saga af Tine sem ég er að vinna með í garðyrkjunni:
Einn daginn stóð Tine kasólétt úti á horni að reyna að húkka sér far upp á fæðingadeild. Þungt snjólag lá yfir öllu og strætisvagnabílstjórar Kaupmannahafnar töldu það næga ástæðu til að fara í verkfall. Ekki náðist í leigara svo hún fékk far með ungu pari. Þau ráku upp stór augu þegar hún sagðist vera á leið upp á fæðingadeild. Ungi maðurinn leit rannsakandi á hana, fékk staðfest að hún væri líklegast að segja satt þegar fyrirferðamikill maginn blasti við og negldi á bensíngjöfina eins og hún væri í miðri hríð og vantaði bara skæri og hrein handklæði. Hann endursendist yfir bæinn upp á spítala og henti henni í fangið á næstu hjúkurnarkonu, feginn að vera laus við þessa tímasprengju. Þessa sögu sagði hún mér af sinni stóísku ró og maður gat alveg ímyndað sér að hún hafi verið jafnróleg við þessar aðstæður eins og hún var að segja söguna. Henni er ekki fisjað saman henni Tine.

Smá viðbót sem ég vil endilega birta verandi vetrarbarn og allt það:
Mágkona hennar Tine hélt stórveislu um daginn þegar hún varð 39 ára, 7 mánaða og 8 daga gömul, svona eins og maður gerir. Hennar rök voru: Ég vil frekar halda upp á afmæli að sumri til úti í garði og svo leiðast mér fertugsafmæli. Góður hugsunargangur, ætla að taka hann til greina í framtíðinni :)

mánudagur, 4. september 2006

Frugtplantagen

Í dag fór ísraelsk samstarfskona mín, Shosh, í frí og göngum ég og pólskur vinur minn eftirlitslausir um Sydhavnsvæðið án eftirlits. Hluti af vinnusvæði okkar er lóðin þar sem gömlu höfuðstöðvar DSB eru. Önnur vídd, rétt eins og ævintýraland inn í miðri borginni.

Fyrr í sumar sló ég grasið þarna, óafskiptur á opnum sláttutraktor, í hitabylgju dauðans. Lítið eru um mannaferðir því bróðurpartur starfseminnar hefur verið fluttur annað, hagræðing kallast það víst. Þeim mun ljúfara fyrir mig. Akandi innan um eldgamla lestarvagna, minningar á teinum. Alls kyns græjur sem enginn man hvernig á að nota en augað kann að meta.

Á svona slóðum er ágætt að verða olíulaus og það var einmitt það sem Kristine, sem nú keyrir sláttuvélina, lenti í. Þá liggur beinast við að hringja í tvo eftirlitslausa gemlinga og biðja um olíu. Við brugðumst hinir bestu við og úr því að við vorum komnir í þetta ævintýraland stöldruðum við um stund. Fyrst ráfuðum við í eina áttina og strípuðum hvern brómberjarunnann á fætur öðrum og þegar við höfðum fengið fylli okkar kjöguðum við í hina áttina að sælureit sem kallaður er frugtplantagen.

Flötin er nefnd þessu nafni því þarna vaxa margs konar epla-, peru-, ferskjutré og meira að segja vínviður með alvöru vínberjum! Það er óhætt að segja að við höfum létt aðeins á sliguðum greinum aldintrjánna, duglegir drengir.

sunnudagur, 3. september 2006

Hvatning á prenti

Afköstin í skrifunum hafa hægt verulega á sér á undanförnum tveimur vikum. Ég er búin að vera föst í kafla sex og sjö í rúma viku. Sem þýðir að ég hef setið við tölvuna, horft til skiptist á tölvuskjáinn og út í loftið og langað að grenja og rífa í hárið.

Í gær tók ég aftur upp bók Harry F. Wolcott sem ég hafði ekki kíkt í frá því síðast. Þá las ég bók hans með mjög góðum árangri og reyndist hún mér svo mikil hvatning að hún fleytti mér frá júní til september.

Í þetta skiptið fann ég aftur hvatningu í prentaða orðinu. Sérlega hjálpleg fannst mér ráðleggingin um að ef maður geti ekki skrifað góðan texta skuli maður skrifa slæman texta. Rökin eru þau að til að betrumbæta textann þurfi að vera einhverjum texta til að dreifa. Svo nú ætla ég að skrifa verulega slæman texta svo ég geti betrumbætt hann og þannig gert hann að virkilega góðum texta.

laugardagur, 2. september 2006

Verkefnavinna

Þann 28. ágúst síðastliðinn setti ég spurningalista lokaverkefnis míns út á netið og sendi hann á hluta af nemendum Háskóla Íslands. Áður en ég byrjaði á verkefninu hugsaði ég sem svo að spurningalistinn væri fljótlegasti og einfaldasti hlutinn. Mér skjátlaðist.

Spurningalistinn var tímafrekasti, flóknasti og mesti föndurhluti ritgerðarinnar (so far...) meðan t.d. fræðilegi hlutinn var miklu fljótlegri. En svo ég haldi áfram með það sem ég ætlaði að segja ykkur, þá stöðvaði ég gagnasöfnun í dag og tók áðurnefndan spurningalista af netinu með mikilli viðhöfn.

Þeir sem þekkja til vita að nú er ný vinnutörn hafin: SPSS.

föstudagur, 1. september 2006

Árstíðaskipti

Í gær var fallegur sumardagur. Í dag var alveg eins veður nema hvað það var fallegur haustdagur. Í mínum huga liggja nefnilega skil árstíðanna á þessum mánaðarmótum, eða hafa í það minnsta gert hingað til.

Ástæðan er sú að síðustu sex ár hefur 1. september verið fyrsti dagur skóla og þar með fyrsti dagur haustannar. Og ég sver að þá byrjar að hausta á Íslandi. Núna er ég hins vegar ekki á leið í skólann og veðráttan er svo mild og fín að þessi skörpu árstíðarskil ættu ekki að fá dafnað í huga mér. Engu að síður sver ég að það var svalara í dag en í gær.