Það mætti halda að við værum farin að skrifa fyrir eitthvað klámblað ef litið er til færsluheitanna en ég sver að við yfirgáfum Bleiku borgina í gær og komum til Bláu borgarinnar í morgun.
Bláa borgin heitir öðru nafni Jodhpur og liggur vestan við Jaipur. Hingað komum við með næturlestinni í morgun og vorum við frekar vansvefta við komuna. Bæði var lestin of sein, kom ekki fyrr en eitt eftir miðnætti, og við lentum í klefa með hrjótandi Indverja. Fyrra vandamálið, biðina eftir lestinni, leystum við með því að spjalla við skemmtilegt par frá Kína en þau bera hin mjög svo ókínversku nöfn Katherine og Vince. Seinna vandamálið, svefnleysið, leystum við með því að leggja okkur í tvo tíma þegar við komum upp á hótelherbergi.
Jodhpur hefur ekki mikið upp á að bjóða fyrir ferðamenn og flestir koma hingað aðeins í millistoppi á leið sinni til eða frá Jaisalmer. Við höfðum upphaflega hugsað okkur að stoppa örstutt við og taka næturlestina um kvöldið til Jaisalmer en reynslan kvöldið áður kom í veg fyrir allt slíkt ráðabrugg. Svefninn er svo snar þáttur í góðri heilsu að við vorum ekki tilbúin að láta reyna á aðra nótt í lestinni.
Það sem við gerðum okkur til dundurs þennan dag í Bláu borginni var að skoða virkið flotta Meherangarh Fort sem trónir efst á hæðinni ofan við Jodphur. Við röltum frá hótelinu upp að virkinu í 42°C hita (talandi um hetjur) og þegar þangað var komið höfðum við frábært útsýni yfir Bláu borgina og sáu hvers vegna hún ber þetta gælunafn. Húsin litlu sem kúra upp við hæðina eru langflest indígó blá sem áður fyrr gaf til kynna að húseigandi væri Brahmini (af hæsta kasti) en er nú til dags aðeins til praktískra nota.
Virkið góða er eitt best varðveitta virkið á Indlandi. Það byggðu svokallaðir Rajputs sem réðu lögum og lýðum á þessu svæði. Nú hýsir það vandað og greinagott safn sem gefur bæði innsýn og yfirlit yfir sögu svæðisins. Af því sem er til sýnis í virkinu eru vopn og brynjur, palanquins og ópíumpípur, barnavöggur, teikningar og styttur af bleikklæddu gyðjunni Gangaur.
Sérstaklega áhugavert fannst mér að sjá handaförin á veggnum við inngang virkisins. Þessi handaför eru af ekkjum maharajans Man Singh en Rajput hefðir kveða á um að ekkjur kasti sér á bál eiginmanns síns við útför hans. Þessi siður kallast sati og var bannaður af Bretum árið 1829. Þegar Man Singh lést árið 1843 sniðgengu ekkjurnar lög Bretanna, skildu eftir handfar sitt á veggnum góða og köstuðu sér því næst í eldhafið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli