föstudagur, 27. desember 2013

Daimísterta

Daimís með marengs

Hér er jóladesertinn í ár! Rosalega góður og rosalega auðveldur, ef litið er til þess að maður er að búa til ístertu!

Ég biðst afsökunar á lélegri mynd. Ég gleymdi alveg að taka mynd af tertunni á aðfangadag og þessa mynd að ofan náði ég að taka í miklum flýti rétt áður en tertan kláraðist. Þetta þýðir að ég verð að taka aðra mynd seinna og uppfæra myndina, sem þýðir að ég verð að útbúa aðra svona ístertu. Ó nei.

Ég valdi að setja mína tertu í ferkantað form og skera hana í ferhyrntar sneiðar en að sjálfsögðu er hægt að setja hana í hringlaga form líka.

HVAÐ
Marengsinn:
150 gr sykur
3 eggjahvítur
1 tsk edik

Rjómaísinn:
3 eggjarauður
75 gr sykur
1 tsk vanilla
2,5 dl rjómi
4 lítil daim súkkulaði, söxuð

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Við byrjum á marengsinum. Stífþeytið saman eggjahvítur, sykur og edik.
3. Takið fram kringlótt kökuform (eða ferkantað eldfast mót eins og ég notaði). Skellið bökunarpappír í formið og smyrjið botninn með smjöri.
4. Smyrjið stífþeyttum eggjunum á bökunarpappírinn og bakið við 175°C í 40-50 mín, eða við 150°C í 75 mín. fyrir teygjanlegan botn.
5. Þá er það rjómaísinn: Þeytið eggjarauður, sykur og vanillu vel saman. Þeytið rjómann í sérskál og blandið honum svo varlega saman við eggin ásamt súkkulaðinu.
6. Þegar marengsins hefur kólnað nægilega í forminu smyrjið þá rjómaísnum ofan á og setjið inn í frysti yfir nótt.

Þessi ís er dúnamjúkur svo tertan þarf ekki langa stund út úr frysti áður en auðvelt er að skera af henni sneiðar, svona 10 mínútur.

Engin ummæli: