Stóran hluta vikunnar bregð ég grænum vélbrandi í blóðugum stórorrustum við ofvaxin hekk. Hekkið á sér samherja í stríðinu, blaðlýsnar. Við fyrstu sýn heldur fólk að þær vinni hekkinu mein en það er blekking. Þær eru verndarar þess og stökkva á mig í þúsundatali þegar ég mæti með hakkavélina.
Fram til þessa hef ég talið mig standa einan í baráttunni en hefi nú uppgötvað tvo öfluga flokka sem berjast mér við hlið. Fyrri flokkurinn er rigningin. Í fyrsta lagi svalar hún sólbökuðum og sjóðheitum skrokknum við erfiðisvinnuna og í öðru lagi skolar hún lúsunum niður af laufunum.
Seinni flokkurinn er af allt öðrum toga en rigningin og vinnur með mér með annarri gerólíkri nálgun. Það eru hinar forkunnarfögru og jafnlyndu maríuhænur. Þessar skordísir gera sér lítið fyrir og éta hunangsfylltar blaðlýs enda dugar ekkert minna þegar fljúga á allan liðlangan daginn og vera sætur.
Ég lái lúsagreyjunum þó ekki að vera pínupirraðar á mér. Fyrir það fyrsta klæðist ég skærappelsínugulu tískuslysi og í öðru lagi er ég að taka frá þeim bæði húsnæði og mat. Ef þær eru með blogg þá er ábyggilega ein færsla um mig og önnur um maríuhænur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli