fimmtudagur, 31. ágúst 2006

Ágústannáll

Ágústmánuður leið bæði hægt og hratt. Hann leið hratt af því við vorum svo upptekin við vinnu en hann leið líka hægt af sömu ástæðu, maður var svolítið fastur í sama deginum allan mánuðinn.

Á milli þess að stunda í stússi tengdu MA ritgerðinni á borð við að skrifa kafla og skila þeim af mér, fá frí í vinnunni til að geta unnið betur í annarri vinnu, komast á gott skrið í ritgerðinni og verða fyrir vikið fangi hennar, tóks mér merkilegt nokk að hugsa um ýmislegt annað.

Þar ber helst að nefna lakkrísteið sem ég hef núna drukkið ófáa lítrana af og mæli eindregið með við annað tedrykkjufólk. Á sama tíma og ég bætti þessum nýja tepakka við safnið var ég upptekin af því að klára birgðir úr skápum heimilisins. Staðan í dag er sú að enn er langt í land og sjáum við ekki fram á að ná settu marki án þess að bjóða einhverjum til veislu.

Þá fórum við á stúfana og reyndu að selja húsgögnin okkar með slæmum árangir og skráðum okkur í danskt stéttafélag til þriggja vikna með góðum árangri. Síðast en ekki síst horfðum við á alla Lost nr. 2. Talandi um afrek.

Mínar fyrstu

Sú fyrri af þeim fyrstu lág í beðinu og bar svip sakleysis fyrst hún sá ekki ástæðu til að fela sig. Sprauta með nál. Ég er hissa á að hafa ekki fundið eina slíka fyrr í stórborginni. Af nákvæmni vísindamanns tók ég fram tóma plastflöku og skrúfaði lokið af, lagði flöskuna á jörðina, tók því næst upp hapsann (handtínu) og náði taki á sprautunni.

Þá tók við miðið: að hitta beint ofan í flöskuna og það sem hraðast, ekki vill maður vera veifandi þessum ósóma. Anda svo léttar þegar möguleikinn á að stinga sig á nál og smitast af Guð veit hverju er lokaður inn í flösku. Henda flösku í svartan poka og binda fyrir. Fitja aðeins upp á nefið og dæsa. Hringja síðan í varnarmálaráðuneytið og spyrja hvort sprengja ætti pokann upp í loft. Eða þannig.

Sú seinni af þeim fyrstu spígsporaði um Halmtorvet í skóm sem smellur í. Sérhannaðir fyrir mellur? Hún sveiflaði slegnu hárinu og horfði með ákveðnu augnaráði inn í hvern bíl sem keyrði framhjá. Stoppaði við ljósastaur og hélt áfam að spígspora. Tók síðan viðbragð þegar einn ökumaður veifaði í hana og stökk upp í bílinn hjá honum. Kynnti sig fyrir ökumanni, kannski ræddu þau aðeins um verð og þjónustu og svo var brunað af stað. Ég fitjaði ekki upp á nefið en ég dæsti.

miðvikudagur, 30. ágúst 2006

Nýir meðlimir

Við gerðumst meðlimir í stéttafélaginu 3F Bygge-, jord- og miljöarbejde í dag. Við höfðum fengið þær fyrirskipanir að hafa ekki hátt um að við værum ekki meðlimir en síðan kom trúnaðarmaður starfsmanna og sagðist hafa tekið eftir því að tveir Íslendingar væru ekki í stéttafélaginu.

Þar sem við erum hvorki á móti stéttafélögum né í stuði til að láta leggja okkur í einelti þann mánuð sem eftir er af vinnunni skráðum við okkur og borguðum fyrir mánaðarþátttöku. Og nú getum við haldið áfram að njóta kjaranna frá 3F með góðri samvisku og tveggja mánaða sparnaði í lommanum.

þriðjudagur, 29. ágúst 2006

Frí í ánauð

Þá er kominn tími á smá MA fréttir. Helgin sem leið var sannkölluð vinnuhelgi. Ég steig varla út fyrir hússins dyr heldur eyddi ég öllum stundum frammi fyrir tölvuna, pikkandi villt og galið á lyklaborðið.

Síðustu tvo daga var ég síðan í fríi frá vinnu. Ég sat við í fríinu og lærði enda er ég fangi tölvu, lyklaborðs, skilafrests og míns eigin metnaðar. Fyrir vikið er ritgerðin líka öll að koma saman, sex kaflar komnir í hús. Um miðjan mánuð kláraði ég kafla 1 og 8, fyrir helgi kláraði ég kafla 5 og í gær lauk ég við kafla 2.

Bara tvær vikur og þrír kaflar til viðbótar auk prófarkalesturs og yfirferðar og ég er laus úr prísundinni.

sunnudagur, 27. ágúst 2006

Brunn-bókmenntir

Góðar bókmenntir hafa margt til brunns að bera og finnst mér viðeigandi að tala um brunn-bókmenntir í því samhengi. Maður nær ekki öllu sem slíkar bókmenntir hafa upp á að bjóða í einni lesningu svo þær ber að lesa aftur.

Sagan af Pí er afspyrnugott dæmi af brunn-bókmenntum. Þess vegna stend ég mig að því þessa dagana að lesa hana í annað sinn. Og finnst sú upplifun ekkert síðri en þegar ég las hana fyrst, ég hlæ aftur að sömu fyndnu atvikunum og sný andlitinu upp í skrúfu þegar kemur að lýsingum á fiskverkun.

Í þokkabót finnst mér skemmtilegur andlegur undirbúningur fólginn í því að lesa um lífið í Suður Indlandi. Pí elst upp í Pondicherry sem er nokkurn veginn næsti bær við Bangalore og Chennai. Þess ber þó að geta að líklegast hefur næsti bær ekki sömu merkingu í hugum Íslendinga og Indverja, ég held það hafi eitthvað með vegalengdir að gera.

föstudagur, 25. ágúst 2006

Uppskerutíð

Undanfarna daga hef ég ásamt vinnuteymi mínu endað daginn á því að njóta þess sem Danmörk hefur upp á að bjóða í ágústmánuði, brómber og plómur. Víða svigna runnar og tré undan þessum kræsingum sem eru svo vel þroskaðar að varla þarf að hreyfa við þeim, þá detta þær í lófa manns.

Í dag lokkuðum við svo Ásdísi og samstarfskonu hennar með á plómuhlaðborð. Eftir laumulegan akstur eftir þröngum göngustígum komum við að röð plómutrjáa og réðumst á tvö fyrstu. Annað tré bar rauða ávexti en hitt gula og báðar tegundir voru sérsaltaðar því trén standa alveg upp við sjóinn.

Þarna stóðum við svo fimm og fylltum maga okkar af nettum og ótrúlega góðum plómum þegar samstarfskona Ásdísar segir: Minnið mig á að taka poka næst. Hin framsýna kærasta mín var nú ekki að bíða þartil næst heldur beint í bílinn og út aftur með poka, svo nú eigum við nóg til helgarinnar. Namminamm!

miðvikudagur, 23. ágúst 2006

Rigning á Køgevej

Undarlegir hlutir gerast í borginni á vinnutíma. Um daginn keyrðum við Tine að Gammel Køge Landvej í beðahreinsun og vorum við það að stíga út úr bílnum þegar gerir hellidembu. Við gáfum því ekki mikinn gaum annan en að andvarpa og dæsa og bíða af okkur versta úrhellið.

Næsta dag var heiðskírt og fallegt veður og ekki rigndi á okkur í vinnunni fyrri part dags. Þegar við keyrðum á Køgevej byrjaði hins vegar að rigna alveg upp úr þurru. Í þriðja skiptið sem við keyrðum á Køgevej byrjaði að rigna á þeirri sekúndu sem við beygðum inn á veginn.

Við Tine erum að sjálfsögðu með þá tilgátu að það rigni bara á Køgevej af öllum götum borgarinnar og aðeins þegar við erum þar.

þriðjudagur, 22. ágúst 2006

One Night in Bangkok

Þegar ég hlusta á 100 FM - sem er á sömu bylgjulengd og Bylgjan eða Léttan heima - heyri ég reglulega lagið One Night in Bangkok. Þar sem ég hafði aldrei heyrt það fyrr en á þessari stöð í sumar gerði ég ráð fyrir að um nýtt lag væri að ræða sem sæti á vinsældalistum um allan heim. Ég er ferleg þegar kemur að því að lýsa tónlist svo ég læt það eiga sig og segi bara að lagið hljómaði 21. aldarlegt fyrir mér.

Svo komst ég náttúrulega að því að það var vinsælt á 9. áratugnum (rétt eins og öll meistaraverk tónlistarsögunnar) og þá varð ég pínu lúpuleg og varð að viðurkenna að ég kann ekki skil á tónlist þess tíma og samtímans.

Mér finnst lagið samt enn þrusugott og hækka alltaf þegar það er spilað á FM 100. Í dag var það spilað þegar við Tine vorum að smide flis på beder við Sjælør Boulevard og þá fór um mig tilhlökkunarstraumur. Einhvern tímann á næsta ári get ég sungið af innlifun og meint það: One Night in Bangkok. Íh, það verður gaman.

mánudagur, 21. ágúst 2006

Litríkar auglýsingar

Við plötuðum Henrik í vinnunni til að prenta út auglýsingar sem við útbjuggum til að selja búslóðina okkar. Á auglýsingapésann höfðu við sett inn myndir af húsgögnum beint af vef Ikea og fyrir vikið var hann bæði smekklegur og litríkur, tveir veigamiklir þættir í auglýsingagerð (tíhí).

Um helgina fórum við svo og hengdum pésana upp þar sem því var við komið: bókasafnið, Netto, Fakta og Jerusalem (grænmetissalinn á horninu), Jónshús og Øresundskollegíið.

Enn sem komið er hafa aðeins tveir hringt, báðir frá kollegíinu og báðir urðu fyrir jafn miklum vonbrigðum að uppgötva að við búum ekki á þar heldur einhvers staðar lengst í burtu í Nord Vest.

laugardagur, 19. ágúst 2006

Kuldakreista

Það liggur við að maður taki upp vetrarsiði hér um mitt sumar, nefnilega fótabað og múmínálfalestur fyrir svefninn. Það kólnaði sumsé í síðustu viku og ég, sem greinilega er orðin of góðu vön, fæ gæsahúð og kuldahroll í 20°C hita.

Ég var einmitt að segja Tine um daginn að þetta væri ekki nógu góð þróun, ég mætti ekki vera svo veðurdekruð að ég kæmist aldrei aftur á klakann. En það er í raun ekki við mig að sakast heldur er ég leiksoppur öfgakenndrar danskrar veðráttu.

föstudagur, 18. ágúst 2006

Vinnudýr II

Já, hugsið ykkur bara! Það er komið út sjálfstætt framhald hinnar frábæru og ofurvinsælu færslu Vinnudýr. Sú gamla var góð en sú nýja er jafnvel betri. Meiri hasar, fleiri brandarar og síðast en ekki síst, betri tónlist.

Hér í Kaupmannahöfn hefur verið föstudagur í allan dag og átti það líka við um vinnustaðinn KTK. Í tilefni af því heimsóttum ég og samstarfsmenn mínir froska. Ekki þessa þrjá, sem við þekkjum öll, heldur fjóra sem ég hafði ekki hitt áður.

Að undanförnu hef ég klippt hekk sem myndar völundarhús og í dag vann ég að því að safna afklippunum saman. Útundan mér tek ég eftir hreyfingu og augu mín leita ósjálfrátt að orsökinni. Blasti þá við mér lítið dýr sem ég í fyrstu hélt að væri fugl sem ég hefði keyrt yfir með sláttuvél en til allrar hamingju reyndist þetta vera afar gáfulegur froskur.

Ég tók hann upp og rétti samstarfskonu minni hann yfir hekkið svo hún gæti plantað honum í öruggara blómabeði. Svona froskakríli eru skringilega handsterk. Litlu krumlurnar taka þéttingsfast um puttana á manni. Ég og Svíinn, sem vinnur líka með mér, fundum þrjá í viðbót. Einn af þeim var nokkru stærri en hinir og var það kvenfroskur, hún pissaði á mig. Sérdeilis dannað.

Ekki er nein tjörn í þessum garði en í 0,5-1 km fjarlægð er Valbyparken og þar eru tjarnir. Sennilegt er að þessi fríði flokkur hafi ferðast þaðan til að finna góðan stað til að grafa sig ofan í jörðina og fara í vetrardvala. Nánari upplýsingar um svona töffara eru hér.

fimmtudagur, 17. ágúst 2006

Á skadestuen

Ekki dugði sturta gærdagsins til að lækna skellinn svo um hádegi var ég sendur á vinnubílnum upp á Frederiksberg Hospital. Ég hafði nefnilega verið með stöðugan hausverk eftir fallið auk þess sem ég var eitthvað hálfaumur í öxlinni, svosum ekki að undra.

Allt tekur sinn tíma á svona stöðum og beið ég á þriðja tíma eftir kalli doktorsins. Þegar röðin kom að mér var ég tékkaður hátt og lágt af hjúkrunarfræðingi og svo kom læknirinn. Eðlilega vildi hann fá að vita um hvað málið snerist og gaf ég honum dönsku útgáfuna af færslu gærdagsins.

Ég sá strax að þarna var húmoristi á ferðinni. Þegar kom að gleraugna- og derhúfuhlutanum hló hann helling og sagði með danskri íróníu að ég hafi nú verið heppinn þar: Hvað segirðu gleraugun og derhúfan? Hvar lentu þau? Já það var nú heppilegt að ekkert kom fyrir gleraugun. Gætum við farið yfir þetta aftur? Þú dast á andlitið, já, og gleraugun og húfan urðu eftir í loftinu. Komu þau niður? Já það var nú heppilegt.

Eitthvað í þessa veruna voru viðbrögð hins flippaða læknis. Læknaskýrsluna endaði hann svo með þessum orðum: Briller og kasket ryger af ham, men der sker intet med disse.

Ef áhyggjufullir lesendur vilja vita hvað kom fyrir mig og hafa fengið nóg af einkahúmor mínum og doksa þá er allt í lagi með mig. Ég fékk vægan heilahristing og afar netta tognun í öxl og háls. Ekkert til að hafa áhyggjur af og ekkert sem tefur mig frá daglegum störfum hvort heldur sem þau tengjast hekki eða lokaverkefni.

miðvikudagur, 16. ágúst 2006

Heimilisfræði

Við erum þessa dagana að vinna í því að klára úr skápum alla þá matvöru sem við höfum sankað að okkur í gegnum tíðina: hrísgrjón, linsur og baunir, morgunkorn, hrökkbrauð, hnetusmjör... þetta er langur listi.

Það gengur mjög hægt en sem betur fer byrjuðum við að huga að þessu fyrir nokkrum vikum. Núna miðast öll matreiðsla út frá því sem til er á heimilinu. Út af þessu höfum við t.d. haft hrísgrjónagraut í kvöldmat undanfarnar vikur, jafnvel meðan hitabylgjan varði. Talandi um að vera staðráðin í að klára birgðirnar.

mánudagur, 14. ágúst 2006

Fall er fararheill

Í nótt rigndi mikið og var Jordpladsen eitt risastórt forarsvað. Jordpladsen er staður í Valbyparken samsvarandi við Leirdalinn í Kópavogi. Þangað fara bæjarstarfsmenn með afköst dagsins og úr er unnin næringarrík mold.

Hekkmorðingjar eru þar engin undantekning en að þessu sinni flutti ég afköst gærdagsins ásamt sænskum vinnufélaga mínum upp eftir. Ekki tók okkur langan tíma að ýta hlassinu af og stekk ég upp á pallinn til að raða verkfærum og öðru, svona eins og maður gerir.

Þegar ég hoppa svo aftur niður stíg ég á þilið sem lokar pallinum frá hliðinni, allt eins og venjulega nema að þessu sinni opnast hliðin öll. Þá hefst teiknimyndaserían. Ég flaug af pallinum og steyptist beint á andlitið ofan í forarsvaðið. Gleraugun og derhúfan urðu hinsvegar eftir í lausu lofti, rétt eins og Don Martin hefði teiknað atriðið (Hljóðin svoru swoooopp, klank, rattlietattliestump og doink).

Þar sem ég var hálfvankaður eftir ósköpin fékk ég Svíann til að keyra en höfuðhöggið aftraði mér ekki frá því að mana strákinn í að keyra yfir risastórt forarsvað. Það var hrikalega gaman og var bíllinn ansi nærri því að festast á tímabili. Allt fór þó vel að lokum og ég komst aftur í áhaldahús til að fara í sturtu og skipta um föt.

föstudagur, 11. ágúst 2006

Skriður

Þá er fjórði dagur veikindaleyfis á enda og mér hefur orðið mikið úr verki á meðan. Merkilegt hvað maður verður afkastamikill þegar maður er heima en ekki úti að tína arfa, haha.

Ég yfirfór risavaxinn stafla af fræðigreinum og líður nú mun betur enda fékk ég alltaf sting í magann í hvert sinn sem mér varð litið á hann. Þá er ég búin að yfirfara allar bækurnar sem ég tók með mér auk þeirra sem ég fékk á mannfræðibókasafni KU og er fyrir vikið komin með dágóða heimildaskrá.

Helgin fer síðan í að skrifa, skrifa, skrifa.

miðvikudagur, 9. ágúst 2006

Lakkríste

Um daginn fórum við í skemmtilegu heilsubúðina Egefeld á Gammel Kongevej og keyptum þar nýja tetegund frá Yogi teframleiðandanum.

Venjulega drekkum við te frá Celestial Seasonings og gerum okkur þá ferð í Søstrene Grene til að skoða úrvalið en nú liggur Egefeld bara svo vel við á leiðinni heim úr vinnu. Þeir selja hins vegar ekki Celestial Seasonings te svo við höfum þurft að söðla aðeins um.

Nú sit ég við tölvuna og sötra lakkríste og það er óskaplega bragðgott. Ég er sko í veikindaleyfi frá vinnu í dag og nota að sjálfsögðu tækifærið til að vinna í verkefninu góða. Þá er gott að hafa vin í bolla sér við hönd.

Svo má ekki gleyma afmælisbarni dagsins: Til hamingju með daginn elsku mamma - það er alltaf gaman að eiga afmæli. Hlakka til að drekka með þér bolla af lakkrístei þegar ég kem heim.

þriðjudagur, 8. ágúst 2006

Klemmufræðarinn

Ég var á leiðinni í þvottahúsið áðan til að hengja upp þvott og sá þá eina lausa klemmu á skrifborðinu. Vitaskuld velti ég því fyrir mér hvort ég ætti að kippa henni ofan í klemmukörfuna á þeim forsendum að það væri of típískt að vera búin að hengja upp allan þvottinn en vanta síðan aðeins eina klemmu fyrir eitt horn af handklæði. Þá myndi ég álasa sjálfri mér fyrir að hafa ekki kippt henni með. Svo ég kippti henni með.

Það kom síðan aldrei til þessara aðstæðna, þvotturinn var hvortsemer orðinn þurr svo ég gat endurnýtt klemmurnar. Við vitum hins vegar öll að hefði ég ekki kippt henni með hefði þvotturinn ekki verið búinn að þorna mér svona í vil, það er bara náttúrulögmál.

Vissuð þið annars að klemmur í Hollandi eru kneppe? Það finnst Dönum fyndið.

sunnudagur, 6. ágúst 2006

Leitað langt yfir skammt

Þegar við vorum nýflutt til stórborgarinnar og þekktum okkur ekkert sérlega vel stunduðum við það af kappi að leita langt yfir skammt.

Ég get tekið baunir sem dæmi. Við byrjuðum á því að finna heilsubúð í Field's og keyptum þær þar. Síðan uppgötvuðum við heilsubúð á Nørrebrogade og hjóluðum þangað.

Auðvitað kom svo í ljós að hinar ýmsu gerðir bauna og linsa fást hjá grænmetissalanum við hliðiná. Við uppgötvuðum það hins vegar ekki fyrr en nokkrum vikum síðar þegar við loksins hættum okkur þangað inn.

Nú erum við alveg orðin vön því að þurfa ekki að fara lengra en 50 metra til að verða okkur úti um nær allt sem okkur vanhagar um. Stórborginni hefur augljóslega tekist að temja okkur að sínu tempói.

laugardagur, 5. ágúst 2006

Uppáhaldsmánuðurinn

Ég elska ágústmánuð. Hann er að mínu mati besti mánuður ársins. Þá er nefnilega enn hlýtt og enn sumar en þó farið að rökkva fyrr.

Eins og mér þykir nú vænt um bjartar sumarnætur er ég alltaf fegin þegar þær kveðja, mér finnst nefnilega miklu auðveldara að sofna í dimmunni. Reyndar er erfiðara að vakna í rökkri en það er annar handleggur.

Það er ákveðin angan og notalegt andrúmsloft sem fylgir ágústmánuði, þá er aftur tíðin til að njóta kertaljóss eða fylgjast frá svölunum með bremsuljósum bílanna. Ætli ég sé ekki að verða einhvers konar síðsumars/haustdýrkandi.

fimmtudagur, 3. ágúst 2006

Samherjar

Stóran hluta vikunnar bregð ég grænum vélbrandi í blóðugum stórorrustum við ofvaxin hekk. Hekkið á sér samherja í stríðinu, blaðlýsnar. Við fyrstu sýn heldur fólk að þær vinni hekkinu mein en það er blekking. Þær eru verndarar þess og stökkva á mig í þúsundatali þegar ég mæti með hakkavélina.

Fram til þessa hef ég talið mig standa einan í baráttunni en hefi nú uppgötvað tvo öfluga flokka sem berjast mér við hlið. Fyrri flokkurinn er rigningin. Í fyrsta lagi svalar hún sólbökuðum og sjóðheitum skrokknum við erfiðisvinnuna og í öðru lagi skolar hún lúsunum niður af laufunum.

Seinni flokkurinn er af allt öðrum toga en rigningin og vinnur með mér með annarri gerólíkri nálgun. Það eru hinar forkunnarfögru og jafnlyndu maríuhænur. Þessar skordísir gera sér lítið fyrir og éta hunangsfylltar blaðlýs enda dugar ekkert minna þegar fljúga á allan liðlangan daginn og vera sætur.

Ég lái lúsagreyjunum þó ekki að vera pínupirraðar á mér. Fyrir það fyrsta klæðist ég skærappelsínugulu tískuslysi og í öðru lagi er ég að taka frá þeim bæði húsnæði og mat. Ef þær eru með blogg þá er ábyggilega ein færsla um mig og önnur um maríuhænur.

miðvikudagur, 2. ágúst 2006

Flass og bloss

Í gærkvöldi þegar við vorum að ganga til náða byrjaði að rigna eins og hellt væri úr fötu. Eftir smástund af rigningu komu blossar með tilheyrandi látum, ég elska þrumuveður.

Við stóðum drjúga stund og fylgdumst með umferðinni skolast niður þá á sem FrederiksSUNDsvej var orðinn. Áður en gengið var til náða urðum við þó að sjá hvernig bakgarðurinnn liti út í svona úrhelli og hvernig niðurföllin tækju við.

Sem við stóðum og góndum yfir portið af litlu eldhússvölunum urðum við vör við blossa sem ekki fylgdu neinar þrumur. Í einum af gluggunum sem snúa að portinu hélt laumuleg hönd á myndavél og smellti af okkur myndum í gríð og erg. Við eigum semsé einhvern skrítinn granna og til að forðast frekar papparassinn at'arna fórum við inn að sofa. Það er gott að sofa í þrumuveðri, bra.

þriðjudagur, 1. ágúst 2006

Tveir flognir úr hreiðrinu

Nei, ég á ekki við vængina tvo sem ég gróf á dögunum. Ég vona innilega að þeir séu á sínum stað og fari ekki að ganga aftur (fljúga aftur?).

Nei, ég er að vísa í kafla í MA ritgerðinni. Eldsnemma í morgun kláraði ég yfirferð á aðferðafræðihluta MA ritgerðarinnar. Sá hluti samanstendur af tveimur köflum, annars vegar kaflanum Aðferðir og framkvæmd og hins vegar kaflanum Vettvangur mannfræðinnar.

Rétt áður en ég hélt til vinnu sendi ég þá síðan af stað til Unnar Dísar leiðbeinanda. Það þýðir að nú eru aðeins níu kaflar eftir. Það er reyndar töluvert en níu er þó betra en ellefu.