mánudagur, 30. apríl 2007

Á spítalann

Klukkan var fimm að morgni og við vorum þrjú saman á lítilli skellinöðru: ég, Baldur og stjórnandinn á hótelinu okkar í Amritsar. Leið okkar lá að Kakkar spítala því Baldur var veikur, kominn með háan hita og með niðurgang af verstu gerð.

Á spítalanum tók sofandi vörðurinn á móti okkur og hleypti okkur inn á lítinn, tóman spítalann. Eftir stutta bið kom ungur maður til okkar, nuddandi stírurnar úr augunum. Hann var í gallabuxum og strigaskóm og það eina sem gaf til kynna að hér væri læknir á ferðinni var hlustunarpípan sem hann hafði slengt um háls sér. Hann tók að spyrja Baldur út í veikindin og tók púlsinn með því að halda um úlnliðinn. Því næst fékk hann Baldur til að leggjast á bekk og fór að þreifa á maga hans.

Þar sem Baldur kveinkaði sér mjög við þá skoðun dró læknirinn þá ályktun að um matareitrun væri að ræða, og þar sem hún var nú orðin tíu daga gömul skrifaði hann upp á sýklalyf og Aciloc til að kveða niður pestina. Eftir að hafa gefið okkur upplýsingar um lyfjagjöf og skammta virtist hann halda málið vera afgreitt. Við urðum sem sagt að draga upp úr honum ráðleggingar til sjúklingsins og hjúkkunar og þökk sé þeirri pressu mundi hann skyndilega eftir salt- og sykurlausnum sem nauðsynlegar eru við niðurgangi til að endurhlaða vatnsbirgðir líkamans.

Sem betur fer þurftum við ekki að leita langt eftir lyfjunum. Í næsta herbergi á spítalanum var apótekarinn vakinn og sitjandi á beddanum sínum afgreiddi hann pöntun okkar. Við yfirgáfum spítalann með lyf í poka og reikning sem hljóðaði upp á 138 rúpíur (220 kr.).

Sjúklingurinn er búinn að taka fyrsta skammtinn af sýklalyfjunum og liggur nú fyrir.

Í Amritsar

Í morgun komum við örþreytt hingað til Amritsar eftir óvenju óþægilega rútuferð. Eftir að hafa reynt á hina margfrægu gestrisni Sikha ákváðum við frekar að finna hótel í grennd við lestarstöðina og eftir að hafa skoðað nokkur fundum við eitt sem við gátum hugsað okkur að leggja okkur á fyrir skoðunarferð dagsins.

Við ákváðum að gera svipað og í Delhi, leigja bílstjóra og bruna á þá staði sem væru áhugaverðir: Gullna hofið og landamæraathöfn við sólarlag. Gullna hofið var mjög fallegt á að líta og í síkinu umhverfis það böðuðu pílagrímarnir sig áður en þeir færu inní helgidóminn. Við létum okkur duga að ganga hring um hofið og slepptum innviðunum, stemningin var aðalatriðið.

Næst ók bílstjórinn okkur að landamærum Indlands og Pakistans en þar er á hverjum einasta degi, við sólarlag, haldin litrík landamærasýining sem gengur út á að að sýna mátt þjóða og megin. Af hálfu Indverja er þetta gert með þeim hætti að allir veifa fána sínu landi til stuðnings og öskra eitthvað um að Indland sé best í heimi og er ég ekki viss hvort einhver ókvæðisorð um nágrannana fljóti með. Í ofanaálag er maður með hljóðnema að æsa múginn enn frekar og hvetja til meiri láta og gefa þeim einhver heróp til að gala.

Andrúmsloftið minnti helst á blöndu af hersýningu, opnun ólimpíuleikanna og breskum fótboltaleik. Fyrst hlupu Indverjar á öllum aldri með stórann fána að landamærahliðinu, veifuðu honum og hlupu til baka. Allt með dyggum stuðningi af áhorfendappöllunum. Síðan fóru litlir hópar af fólki að sýna sjálfstæð og sérindversk dansatriði en voru svo rekin í burtu svo landamæraverðirnir gætu sinnt seremóníudjobbinu sínu.

Fyrst öskrar einn þeirrar eitthvað heróp og heldur tóninum eins lengi og hann getur, eftir það fær einn að marsera að landamærahliðinu og svona gengur það koll af kolli í smástund. Þá eru hliðin opnuð undir fagnaðarlátum æsts fjöldans og landamæraverðir beggja þjóða draga þjóðfána sína niður af stöngum sem standa við hliðið. Svo spennt var fólk að hópur sem fannst fólkið fyrir framan skyggja á útsýnið hóf að skvetta á það vatni. Það er óhætt að segja að fjörið hafi verið pínulítið geðveikt.

Sýningin í heild sinni var hin skemmtilegasta og sérstaklega gaman að koma í svona aðgreiningarstemningu eftir að heimsókn á helgasta stað Sikha en trúarbrögð þeirra snúast víst mikið um einingu. Öðru hverju gjóaði ég augunum yfir til Pakistans og virtist mér fólkið þar mun settlegra á að líta og taka þessu öllu af meiri ró. Er ég viss um að Pakistanarnir hafi verið þakklátir fyrir landamærin þegar þeir horfðu upp á apalætin í indverskum frændum sínum.

Myndir eru hér!

laugardagur, 28. apríl 2007

Heimsókn í rottuhofið

Við komum eldsnemma í morgun til Bikaner með næturrútunni frá borginni gullnu, Jaisalmer. Þar sem við höfðum engin plön um að gista í bænum fórum við rakleitt á lestarstöðina þar sem við fengum að geyma bakpokana.

Eftir góða hvíld og morgunmat á boðlegum veitingastað héldum við út í daginn að sinna okkar eina erindi. Í þetta sinn var erindið að heimsækja Karni Mata hofið sem hefur þá sérstöðu að vera rottuhof.

Það tók okkur góðan klukkutíma og hálfan að komast að rottuhofinu, rútan var nefnilega alltaf að stoppa og hlaða á sig meiri varningi. Stundum held ég að Indverjar geri engan greinamun á samgöngum fyrir fólk annars vegar og vöruflutningum hins vegar.

Hvað um það, við komumst loks að rottuhofinu og skoðuðum okkur um. Eins og í öðrum hindúa hofum verður maður að gjöra svo vel og fjarlægja allt skótau sem þýddi að við urðum að tippla um á skítugum marmaranum og forðast að stíga í rottuskít og á rottuskott. Rottuhofið er sem sé fullt af rottum og þangað koma hindúar til að færa fórnir. Þeir trúa því að rotturnar séu endurfæddar sálir sem á sínum tíma var hlíft við reiði Yama, guðs dauðans.

Ég get ímyndað mér að ófáir fari ófúsir inn í þetta hof. Ég aftur á móti er svo hrifin af rottum eftir að hafa séð David Attenborough þátt um þær að ég var lengi búin að hlakka til að heimsækja rottuhofið. Ég varð hins vegar fyrir nokkrum vonbrigðum. Fyrir það fyrsta voru rotturnar mun færri en ég hafði gert mér í hugarlund. Þá voru aðstæður fyrir rottugreyin bágbornar svo ekki sé meira sagt. Margar þeirra voru illa útleiknar, með rytjulegan feld og veiklulega tilburði. Við sáum nokkrar í dauðateygjunum og höfðum lítt gaman af. Hvernig væri að hugsa aðeins betur um blessaðar endurbornu sálirnar fyrst maður er á annað borð að hafa fyrir því að reisa þeim hof?

Þegar við höfðum gengið um hofið á ofurheitum marmaranum og nær brennt okkur á skítugum iljunum sögðum við það gott af rottum. Fyrir utan hofið fundum við okkur setstað og gáfum okkur góðan tíma í að þrífa iljar og tær vel og vandlega. Ég legg ýmislegt á mig til að sjá markverða staði, en að fá orma í gegnum iljarnar er ekki ofarlega á listanum.

Myndir úr rottuhofinu eru komnar á netið. Við einblíndum á að taka myndir af sætum rottum svo engum ætti að blöskra. Hverjum finnst ekki sætt að sjá rottur sem spúna og flatmaga?

föstudagur, 27. apríl 2007

Kamelsafaríið

Klukkan átta í gærmorgun vorum við Ásdís komin á bak tveggja kameldýra. Við vorum hluti af sex manna hóp auk fjögurra leiðsögumanna. Riðum við rétt rúman klukkutíma en þá var fyrsta áning og var skuggi nokkurra trjáa notaður til að bjarga okkur frá geislum sólarinnar sem urðu æ sterkari.

Við flatmöguðum í skugganum meðan fararstjórarnir elduðu ofan í okkur indverskan hádegismat og eftir hádegismatinn var flatmagað enn meira, í þetta sinn síesta. Ekki var stoppið nú beinlínis stutt því þetta tók eitthvað í kringum fimm tíma með öllu.

Þá var stokkið á bak aftur og tekinn þriggja tíma túr undir miskunnarlausri sólinni, sem betur fer vorum við með sólarvörn númer 50 og svo var vatnsbrunnur á leiðinni sem bauð upp á svalandi busl innan um þyrstar kýr, kameldýr, hunda og geitur. Ekki er margt að sjá í svona eyðimörk en þó rákumst við á mjög svo viðeigandi beinagrindur, stöku geitahjörð, hunda og ég sá meira að segja antilópu á harðahlaupum!

Seinnipart dags náðum við að sandöldunum en þar var planið að gista. Þessar sandöldur voru enn eyðimerkurlegri en aðrir hlutar ferðarinnar, svona eins og þegar Tinni var í Sahara. Enn á ný tóku fararstjórarnir við eldamennskuna, söfnuðu sprekum og elduðu dal, hrísgrjón og bökuðu chapatti yfir hlóðum.

Eftir matinn var komið að langþráðri hvíld því sólin og trunturnar eru ekki beinlínis til að auka þrek manns. Eftir að hafa fundið góðan stað með hagstæðri vindátt, með tilliti til sífretandi reiðskjótanna, fór hópurinn hægt og sígandi að taka á sig náðir og þegar var orðið aldimmt blasti við okkur stjörnubjartur himinn með tungli sem helst minnti á litla sól.

Í morgun lögðum við svo snemma í hann, eftir hafragraut og kex sem skeiðar, til að ná góðum áningarstað áður en sólin yrði of sterk. Mér fannst hún reyndar of sterk um leið og hún kom upp en það er önnur saga. Ég kaus að fara fótgangandi sem var bæði þægilegra og fljótlegra auk þess sem heilsubótarganga myndi vera góð lækning á heilsubrest sem kallast kamelklof.

Um ellefuleytið var áð og hangsað til svona þrjú. Um þetta leyti var mig farið að langa heim en varð þó að þrauka tveggja tíma göngu til viðbótar og nú gekk Ásdís mér til samlætis. Í svona ferð er hitinn gjörsamlega ærandi og lærir maður vel að meta litla hluti sem tilheyra daglegu lífi í siðmenningunni. Við vorum t.d. alveg tilbúin til að greiða vænar fúlgur fyrir kalt vatn og sáum kaldan eplasafa í hyllingum. Það má með sanni segja að þessi kamelpakki hafi verið þrekvirki mikið.

Þegar jeppinn kom svo loksins að sækja okkur fengum við ísjökulkalt vatn á flöskum og getur ekki nokkur maður trúað hve svalandi það var eftir tveggja daga drykkju á 45-50°C heitu og hálffúlu vatni, þvílík gleði.

Hér eru myndirnar!

Afmæli á eyðisandi

Nú er ég orðinn 28 ára og eins og fram hefur komið hélt ég upp á afmælið að hætti hirðingja á úlfaldabaki í Thar eyðimörkinni (meira um það síðar).

Þessi afmælisdagur var frábrugðinn flestum öðrum sem ég hef hingað til upplifað. Honum varði ég í feiknahita og steikjandi sól, á baki Baplú (4ra ára úlfaldaótemju), endað á mat við varðeld og lagst til hvílu undir stjörnubjörtum himninum.

Þakka fyrir góðu straumana, fallegu ummælin og englaskeytin sem bárust mér alla leið til Indlands.

Baldur og Baplu

miðvikudagur, 25. apríl 2007

Komin til Jaisalmer

Þvert á fögur fyrirheit okkar um að taka ekki framar rútur í Indlandi fór svo að við komum hingað til Jaisalmer með morgunrútu frá Jodhpur. Ástæðan var aðallega sú að það var auðveldara að bóka í rútuna og auk þess átti hún að vera loftkæld sem þýðir að maður er laus við ryk í augu og svitastrokið bak.

Eins og indversk lög gera ráð fyrir var rútan ekki loftkæld þegar á hólminn var komið. Við gátum hins vegar þakkað fyrir að hún lagði af stað á réttum tíma (hálf níu) og að fyrripart ferðar nutum við einhvers morgunsvala.

Rétt eins og þegar við keyrðum milli Agra og Jaipur tók ég eftir landslagsbreytingum. Nú varð landslagið ekki bara eyðurmerkurlegt heldur vorum við komin inn í eyðimörk, eða því sem næst. Aðeins harðgerð tré og stöku úlfaldi með vatnsbirgðir á bakinu hafast við á þessu svæði.

Við komuna til Jaisalmer sluppum við blessunarlega við allt áreitið frá strákum sem reyna að tosa mann inn á mislukkuleg hótel. Þar sem við höfðum bókað herbergi kvöldið áður vorum við sótt upp á rútustöð og keyrt beint á hótelið.

Eyðimerkurbærinn Jaisalmer hefur, ef eitthvað er, enn minna en Jodhpur upp á að bjóða fyrir ferðamenn ef frá eru talin kamelsafarí. Við erum einmitt komin í þeim erindagjörðum og lunginn úr deginum fór í samningaviðræður sem enduðu okkur í hag. Við leggjum af stað í fyrramálið í tveggja daga kamel- og jeppasafarí um Thar eyðimörkina.

Þetta er að sjálfsögðu afmælisgjöfin til Baldurs sem er svo sætur að eiga afmæli á morgun. Þar sem við verðum hins vegar hvergi nálægt siðmenningu þá verður ekki hægt að ná í okkur. Sendið okkur hins vegar góða strauma út í eyðimörkina og bíðið spennt eftir afmælisfærslu með mynd af afmælisbarninu sem kemur á síðuna á föstudaginn.

þriðjudagur, 24. apríl 2007

Bláa borgin

Það mætti halda að við værum farin að skrifa fyrir eitthvað klámblað ef litið er til færsluheitanna en ég sver að við yfirgáfum Bleiku borgina í gær og komum til Bláu borgarinnar í morgun.

Bláa borgin heitir öðru nafni Jodhpur og liggur vestan við Jaipur. Hingað komum við með næturlestinni í morgun og vorum við frekar vansvefta við komuna. Bæði var lestin of sein, kom ekki fyrr en eitt eftir miðnætti, og við lentum í klefa með hrjótandi Indverja. Fyrra vandamálið, biðina eftir lestinni, leystum við með því að spjalla við skemmtilegt par frá Kína en þau bera hin mjög svo ókínversku nöfn Katherine og Vince. Seinna vandamálið, svefnleysið, leystum við með því að leggja okkur í tvo tíma þegar við komum upp á hótelherbergi.

Jodhpur hefur ekki mikið upp á að bjóða fyrir ferðamenn og flestir koma hingað aðeins í millistoppi á leið sinni til eða frá Jaisalmer. Við höfðum upphaflega hugsað okkur að stoppa örstutt við og taka næturlestina um kvöldið til Jaisalmer en reynslan kvöldið áður kom í veg fyrir allt slíkt ráðabrugg. Svefninn er svo snar þáttur í góðri heilsu að við vorum ekki tilbúin að láta reyna á aðra nótt í lestinni.

Það sem við gerðum okkur til dundurs þennan dag í Bláu borginni var að skoða virkið flotta Meherangarh Fort sem trónir efst á hæðinni ofan við Jodphur. Við röltum frá hótelinu upp að virkinu í 42°C hita (talandi um hetjur) og þegar þangað var komið höfðum við frábært útsýni yfir Bláu borgina og sáu hvers vegna hún ber þetta gælunafn. Húsin litlu sem kúra upp við hæðina eru langflest indígó blá sem áður fyrr gaf til kynna að húseigandi væri Brahmini (af hæsta kasti) en er nú til dags aðeins til praktískra nota.

Virkið góða er eitt best varðveitta virkið á Indlandi. Það byggðu svokallaðir Rajputs sem réðu lögum og lýðum á þessu svæði. Nú hýsir það vandað og greinagott safn sem gefur bæði innsýn og yfirlit yfir sögu svæðisins. Af því sem er til sýnis í virkinu eru vopn og brynjur, palanquins og ópíumpípur, barnavöggur, teikningar og styttur af bleikklæddu gyðjunni Gangaur.

Sérstaklega áhugavert fannst mér að sjá handaförin á veggnum við inngang virkisins. Þessi handaför eru af ekkjum maharajans Man Singh en Rajput hefðir kveða á um að ekkjur kasti sér á bál eiginmanns síns við útför hans. Þessi siður kallast sati og var bannaður af Bretum árið 1829. Þegar Man Singh lést árið 1843 sniðgengu ekkjurnar lög Bretanna, skildu eftir handfar sitt á veggnum góða og köstuðu sér því næst í eldhafið.

mánudagur, 23. apríl 2007

Sólúrin og höll vindanna

Enn á ný hættu moldvörpurnar sér út af hótelinu góða og inn í bleiku borgina, að þessu sinni til að virða fyrir okkur undur stjörnuskoðunar og höll vindanna. Hljómar rosalega fyrir moldvörpur, sérstaklega ef önnur þeirra er með smámagakveisu (engar áhyggjur).

Jantar Mantar heitir stjörnuskoðunarstöðin og þýðir nafnið bókstaflega mæli tæki. Stöðin, sem er frá miðöldum, þótti mér stórmerkileg og kennir þar ótrúlegustu grasa m.a. sólúrs sem mælir tímann með tveggja sekúndna nákvæmni! Þarna gátu menn líka reiknað og teiknað himingeiminn fram og til baka, spáð fyrir um veður ég veit ekki hvað og hvað.

Á leiðinni heim í moldvörpuholuna litum við afar stuttlega á höll vindanna (Hawa Mahal) en þaðan gátu hefðarkonur horft hersýningar og hátíðarhöld án þess að verða fyrir lostafullu augnaráði karla. Þessi svokallaða vernd kallast Purda. Allir gluggar eru þannig gerðir að hægt er að horfa út en ekki inn.

sunnudagur, 22. apríl 2007

Þvottadagur

Í dag var hinn mesti rólegaheitadagur. Að hluta til skrifaðist það á þreytuna miklu eftir ferðalagið hingað norður eftir og tvær erfiðar rútuferðir í röð. Að öðrum hluta til skrifaðist það á magaveiki Baldurs. Síðast en ekki síst vorum við tilneydd til að taka því rólega þar sem við sendum allar okkar flíkur í þvott og áttum bara náttföt og slíkar skjólur til að vefja utan um okkur og þannig til fara hættum við okkur ekki út fyrir hótellóðina.

Það var sannarlega ekki vanþörf á að þvö fötin okkar. Allar okkar flíkur voru skítugar og margnotaðar, og þá er ég að taka um skítugar á borð við flíkur sem hafa verið utan á barnskroppi sem hefur velt sér upp úr leðju og drullu. Svolitlar ýkjur að sjálfsögðu en rykugar voru flíkurnar og skítugar.

Rólegheitadagar eru að sjálfsögðu kjörnir til að liggja yfir bókum svo við gerðum það. Mér til dundurs las ég í Freakonimics og Baldur kláraði Book of Transformation eftir Dalai Lama. Til marks um hve rólegur dagurinn var finnst mér vert að minnast á ávaxtasalatið sem við fengum okkur um eftirmiðdaginn, með fersku papaya, mangó, vatnsmelónu, banana, ananas og vínberjum. Salatið var mikill hápunktur dagsins.

Eftir kvöldmat grömsuðum við aðeins í bókabúð hótelsins og náðum í þvottinn okkar. Hann kom í fangið okkar angandi af hreinleika og nýpressaður í þokkabót. Til að vera örugglega í takt við daginn ætlum við núna hvað úr hverju í háttinn.

laugardagur, 21. apríl 2007

Bleika borgin

Jaipur byrjar vel! Erum búin að tékka okkur inn á alvöru lúxushótel, í fyrsta sinn í allri ferðinni! Hótelið heitir Arya Niwas og er hér er allt til alls: frábær sturta, hrein handklæði að vild, hreint lín, loftkæling, tölvustýrt öryggishólf og síðast en ekki síðst besti matur Indlands fram til þessa (lítil olía og hófleg kryddnotkun). Ef við svo fáum leið á að hanga inni á frábæra herberginu okkar förum við bara niður í flottu setustofuna, fallega garðinn eða skemmtilegu bókabúðina hérna niðri. Dæs, þvílíkur lúxus.

Þrátt fyrir allan lúxusinn náðum við að rífa okkur út í stutta skoðunarferð um þann hluta Jaipur sem kallaður er bleika borgin (Pink City). Bleika borgin ber þetta nafn þar sem húsin eru öll bleikmáluð. Í Rajastan táknar bleiki liturinn gestrisni og var borgin upphaflega gul en fékk sína fyrstu bleiku umferð fyrir heimsókn Alberts Bretaprins árið 1876. Þar sem liturinn er nú orðinn vörumerki borgarinnar er honum haldið við og var síðasta stórmálun árið 2000 þegar Bill Clinton mætti á svæðið.

Við héldum okkur á svæði sem kallað er Bapu Bazaar. Þar úði og grúði af fólki og kaupmenn reyndu eftir megni að toga okkur inn í búðirnar til sín með hinni vinsælu setningu: Looking is free. Meðal þess sem í boði var voru Rajastan strengjabrúður, tabla trommur, alls kyns bómullarföt og að sjálfsögðu skór úr úlfaldaleðri.

föstudagur, 20. apríl 2007

Rykug rútuferð

Við komum til Jaipur um kvöldmatarleytið í dag eftir u.þ.b. átta tíma rútuferð. Átta tímar, segir hún, varla svo slæmt. Ó, jú, alveg voðalegt skal ég segja ykkur.

Rútan sem um ræðir átti að vera einhvers konar lúxus að því leyti að plássið sem hver fær er meira en gengur og gerist í öðrum rútum. Hins vegar ætluðust þeir til að við sætum með allan okkar farangur milli lappanna alla ferðina þar sem við neituðum að borga uppdiktað aukagjald (sem við höfðum verið vöruð við að þeir myndu reyna). Baldur sýndi af sér áður óþekkta ákveðni þegar þarna var komið sögu og eftir það var málið dautt, töskurnar fengu að vera í friði.

Ungt, bandarískt par sem sat fyrir framan okkur var mun linara og hlýddu öllu því sem þeim var sagt að gera. Við urðum að halda fyrir þau smá fyrirlestur um hvernig hlutirnir gengju fyrir sig hér í Indlandi, t.d. að ef maður léti þá velta yfir sig hrapaði maður í virðingastiganum.

Versta við rútuferðina voru opnu gluggarnir, þannig komst allt rykið inn og upp í augu og kok. Þá gátu farþegarnir sem voru ofan á þaki rútunnar einnig verið til armæðu, alltaf hellandi vatni fram af þakinu svo maður varð að hafa snör handtök og loka glugganum sínum til að fá ekki væna lúku af votum vökva í fangið. Ekki bætti úr skák að við vorum sólarmegin í lífinu í bókstaflegum skilningi og vorum við það að sjóða. Að endingu var ferðin tvisvar sinnum lengri en okkur hafði verið sagt og sætið mitt var fast í 130 gráðu halla og vildi ekki ofar. Ég varð mjög þreytt í bakinu, mjög.

Við komum til Jaipur eins og illa barðir hundar, skítug, rykug og með bauga niður að hnjám. Ég held við látum þetta gott heita af rútum í Rajasthan í bili. Héðan í frá beini ég mínum viðskiptum að loftkældum lestum.

fimmtudagur, 19. apríl 2007

Taj Mahal

Mættum klukkan sex í morgun til að berja þessa merku byggingu augum í morgunsólinni. Þetta var reyndar ekki fyrsta ferðin okkar því í gær, þegar við komum hingað til Agra, fréttum við að það væri ókeypis inn á Taj Mahal svæðið í tilefni af svokölluðum World Heritage Day. Afar heppilegt þar sem venjulega kostar fáránlegar 750 rúpíur fyrir erlenda ferðamenn en 20 fyrir Indverja, talandi um þjóðrembur.

Við gátum því bæði fylgst með sólsetri og sólarupprás við Taj Mahal. Í fyrra skiptið vorum við eins og rónar til fara (þökk sé rykugri rútuferð) innan um heimamenn sem allir voru í sínu fínasta pússi. Í morgun vorum við landi og þjóð til meiri sóma, farin úr rónagöllunum og komin í settlegri flíkur. Í bæði skiptin báðu indverskir túristar okkur að sitja fyrir á myndum með sér svo ekki er hægt að segja að marktæk fylgni sé á milli snyrtimennsku og vinsælda meðal heimamanna.

Hvað er svona merkilegt við dögun og og sólarlag við Taj Mahal? Á þessum tímum dagsins skín sólin á spegla sem greiptir eru í bygginguna og samspili þeirra við breytilegan lit sólargeislanna ætlað að tákna nærveru Allah, að mínu mati ákaflega ljóðrænt og fallegt markmið. Byggingunni og umhverfi hennar er í heild sinni er ætlað að tákna Guðs ríki á jörðu. Að margra mati var hátindi mógúlsks arkitektúrs náð þarna og eru til fjölmargar bækur um fullkomnun hönnunarinnar. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja hana fegurstu byggingu heims og þeirra dramatískastur var, að mínu mati, skáldið Rabindranath Tagore sem lýsti Taj Mahal með eftirfarandi orðum: Tear on the face of eternity.

Taj Mahal er risastórt grafhýsi sem mógúll nokkur, Shah Jahan, reisti fyrir uppáhalds konuna sína eftir að hún lést við fæðingu á fjórtánda barni þeirra. Byggingin hefur því af mörgum verið kölluð óður til ástarinnar. Þegar karlinn dó svo mörgum árum síðar flutti hann aftur til uppáhaldskonunnar sinnar í þetta líka glæsilega hús.

Persónulega finnst mér staðurinn ofmetinn og skil ekki fólk sem ferðast yfir hálfan hnöttinn til þess eins að sjá þessa byggingu. Ég sé að sjálfsögðu ekki eftir heimsókninni en ef þetta hefði verið eina erindi mitt til Indlands þá hefði heimildarmynd verið skynsamlegri.

miðvikudagur, 18. apríl 2007

Í rútu til Agra

Við sögðum bless við risastórborgina Delhi í dag og héldum með rútu til Agra. Í upphafi ferðar virtist sem rútuferðin þægilega milli Kumily og Alappuzha myndi endurtaka sig þar sem við vorum fyrst upp í rútuna í þetta sinna eins og þá og tryggðum okkur framsætið aftur. Í stað myndar af Jesú með foreldrum sínum var mynd af Ganesh sæta með mömmu sinni og pabba, í sömu uppstillingu og á Kristsmyndinni. Fljótlega kom þó í ljós að við höfðum lent á ólíkt klikkaðri bílstjóra sem hafði að því er virtist yndi af því að bólsótast og blóta og keyra sem óður maður.

Eitt af því sem Delhi og svæðin þar í kring þurfa að kljást við er sandfok enda er Rajasthan algjört eyðimerkurríki og nóg er af sandinum þar fyrir vindguðinn að þyrla upp. Á vegum úti eru því margir útbúnir klútum og slæðum sem þeir hafa bundið fyrir vitin. Við lentum sem betur fer lítið í slíkum sandstormum á leiðinni en þó komu kaflar þar sem varla sást í næstu bíla fyrir sandfoki og þá hefði komið sér vel að vefja sig klæðum.

Þar sem ég get ómögulega lesið meðan ég ferðast um á vegum úti dundaði ég mér við að horfa út um gluggann á Indland þjóta hjá. Eitt af því sem ég veitti athygli þegar við keyrðum á milli Delhi og Agra var hve eyðimerkurlegra landslagið var því nær sem dró á Agra. Þá varð líka meira um skilti og skilaboð á hindi og konum með litríkar slæður um höfuð sér fór fjölgandi.

Ef mér fór að leiðast lífið fyrir utan rútuna gat ég alltaf fylgst með sætri fjölskyldu sem sat við hlið okkar með tvö gullfalleg börn og tvo karlmenn. Við Baldur höfðum gaman af því að velta fyrir okkur hvor þeirra væri eiginmaðurinn, báðir virtust nefnilega taka þátt í barnauppeldinu af sama kappi. Við bollalögðum fram og til baka en komumst að engri niðurstöðu. Í hvert sinn sem þær samræður runnu út í sandinn notaði ég tækifærið og sendi bílstjóranum ófáa góða strauma, ekki veitti honum af.

Dagur í Delhi

Fall er fararheill segir máltækið og á það sannarlega við um heimsókn okkar til Dehli, byrjaði harkalega en mildaðist þegar á leið. Eftir ljúfa flugferð með Air Sahara frá Kochi stigum við ansi nálægt uppglentum dýraboga lögðum af slyngum túristaféfletti.

Á lestarstöðinni kom hann aðvífandi og sagðist vera starfsmaður lestastöðvarinnar og ætlaði að vera okkur voðalega hjálplegur. Með miklum málalengingum um svindlara lagði hann til að við kæmum okkur á upplýsingamiðstöð fyrir erlenda ferðamenn og þegar við sýndum engin merki um hlýðni þóttist hann verða svakasár.

Ég treysti manninum að sjálfsögðu ekki brot úr mínútu þar sem ég fyllist alltaf grunsemdum þegar ókunnugur Indverji býður mér hjálp sína af fyrra bragði (sorglegt en satt), sérstaklega í borgunum. Grunsemdirnar reyndust á rökum reistar og eftir að hafa losað okkur við kauða og hátt á hundrað hans líka fundum við okkur ódýrt hótel í grennd við lestastöðina, komum okkur fyrir og plönuðum daginn.

Til þess að skoða þá staði sem okkur langaði að sjá leigðum við okkur einkabílstjóra með loftkældan bíl, þýðir ekkert annað í 43°C! Bílstjórinn var indæll ungur maður að nafni Dhivendra sem skutlaði okkur frá einum stað til annars og beið meðan við skoðuðum.

Á þessum eldheita Dehlidegi skoðuðum við Rauðavirki (Red Fort) með grænum grundum og fögru flúri, gengum um minnisvarða Gandhis þar sem ég komst í heldur betur í tæri við kóbraslöngu. Þvínæst lá leið okkar að India Gate, minnisvarða um fallna hermenn, þar sem við börðumst við sniffþyrst barn á sama tíma og við nutum þess að vera túristar, spásseruðum svo í rólegheitum um Lodi garðinn sem kom skemmtilega á óvart með trimmandi miðstéttarfólki á þartilgerðum trimmslóðum.

Túrinn endaði svo á heldur meiri hasarnótum í ólgandi hafi kvöldtraffíkur á Main Bazaar: fólk, beljur (ein reyndi meira að segja að stanga mig!), mótorhjól og léttivagnar bæði fótstignir og vélknúnir. Eftir ágætan kvöldverð á Hare Krishna veitingahúsi tókum við fótstiginn léttivagn heim úrvinda og ánægð með dagsverkið.

Eftir þessa skemmtilegu skoðunarferð stóð helst upp úr hvað Dehli hafði tekist að koma okkur rækilega á óvart með fegurð sinni og fjölmörgum grænum svæðum. Vissulega voru væntingarnar litlar og loftkældur bíllinn hjálpaði eitthvað, en samt... Ég er pottþéttur á að ég myndi ekki vilja dvelja lengi í þessari borg en hún var sannarlega heimsóknarinnar virði.

þriðjudagur, 17. apríl 2007

Kerala - allt annað Indland

Nú þegar við kveðjum Kerala er við hæfi að taka aðeins saman upplifun okkar af því fylki þar sem það var eins og allt annað land í samanburði við Tamil Nadu og Karnataka. Hvar sem við komum virtist andinn allur vera annar. Kenning okkar er sú að vegna betri menntunar, sem annaðhvort er tilkomin vegna kristni eða kommúnisma, sé fólk hér með aðrar áherslur en víðast hvar í Indlandi. Hér kjósa foreldrar t.d. að eignast fá börn og koma þeim vel til manns frekar en mikla ómegð.

Almennnt var viðmót fólks glaðlegra og meiri vandvirkni gætti í öllu eins og hinn vandvirki Fartesh á gistiheimilinu okkar er gott dæmi um. Dansandi þjónninn á Chrissy’s og félagar okkar á bátnum settu líka sinn svip á ferðina.

Í Kerala heyrir til undantekninga að sjá konu klædda í sarí og þær undantekningar eru yfirleitt konur frá öðrum fylkjum í ferðalagi. Hér klæðast konur einföldum kjólum sem þær steypa yfir höfuðið á sér, lítur út fyrir að vera þúsund sinnum þægilegra en sarí og örugglega þúsundsinnum fljótlegri leið til að klæða sig, að ekki sé talað um léttari þvott

Enn annað sem gerði Kerala öðruvísi en allt annað og það er kardimommulyktin og –bragðið sem má finna allvíða. Kemur svo sem ekki á óvart að hæðirnar utan við Kumily séu nefndar Kardimommuhæðir. Ef leið mín mun liggja til Indlands einhvern tímann í hinu dularfulla fyrirbæri framtíð er Kerala garanteruð stoppistöð.

-----UPPFÆRT-----
Í kerölsku dagblaði sem við lásum í flugvélinni á leið til Dehli sáum við fréttaskot um glæpagengi sem hefði náðst í Kerala. Gengu blaðamenn skrefi lengra en Akureyringar, sem alltaf segja utanbæjarmenn, og tók skýrt og greinilega fram að allir meðlimir gengisins væru frá Tamil Nadu. Íslendingar og Indverjar eiga greinilega ýmislegt sameiginlegt og er hrepparígurinn gott dæmi.

mánudagur, 16. apríl 2007

Pósthúsið og Jew Town

Við fórum á pósthúsið hér í Kochi í dag til að senda nokkra pinkla til Evrópu. Það er meira en að segja það að senda bögglapóst í Indlandi því hver böggull þarf að vera saumaður inn í hvítt lín.

Til þess að koma því í kring heimsóttum við fyrsta klæðskerann sem við fundum. Þau voru reyndar tvö sem stóðu undir skilgreiningunni klæðskeri, hann mældi út línið og hún saumaði það utan um pinklana. Á meðan á þessu stóð dunduðum við okkur við að fylgjast með þorpslífinu. Sérstaklega skemmtilegt fannst okkur að sjá þegar rækjusölukonan mætti á svæðið og kisa litla fór að hnusa út í loftið.

Þegar pinklarnir voru komnir í póst fórum við í labbitúr um Fort Cochin. Við skoðuðum Hollensku höllina og gengum um Gyðingabæ (Jew Town). Sínagógan var reyndar lokuð þegar okkur bar að garði en það gerði ekkert til því við hlið hennar var bókabúð sem lofaði góðu. Búðarferð sú endaði svo á því að við urðum að senda enn einn böggulinn af stað til Evrópu, að þessu sinni í sérstökum bókapósti.

Kerala samantekt

Dvöl okkar hér í Keralafylki lýkur senn þar sem við fljúgum til Delhi í fyrramálið. Það er því við hæfi að gefa stutt yfirlit af dvölinni.

Þegar við komum yfir landamærin frá Tamil Nadu til Kumily í Kerala fannst okkur sem við værum komin til annars lands og að hér byggi allt annað fólk. Það eru mýmörg dæmi um yndislegt fólk sem við höfum rekist á t.d. Fartesh hinn vandvirki ferðafrömuður, vinur okkar á Chrissy's veitingastaðnum sem var hvergi smeykur við að tjá lífsgleði sína og svo var það strákurinn á netkaffinu sem veitti okkur heilmikla og skemmtilega leiðsögn og fræðslu um Jesús og bauð okkur að auki búa frítt heima hjá sér í næstu heimsókn okkar.

Í Kerala tókum við líka eftir að ýmsum fleiru sem var öðruvísi en það sem við höfðum séð annarsstaðar í Indlandi. Það heyrir t.d. til undantekninga að sjá konu í sarí og ef þær eru í sarí þá eru þær líklega indverskir túristar. Hér klæðast konur einföldum kjólum sem þær steypa yfir höfuðið á sér og líta þeir út fyrir að vera miklum mun þægilegri en sarí og örugglega þúsund sinnum fljótlegri leið til að klæða sig í og úr.

Miðlæg hitaveita er í bænum, ég vissi ekki að Indverjar ættu þetta til. Fyrir vikið höfum við geta gengið í heita vatnið hvenær sem er dagsins, alltaf. Vá, þvílíkur lúxus!

Hér eru líka skemmtileg áhrif frá evrópsku hefðarfólki því enginn telst maður með mönnum nema hann sé með almennilega regnhlíf í hlutverki sólhlífar. Kaffiflóran hér um slóðir er líka fjölbreyttari og bragðbetri en á öðrum stöðum. Í Kumily við Kardimommuhæðir fengum við yndislegt kardimommukaffi, sérdeilis bragðgott. Í Kochi höfum við fengið æðislegt klakakaffi, kaffi latta og mjög gott pressukaffi í Bodum könnu. Kardimommulyktin er allsráðandi þegar maður gengur um enda er Kumily í Kardimommuhæðum svo þetta er einkar viðeigandi.

Í Kerala sáum við Kathakali dansinn, fórum í frumskógarsafarí, prófuðum g-strengsbleyjur og fengum nudd, skoðuðum kryddbýli og teverksmiðju, upplifðum rosalegan páskadag, sigldum um á húsbáti með tvo þjóna, kynntumst Þrumu og fjölmörgum systrum hennar, mættum í kaþólska messu og síðast en ekki síðst héngum við á yndislegu kaffihúsi. Takk fyrir okkur ljúfa Kerala!

sunnudagur, 15. apríl 2007

Sunnudagsmessan

Andrúmsloftið hér í Kochi, sem er mettað af kristni og kristnum, hefur augljóslega ratað ofan í lungu okkar og þaðan út til hjarta og heila. Og hvernig get ég verið svo viss um það? Sönnunin er augljós loks þegar maður rekur augun í hana og hún er þessi: í dag sóttum við kaþólska messu og laumuðum okkur ekki út eins og við gerðum í Róm sællra minninga, heldur sátum við andaktug allan tímann með eyrun sperrt.

Santa Cruz Basilica er mjög fallega innréttuð svo leiðast manni messur má alltaf virða fyrir sér altaristöfluna sem sýnir Krist með vængi eða höggva eftir V-inu á Síðustu kvöldmáltíðinni eftir da Vinci. Ég á samt erfitt að ímynda mér að einhverjum gæti leiðst í messu sem þessari þar sem poppuð lög með miklum country áhrifum eru spiluð á milli þess sem presturinn ávarpar söfnuðinn. Fyrst þegar tónlistin ómaði í hátölurunum hélt ég reyndar að einhver aumingjans sál hefði skellt vitlausum geisladisk í spilarann en þegar enginn gerði sig líklegan til að stöðva country poppið dró ég þá ályktun að svona væru messur kaþólikka í Kerala.

Að öllu gamni slepptu (sem er erfitt þegar maður minnist altarsdrengjanna að rogast með þungan stól fram og til baka í miðri messu) þá kom ýmislegt áhugavert fram í máli prestsins. Það sem helst sat eftir var tal hans um frið á jörð sem hann sagði aldrei mundu komast á nema hver og einn gerði sitt ýtrasta til að öðlast frið í eigin lífi. Þá minnti hann söfnuðinn á óendanlega miskunn Drottins og mikilvægi þess að dvelja ekki of lengi við syndir okkar og samviskubit heldur minnast frekar miskunnar Guðs og fyrirgefningar.

Að messu lokinni gengum við hnarreist út, stolt úr hófi fram af afrekinu. Nú er einu atriðinu færra á stefnuskrá okkar. Að mæta í kaþólska messu - tékk.

Stutt ökuferð

Fyrr í dag, áður en við fórum í messuna, fórum við í stutta ökuferð.

Svo var mál með vexti að við ætluðum að taka smá sunnudagsrúnt um Fort Cochin til að skoða hollenska kirkjugarðinn og St. Francis kirkju. Þegar rickshaw bílstjóri bauð okkur skoðunarferð um svæðið fyrir 20 rúpíur ákváðum við að kýla á það, einkum og sér í lagi vegna þess að hann minntist á fílaskoðun, paper factory og ginger factory.

Fyrst keyrði hann með okkur í hollenska kirkjugarðinn en á leiðinni þangað sáum við einnig Vasco da Gama húsið og St. Francis kirkjuna sem við skoðuðum á ferð úr vagninum. Kirkjugarðinn urðum við síðan að skoða í gegnum rimla því hliðinu er alltaf lokað á laugardagskvöldum. Þeir vilja enga drukkna Indverja þangað um helgar.

Því næst keyrði bílstjórinn okkur upp að safni sem okkur þótti lítt áhugavert. Mun meiri áhuga vöktu piparkornin sem uxu á trénu fyrir utan. Kom þá ekki í ljós að blessuð piparkornin voru það sem bílstjórinn átti við þegar hann sagði paper factory. Pipartréð varð í hans meðförum að pepper factory, sem er ekki alskostar ósatt (tréð framleiðir jú pipar), en engu að síður villandi upplýsingar.

Ökuferðin fékk snöggan endi þegar bílstjórinn keyrði okkur í tvígang að verslunum og bað okkur að kíkja inn. Þegar við þráuðumst við fór hann að væla í okkur um að hann fengi fimm til tíu rúpíur ef við kíktum þó ekki væri nema í eina mínútu og að þá fengju börnin hans magafyllingu. Við vorum hins vegar komin með okkar fyllingu að kauða og gengum á braut.

Merkilegt nokk er þetta í fyrsta sinn sem við lendum í svona löguðu í Indlandi. Það má þó þakka fyrir það.

föstudagur, 13. apríl 2007

Lukkudagur

Eins hamingjusöm og við höfum verið í litla bænum Kochi ákváðum við í dag að hætta okkur út til stórbæjarins Ernakulam sem er á meginlandinu. Þar sem föstudagurinn þrettándi stóð yfir fannst mér ekki annað hægt en að gera eitthvað aðeins kræfara en sitja á kaffihúsinu og sötra límónaði með ayurvedísku sírópi. Í mínum huga er föstudagurinn þrettándi nefnilega tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt, hálfgerður lukkudagur ef svo má segja.

Svo við ákváðum að kíka í borgarferð. Til að komast til Ernakulam þurftum við að ganga að ferjuhöfninni hér í Fort Cochin og á leiðinni þangað sáum við hin frægu kínversku fiskinet sem fiskimenn hér á bæ nota. Netin eru öðruvísi en allt sem ég hef séð í þessum bransa en skemmtileg eru þau. Ég hætti mér ekki útí að lýsa þeim en bendi ykkur þess í stað að kíkja á myndirnar sem við tókum. Það er gaman að geta þess að þessi blessuðu net eru helsta myndefni ferðamanna í Kochi og oft helsta ástæðan fyrir komunni hingað.

Í Ernakulam höfðum við hugsað okkur að gera allt sem tilheyrir borgarferð: kíkja í bíó, kaupa geisla- og mynddiska, skoða í bókabúðir, borða á veitingastöðum og bæta á okkur í íshöllum bæjarins. Við reyndum fyrst við bíóhúsið en urðum fyrir sárum vonbrigðum þegar við sáum að aðeins var verið að sýna Mel Gibson myndina Apocalypto. Hana sáum við nefnilega hjá Geira í Chennai svo við urðum að afskrifa bíóferðina.

Næst á dagskrá var að þefa uppi bókabúð sem við og gerðum. Í þeim mikla hita og raka sem hér er landlægur entumst við frekar stutt og flúðum fljótlega yfir í Music World sem státaði af loftkælingu. Frá Music World fórum við yfir í tónlistarverslunina Planet M sem státaði yfir enn betri loftkælingu. Þar keyptum við safnplötu á malayalam, en á henni syngur m.a. söngvari sem minnir okkur svo á Pál Óskar. Við keyptum líka Noru Jones diskinn Not too late, diskinn An Other Cup frá Yusuf Islam, betur þekktur sem Cat Stevens, og síðast en ekki síst diskinn Chillout heaven frá Friðriki Karlssyni :o)

Bæjarferðina enduðum við síðan á Subway þar sem við fengum okkur veggie delight með helling af sætu, amerísku sinnepi. Sem sagt vel heppnuð bæjarferð í alla staði. Þrátt fyrir alla indversku umferðina, með sínum indversku autobílstjórum og vespum, sluppum við ómeidd og sannar það eitt og sér að föstudagurinn þrettándi er hinn mesti lukkudagur.

fimmtudagur, 12. apríl 2007

Kaffihús og tilvitnanir

Nú erum við búin að vera þrjá sæla daga í Kochi. Þessi litli bær er eins og himnasending fyrir okkur Íslendingana sem fíla helst litla bæi og rólega. Hér er áreitið með minnsta móti, fólk er brosmilt og hláturmilt og ef maður afþakkar einhverja þjónustu er sú afstaða manns yfirleitt virt og ekki reynt að þrýsta á mann meira.

Eitt af því sem gerir Kochi svona heillandi er að bærinn er á lítilli eyju sem er aðskilin meginlandinu. Til að komast á milli þarf að taka ferju sem notalegt er að sigla með. Annað sem hefur náð að heilla okkur er kaffihúsið Kashi Art Café sem hefur yfir að skipa litlu, sætu myndagallerí, góðum súpum og salötum, notalegri 6. og 7. áratugs tónlist og súperkökum.

Nú þegar erum við búin að eyða ófáum klukkutímunum inn á kaffihúsinu, að hluta til til að sleppa undan hitanum (sem er okkur lifandi að drepa), og að hluta til því það er svo yndislegt að sitja og spjalla við Singer saumavél!

Á leiðinni heim frá kaffihúsinu göngum við síðan fram hjá vegg sem þakinn er góðum tilvitnunum í hin ýmsu rit og merku menn. Gott dæmi er tilvitnunin í Gandhi sem er á þessa leið: There is no school equal to a decent home and no teachers equal to honest virtuous parents. Svo er líka hollt að hafa í huga þessa tilvitnun í St. Bakhita: What is really beautiful is what is pleasing to the Lord, not what appears more beautiful.

Hverjum finnst síðan ekki hughreystandi að vera minntur á þennan sannleika: Do what you can, do not be distressed about what you can not do. Amen segi ég nú bara.

miðvikudagur, 11. apríl 2007

Í Kochi

Tókum hádegisrútu frá Alappuzha í gær til bæjar að nafni Kochi. Bærinn var stofnaður árið 1341 í kjölfar flóðs sem myndaði afar heppilegt hafnarstæði og óx hann hratt. Hingað komu innflytjendur frá Mið-Austurlöndum, kristnir, múslímar og gyðingar, varð úr því menningarpottur mikill með góðum viðskiptamöguleikum til út- og innflutnings.

Evrópubúar í nýlendusnuðri voru snöggir að átta sig á þessu og hófust afskiptin snemma á 16. öld, fyrst Portúgalir, svo Hollendingar og að lokum Bretar. Evrópskra áhrifa gætir á svæðinu þó nýlenduherrarnir séu auðvitað löngu dauðir eins og hollenski kirkjugarðurinn ber með sér.

Bænum er skipt niður í nokkrar einingar: Ernakulam, Mattancherry, Fort Cochin, Jew Town og Willingdon Island. Ernakulam er stærst og er henni lýst sem aðalborg Keralafylkis. Fort Cochin, Mattancherry og Jew Town eru hins vegar mun æskilegri fyrir ferðfólk sem þegar hefur fengið sinn skerf af indverskum stórborgum.

Ferðin hingað var ekki alveg jafnljúf og bátsferðin um stöðuvötnin þar sem við þurftum að standa upp á endann alla leiðina, í hita, raka, sikksakki og mannþröng. Allt blessaðist nú samt og komumst við heilu og höldnu á rútustöðina í Ernakulam og fórum með fyrstu ferju þaðan til Fort Cochin. Fengum inni á ódýrri heimagistingu með útsýni yfir fallegt svæði og rétt við hina gullfallegu Santa Cruz kirkju.

Fyrsta kvöldið okkar í Kochi fórum við út að borða á útiveitingastað. Þegar við vorum nýsest komumst við að því að við höfðum verið elt alla leið frá Alappuzha, Þruma var mætt á svæðið. Fyrst blikkaði himininn lítillega og nokkrir sakleysislegir dropar úðuðu sér á okkur. Þjónninn kom til allrar hamingju með risastóra sólhlíf sem bjargaði okkur og kvöldmatnum frá því úrhelli sem fylgdi í kjölfar úðans ásamt fjölda eldinga og þruma.

Ekki var hlutverki regn/sólhlífarinnar lokið eftir matinn því þjónninn góði bað okkur að taka hana með heim svo við yrðum ekki hundvot. Þetta snjallræði gerði kvöldið ógleymanlegt því hvar sem við fórum rak fólk upp stór augu og ýmist brosti eða skellihló. Sú manneskja sem hló mest af þessu uppátæki var þó Ásdís sem varla gat gengið fyrir hláturrokum. Yndislegt þrumuveður!

þriðjudagur, 10. apríl 2007

Í útilegu á húsbáti

Í Kerala fylki eru stór stöðuvötn sem í Indlandsferðabókinni ganga undir samheitinu the backwaters. Um þessi vötn er mjög vinsælt að sigla á ýmsum fararskjóta. Vinsælast meðal ferðalanga er án efa að leigja sér húsbát - svokallaðan kettu vallam - í sólarhring sem siglir með mann um vötnin og það eina sem maður þarf að gera er að slaka á og láta þjóna sér.

Í bænum Alappuzha er mikið framboð af slíkum húsbátum og það var einmitt ástæðan fyrir komu okkar þangað. Við komum hingað á páskadag og eyddum seinniparti hans í að finna húsbát á viðráðanlegu verði. Þegar það hafði tekist var samþykkt að leggja af stað í hádeginu daginn eftir og við gistum því eina nótt í bænum. Það voru mæðginin Benoy og Saudamini sem skutu skjólshúsi yfir okkur í þetta sinn. Bæði eru þau yndisleg út í gegn, hann lögreglumaður og sagnfræðingur og hún heimavinnandi húsmóðir sem sér um stöku ferðalang sem rekur á fjöru hennar.

Við vorum svo heppin að vera slíkir ferðalangar og fengum að launum besta matinn í Indlandi fram til þessa: sérkeralskan morgunverð sem samanstóð af hrísgrjónapönnukökum, eggjakarrý, tómatakarrý, chapatti brauði, ferskum mangó og chai-tei. Ekki skemmdu samtölin við þau mæðgin fyrir, þannig fengum við m.a. að sjá Biblíu á malayalam, tungumáli heimamanna, og komumst að því að nafn móðurinnar, Saudamini, þýðir þruma.

Kettu vallam Siglt með græna sólhlíf

Eftir morgunmat héldum við út í húsbátinn en þó ekki fyrr en við vorum búin að tryggja okkur birgðir af blekpennum og karamellum. Á bátnum tóku þeir P. T. Raju og Devadas á móti okkur með breiðu brosi og suðrænum ávöxtum. Með góðri hjálp tókst að ýta bátnum út úr höfninni og við tók rólegt dól um vötnin þar sem dagskráin samanstóð af því að virða mannlífið við vatnsbakkann fyrir sér, þiggja veitingar og henda pennum og karmellum til barna á vatnsbakkanum sem kölluðu One pen, one pen! Náttúrufegurðin var mikil og fólst helst í grænum pálmatrjám við vatnsbakkann og græna afríkumosanum sem flýtur um öll vötnin.

Við sólsetur bundu þeir P. T. Raju og Devadas landfestar og Devadas fór með okkur í smá rölt um litla þorpið við vatnsbakkann. Þar á hann lítið hús og heilsuðum við upp á konu hans og dótturdóttur. Þau gáfu okkur kaffibolla, við gáfum þeim penna og karamellur, þar með vorum við kvitt.

Um kvöldið gerði mikið þrumuveður, svo mikið reyndar að ég hætti að hafa tölu á þeim eldingum sem ég sá slá niður. Það var ótvíræður hápunktur ferðarinnar að sitja út á þilfari báts sem liggur við landfestar og horfa á eldingarnar þjóta um himinhvolfið og sjá himininn lýsast upp svo ofsalega að á köflum varð hann sem um hábjartan dag. Þrumurnar ljáðu kvöldinu síðan aukinn töfrablæ og mér varð oft hugsað til þrumunnar sem við höfðum kvatt þá um morguninn eftir morgunverðinn dásamlega. Stóð hún kannski á bak við þessa einstöku reynslu?

Blómarós Fjölskyldumynd

Við borðuðum kvöldmat út á þilfari í þægilegum baststólum og lásum okkur til heilsubótar. Titill bókarinnar sem ég vera að lesa endurspeglaði vel upplifunina það kvöldið, Blue Shoes and Happiness. Í mínu tilfelli voru það reyndar grænir sokkar og hamingja en það sleppur alveg.

Morguninn eftir vorum við mætt rétt upp úr sex út á þilfar til að fylgjast með sólinni hífa sig upp yfir pálmatrén og feta sig hægt og sígandi upp himinstigann. Eftir morgunmat dólaði báturinn eftir vatninu og við fylgdumst með fólki við morgunstörfin sem flest ef ekki öll fara fram við vatnsbakkann: baða sig í vatninu, bursta tennurnar, sækja vatn og þvo þvott.

Við vorum komin í land rétt fyrir ellefu og kvöddum þá félaga P.T. Raju og Devadas með þökk fyrir frábæra þjónustu. Enskukunnátta þeirra hafði ekki komið að miklum notum í ferðinni en manngæska þeirra skein í gegn og gerði ferðina ógleymanlega.

Myndir af vatnaútilegunni eru komnar á netið, sjá hér.

sunnudagur, 8. apríl 2007

Ekta páskadagur

Stundum er lífið eins og góð skáldsaga. Dagurinn í dag var svolítið mikið þannig og mun um aldur og ævi vera minnst sem hins ekta páskadags.

Fyrst smá undanfari: Þar sem Kerala er kristnasta fylki Indlands féll páskadagur ekki í gleymsku eins og kannski hefði getað gerst hefði maður verið staddur annarsstaðar á landinu. Guð sá nefnilega til þess að við gleymdum ekki hvaða dagur væri, það er alveg víst.

Þennan páskadag kvöddum við sæta bæinn Kumily til að halda í átt til strandar. Þegar við stigum út af hótelinu um morguninn, klifjuð í bak og fyrir, stönsuðum við í sporunum og misstum andlitið. Úti var létt rigning, fyrsta rigningin okkar í Indlandi. Fyrst fór allt í uppnám og okkur leist ekki vel á að bíða eftir rútunni úti í rigningu sem vel gæti breyst í hellidembu, þetta er nú einu sinni land öfganna.

Þegar við hugleiddum hins vegar aðstæður sáum við að í raun væri rigningin blessun þar sem hún bæri með sér svala og klifjaða bakpokaferðalanga þyrstir alltaf í svalann. Við ákváðum því að drífa okkur af stað og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að fá smá aukakælingu. Það reyndist síðan vera alveg dásamlegt að fá úðann og veðurguðirnir fengu plús í kladdann fyrir útspilið.

Á rútustöðinni fórum við að næsta ávaxtasala til að birgja okkur upp af appelsínum fyrir ferðina. Þar gaf maður sig á tal við okkur sem reyndist vera bílstjóri hraðvagnsins til Kottayam, en þangað var ferð okkar einmitt heitið. Þar sem við vorum snemma í því vorum við fyrsta fólkið inn í vagninn og gátum þar með valið bestu sætin fremst. Og við þurftum ekki að sitja út í rigningunni. Talandi um þægindi.

Úr sætum okkar horfðum við síðan beint upp á upplýsta Krists- og Maríumynd og um stýrið hafði bílstjórinn vafið talnabandi. Til að tryggja að við fengjum skilaboðin hafði Guð komið því þannig fyrir að þegar við fengum afganginn eftir miðakaupinn stóð á einum 10 rúpíu seðlinum Praise the Lord.

Á sjálfri ferðinni gerðist fátt markvert annað en það að við deildum jarðhnetum með sessunautum okkar, sætri fjölskyldu með tvo æðislega stráka, sem deildu þá með okkur ristuðum kjúklingabaunum, og svo skemmtum við okkur við að skrifa niður skilaboð til ökumanna á umferðaskiltum.

Þegar við loks komum á áfangastað fór bílstjórinn að eigin frumkvæði að leita að strætó sem kæmi okkur niður að ferjunni. Við þurftum því ekkert að hafa fyrir lífinu heldur vippuðum okkur úr rútu yfir í vagn og þaðan niður í ferju sem flutti okkur yfir the backwaters. Svona óumbeðna hjálp fáum við ekki oft tækifæri til að þiggja í Indlandi, en okkur þótti hún einhvern veginn sjálfsögð á þessum degi.

Frá ferjunni þurftum við að taka enn einn vagninn til að komast á lokaáfangastaðinn Alappuzha. Eitthvað vafðist það fyrir okkur að finna blessaðan vagninn og því áræddum við að spyrja næsta bílstjóra. Hann gat hins vegar lítið tjáð sig á ensku og við stóðum því svolítið ráðalaus og vissum ekki í hvorn fótinn átti að stíga. Þá hallaði einn ferþeganna sér út og spurði hvort við þurfum aðstoð. Nema hvað umræddur farþegi var nunna í fullum skrúða. Mér liggur við að segja að auðvitað var þetta nunna þar sem dagurinn var búinn að taka á sig þennan merka kristna blæ.

Nunnan reyndist tala góða ensku og var áhugasöm um okkur og hjálpleg þar að auki. Við fylgdum hennar leiðbeiningum og gengum út að næsta horni þar sem stoppistöðin var. Á sama tíma og okkur bar að renndi strætisvagninn upp að og við beint upp í, fullkomin tímasetning. Mér liggur við að segja að það hafi ekki komið á óvart, vegir Guðs voru orðnir ansi rannsakanlegir þennan páskadag hvað okkur viðkom.

laugardagur, 7. apríl 2007

Kryddbýli og teverksmiðja

Í morgun heimsóttum við kryddbýlið Abraham’s Spice Garden hér rétt fyrir utan Kumily, flóran var reyndar svo fjölbreytt að frekar ætti að tala um grasagarð. Það sem ég man eftir að hafa séð var all spice, negull, kanill, kardimommur, piparkorn (rauð og græn), aloe vera (innan og utan), rósaepli, kaffibaunir (arabica og robust), rauða banana, engifer, vanillu, ananasplöntur (hver planta framleiðir einn ávöxt og deyr svo), langa papaya ávexti, múskat, lárviðarlauf, lady's shoe skrúðblóm, ýmsar ayurvedískar plöntur og býflugnabú sem framleiðir dýrt hunang fyrir ayurvedísk meðul.

Þvínæst var ferðinni heitið á teslóðir, bæði akra og verksmiðjuna Connemara Tea Factory. Fengum við að sjá hvernig svart te er búið til í Indlandi, alveg frá laufi til poka. Fyrsti hlekkurinn í keðjunni er að sjálfsögðu terunninn (líftími 80 ár!) og af honum tína verkakonur laufin. Konurnar fá 80 rúpíur á dag og miðast það við 17 kílóa tínslu en 5 rúpíur fyrir hvert kíló umfram það. Að sögn leiðsögumannsins vinna karlarnir erfiðari vinnu og fá u.þ.b. 100 rúpíur á dag.

Þvínæst eru laufin flutt inn í verksmiðjuna og vatn látið gufa hægt í gegnum þau. Svo eru þau kramin saman í nokkuð sem helst líkist mykju og sett í einhverja skilvindu sem klárar gerjunarferlið og hluta af þurrkuninni á nokkrum klukkustundum. Hálfþurru teduftinu er síðan sáldrað á færiband sem liggur í gegnum risastóran ofn (ógeðslega heitt í kringum hann) og þaðan fer það svo í sekki. Allt þetta til að fólk fái tebollann sinn :o)

Myndir hér!

föstudagur, 6. apríl 2007

Ayurvedískt nudd

Ekki voru sjálfspyntingar ofarlega á gátlista dagsins þrátt fyrir að Föstudagurinn langi stæði yfir. Í stað þeirra fórum við í 90 mínútna ayurvedískt heilnudd.

Við vorum leidd hvort í sitt herbergið og þegar þangað var komið var ég beðinn að fara úr hverri spjör. Til að gæta velsæmis batt nuddarinn utan um mig lendaskýlu, tók hana svo upp á milli fótanna á mér og girti í mittisstrenginn. Ég stóð því út á gólfi í einhverri blöndu af bómullarbleyju og g-streng. Hvað varð eiginlega um meint velsæmi?

Eftir þessa ágætu seremóníu settist ég á lágan koll og fékk hausnudd, var svo lagður á bekk og nuddaður út um allt: Andliti, búk og fótleggjum framan og aftan, lófum og fótum með smá rassskellingu í kaupbæti. Allt var þetta gert með svakalegu olíumagni sem fékk síðan nýtt hlutverk þegar ég var settur í gufubað og látinn svitna í gegnum olíuna. Það var æðislegt að komast í gufuna og finna hvernig olían og gufan unnu saman að aukinni slökun. Svo þerraði nuddarinn af mér svitann og olíuna, tók mig úr bleyjunni og sendi mig brosandi út.

Ég hef farið til margra nuddara um dagana en aldrei hef ég áður prófað þessa tegund nudds. Mér fannst þetta allt saman bráðskemmtilegt og naut þess mjög að fá nudd en ég verð samt að segja að ég er mun hrifnari af því sem samlandar mínir kalla slökunarnudd eða hinu víðfræga sænska íþróttanuddi.

fimmtudagur, 5. apríl 2007

Frumskógarsafarí

Við vöknuðum í gærmorgun kl. 4:30 til að fara í svokallað Jungle Safari um Periyar Wildlife Sanctuary. Þjóðgarðurinn er 777 km² og er einn stærsti sinnar tegundar í Indlandi. Flestir sem heimsækja garðinn vonast eftir því að sjá glitta í tígrisdýr og hlébarða en síðast sást í tígrisdýr árið 2005, þau eru klók að halda sig frá alfaraleið túristanna.

Leiðsögumaðurinn kom að sækja okkur kl. 5:15 á ekta safaríjeppa og þrír Bandaríkjamenn bættust stuttu síðar í hópinn. Við þutum eftir holóttum veginum í gegnum lítil, sofandi þorp. Þegar við vorum komin inn fyrir hlið þjóðgarðsins tók leitin eftir villtum dýrum við. Mesta sportið var að standa uppi í bílnum því þakið var af. Þar sem þjóðgarðurinn er að hluta til í Western Ghats, nánar tiltekið í Kardimommuhlíðum, er mikið um skógivaxnar hlíðar og gróðursæla dali og náttúrufegurðin því mikil. Að fá að keyra um þjóðgarðinn við sólarupprás og sjá allt vakna til lífsins eru hrein forréttindi, hrein dásemd.

Af þeim skepnum garðsins sem við sáum ber helst að nefna risaíkorna með rauðan feld (sem eru merkilegt nokk jafnfimir í að stökkva milli greina og þeir litlu), vísundafjölskyldu og mjög svo forvitna kálfa þeirra, svartapa og ljónapa með gula hair-do og flugmaurabú hátt upp í laufkrónunum.

Áhugaverðast fannst okkur að finna risastóran fílaskít á götunni. Við eltum slóðina á jeppanum og leitin bar árangur. Fyrir neðan veginn í skógarþykkninu heyrðum við skrjáfið í einsömlum fíl, hann var í miðjum morgunmatnum. Við stukkum úr jeppanum og tókum að ryðja okkur leið gegnum kjarrið niður í mót, eins hratt og hljótt og mögulegt var. Þar fundum við fíl í felum innan um laufgaðar greinar og sáum ranann gráa þreifa fyrir sér eftir morgunmatnum. Fílar borða 250 kg af laufi á dag og drekka 250 lítra af vatni á dag. Þessi tiltekni var voðalega sætur svona nývaknaður.

Eftir morgunmat, sem samanstóð af iddly dosa, spældu eggi, ananasskífum og chai, fórum við í tveggja tíma trekk með leiðsögmanninum Balla. Hann sýndi okkur moldug tré sem fílar nudda sér upp við, tréð sem kanill er unninn úr og eitraðan og oddhvassan ávöxt sem svartapar borða og nota síðan sem hárgreiðu. Hann brenndi fyrir okkur trjábörk sem notaður er í reykelsisgerð og gaf okkur að smakka af sérkennilegum berjum sem líta út eins og bláber, eru þó ekkert nema steinninn og það litla ávaxtakjöt sem er bragðast eins og tamarínd.

Eftir suður-indverskan hádegismat fórum við í bátsferð um Periyar vatnið í árabát. Balla sá alfarið um árarnar svo það eina sem maður þurfti að gera var að horfa í kringum sig og reyna að höggva eftir öpum. Við sáum ekki marga slíka en við sáum lítinn, skærbláan kingfisher sem þaut eftir vatninu. Baldur lærði líka að flauta með laufi, okkur hinum til ómældrar ánægju.

Í jeppanum á leiðinni til baka fengum við að sjá þjóðgarðinn við sólsetur og ekki er hann síðri þá. Heim í hús vorum við komin upp úr hálfsjö og eftir verðskuldaða sturtu fórum við út að borða með hinum ferðalöngunum úr frumskógarferðinni.

Að vanda eru myndir að finna á netinu, athugið Kodai Kanal & Kerala albúmið ykkur til gamans.

miðvikudagur, 4. apríl 2007

Kathakali dansinn

Fórum að sjá stytta útgáfu af hinum sérkeralska Kathakali dansi. Dansinn á sér rætur til miðrar sautjándu aldar og fara þessar sýningar venjulega fram í hofum og byrja þá um níuleytið á kvöldin og standa fram á morgun. Til allrar hamingju var sýningin okkar ekki nema 90 mínútur, alveg mátuleg.

Dansinn gengur út á að miðla sögum guðanna og eru dansarar aðeins karlar. Sýningin byrjar á því að maður fylgist með dönsurunum mála sig og klæða sig í búninga. Mikið er lagt upp úr að gera dansarana sem guðlegasta í útliti og því er lögð áhersla á að stækka allt við þá. Það er gert með svakalegu magni af farða, skrautlegum og flóknum búningum og meira að segja svörtum pipar til að gera augun rauð.

Þvínæst eru grundvallaratriði dansins útskýrð fyrir áhorfendum og sýndar allsvakalegar augn- og andlitsvöðvaæfingar sem dansararnir þurfa að vera hæfir um að framkvæma. Ég hafði mest gaman af þeim hluta sýningarinnar. Geiflurnar sem þessir gaurar eru færir um að gera eru rosalegar. Þeir geta fært alla athyglina í staka vöðva andlitsins og stjórnað því á magnaðan hátt, sjón er sögu ríkari.

Dansararnir tala ekkert og því eru tónlist, dans, svipbrigði og fingramál notuð til tjáningar. Fingramálið er afar flókið og átti ég ekki séns í að fatta hvað væri á seyði meðan dansinn dunaði, til allrar hamingju fengum við ljósrit af sögunni til að átta okkur á þræðinum. Ég er feginn að hafa séð þennan fræga dans en undirstrika þó að ég gæti ekki hugsað mér að fara á tólf tíma alvörusjóv.

Myndir er að finna í Kodai-Kanal og Keralamyndaalbúminu.

þriðjudagur, 3. apríl 2007

Kumily í Kerala

Þá erum við komin til Kumily í Kerala fylki, þar sem vötn og grænka og notalegheit eru orð dagsins. Kerala liggur upp við Arabíuhaf og hefur því líka yfir langri strandleggju að ráða. Innan um gróðursælt landslagið má síðan sjá kirkjur kaþólikka sem eru fleiri hér en annarsstaðar í Indlandi. Slagorð Keralabúa er enda: Kerala – God’s own country.

Í Kerala eru meðallaunin lægri en annarsstaðar í Indlandi en mun færri eru þó við fátæktarmörk þar sem jöfnuðurinn er meiri hér en annarsstaðar. Hér er til að mynda nær 100% læsi og Keralabúar stæra sig af mennta- og heilbrigðiskerfi sínu. Þá er fylkið þekkt fyrir róttækan hugsunarhátt. Kerala var til að mynda fyrsta ríkið í Indlandi til að kjósa kommúníska stjórn árið 1957 og árið 2003 voru reykingar á opinberum stöðum bannaðar. Go Kerala!

Við komum hingað með leigubíl frá Kodai Kanal. Leigubíllinn var gamall en hvítur, snyrtilegur Ambassador með slitnum sætum sem óþægilegt var að sitja í. Þegar við komum að fylkismörkum Tamil Nadu og Kerala neitaði bílstjórinn að fara lengra og fullyrti að það yrði bölvað vesen fyrir sig þar sem Kerala væri annað land en Tamil Nadu. Kumily er sem betur fer á mörkunum svo við gátum gengið yfir í bæinn.

Við vorum varla búin að stíga framhjá lágreistri landamærastönginni og inn í Kerala þegar ungur maður, Fartesh, kom upp að okkur og bauð okkur gistingu í heimahúsi sínu Mundakal Cottage. Við kíktum á aðstæður og urðum mjög hrifin. Við fáum herbergi með sérinngangi, sérbaðherbergi með nóg af heitu vatni, sjónvarpi og svölum, kaffi og te, allt fyrir 200 rúpíur nóttin. Í þokkabót er allt tandurhreint og snyrtilegt og okkur líður mun betur hér en á hótelherberginu í Kodai sem var dimmt og loftlaust.

Nú erum við að plana næstu daga í Kumily en hingað kemur fólk til að heimsækja Periyar Wildlife Sanctuary sem hefur yfir að skarta fílum og tígrisdýrum, dádýrum, vísundum og öpum í þúsundatali.

mánudagur, 2. apríl 2007

Súkkulaði, trekk og svala loftið

Fyrsta daginn okkar í Kodai stóð yfir bandh og allt því lokað. Við erum að verða ansi vön þessu bandh fyrirbæri og í stað þess að sitja inni á hótelherbergi og láta okkur leiðast, notuðum við tækifærið og gengum hringinn í kringum vatnið í hjarta Kodai. Þetta eru einhverjir sex kílómetrar og á leiðinni sáum við marga sem voru að veiða á stöng og mörg húsanna voru mjög falleg, steinhlaðin eins og í Evrópu með fallegum görðum og leirplötuþaki.

Evrópsku áhrifin skrifast á Breta sem voru fyrstir til að koma hingað og byggja sér bústað fjarri hitanum og rakanum. Það skrifast kannski líka á þessi evrópsku áhrif að annar hver sölubás selur hjemmelavet súkkulaði sem við pössuðum okkur á að prufa vel og vandlega.

Súkkulaðibás, einn af mörgum

Þar sem Kodai er svalur staður með meiru er hann vinsæll meðal útivistafólks. Á sunnudaginn fórum við í átta tíma trekk um skógivaxnar hæðirnar kringum Kodai Kanal. Leiðsögumaðurinn okkar, Murugan, leiddi okkur út úr bænum og áður en við vissum af vorum við komin út í þverhníptar, grænar hlíðar með útsýni yfir hæðir og hóla. Þar sem það var skýjað horfðum við úr hlíðunum beint ofan á hvít og dúnamjúk skýin, geggjað.

Í hæðunum

Murugan sýndi okkur eucalyptus lauf og reif heilan runna fyrir okkur sem við stungum í bakpokann. Fyrirmælin voru að setja laufin í heitt fötubað og baða sig upp úr því fyrir “fresh body”. Hann sýndi okkur líka lemongrass og gaf okkur að hnusa, það var eins og að halda á skál af skornum sítrónum. Í hvert sinn sem hann tók að hrópa come back og come fast vissum við að í nágrenninu væri villivísundur og tókum því til fótanna niður hlíðina.

Við gengum um skóga sem notaðir eru í eldspítur og þar fann Murugan brodd af broddgelti sem ég stakk í hárið. Við heimsóttum Rainbow Falls og Tiger Caves, Dolphin Nose og Echo Rock og síðasta stopp var við útsýnisstaðinn Green View Valley sem gengur undir nafninu Suicide Point meðal heimamanna. Um kvöldið fórum við síðan í eucalyptus bað að góðra manna ráðum og fengum frískan líkama.

Í dag tókum við því rólega eftir göngu gærdagsins enda harðsperrur farnar að segja til sín. Við gerðum reyndar ashtanga yoga inn á herbergi til að vera yfirhöfuð fær um að ganga eitthvað í dag. Þegar við fórum loks út keyptum við smá súkkulaði eftir vigt, kíktum í Eco Nuts þar sem við fylltum poka af möndlum og hnetum, skoðuðum í leikfangaverslun sem selur varning frá heimamönnum og slökuðum á í German bakery þar sem allir Ísraelarnir safnast saman, eins kaldhæðið og það er. Þar sem við getum ekki tekið fersk eucalyptus lauf með okkur í ferðina keyptum við einn minjagrip frá Kodai: eucalyptus olíu.

Í hæðunum

Fleiri myndir eru komnar á netið í Kodai Kanal albúminu!

sunnudagur, 1. apríl 2007

Rauðhausar!

Sjáið hvað við erum sæt, alveg í stíl!

Við settum henna í hárið og núna eru okkur allir vegir færir.

Einkaþjálfarinn ég

Eins og mátti sjá á myndaalbúminu sendi ég lokaverkefnið í einkaþjálfun til Kaliforníu nú á dögunum. Það eina sem ég vissi þegar ég sendi það af stað var að ég hafði gert mitt allra besta.

Kaliforníubúum líkaði það vel og er ég því orðinn fullgildur einkaþjálfari, jibbí! Hver man ekki eftir leikskólalaginu: Ég ætla að þjálfa allan heiminn elsku mamma...