mánudagur, 12. maí 2014

Kotasælubollur


Ég bakaði þessar bollur í síðustu viku og, my oh my, þær eru dásamlegar. Mjúkar inní, stökkar að utan, svolítið saltar, svolítið safaríkar...

Og þær eru svo auðveldar í bakstri! Bingó! Þessar bollur fá stóra vinninginn.

Þessa uppskrift er að finna í bókinni minni góðu Stóru bakstursbókinni. Síðan fann ég sambærilega uppskrift á síðunni Eldhússystur og ákvað að fara eftir innihaldi hennar en taka leiðbeingarnar úr bókinni.

HVAÐ
1 msk smjör/smjörvi
0,5 l mjólk
50 g pressuger (eða 13 g þurrger)
1 tsk sykur
550 g hveiti
150 g heilhveiti
1 tsk salt
3 msk ólívuolía
200 g kotasæla
Sesamfræ

HVERNIG
1. Bræðið 1 msk af smjöri í potti, hellið svo mjólkinni út í og hitið upp í 35-37°C.
2. Myljið pressugerið í skál, bætið við sykrinum og hellið hluta af mjólkinni yfir. Hrærið þar til allt gerið hefur leysts upp.
3. Takið fram víða og góða skál. Hellið allri mjólkinni í hana, líka þeirri með uppleysta gerinu. Setjið því næst allt þurrefni saman við og hrærið.
4. Bætið olíunni og kotasælunni saman við og hrærið þar til deigið tekur að sleppa skálinni.
5. Stráið smá hveiti yfir, leggið viskustykki yfir og leyfið að lyfta sér í 30 mín.
6. Hellið deiginu á hveitistráðan flöt. Hnoðið og passið að hnoða ekki of miklu hveiti til viðbótar í deigið.
7. Skiptið deiginu í tvennt, rúllið því upp í sívalning og skerið hvorn sívalning í 12 bita.
8. Mótið kúlur úr hverjum bita fyrir sig og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Leggið viskustykki yfir og leyfið að lyfta sér í 30-40 mín.
9. Hitið ofninn í 200°C.
10. Penslið bollurnar með mjólk og stráið sesamfræjum yfir. Stingið inn í ofn í 20-25 mín.

Kotasælubollur

Engin ummæli: