Þennan föstudaginn fáum við uppskrift að hjónabandssælu. Þessi uppskrift kemur frá vinkonu minni Salome. Hún kallar hana heimsins bestu hjónabandssælu og ég treysti því alveg. Ég hef sjálf svo litla reynslu af því að borða hjónabandssælu að ég get ómögulega dæmt um það, ég bakaði hana fyrst og fremst fyrir Baldur sem elskar hjónabandssælu.
Að því sögðu tek ég fram að þessi hjónabandssæla var algjört nammi! Baldur, hjónabandssælu spekúlant, staðfesti það líka með því að raða henni í sig. Jömm jömm!
Ég dembdi allri uppskriftinni í eitt form og bakaði eina hálfgerða hnallþóru hjónabandssælu. Næst þegar ég baka hjónabandssælu ætla ég hins vegar að deila uppskriftinni í tvö form og fá þannig þynnri sneiðar.
Ég læt uppskriftina fylgja eins og hún kemur frá Salome. Hún minnkar iðulega sykurmagnið þegar hún bakar og það gerði ég líka, en sykurmagnið hér að neðan endurspeglar full force sykurmagn.
HVAÐ
250 g smjör, við stofuhita
1 bolli púðursykur
1 bolli sykur
1 egg
2 bollar hveiti
3 bollar haframjöl
1 tsk matarsódi
Rabarbarasulta
HVERNIG
1. Hitið ofninn í 180°C.
2. Hrærið saman smjöri og sykri.
3. Bætið egginu útí og hrærið saman við.
4. Bætið restinni út í (hveiti, hafrar, matarsódi) og hrærið saman, en ekki of lengi.
5. Deilið deiginu í tvö smurð form en haldið þó hluta af deiginu eftir til að setja ofan á. Þrýstið deiginu létt niður í formið.
6. Smyrjið sultunni yfir og stráið restinni af deiginu yfir sultuna.
7. Bakið í 20 mín. og ekki mínútu lengur.
Svona hjónabandssæla er kjörin í helgarútivistina. Þá getur maður jafnvel bakað hana í skúffu og skorið hana niður í bita svo hún verði einskonar hafrabarri með sultu. Sneddí!
Og ef þið farið í fjallgöngu með hjónabandssælu í Guðanna bænum gleymið ekki mjólkurflöskunni!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli