mánudagur, 25. september 2006

Steikt goðsögn

Síðasta vinnudag okkar hjá KTK vorum við Ásdís leyst út með gjöfum, þ.á.m. því sem Danir kalla hornfisk en ég kýs að kalla einhyrning. Einhyrningurinn er eins og blanda af makríl, ál og sverðfiski, semsé efni í góðan mat. Eitt af því skemmtilegasta við þennan fisk er að beinin eru græn, fríkað!

Á meðan ég flakaði og roðfletti fiskinn hugsaði ég hvað ég ætti eiginlega að gera við hann. Ég nennti ekki útúr húsi enda örþreyttur svo ég varð að takmarka ímyndunaraflið við það sem til var í kotinu. Hmmm, einhyrningur með sinnepi, einhyrningur með múslíi, einhyrningur með harðfiski, einhyrningur með jógúrt...

Úr varð þetta:
Nokkrir hvítlauksgeirar skornir í sneiðar og steiktir í slatta af ólífuolíu ásamt teskeið af raja hvítlauksdufti. Þegar hvítlaukurinn var farinn að láta á sjá og húsið fullt af ilmi bætti ég slatta af grænu gæðapestói út á og lét allt dótið malla saman ásamt myndarlegum skammti af graslauk.

Þegar húsið var svo endanlega mettað af þessari matarlykt henti ég flökunum, í bitum, á pönnuna, steikti og sneri þartil allt var reddí. Þar sem ég á hins vegar erfitt með að hætta, þegar ég á annað borð er kominn af stað, sáldraði ég svolitlum parmesan yfir allt heila klabbið á endasprettinum og halelúja, þetta var gott.

Fríkuð græn bein

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heldurðu ekki bara að beinin séu græn út af geislavirkum úrgangi frá Svíþjóð? Djók :-)

baldur sagði...

Það er a.m.k. það sem Stig Helmer vonar ;-)