föstudagur, 31. ágúst 2007

Singapúr kemur á óvart

Einhvern tímann á meðan á Singapúrdvölinni stóð minntist ég á það við Ásdísi að íbúar borgarinnar væru áberandi litlausari í klæðaburði en t.d. Tælendingar. Fljótt á litið virtist ég hafa rétt fyrir mér en það varði ekki lengi. Það er nefnilega stundum þannig að þegar maður minnist á eitthvað svona fara hinir litríku að gera vart við sig.

Nokkrum augnablikum eftir samtalið tók ég eftir buxum með skotapilsmynstri. Hljómar ekkert sérlega frumlegt, en þegar búið er að festa belti í sama stíl á milli hnjánna má segja að göngulagið veki meiri athygli en mynstrið á buxunum. Í sömu andrá gekk framhjá okkur gaur sem var tiltölulega steríótípískur að flestu leyti ef frá er talinn heiðblár og snyrtilega framgreiddu toppur. Þarna fékk Singapúr nokkur rokkaraprik því greiðslan minnti helst á póníhest og það þarf sterk bein til að bera þannig daginn út og inn.

Eitt skiptið stóð ég á snakki við félaga mína í sjoppunni, kemur þá ekki þessi líka uberlitríki gaur inn: Vampírutennur, aflitað hár, heiðgul augu og eyrnalokkar sem helst minntu á trjádrumba sem einhvern veginn hefðu flækst í eyrnasneplunum. Innkaupin hjá kauða voru heldur ekki af verri endanum, fullur faðmur af eiturgrænum sápubrúsum.

Sennilega eru vampírur fram úr hófi snyrtilegar, veikar fyrir grænu eða þá að gaurinn vinni sem uppvaskari. Eigi veit eg það svo gjörla en hitt veit ég þó, að Singapúr er ekki eins steríl og yfirborðið gefur til kynna.

fimmtudagur, 30. ágúst 2007

Ein í Asíu

Fyrsti pabbalausi dagurinn að kveldi kominn og við enn á lífi, en vængbrotin mjög :o( Við söknum pabba og erum eitthvað svo einmana. Ég veit að það er skrýtið að vera einmana í Asíu, heimsálfunni með fjölmennum þjóðfélögum á borð við Indland, Kína og Indónesíu, en við erum samt einmana.

Við tökum ákvörðun í gær um framhald ferðalagsins. Við höfðum verið að gæla við að kíkja kannski til Borneo, Malasíumeginn, eða jafnvel til Jakarta eða Bali í Indónesíu, en komumst svo að því að við erum orðin svolítið ferðalúin. Við viljum eiga einhvern spenning og eftirvæntingu eftir fyrir lokaáfangastaði okkar svo við lögðum öll Indónesíu- og Borneoplön á hilluna, í bili.

Leiðin liggur semsé til Tælands og til að tryggja að það gengi eftir lá leið okkar beint í tælenska sendiráðið hér í Singapore. Þar fengum við upplýsingar um breyttar reglur varðandi vegabréfsáritanir.

Þar sem tælenska sendiráðið stendur við Orchard Rd, helstu verslunargötu Singapore, gengum við aðeins um bæinn og virtum fyrir okkur mannlífið. Þaðan tókum við MRT að Raffles torgi og þar týndumst við í hinum ýmsu verslunarmiðstöðvum. Við gerðum ítrekaðar tilraunir til að komast upp úr metróinu en enduðum alltaf inn í einhverri verslunarmiðstöðinni. Að lokum gáfumst við upp og tókum að skoða okkur um. Það endaði með því að við festum kaup á nokkrum geisladiskum, þar á meðal nýja disknum hennar Tori Amos, American Dolle Pussy.

Annars er gaman að því að sjá hve ótrúlega skipulögð Singapore er, jafnvel þó erfitt sé að sleppa út úr sumum kringlunum. Svæðið við höfnina er til dæmis alveg til fyrirmyndar snyrtilegt og vel skipulagt, umferðagöturnar eru hreinar og vel lagðar, í öllum beðum eru snyrtir runnar og sérvalin tré, rómantískir ljósastaurar standa við alla stíga og byggingarnar, nýju skýjakljúfarnir jafnt sem gömlu nýlendubyggingarnar, eru glæsilegar. Og ef Singapore heillar ekki að degi þá gerir hún það örugglega að kvöldi til, þegar ljósaperurnar taka völdin. Sem sagt ekki versti staðurinn til að vera á þegar maður er einmana og með heimþrá.

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

Kveðjustund

Jæja, þá er tríóið okkar aftur orðið að dúói. Við Baldur fylgdum pabba út á flugvöll í dag og kvöddum hann þar. Hann flýgur til Bangkok í dag og verður þar eina nótt og á morgun flýgur hann til Stokkhólms og þaðan heim á frostafrón.

Þar sem við erum ekki enn búin að ákveða alveg hvert ferðinni er heitið næst, og viljum vera allavega aukadag í Singapore (komast í dýragarðinn, maður), urðum við eftir í Singapore. Því varð úr að við kvöddum pabba í dag á flugvellinum og ég komst að því að ég hef ekki gaman af kveðjustundum.

Elsku pabbi, þúsund þakkir fyrir frábærar samverustundir síðustu fimm vikur. Yndislegur gestabloggari og ferðafélagi :o) Hlökkum til að endurtaka leikinn, hvenær sem það verður.

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

Singapore!

Singa þýðir ljón og pore þýðir borg, ergo Ljónaborg. Eyjan ku vera á stærð við Borgundarhólm (skv. Turen går til Singapore) en þó nokkru fleiri búa þar, u.þ.b. 4,3 milljónir, og svo er Borgundarhólmur víst nokkrum kílómetrum lengra frá miðbaug.

Fyrir þessa heimsókn hafði ég heyrt alls kyns umsagnir um Singapore m.a. að hún væri:
- Hreinasta borg í heimi
- Steríl
- Ein stór kringla
- Menningarkokteill

Þetta fékkst nú allt saman staðfest nema ég veit ekki hvort Singapore sé endilega hreinust í heimi en hrein er hún. Varðandi hin atriðin þá er það rétt að hún er afar steríl á köflum en ekki veit ég með kringlu-elementið þar sem fókusinn hefur ekki verið sérlega kringlumiðaður til þessa.

Ekki verður hjá því komist að kalla staðinn menningarkokteil því á þessu litla svæði er töluð enska, Mandarín kínverska, malasíska og tamílska. Þetta er að sjálfsögðu tilkomið af því að íbúar staðarins eru af ýmsu bergi brotnir en afkomendur kínverskra innflytjenda eru þó í miklum meirihluta eða tæplega 77%.

Allir eiga sitt hverfi og það gera þjóðarbrotin líka. Við erum búin að heimsækja bæði Kínahverfið og Litla Indland. Hverfin eru mikið til verslanir þó svo að Kínahverfið hafi verið mun líflegra þar sem Indverjarnir höfðu lokað öllum básum og flestum búðum vegna hellidembu.

Aldrei hef ég á ævinni komið til Kína svo ég ber Kínahverfið bara við önnur Kínahverfi og má segja að það sé tiltölulega týpískt og eru menn í óða önn að friða hinn hungraða draug en nú er mánuðurinn hans. Ekki get ég þó sagt að Litla Indland minni mikið á móður sína, alltof mikil röð og regla, prúðmennska og engin læti. Það var einhvern veginn ekki nægilega lifandi til að bera Indlandstitilinn með fullri reisn. Það kann að hljóma undarlega fyrir þá sem ekki þekkja til en mér líkar mun betur við Indland í allri sinni dýrð, með kostum og göllum.

Einnig kíktum við á svæði sem kallað er Boat Quay eða Kajann og gengum þaðan að Merlion, merki borgarinnar sem er bráðhuggulegt sæljón (eins og ég kalla það), risastór stytta af fiski með ljónshaus sem horfir til hafs og frussar út í sjóinn. Lonely Planet lýsir styttunni sem: Downright weird. Það var einmitt það element sem ég fílaði best.

Kajinn er skemmtilegur og gaman að vera á þessum slóðum þegar myrkrið skellur á og sjá klassískar nýlendubyggingar fljóðlýstar og nútímaarkítektúr verða að einhverju allt öðru en dagsbirtan sýndi. Rétt hjá Kajanum, nánar tiltekið á Clarks kaja, fundum við æðislega fínan, ég meina Fínan, persneskan veitingastað og nutum þar matar og drykkjar.

Annað sem við komumst að er að samgöngumál borgarinnar eru sérdeilis góð. Það er háþróað neðanjarðarlestakerfi sem kallað er MRT og fyrir vikið sér maður ekki mikið af umferðarteppum enda allir í lestunum. Það sem ég á við með háþróað er að lestirnar ganga títt, eru ódýrar, snyrtilegar og kerfið spannar mikið svæði.

Þegar maður nennir ekki að taka lest er kjörið að taka leigara. Fargjöldin eru fáránlega lág miðað við annað hér um slóðir og leigubílstjórarnir oft svo skemmtilegir að ég hélt stundum að þetta væru uppistandarar á milli starfa. Einn sagði okkur t.d. að MBA þýddi annaðhvort Married By Accident eða Married But Available. Að því loknu spurði hann út í ferðalög okkar og lék bæði Indverja, með tilheyrandi höfuðvaggi, og Tælendinga, með öllum tilheyrandi handahreyfingum. Alveg hrikalega gaman í leigubílum Singapore.

Í Singapúr höfum við hitt mikið af hlýlegu og sérstaklega vinalegu fólki. Eitt gott dæmi er indversk kona sem rekur sjoppu og netkaffi við hliðina á hótelinu okkar. Það var hellirigning og til að komast á milli húsa keyptum við regnhlíf. Ásdís og Elfar fóru á undan mér (sem var fastur á netinu) og var planið að hittast á heilsustað hundrað metra frá hótelinu. Ég skelli mér í regnstakk og geri mig líklegan til atlögu við úrhellið en sú indverska tók það nú ekki í mál og heimtaði að lána mér regnhlífina sína! Heldur betur almennilegt lið þessir Singapúrar.

Lestarferðin langa

Við yfirgáfum Taman Negara þjóðgarðinn í gær og höfðum komið því svo haganlega fyrir að upp úr hádegi við tækjum daglestina beinustu leið til Singapore. Upphaflega voru okkur bornar þrjár lygar á borð: 1. að lestin væri aldrei full (því þetta væri ný leið), 2. að matur væri seldur um borð (Auðvitað, svaraði maðurinn á ferðaskrifstofunni, augljóslega undrandi á spurningunni) og 3. við kæmum til Singapore kl. 21.

Þegar við komum út á lestarstöð uppgötvuðum við að við höfðum engin númeruð sæti, aðeins það sem kallast ordinary ticekt. Ungur maður á vegum ferðamannaráðs þarna á bæ varð fyrir svörum þegar við tókum að grennslast fyrir um þetta. You can sit anywhere, anyplace, somewhere, var svarið hans. Okkur létti við að heyra þetta og hlógum mikið að þessu því við héldum að hann ætti við að við gætum setið hvar sem við vildum í lestinni.

Ferkari eftirgrennslan leiddi hins vegar í ljós að lestin var yfirbókuð og við fengum þau svör að við yrðum að berjast fyrir sætum eða einfaldlega sitja á gólfinu. Pabbi varð svo hissa að upp úr honum hrökk: Are you joking? Nei, ekki aldeilis, okkar maður var grafalvarlegur og meinti hvert orð.

Sitja á gólfinu! Hversu fáránlegt er þetta, spurðum við hvort annað. Eigum við ekki bara að sitja á þakinu líka? Ummæli unga mannsins fengu nú aðra merkingu í okkar huga: við neyddumst til að sitja anywhere, anyplace, somewhere.

Og hvernig fór svo um lestferð þá? Við pabbi vorum sífellt að skipta um sæti og skima eftir lausum sætum en ekki Baldur (kem að því síðar) svo ekkert varð úr náðugu lestarferðinni sem ég hafði gert mér í hugarlund þar sem ég gæti dottið ofan í A Thousand Splendid Suns. Það var enginn matur seldur um borð en okkur pabba tókst að hlaupa út úr lestinni í einu stoppinu til að kaupa vatn, hnetur og snakk. Þá renndi lestin ekki inn á lestarstöðina í Singapore fyrr en hálf eitt á miðnætti.

Og hvað varð svo úr spánni með að sitja á gólfinu? Það kom í hlut Baldurs sem fann sér stað milli tveggja sæta og gerði sér að góðu að dúsa þar alla ferðina. Í hreinskilni sagt fór langsamlega best um hann af okkur öllum, gólfið var nefnilega hlýtt og sætin vörðu hann fyrir ofurloftkælingunni. Þetta var lestarferð sem segir atsjú!

mánudagur, 27. ágúst 2007

Taman Negara frumskógarferðin

Föstudaginn síðasta lögðum við af stað í þriggja daga frumskógarferð um Taman Negara þjóðgarðinn. Ferðin í garðinn er ævintýri út af fyrir sig: fyrst rútuferð í þrjá tíma og síðan bátsferð upp á í aðra þrjá tíma á litlum eintrjáningi með appelsínugulum björgunarvestum. Afskaplega notalegt í alla staði og ekki spillti umhverfið fyrir, heill frumskógur af frumskógi.

Við komum seinnipartinn í Kuala Tahan, þorpið við þjóðgarðinn, og komum okkur fyrir á hótelherbergjum okkar. Að þessu sinni lágu herbergi okkar Baldurs og pabba saman, svo vel meira að segja að það var hurð á milli! Baldur fékk þá meinloku í hugsanastykkið að ekki væri hægt að fara inn í herbergið okkar öðruvísi en í gegnum herbergið hans pabba, og neitaði með öllu að opna okkar hurð. Sérviskupúkinn kominn í ham.

Þetta fyrsta kvöld rigndi svo mikið að við urðum að kaupa okkur regnstakka til að komast leiðar okkar. Það eina sem ofurlitla og reglulega óskipulagða verslunin bauð uppá voru kolsvartir stakkar, ökklasíðir og framhneppir, og með þeim fylgdu tvö kaskeiti. Þegar við Baldur vorum komin í kápurnar góðu minntum við helst á meðlimi stormsveitar Hitlers.

Stakkarnir komu þó í góðar þarfir því við komumst þurr yfir á fljótandi veitingastaðinn þar sem við borðuðum kvöldmat. Veitingastaðurinn er kallaður fljótandi veitingastaður því hann flýtur ofan á ánni sem skilur að þjóðgarðinn og þorpið. Stakkarnir gerðu hins vegar lítið gagn í næturgöngunni sem ætlunin var að fara í því henni var frestað sökum rigninga. Það er víst lítið vit í því að skima eftir skordýralífi skógarins þegar heimili þeirra eru á floti og þau öll í felum.

Á laugardeginum fór aðaldagskráin fram, þá fórum við í fjallgöngu og þjóðgarðstrekk, gengum yfir stærstu hengibrú heims, fórum í bátsferð um flúðir og í heimsókn til frumbyggjanna Orang Asli.

Það er erfitt að velja hvað stendur helst upp úr öllu þessu. En kannski það hafi verið göngutúrinn yfir laufkrónum trjánna í hengibrúnni. Hengibrúin var einmitt fyrst á dagskrá svo það má segja að við höfum byrjað á toppnum. Hengibrúin er í sex hlutum, hver hluti misjafnlega langur. Aðeins mega fjórir vera á brúnnum í einu og þá með fimm metra millibili. Ekki var þetta alltaf virt, til dæmis þegar við Baldur létu pabba taka mynd af okkur á brúnni. Og svo mátti heldur ekki taka myndir af brúnni, úbbs. Það er reyndar ágætisregla því maður er svo upptekinn af því að njóta upplifunarinnar af því að ganga á brúnni, finna hana dúa og dvelja innan um og ofan við laufkrónurnar.

Fjallgangan, sem tók við eftir hengibrúnni, var ekki sérlega krefjandi enda tindurinn aðeins rúma 300 metra yfir sjávarmáli. Dýralífið sem við sáum á skógarbotninum var hins vegar mjög áhugavert sem og kræklótta rótarflækjan sem við gengum framhjá. Útsýnið af hæsta punkti, Teresek hæð, yfir Tahan fjöll, var fallegt: grænar hlíðar, blár himinn og hvít skýin.

Síðasti dagskráliður var sigling um flúðirnar og þá kom sér vel að vera með vatnsheldar umbúðir á fætinum og í sandölum. Við blotnuðum semsé ansi vel, sérstaklega við Baldur sem sátum fyrir miðju bátsins og virðumst hafa vakið reiði árinnar. Allavega sá hún ástæðu til að demba sér yfir okkar í meira magni en aðra bátsfélaga.

Hundblaut mættum við í heimsókn til Orang Asli ættbálksins sem býr í frumskóginum. Fyrir voru nokkrir hópar ferðamanna sem biður spenntir eftir að sjá "skemmtiatriðin". Þau voru helst: sjá hvernig maður kveikir eld með spýtum og stráum og skjóta eiturörvum í mark. Við fengum öll að spreyta okkur á langa rörinu sem notað er til að skjóta örvunum, en ekkert okkar fékk að prufa að koma af stað eldi (sem betur fer, það virkaði á mig sem heilmikið púl).

Áhugaverðast fannst okkur þremenningum þó fólkið sjálft sem býr í strákofum sem margir hverjir hafa ekkert trégólf og stráþök sem eru örugglega míglek. Að öðru leyti var lítið "frumstætt" að sjá, þau klæddust stuttermabolum og stuttbuxum, reyktu sígarettur, borðuðu súkkulaði og drukku Néstle þurrmjólk. Þvottur hékk til þerris og leirtau beið uppvasks, börnin fóru í feluleiki við ferðamennina á meðan unglingarnir ranghvolfdu í sér augunum og létu sig hverfa. Ósköp hversdagslegt svona í miðjum frumskóginum.

föstudagur, 24. ágúst 2007

Tveggja turna tal

Malasía, og þá sér í lagi Kuala Lumpur, er þekkt fyrir verkfræðilegt undur og arkitektúrafurður: Petronas turnana. Þeir eru 88 hæða háir og voru fram til ársins 2004 hæstu turnar heims eða þangað til Taipei 101 hrifsaði þann titil til sín. Í dag eru Petronas turnarnir hæstu tvíburaturnar heims.

Okkur Baldri fannst við ekki geta kvatt borgina án þess að heimsækja þá og gerðum heiðarlega tilraun til þess í gær. Þá fengum við þær upplýsingar að á hverjum morgni, í bítið, er 1.600 fyrstu gestunum gefið leyfi til að fara upp á Himnabryggjuna sem er milli 43. og 44. hæðar. Til þess að verða sér úti um slíkt leyfi þarf maður að mæta snemma og bíða í röð og yfirleitt eru öll leyfin búin fyrir hádegi. Vá, talandi um áhuga á einni byggingu, hugsuðum við með okkur.

Við ákváðum að vera snemma í því daginn eftir, þ.e. í dag, og vorum mætt fyrir átta að turnunum þar sem við bættumst í langa biðröð. Fyrir tíu vorum við komin með tvo miða í hendurnar sem heimiluðu okkur 15 mínútna heimsókn kl. 12:50.

Heimsóknin í Petronas turnana hófst á stuttri heimildarmynd um turnana. Gestum var úthlutaður gestapassi og þrívíddargleraugu til að horfa á heimildarmyndina. Ég sat í myrkrinu og velti því fyrir mér af hverju fólk væri að leggja á sig að framleiða þrívíddarmyndir þegar augu okkar ná aldrei almennilegum fókus á myndina. Plúsinn við þrívíddarmyndina var að sitja með þessu skrípagleraugu á nefinu og sjá alla virðulegu gestina prýða andlit sitt með þeim.

Til að komast upp á Himnabrúnna urðum við að skilja vatnsflöskuna okkar eftir niðri, láta gegnumlýsa töskuna og fara í gengum vopnaleit. Lyftan þaut síðan með okkur upp 43 hæðir eins og hendi væri veifað og þaðan gátum við séð garðinn fyrir neðan og nánustu háhýsi. Þar sem það rigndi meðan við vorum uppi var útsýnið ekki upp á sitt besta en við fengum að sjá regndropa á gleri í staðinn.

Þar sem við förum í þriggja daga ferð í þjóðgarðinn Taman Negara á morgun eyddum við seinniparti dagsins í undirbúning. Fyrir það fyrsta varð ég mér úti um nýjustu bók Khaleid Husseinis, A Thousand Splendid Suns, en þar sem ég sé ekki fram á að lesa mikið í frumskóginum telst hún ekki með (ég var bara að monta mig).

Nei, alvöru undirbúningurinn fólst í skóveiðum sem við fórum á í Kínahverfinu í kvöld. Til að tryggja að ég verði ekki fyrir árásum blóðsuga, og til að verja síminnkandi sárið, keypti ég gervi Nike strigaskó og hló eins og vitleysingur á meðan kaupin fóru fram. Í mínum huga var svo súrrealískt að kaupa sér falsaða merkjavöru til að nota einn dag í frumskóginum. Pabbi gerði gott um betur og keypti sér síðerma bol til að verjast muggunum, nema hvað hans var gervi Dolce & Gabbana. Við eigum eftir að vera flottasta fólkið í frumskóginum!

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

Dagarnir í höfuðstaðnum

Þá erum við búin að vera tvo heila daga í höfuðborg Malasíu, Kuala Lumpur. Ég get ekki sagt annað en að borgin hafi komið mér skemmtilega á óvart. Hér keyra strætóar um með skilti sem á stendur K.LUMPUR, sem ég hef óendanlega gaman af. Þá er borgin að mörgu leyti mjög nútímaleg með sína mörgu skýjakljúfa og notendavæna metróið. Á hinn bóginn eru leigubílar venjulega gamlir og úr sér gengnir og viðhorf til samkynhneigðra eru ansi úrelt (bannbann-skammskamm).

Borgin er skemmtilegur kokteill af fólki og menningarheimum: kínversk, íslömsk, indversk og malay áhrif í einni bendu. Í sömu svipan getur maður gengið framhjá konum með hvítar blæjur, konum í svörtum búrkum, konum í litríkum sarí eða stúlkum í magabol og mínipilsi.

Malasía er fyrsta múslimaríkið sem ég heimsæki en ég verð að viðurkenna að ég verð ekki mjög vör við íslam í daglegu lífi túristans. Bænaköllin daglegu hef ég til að mynda ekki orðið vör við en það er kannski af því við erum búin að eyða síðustu tveimur dögum í Kínahverfinu og inn í verslunarmiðstöð.

Í gær var fyrsti dagurinn okkar í KL. Við byrjuðum á því að ganga um Kínahverfið enda hótelið okkar staðsett á helstu markaðsgötu Kínahverfisins, JI Petaling. Þar sáum við falsaða merkjavöru í tugatali: töskur, armbandsúr, skótau, sólgleraugu, boli og buxur. Prada, Nike, Adidas, Dolce & Gabbana... ef það er vinsælt þá fæst það hér.

Frá markaðnum röltum yfir í hindúa hofið Sri Mahamariamman þar sem við vorum svo ljónheppin að lenda á einhverskonar athöfn þar sem spilað var á tabla og fólk safnaðist kringum altar og bar tika á ennið á sér. Við gátum líka kynnt pabba fyrir uppáhaldinu okkar, honum Ganesh, og foreldrum hans Shiva og Parvati.

Frá hofinu röltum við sem leið lá að stóru húsi sem kallast Aðalmarkaðurinn og hýsir m.a. listamenn og smiðjur þeirra. Þar fylgdumst við með málurum að störfum við trönur sínar og ég fékk mér rosalega girnilega, nýbakaða og ilmandi mexíkóska risabollu sem svo reyndist vera með rúsínum (þvílík vonbrigði).

Á rölti okkar um borgina gengum við framhjá illalyktandi, þurrkuðum fiski og hindí veggjakroti. Við hjuggum líka eftir nokkrum malasískum orðum sem báru óneitanlega með sér enskan blæ. Restoran, farmasi og teksi eru hins vegar að því er virðist rótgróin, malasísk orð. Þá veittum við því líka athygli að malasíski fáninn er nánast út um allt í höfuðborginni og furðuðum við okkur aðeins á því.

Frá Aðalmarkaðnum gegnum við að Sungai Klang ánni sem rennur þar rétt hjá. Frá árbakkanum sáum við glitta í Masjid Jamek, mosku sem byggð var 1907 og er víst annáluð fyrir fegurð sína. Við gengum vestur eftir ánni að Lebu Pasar Besar brú í átt að Merdeka torgi. Þar skoðuðum við gamlar en glæsilegar byggingar sem bera keim af íslömskum og evrópskum áhrifum. Á þessu merka torgi lýsti Malasía yfir sjálfstæði sínu árið 1957, en það þýðir að Malasíumenn halda upp á 50 ára sjálfstæði sitt í ár, nánar tiltekið þann 31. ágúst. Það útskýrir fánadýrðina, í tilefni af afmælinu er annar hver skýjakljúfur með flennistóran fánann til sýnis og annar hver ljósastaur skreyttur í stíl. Hinir ljósastaurarnir eru með rauð, upplýst blóm.

Þar sem við höfðum náð að skoða bróðurpart af því sem okkur langaði að sjá í gær tókum við daginn í dag frá fyrir tívolí! Við fórum í stærsta innanhússskemmtigarð Malasíu, Cosmo's World Theme Park, sem er hvorki meira né minna en inn í verslunarmiðstöð. Ég skemmti mér konungleg og held að ég hafi farið fleiri salíbunur en Baldur og pabbi til samans. Hvað getur tívolíljón gert annað en skemmt sér í tívolí?

Í stuttu máli sagt eyddum við öllum deginum inn í verslunarmiðstöðvum. Þegar tívolíið var að baki borðuðum við lebanskan mat (hummus, namm) í Suria KLCC verslunarmiðstöðinni og fórum í bíó að sjá Evan Almighty eftir það. Það var því ekki fyrr en seint og um síðir sem við komum út í ferska loftið og hvað blasti þá við okkur annað en Petronas turnarnir í allri sinni upplýstu kvölddýrð. Það kalla ég að kveðja góðan dag með stæl.

þriðjudagur, 21. ágúst 2007

Rútuferð til K.Lumpur

Rútuferðin til Kuala Lumpur gekk vitanlega eins og í sögu, bara ekki þeirri sem ég ætlaði upphaflega að segja hér. Þannig er það nú oft, skemmtilegar sögur eru þær sem maður sér ekki fyrir. Fyrst ber að geta þess að þessa dagana eru frí hjá Malasíubúum og því uppbókað í allar lestir og flestar rútur. Fyrir vikið er skotið inn aukaferðum og keyptum við einmitt miða í eina slíka.

Við mættum samviskusamlega á ferðaskrifstofuna klukkan hálfþrjú, hálftíma fyrir brottför eins og mælst var til. Stuttu eftir að þangað kom vísaði starfsmaður skrifstofunnar okkur á biðstöð þar sem við fengum okkur sæti og hófum bið, til þess eru jú biðstöðvar. Bíða, bíða, bíða.

Betra er seint en aldrei, rútan var nú ekki nema einum og hálfum tíma á eftir áætlun og þar sem heimamenn virtust vanir svonalöguðu og spurðu einskis sýndum við af okkur afburðaþolinmæðistakta en vorum vitanlega ánægð að komast inn í rútuna. Framanaf gekk rútuferðin rösklega en hljóðin í gripnum bentu þó til þess að gúmmípúðar og þess háttar pjatt sé lítils metið því alltaf þegar hreyfing kom á skrokk ferlíkisins mátti glögglega heyra að víða small járn í járn.

Eitt augnablik fékk ég á tilfinninguna að Kambódíuævintýrið væri í þann mund að endurtaka sig en hugsaði svo: Hvaða, hvaða, enga svartsýni. Hugsunum fylgir þó greinilega ábyrgð því skömmu síðar var rútan komin út í kant, einhvers konar kúplingsvesen. Hvað sem bílstjórinn reyndi, ekki vildi hún í gírinn blessuð rútan. Enn tók við bið og enginn spurði neins. Ég hugsaði: Þeir senda okkur þá bara aðra rútu, svona eins og í Kambódíu.

Ekki bólaði á rútunni og leið einn klukkutími og svo annar. Einhvern tímann á þessum tíma lagði Pajero jeppi fyrir framan rútuna og út kom grútskítugur smurpungur sem greinilega hafði legið undir rútum á vegum úti í allan dag, viðgerðarmaður fyrirtækisins. Hann lagði sig allan í málið og skömmu síðar rumdi rútan aftur út á þjóðveginn, kúplingsmálið úr sögunni í bili.

Ekki hafði flykkið urrað lengi þegar komið var að matarstoppi í litlu tjaldi við þjóðveginn. Ekki leist mér mjög á það sem í boði var og endaði á því að prófa einhvers konar fiskifýlukarrígrjón. Lítið þótti mér til þeirra koma og held ég að bílstjórinn, sem leit út eins og Forest Whitaker, hafi séð á mér svengdina því hann fór að kynna fyrir mér einhvers konar gufusoðnar brauðbollur með framandi ávaxtasultufyllingu. Reyndust bollurnar vera hinar bestu og áður en ég vissi af var maðurinn góði búinn að splæsa á okkur fjórum stykkjum. Þetta eru víst einhver sérmalasísk fyrirbæri og verð ég að segja að bæði bragðið af þeim og gestrisni bílstjórans gera mig að miklum Malasíuvin.

Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir heilmiklar tafir leið þessi rútuferð ótrúlega hratt og var hin skemmtilegasta frá upphafi til enda. Auðvitað verð ég að játa að brauðbollurnar höfðu sitt að segja en einnig gaf ferðin okkur Íslendingunum innsýn í hver ótrúlega þolinmóðir Malasíubúar eru. Það var eins og fólk vissi að sama hvað það hefði um seinkanir eða bilanir að segja þá myndu þær skoðanir ekki breyta neinu. Við tókum þetta fólk til fyrirmyndar og fyrir vikið varð úr þessu stórskemmtileg minning um bráðflippaða rútuferð.

mánudagur, 20. ágúst 2007

Georgsbær

Ferðalagið frá Tælandi til Malasíu gekk mun hraðar en ég bjóst við og held ég að einhverjar nýjar ljóshraðakenningar séu aðsigi. Málið er að þegar við lögðum af stað frá Tælandi var árið 2550 en hér í Malasíu er árið 2007. Ferðalagið er því orðið andlegt og líkamlegt tímaflakk. Tímamunurinn hefur þó meira með menningarheima að gera þar sem Tælendingar miða upphaf síns tímatals við fæðingu Búdda.

Georgsbær (nefndur eftir Georgi 3.) er stærsta byggðin á eyju að nafni Penang. Eyjan liggur vestanmegin við Malasíu norðanverða og svo nærri að maður getur valið milli stuttrar ferjusiglingar og langrar brúar; við notuðum ferjuna. Þó svo að um stærstu byggð Penang sé að ræða er hún afskaplega lítil og renndum við yfir helstu atriði á 150 mínútum með dyggri aðstoð tamílsks leigubílstjóra.

Fyrsta stopp var ótrúlega falleg moska en til að skoða hana og samtímis gæta fyllstu siðprýði urðum við að dulbúa Ásdísi eftir reglum hússins. Í boði var dökkblár kufl og honum fylgdi neongul slæða. Þessari múnderingu klæddist Ásdís meðan moskan góða var rannsökuð og ljósmynduð í bak og fyrir.

Eftir moskuna renndum við inn í Kínahverfi og skoðuðum klanhús og einhvers konar fórnamusteri. Klanhúsið er í raun samansafn margra húsa sem tilheyrðu öll sömu fjölskyldunni. Þarna höfðu fjölskyldur allt til alls, meira að segja leiksvið þar sem óperur og leikrit voru sýnd til að skemmta bæði framliðnum og lifandi (mikil forfeðratrú).

Þegar við renndum svo í hlað hjá fórnamusterinu fór ekki á milli mála að fórnirnar samanstóðu af reykelsum og pappírspeningum sem allt saman var brennt bæði innan- og utanhúss í kílóavís. Inni var allt fullt af reyk og voru svo mörg reykelsi lögð á altörin að keðjureykjandi starfsmaður hafði vart undan að kippa þeim af altörunum og flytja þau út á stétt í brennsluofnana.

Skoðunarferðina enduðum við svo með því að skoða Cornwallis virki sem er í dag huggulegur garður, með svolítilli fræðslu um nýlendutímann, skreyttur alls kyns fuglum og starfsfólki sem dubbað er eftir tísku 18. og 19 aldar. Það má því segja að í þessum litla bæ mætist ólíkir heimar frá ólíkum tímum á afskaplega stuttum tíma.

Næst á dagskrá er rútuferð til Kuala Lumpur og hlökkum við öll mikið til að heimsækja borg með jafnfyndnu nafni.

Malasía!

Þá erum við komin til Georgetown í Malasíu eftir gott ferðalag. Það kom í ljós að næturbáturinn var alveg ágætur og hefði hæglega getað ruggað mér í svefn hefði ég náð að sofna. Ég svaf hins vegar lítið þessa nótt enda rúmið bara örmjó dýna á gólfinu, kramin upp við aðra dýnu.

Mér tókst reyndar að bæta aðeins upp svefnleysið með því að sofa í lestinni sem við tókum frá Surat Thani til tælenska landamærabæjarins Hat Yai. Ég fékk þó ekki að sofna fyrr en eftir morgunmatinn sem lestarfreyjan bar fram en hann samanstóð af bláberjamuffu, smjördeigsbrauði og dísætum appelsínusafa.

Í Hat Yai lögðumst við í útreikninga og samanburð og komumst að því að best væri að taka leigubíl yfir landamærin, já bara alla leið til Georgetown. Svo við gerðum það, fengum malasískan leigubílstjóra sem keyrði um á brúnsanseruðum Mitsubishi Lancer frá 9. áratugnum.

Allt gekk snuðrulaust fyrir sig á landamærunum ef frá er talinn tælenski landamæravörðurinn sem tuðaði heil ósköp yfir því að þurfa að pikka löngu og óþjálu nöfnin okkar inn í tölvuna. Frá landamærunum brunuðum við í nokkra klukkutíma eftir afskaplega rennilegri hraðbraut og vorum komin inn á hótel í Georgetown upp úr kvöldmat.

Það er enn of snemmt að segja nokkuð um Malasíu annað en að 1. það er rosalega skemmtilegt að vera komin hingað, 2. ritmálið er okkur auðveldara (rómanskt) en það tælenska og 3. gjaldmiðillinn heiti ringgit. Baldur á það til að kalla hann ringding, en ekki hvað.

laugardagur, 18. ágúst 2007

Brottför í aðsigi

Við náðum í kafararéttindin okkar í dag og höfum nú leyfi til að kafa niður á 18 metra dýpi. Til lykke! Reyndar er um bráðabirgðaskírteini að ræða þar sem senda þarf öll gögn til PADI í Ástralíu og þaðan verða síðan hin eiginlegu skírteini send heim á frostafrón.

Við lærðum svo ótrúlega margt á þessum þremur dögum í köfunarskólanum að mér finnst eins og hausinn nái með engu móti að rýma það allt. Við lærðum um bör og þrýsting og þéttleika efnis, kafaraveiki og nítrógen í blóði, mikilvægi þess að taka öryggisstopp eftir kafanir niður á 30 metra dýpi, um skepnur hafsins og hegðun þeirra... ég gæti haldið áfram endalaust.

Erfiðast reyndist mér að læra að fljóta í vatninu á réttu dýpi. Ýmist drógst ég eftir hafsbotninum eins og krabbi eða skaust upp á yfirborðið eins og korktappi. Það er ekki sérlega æskilegt í köfun að skipta hratt um dýpi út af þrýstingsbreytingunum og því er köfurum svo mikilvægt að ná fullkominni færni í að halda réttu dýpi. Á síðasta degi var ég komin upp á lagið með að nota lungun eins og blöðrur og þannig stjórna því hvenær ég færðist upp og niður í vatninu. Það er ekki á hverjum degi sem maður notar lungun í þeim tilgangi en ég get sagt ykkur að það er ansi flippað.

Skemmtilegast fannst mér síðan að læra að nota áttavita í vatninu. 0° er segulnorður og 180° er suður. Ég hélt að það yrði svo erfitt að læra á svona apparat en þegar til kastanna kom reyndist það hin auðveldasta þraut. Svo er líka svo mikið sport að kafa með áttavita á úlnliðnum.

Við kveðjum Koh Tao í kvöld með miklum trega. Það er búið að vera hreint yndislegt að vera innan um öll pálmatrén og rólegheitin, þó ég geti ekki sagst koma til með að sakna mauranna (þeir komust í harðfiskinn!). Í kvöld tökum við næturbát yfir til meginlandsins sem verður fróðlegt að prófa (næ ég að sofna, næ ég ekki að sofna?). Á döfinni er svo að kíkja til Malasíu, hversu übersvalt er það ekki?

Þriðji í köfun

Þá var runnin upp stóri dagurinn. Í gærkvöld var ég að tala við Jimmy og þá sagði hann mér aðeins frá köfunarhugmyndum lokadagsins, semsagt í dag. Hann fór að tala um að vonandi næðum við að fara út á stóra kóralrifið og sjá stóra fiska í seinni köfuninni. Stóra fiska, spurði ég. Hvað meinarðu með því?, og óttaðist svarið hræðilega. SHARKS. I hope we will see some big sharks. Hákarlar. Já, takk.

Ég fraus því ég vissi að nú væri komið að því að koma upp um innbyggða hræðslu mína við þessar skepnur. Fóbía sem erfitt er að losna við svona overnight. Ég svaf nú lítið um nóttina, en endaði með því að semja við sjálfan mig um að taka fyrri köfunina og sleppa hinni og skítt veri með prófið sem við áttum síðan að fá sem fullgildir kafarar. Við þennan samning gat ég loksins sofnað. Innst inni var ég samt viss um að einhvern veginn yrði ég plataður niður í hafdýpin og fyrsta sem ég mundi mæta yrði hákarl. Mig dreymdi hákarla syndandi að mér með opinn kjaftinn alla nóttina þangað til Baldur vakti mig og við af stað.

Ekki þýðir að sína krökkunum einhvern bilbug, heldur var ég með mitt plan. Nú er siglt hraðbyri á King Kong 2 í um 40 mínútur norður af Y-eyjum. Við stoppum þar sem eru baujur og við erum út á rúmsjó á miðjum Thailandsflóa sem er, eins og allir vita, fullur af hákörlum. Þegar við stoppum eru tvö stór blá kafaraskip að færa sig yfir stóra kóralrifið sem er þarna fyrir neðan og skyndilega verður allt vitlaust um borð hjá okkur í kafarahópnum. Franski köfunarkennarinn kom öskrandi niður af þakinu á bátnum og öskraði á liðið hvers vegna enginn væri komin útí. Nú færu allir hákarlarnir fyrst stóru bátarnir væru komnir að fæla þá í burtu.

Það merkilega skeði að allt liðið gusaðist úti á methraða til að missa nú ekki af því að verða étin af hákörlum. Þegar ég stóð eftir einn um borð og Ásdís og Baldur voru komin útí líka sá ég að ekki var um annað að ræða en henda sér útí. Þegar útí var komið var haugasjór og maður hentist upp og niður þangað til maður lét sig sökkva í hafdjúpið þarna úti. Þetta var allt annað en að kafa við stöndina, hér var hyldjúpt undir og ég horfði niður í myrkrið.

Þegar ég er kominn dálítið niður eru vandræði með gleraugun, full af vatni. Ég fer aftur upp og Jimmy með og skiptir við mig. Hann fer strax niður í djúpið en ég held áfram að laga gleraugun og það reddast. OK. Ég er orðinn einn þarna uppi og læt mig súnka niður og á 5 metrum byrja ég að synda að kóralrifinu, þar sem allir eru. Þá kemur risastór gullfiskatorfa syndandi í gegnum mig á sprettinum, glæsileg sjón. Svo skeður það, eftir torfunni kemur ekkert annað en hákarl og stefnir beint á mig kvikindið.

Mér til mikillar furðu var ég alveg sallarólegur og hélt mínu stiki og synti beint áfram. Ég horfði á hann og sá fegurðina. Hann var eins og einkaþota, með stél og vængi, nema flugmannsklefinn á kvikindinu er neðan við trjónuna. Sjálfur skolturinn. Mér leið eins og þegar maður kemur að laxahyl, maður byrjar bara að telja laxana. Ég hugsaði einfaldlega: þarna er einn. Þetta var þá ekki meira mál eftir allt saman.

Hákarlinn synti nú ekki beint á mig heldur til hliðar og mættumst við þarna í dimmu djúpinu án frekari viðkynningar, sem betur fer. Hann synti sína leið og ég mína. Þegar ég náði liðinu voru þau að sökkva sér nógu djúpt til að sjá kvikindin, og að endingu vorum við komin niður á 26 metra dýpi, en við vorum víst að taka próf sem gefur réttindi til hámark 18 metra dýpi. Þegar ég hafði sokkið svona djúpt gaf ég Ásdísi merki um að hækka sig og Jimmy fór með okkur í 20 metrana. Þar var hákarl að synda við hliðina á Baldri og uppað honum og einn var undir Ásdísi en ekki sýndu þeir okkur neinn áhuga.

Kóralrifið sjálft er mjög stórt, tugi metra á hæð og langt eftir því. Eftir að ég var komin í 50 bar af lofti, sem er lágmark, gaf ég Jimmy merki og við fórum upp. 28 mínútna hákarlaköfun hafðist upp úr þessu. Eftir þetta var stímt upp að Y-eyjum og lagt þar upp við bauju. Þessar þrjár eyjar eru gullfallegar og á milli þeirra hefur myndast sandstönd sem tengir þær saman í Y. Þar náðum við 45 mínútna köfun við ótrúlega falleg kóralrif. Þetta var eins og að synda í risagullfiskabúri. Fiskar í öllum regnbogans litum. Við vorum á um 12 metra dýpi, sandurinn undir var ljós og birtan því næg.

Eins og mig grunaði glönsuðum við í gegnum skriflega prófið hjá Jimmy, þegar í land var komið. Öll með yfir 9 og stóðum uppi með prófið um kvöldið. Góður dagur eftir allt og ég var laus við hákarlafóbíuna.

Elfar Ólason, Ko Tao

föstudagur, 17. ágúst 2007

Annar í köfun

Í morgun mættum við öðru sinni í köfunarskólann og fengum að fara aðeins meiri köfunarferð en í gær. Til fylgdar við okkur fengum við eiganda skólans, Dave, og nokkra nemendur frá háskóla í Bangkok sem þangað voru komnir til að rannsaka ástand kóralla á svæðinu.

Við fórum í tvær kafanir og var lífríkið mun litskrúðugra en í gær. Þessar kafanir voru fullgildar kafanir, sú fyrri niður á 9m dýpi en sú seinni á 12m dýpi. Eitt af því fallegasta sem við sáum var fiskur sem kallaður er Titan Trigger Fish en Jimmy, kennarinn okkar, truflaði mig í því glápi með því að vísa okkur með rólegum handahreyfingum burt frá fiskinum.

Þegar upp á yfirborðið var komið sagði hann okkur að nú væri fengitími hjá þessari tegund og því væru þeir varir um sig (lesist varasamir). Ég var líka ekki alveg viss hvernig ætti að bregðast við þegar hann stímdi að mér á fullri fart en nú veit ég að ég brást víst rétt við, halda kyrru fyrir og fara svo rólega í burtu meðfram botninum.

Þar sem ég var ekki með myndavélina tók ég þessa að láni frá wikipediu en hún er af nákvæmlega eins fiski og þeim sem varði hreiður sitt af svo mikilli hugprýði eða eins og Jimmy orðaði það: How would you react if someone came into your living room like that?:

Á ekki bara að sópa þessum köfurum undir teppið?

Köfunarferðirnar voru ekki eingöngu skemmtikafanir því við lærðum líka ný trix og ber þar helst að nefna buddy breathing. Þetta er eitt af því sem gæti þurft að nota þegar kafari gefur hinum merki um að hann vanti loft. Sá sem fær merkið dregur þá að sér andann, tekur út úr sér öndunarbúnaðinn og leyfir hinum að anda tvisvar og svona gengur það koll af kolli meðan vandamálið er leyst eða þangað til báðir eru komnir á öruggan stað á yfirborðinu. Við stóðum okkur með prýði en það verður samt að viðurkennast að fyrst finnst manni nú ekkert voðalega notalegt að þurfa að taka lífæðina út úr munninum.

Ekki voru teljanleg vandræði í köfununum fyrir utan míglek gleraugu Elfars. Við slíkar aðstæður þarf sífellt að tappa vatni af gleraugunum og getur það verið þreytandi á miklu dýpi. Lesendur velta því vafalaust fyrir sér hvernig hægt sé að tæma gleraugun neðansjávar en það er einfaldara en það hljómar. Maður hallar höfðinu einfaldlega aftur, lyftir gleraugunum lítið eitt og blæs kröftuglega út um nefið. Í seinni köfununni lánaði Jimmy Elfari gleraugu úr einkasafni sínu og var vandamálið þar með úr sögunni.

Eftir sjóvolk og samkvæmisdansa við Trigger fisk hefði nú verið notalegt að fá sér gott í gogginn og beint að sofa. Það var hins vegar ekki uppi á tengingnum því á morgun er próf og nóg var okkur sett fyrir af heimaverkefnum.

fimmtudagur, 16. ágúst 2007

Fyrsti í köfun

Í gær skráðum við okkur á köfunarnámskeið hjá köfunarskólanum New Heaven. Í dag var fyrsti dagurinn af þremur og mættum við snemma upp í skóla í morgun, nýgreidd og spennt. Leiðbeinandinn okkar, Jimmy, er mjög afslappaður og þægilegur einstaklingur sem átti auðvelt með að ná til okkar með fasi sínu.

Áður en við lögðum í’ann út á sjó fór hann yfir þau atriði sem hann ætlaði að kenna okkur þegar út í sjó væri komið. Við urðum líka að máta blautbúninga og froskalappir og pakka þeim í töskurnar okkar. Við fórum því næst á pallbíl út að höfn, klifum þar niður nokkur þrep með níðþungar töskurnar undir búnaðinn og út í langbát sem ferjaði okkur út í King Kong II, stærsta bát köfunarskólans. Þar um borð var allt fullt af köfunarkútum, kennurum og taugaveikluðum nemendum.

Við byrjuðum á því að setja græjurnar saman eftir kúnstarinnar reglum: opnuðum fyrir loftkútana og athuguðum loftþrýsting og loftbirgðir, skoðuðum O hringinn, tengdum því næst öndunargræjurnar (regulator) við loftkútinn og að lokum festum við uppblásanlegt vestið (BCD) við loftkútinn. Við urðum líka að setja saman lóð á belti sem kafarar nota til að stjórna því betur hvernig þeir fljóta í vatninu.

Þegar við vorum komin í blautbúningana og lóðabeltið (mitt var 4 kg) smelltum við okkur í vestið og prufuðum hvort öndunarbúnaðurinn virkaði. Þegar ég steig upp af bekknum með loftkútinn á bakinu hélt ég að hnén myndu gefa sig, svo þungur er búnaðurinn. Með þetta ferlíki á bakinu, beltið um mittið, í þröngum blautbúningi og uppblásnu vesti átti maður að valsa um vaggandi bátinn í leit að froskalöppum og grímu. Ég hélt ég myndi kafna eða kannski æla, ég gerði þó hvorugt.

Þegar Jimmy var búinn að fara yfir hvernig maður ber sig að því að koma sér út í vatnið tók hann eitt skref og búmm!, hann flaut í sjónum. Við vorum næst: gríman á andlitið, öndunargræjan upp í munn eins og stórt snuð, hægri hönd yfir grímunni og vinstri hönd á lóðabeltinu. Og svo eitt stórt skref út af bátnum... ég öskraði í gegnum öndunargræjuna þegar ég féll í sjóinn en áður en ég vissi af var ég farin að anda í gegnum snuðið og flaut makindalega í sjónum.

Fyrsta lexían okkar var þrýstijöfnun, þ.e. kyngja eða blása reglulega lofti inn í eyrun í kafi til að létta á þrýstingnum. Við létum okkur sökkva ofan í sjóinn niður á sex metra dýpi og ofan í kafi lærðum við að bregðast við því ef snuðið kippist út úr munninum, hvernig maður losar um vatn sem kemur inn á grímuna og hvernig maður lætur samkafara sína vita ef loftbirgðir eru á þrotum. Við lærðum líka að losna við sinadrátt úr tám (mjög praktískt) og láta okkur fljóta í kafi (mjög skemmtilegt).

Þennan fyrsta dag köfuðum við rétt undan sólarströnd, í lygnri vík. Köfunin var mjög auðveld í vatninu og ég var fljót að komast yfir agnarögn af skelfingu sem ég fann fyrir á allra fyrstu augnarblikunum. Eftir það naut ég þess í botn að vera í kafi og átti auðvelt með að framkvæma allar æfingarnar. Köfunin fór að verða erfiðari þegar við komum í land og Jimmy afhenti okkur námsefnið: Úbbs! Þykk bók á þremur dögum, takk fyrir. Þrír kaflar þetta fyrsta kvöld. Við litum á hvort annað með smá skelfingu í augum.

Við tókum stefnuna á ítalska veitingastaðinn La Matta niðri við höfnina og sátum þar sveitt yfir lærdómnum eins og menntskælingar að læra undir stúdentspróf, með pizzu á borðinu og allt og litum varla upp úr bókunum.

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

Á kajak í Hákarlavík

Við tókum kajak á leigu í dag og fórum í smá dagsferð um öldurnar og bárurnar hér utan við Koh Tao. Ég varð að sjálfsögðu að gæta fyllstu varúðar með fótinn og fór því til hjúkkunnar minnar sem smellti á mig vatnsheldum plástri og góðum umbúðum: Tada!

Strákarnir voru búnir að kynna sér kajakana í nágrenninu og gerðu sér því grein fyrir því út í hvað við vorum að fara. Það gerði ég ekki. Ég var til að mynda sú sem var ólm í að taka myndavélina með í för, hugsunin var einhvern veginn svona: til hvers að sigla um hafflötinn og flatlendið og frysta þá upplifun ekki í tíma?

Þegar út á sjó var komið var ég hins vegar guðs lifandi fegin að hafa ekkert flóknara með í för en pilsið utan á mér og snorkgræjurnar til fóta. Sjórinn svoleiðis óð inn í kajakinn, við náðum ekki einu sinni að segja Sko okkur! áður en við vorum orðin rassblaut. Sem betur fer var sjórinn ótrúlega heitur svo það var bara notalegt að sitja í polli.

Þar sem árarnar voru aðeins tvær sat ég fyrir miðju eins og róni í ringulreið á meðan strákarnir réru eins og þrælvanir róðrakappar. Þegar við komum út úr víkinni sigldum við fyrir höfða, hann prýðir óskaplega falleg klettamyndun. Við sigldum inn nágrannavíkina sem heitir hinu aðlaðandi og viðeigandi nafni Hákarlavík. Þar réru strákarnir í land, drógu kajakinn upp að skugga trés og því næst tróðum við okkur í froskalappir og snorklgræjur. Í Hákarlavík er nefnilega mikið af kóral í miklum grynningum og kóralinn er auðvelt að skoða með því að snorkla þar um kring.

Það gekk frekar upp og ofan að snorkla í Hákarlavík en góðu fréttirnar eru þær að við sáum enga hákarla. Við vissum ekki einu sinni að hákarlar væru tíðir gestir þar um grundir, ætli við hefðum lagt af stað eins kát í bragði í kajakför hefðum við vitað það? Efast um það. Við sáum hins vegar mikið af litríkum smáfiskum sem ég kalla bara Nemofiska, og svo má ekki gleyma ígulkerjunum sem ég vildi ekki stíga á. Það getur verið hægara sagt en gert að forðast þau þegar maður fær sinadrátt í tærnar og er við það að drukkna af sjó í munnstykkinu en það hafðist þó. Held samt að ég hafi stigið á eitthvað sem líktist sjávarsnigli, skúsa mía.

Kajakferðin var ekki bara velheppnuð dagsferð heldur einnig lærdómsrík og góður undirbúningur fyrir morgundaginn. Þá förum við nefnilega í okkar fyrstu köfun. Djeddjað!

mánudagur, 13. ágúst 2007

Í anda Þórbergs

Ekki ganga allar áætlanir og plön nákvæmlega eins og ætlað er og er þá gott að búa yfir aðlögunarhæfni. Í dag var t.d. áætlað að gera jóga á svölunum en þar sem moskítóflugurnar voru mættar í vinnuna var það ekki hægt. Ásdís stakk þá upp á þeirri snilld að við Elfar tækjum bara smáhlaup á ströndinni og varð úr að við tókum nokkra harða spretti í sandinum.

Að sprettum loknum ætluðum við að skella okkur í svalandi sjóinn en ekki gekk það. Hví ekki? Sjór sem er heitari en líkaminn er ekki svalandi svo úr varð að við skelltum okkur í heitan og notalegan sjóinn. Annað plan sem varð að breyta.

Eftir smásund og stutta rannsóknarferð á kajakleigu fundum við svæði á ströndinni þar sem hægt var að gera jóga óáreittur. Þetta var allt saman ansi vel heppnað og einfalt, sólarhylling aftur og aftur. Ég var fyrir framan og gaf leiðbeiningar um hverja stöðu og þegar við vorum komnir í eina sem heitir hundurinn átti eftirfarandi samtal sér stað:

B: nú stoppum við og njótum þess að vera í hundinum (í svona afslöppuðum jógakennaratón)
E: Mér sýnist nú hundarnir vera meira í mér (með smá Harrís- og Heimisfílíng).

B lítur aftur fyrir sig og sér tvo hunda sniglast í kringum Elfar og rannsaka hvort hundastaðan sé nú nógu góð. Það var gert með tignarlegu hnusi af öllum mögulegum stöðum en greinilega voru þeir sáttir því þeir lögðust sitt hvoru megin við kappann og fylgdust með. Annar sofnaði reyndar fljótlega.

Það má segja að sumpart hafi andi Þórbergs svifið létt yfir vötnum, jóga og sjóböð. Ef hann er enn á lífi þá er ég viss um að hann sé að skrifa nýja bók: Email til laracroft@torbergur.is.

sunnudagur, 12. ágúst 2007

Litríkir dagar

Frá Bangkok til Koh Tao. Tveir gerólíkir heimar. Hér á Skjaldbökueyju er allt svo litríkt að undrum sætir. Fólkið og fötin sem þau klæðast eru mjög litrík, ekkert er tilsparað, nema grátt, það sést aldrei hér. Fiðrildin, fiskarnir, blómin, húsin, maturinn allt virkar þetta svo vel saman. Litirnir í sjónum eru allt frá gulu upp í svarblátt. Ótrúleg paradís þessi eyja.

Þó er alltaf einhver hængur á, allavegana í byrjun. Áhyggjulausir Asíudagar eru líklega sjaldan án vandkvæða fyrir byrjanda í skordýraflórunni hér. Það kemur jú aldrei fram á öllum litríku myndun hér að allstaðar eru litlir vágestir í felum, og sjást því ekki á myndunum. Hér á ég við skordýr og flugur af öllum mögulegum gerðum. Allra verstar eru þó moskítóflugurnar, þær setja sig aldrei úr færi um að gera manni lífið leitt. Þar sem Baldur er með í ferðinni er beitt sérfræðiaðgerðum gegn þessum kvikindum. Við höfum vopnast gegn vágestinum, og nú skal öllum brögðum beitt.

Við erum með allskonar aðgerðir í gangi gegn hvers kyns flugum, svo sem sérstök reykelsi sem við brennum á svölunum fyrir utan bungalóana, raftæki inni í húsunum sem stungið er í innstungu og sérstakur vökvi gufar upp úr á nóttinni og drepur flugur. Allar gerðir af mugguspreyi eru notaðar. Netin á gluggunum þurfa að vera í lagi og við spreyjum þau líka. Semsagt Íslendingar á ferð í útlöndum. Eftir bitin mín í Bangkok fékk ég ný bit hér sem eru öðruvísi og ég var svo heppin að hitta hjúkkuna hennar Ásdísar og hún seldi mér galdrasmyrsl við bitunum. Nú eru öll sár að hverfa og þá verður paradísin aftur gallalaus.

Ég verð að segja að eitt hefur komið mér mjög á óvart, en það er heilsugæslan í landinu. Allsstaðar eru litlar viðurkenndar klínikar, litlar læknastofur sem fólk notast mjög mikið. Verðið fyrir þjónustuna er síðan alveg hlægilegt. Þannig kostar oftast 200 kr. að láta skipta á sárinu hjá Ásdísi og binda um aftur. Þetta átti einnig við í Bangkok, sama verð þó bæði læknir og hjúkrunarkona væru að stjana við hana. Þannig þarf enginn að hræðast það að ferðast hingað vegna heilsufarslegra hluta. Allt er lagað hér með brosi á vör og það strax.

Elfar Ólason, Koh Tao

laugardagur, 11. ágúst 2007

Besta nudd í heimi

Enn einu sinni lét maður sig hafa það að fara í nudd. Í dag var á dagskrá blanda af fótanuddi og Thai nuddi. Fótanuddið er einhvers konar svæðameðferð þar sem hver hluti fótarins er fulltrúi líffæris eða líkamshluta en Thai-nuddið er blanda af jógateygjum, vöðvanuddi og hnykkingum.

Eftir notalega upphitun byrjaði nuddið og kom mér verulega á óvart hve handsterk þessi netta kona var, það var sko ekkert gefið eftir. Í fótanuddinu komu í ljós nokkrir aumir blettir en þeir eru mun skárri núna. Ég orða þetta nú frekar hóflega því framan af var fótanuddið rosalegt og greinilega sérgrein konunnar sem líklega hefur unnið við yfirheyrslur áður en hún fór í nuddbransann.

Thai-nuddið var svo punkturinn yfir i-ið, var ég teygður og togaður fram og til baka og kom út mjúkur og ilmandi af Tiger Balm. Ólíkt fótanuddinu voru engir veikir blettir, bara vellíðan. Ég mæli með Thai-nuddi við alla sem vilja dekra við sig.

Eyjalíf og saumaleysi

Þá er þriðji dagurinn á Koh Tao eyju að kveldi kominn og við erum hægt og rólega að komast inn í þægilega rútínu. Sitjum út á svölum í morgunsárið og lesum, kaupum okkur ferska ávexti í bröns og dreypum á tei eða ferskum safa í hádegismat. Heilsum Bono og frú sem koma flögrandi upp á handrið, kannski vonast þau eftir því að fá snarl frá okkur.

Strákarnir tóku upp á því að gera jóga á svölunum seinnipartinn í dag á meðan ég lá og las í The Tipping Point. Fyrir kvöldmat lét ég síðan taka saumana úr ilinni og get ekki lengur státað af þremur sporum þar. Nú get ég næstum gengið um eins og hver önnur manneskja, ég er meira að segja komin með húðlitaðar sáraumbúðir. Ég er samt enn með holu ofan í fótinn, nú er húð farin að gróa yfir. Góður fréttirnar eru þær að ég finn ekki lengur fyrir saumum þegar ég stíg niður.

fimmtudagur, 9. ágúst 2007

Ekið um eyjuna

Við tókum tvær vespur á leigu í dag til að geta keyrt um eyjuna. Hún er svo lítil og fámenn að engar almenningssamgöngur eru í boði, aðeins pallbílar sem gegna hlutverki leigubíla, og svo vespurnar sem koma manni á helstu staði svo fremi að vegir og veður leyfa.

Þar sem böngalóarnir okkar eru nokkurn veginn á syðsta odda Koh Tao lá leiðin beint í norður. Við þurftum stundum að minna pabba á að í Tælandi keyra þeir vinstra meginn, annars gekk allt snuðrulaust fyrir sig. Eyjan er afskaplega falleg, mjög gróðursæl og hæðótt. Bestu vegirnir eru steyptir og þá er hægt að keyra jafnvel þó rigni. Aðrir vegir eru illa farnir eftir rigningar og þegar rignir verða þeir ófærir litlum vespum.

Við keyrðum út að jóga- og tai chi stöðinni Here and Now, þaðan er útsýnið yfir hafflötinn mjög fallegt. Þaðan keyrðum við út að Hat Sai Ree strönd og settumst í sætisrólu sem einhver hafði komið haganlega fyrir. Næst keyrðum við alveg suður eftir eyjunni og sunnar en okkar hótel, alveg að Frelsisströnd. Á leiðinni sáum við skemmtilega auglýsingu frá paint ball fyrirtæki: Shoot a friend today!

Við gerðum heiðarlega tilraun til að komast á suðaustur odda eyjunnar þar sem apagriðland er að finna. Fyrri vegurinn leiddi okkur upp bratta hlíð sem vespan réð ekki við og þar með hættum við við þá tilraun. Seinni vegurinn sem við reyndum við leiddi einnig að mjög brattri hlíð og í þetta sinn fór ég af svo Baldur og pabbi gætu spólað af stað og séð hvort eitthvað áhugavert væri handan hæðarinnar. Svo reyndist ekki vera og þar með við gáfum við upp á bátinn öll plön um að heimsækja suðausturhluta eyjunnar.

Á leiðinni heim gerði skyndilega fárviðri. Eins og hendi væri veifað tók að blása svo mjög að ég varð að halda derhúfunni og gleraugunum á nefinu á Baldri, umferðaskilti valt um koll og því næst opnuðust himnarnir og steyptu yfir okkur regningu. Á nokkrum augnablikum var orðið ófært vespunum okkar og við orðin hundblaut. Við fundum lítið skýli við veginn og meðan ég kleif upp þrepin til að koma mér í var skall grein af pálmatré rétt við fætur mínar svo ég hrópaði upp fyrir mig. Sem betur fer slapp ég inn í skýlið heil á höldnu, en þarna skall grein nærri hælum!

Við biðum af okkur hitabeltisstorminn í tuttugu mínútur og hættum okkur ekki út fyrr en stytt hafði verulega upp. Þá var mér líka orðið ansi kalt af því að sitja kyrr í votum klæðum og var fegin að geta brunað heim á leið. Það var samt ógeðslega gaman að lenda í svona fárviðri.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

Koh Tao

Í gærkvöldi stigum við upp í tveggja hæða næturrútu og var ferðinni heitið suður frá Bangkok til að ná ferju um morguninn út í Skjaldbökueyju eða Koh Tao upp á tælensku. Öll vorum við spennt fyrir því að ferðast á annarri hæð svo langa leið enda ekkert okkar farið nema stutta vegalengd í breskum strætisvagni áður.

Ekki veit ég hvort spenningurinn hafi svipt okkur svefni en eitthvað var það því ekki kom mér dúr á auga og svipaða sögu er að segja um samferðarfólk mitt. Góður matur á flippuðu vegaveitingahúsi um hánótt gerði geimið allt miklu bærilegra, alltaf betra að vera andvaka með mettan maga.

Þegar við stigum á land hér á Skjaldbökueyju í morgun vorum við öll svolítið sjúskuð og þreytt en náðum að fá tvo böngalóa með samliggjandi svölum leigða og voru sturta og lúr vel þegin. Útsýnið er fallegt nótt sem nýtan dag og er ég viss um að Paradís líti einhvern veginn svona út.

Skjaldbakan er oft kölluð perla Tælandsflóa og fyrstu kynni gefa manni augljóslega hugmynd um hvers vegna. Hún er pínulítil, 21 ferkílómetri, og hér búa nokkur þúsund manneskjur sem allar byggja líf sitt að einhverju leyti á stríðum ferðamannastraumnum, hingað koma 100.000 stykki árlega. Það sem eyjan er sennilega þekktust fyrir eru köfunarskólar en þeir eru á hverju horni og því auðvelt að nálgast hinn alþjóðlega PADI stimpil.

Á árum áður var Skjaldbökueyja óbyggð og ekki hræðu að sjá nema vera skyldi fiskimaður að bíða af sér storm eða slæman sjó. Árið 1899 sá þáverandi konungur þó ástæðu til að heimsækja staðinn og slá eign sinni yfir hann. Hann setti merki sitt á klett og mætir fólk þangað til að sýna gamla kónginum virðingu með tilbeiðslu og öllu tilheyrandi.

Ekki gerðist mikið á eynni fyrr en 1933 en þá opnaði ríkið fangelsi fyrir pólitíska fanga. Það var starfrækt í fjórtán ár en þá var allt liðið náðað og fangelsinu lokað. Sama ár sigldu hingað tvíburabræður frá Koh Phangan ásamt fjölskyldum sínum og hófu búskap, jafnvel þótt eyjan væri eign konungsins setti hann ekki út á þetta atferli. Í kjölfarið byggðist eyjan hægt og sígandi upp og sprakk svo út þegar ferðamenn uppgötvuðu hana og er enn mikill uppgangur í öllu og nú hafa þrír ferðamenn í viðbót uppgötvað staðinn.

þriðjudagur, 7. ágúst 2007

Konungshöllin í borginni

Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilegan boðskap: ég er orðin rólfær!

Við biðum ekki boðanna heldur fóru strax í bæjarferð enda margt að sjá í Bangkok sem við höfum enn ekki barið augum. Að þessu sinni ákváðum við að skoða Grand Palace, eða konungshöll Tælendinga, sem er í næsta nágrenni við Banglamphu, hverfið sem við gistum í.

Við ákváðum að hvíla okkur á leigubílum í dag enda höfum við nýtt okkur þjónustu þeirra óspart undanfarna daga til að snarast með bilaðar tölvur og vælandi myndavélar til raftækjahjúkkunnar. Að þessu sinni tókum við ferju frá Pra Athit höfn og sigldum um Mae Nam Chao Phraya ánna sem leið lá niður að lendingarstaðnum sem stendur næst konungshöllinni. Ferðin um ánna var stutt en engu að síður verulega skemmtileg.

Þegar í höllina var komið urðum við að gjöra svo vel og fá lánuð föt til að mega spóka okkur um grundir hallarinnar. Strákarnir fengu lánaðar bláar æfingabuxur og ég fékk þá allra hrikalegustu blússu sem sögur fara af. Svona til fara áttum við að heimsækja höllina og hof hins emeraldgræna Búdda, ósmekkleg að okkar mati en greinilega siðleg að mati Tælendinga.

Aðalaaðdráttarafl konungshallarinnar er þetta fyrrnefnda hof og augljóst er að mestu púðri hefur verið eytt í byggingu þess og stúpanna í kring. Umhverfið minnti um margt á konungshöllina í Phnom Penh en hér er þó mun meira um gull: gullveggir, gullstyttur, gullsúlur, gullskreytingar, gullaltöru. Mergjað!

Ef það var ekki gullið sem glóði voru það byggingarnar sjálfar sem vöktu athygli okkar, dásamlega fallegar að sjálfsögðu og framandi þar að auki. Skrúðgarðarnir með dýrastyttum settu síðan punktinn yfir i-ið. Eða voru það appelsínuklæddu munkarnir sem stóðu og tóku myndir af hver öðrum? Eða var það lótusblómið og heilaga vatnið í hofinu sem pabbi blessaði sig með? Erfitt val...

Við vorum með seinustu gestum út úr hallargarðinum en strákarnir höfðu augljóslega ekki fengið nóg af konunginum því þeir tóku stefnuna beint á næsta sölubás með gula konungsboli til sölu og keyptu sér sitthvora flíkina. Þeir gerðu sér lítið fyrir og snöruðu sér í bolina á staðnum enda ekkert vit í öðru. Þegar maður á konungsbol í farteskinu blikknar allt annað í samanburði :o)

Við kveðjum Bangkok í kvöld, klukkan níu tökum næturrútu til eyjarinnar Koh Tao í Suður Tælandi, verðum í svokölluðum VIP vagni sem er tveggja hæða og skræpóttur. Og alveg örugglega, örugglega mjög loftkældur. Sokkar og peysur eru komnar í handfarangurinn, engar áhyggjur.

Glöggt er gests augað

Loksins fæ ég að blogga á netinu. Ásdís og Baldur hafa nebbilega leyft mér að vera gestabloggari í dag, líklega eru þau orðin þreytt á þessu sjálf. Takk fyrir það.

Þar sem ég er í fyrsta skipti í Asíu verð ég að segja að nánast allt virkar mjög framandi á mig. Það er þó aðallega fólkið sjálft sem kemur mest á óvart. Allir eru sífellt í góðu skapi og alltaf brosandi. Þegar betur er að gáð og maður fer aðeins að kynnast fólkinu er það auðvitað misjafnlega glatt frá degi til dags, en aðallega eru allir mjög kurteisir og jákvæðir. Þetta sama virðist vera hjá öllum, jafnt þeim bláfátækustu til allra hinna. Þegar við Baldur gengum um það hrikalegasta fátækrahverfi sem til er á jörðinni heilsuðu allir og buðu okkur velkomna. Sabadde kap.

Börnin eru líka alveg ótrúleg, alltaf glöð. Það vantar kannski bæði skóna og fleira, en þau syngja bara í staðinn og brosa. Valkvíði Vesturlandabúans er alveg fjarri, heldur er fókusinn hér á einfaldleikann. Semsagt hugsunarháttur fólksins hér er allt öðruvísi en ég á að kynnast.

Að deginum okkar í dag. Við byjuðum á því að fara í vinnuna, eins og Baldur kallar það. Við fórum semsagt niður í Acer að sækja blessaða tölvuna í síðasta sinn. Núna erum við búin að læra að spara okkur hluta af hinu hrikalega umferðaröngþveiti Bangkok með því að bjóða leigubílstjórunum að fara hraðbrautina og við borgum gjaldið. Þetta sparar klukkutíma og við svífum yfir borginni á hraðbraut sem byggð er á stólpum. Allt þetta kostar 40 Bat = 80 ísl. kr. en sparar klukkutíma. Bílstjórarnir fóru hiklaust í öngþveitið til að spara peninginn.

Undir hraðbrautinni þrífst allskonar starfsemi svo sem opnar verslanir, veitingasala og hvaðeina. Einnig sá ég róluvöll undir hrauðbrautinni við hliðina á neðri götunni. Ekki leyft heima reikna ég með. Hér er allstaðar fólk. Í öllum skúmaskotum, undir brúm, uppá þökum, allstaðar krökkt af fólki.

Leigubílaviðskiptum dagsins lauk að mestu með umræðum við kjúklingasölumann sem var að keyra leigubíl á milli starfa. Hann vildi fara með okkur dagsferðir hingað og þangað og kostaði dagurinn fimm þús ísl.kr. frá morgni til miðnættis.

Eftir að hafa farið með myndavélina til viðgerðar í einn turninn fengum við að vita að hæpið væri að það borgaði sig að gera við gripinn. Við enduðum með að fara i annan turn, 64 hæða Lebua hótelið nálægt Lumpini Park til að fá okkur snarl og sjá útsýnið. Ekki vantar glæsilegu háhýsin í borginni og eru þau sú allra glæsilegustu sem ég hef séð. Þegar upp var komið með lyftunni var okkur auðvitað vísað frá, þar sem við vorum klædd eins og villimenn, í stuttbuxum og sandölum. Hér skal fólk vera dísent. Við fengum þó að skoða útsýnið yfir Bangkok hjá ofurkurteisri sætavísunni.

Konungsdagur er í dag, það er að segja mánudag, en þá klæðast margir hér gulu til að sýna konungshollustu sína í verki, sérstaklega bolum eða slíku. Einhver órói er samt til staðar, enda ríkir hér herstjórn í skjóli konungsins. Þegar við komum úr turninum brutust skyndilega út óeirðir framan við turninn á milli einhverra hópa og hlupum við aftur inn eins og hræddir krakkar og fylgdumst með látunum frá Starbucks kaffihúsinu sem fékk svo óvænt nýja íslenska viðskiptavini. Loftkælingin var þó slík að við urðum að flýja fram á gang vegna ofurkælingarinnar.

Við tókum Skytrain á Siam torgið og fundum þar japanskan veitingastað með matseðill upp á tæpa 300 rétti. Allir voru þeir hver öðrum betri.

Elfar Ólason, Bangkok.

mánudagur, 6. ágúst 2007

Linsusúpa

Bangkok er ævintýraleg borg og í svoleiðis borg lifir maður ævintýralegu lífi. Í gær urðum við Elfar t.d. vitni að uppljómun í Búddahofi rétt hjá Khao San vegi. Það var engin önnur en linsan á myndavélinni sem uppljómaðist og í tilefni af því kvaddi hún þennan heim. Þrátt fyrir þetta mikla þroskaskref linsunnar er ég nú ekki lengra kominn en svo að í stað þess að samgleðjast þá saknaði ég hennar.

Í dag var þó ráðin bót á þessu máli því Elfar hafði ætlað að fjárfesta í stafrænni myndavél (óuppljómaðri) í þessari Asíureisu og með stórviðburð gærdagsins í huga var farið í veiðiferð í Pantip Plaza. Pantip Plaza er verslunarmiðstöð sem sérhæfir sig í tölvum og öðrum skyldum vörum. Þetta reyndist sannkallað myndavélasafarí með óargadýrum vopnuð míkrófónum, auglýsingum og almennum ys og þys. Skondið var að sjá litla Búddamunkahópa ganga á milli sölubása, taka bæklinga og skoða allar tölvur í þaula til að gera sem best kaupin. Ég skemmti mér konunglega og ekki spillti að hópurinn okkar kom úr kringlunni atarna með splunkunýja myndavél.

Til að koma í veg fyrir að nýja myndavélin fetaði sömu andlegu leiðina og frænka hennar buðum við henni á myndina Hairspray og talandi um að Bangkok sé ævintýraleg þá rakst einhver utan í mig meðan við röltum í bíóið. Ég pældi nú ekkert í því fyrr en mér fannst viðkomandi vera heldur lengi utan í mér og óvenjustaðfastur í að víkja ekki. Ég leit því í kringum mig til að sjá hvernig svona gaur liti út. Ekki þurfti að leita að kauða því sá eini sem kom til greina var sællegur og einstaklega sætur fílsungi. Bara í Bangkok!

Hairspray féll vel í meirihluta hópsins og var ágætt framhald af tælensku bíómyndinni sem við sáum í gær. Báðar stútfullar af tónlist, fallegu fólki og dansatriðum ýmiss konar. Ég nota bara Asíufrasann góðkunna: Same, same but different.

laugardagur, 4. ágúst 2007

Myndir frá Kambódíu

Myndir frá ferð okkar um Kambódíu eru komnar á netið, bara láta ykkur vita :o)

Sýnishorn frá Phnom Penh:Sýnishorn frá Bokor þjóðgarðinum:föstudagur, 3. ágúst 2007

Ólíkir heimar

Meðan Ásdís hvíldi sig heima í dag ferðuðumst við Elfar um nokkra ólíka heima. Fyrsti heimurinn var loftkældur leigubíll en þá er maður farinn að kannast nokkuð vel við. Annar heimurinn var þjónustumiðstöð Acer, meira um hann síðar. Þriðji heimurinn var íbúðahverfi með öllu tilheyrandi og vitanlega vorum við einustu ferðamennirnir á svæðinu. Þarna voru, eins og víða í Asíu, fjölskyldur með atvinnurekstur á neðri hæðinni og íbúð á þeirri efri. Þarna voru bílaverkstæði, hárgreiðslustofur, sjoppur og ýmislegt annað í bland.

Fjórði heimurinn leyndist svo á bakvið þetta huggulega íbúðahverfi og var það fátækrahverfi. Íbúar hverfisins tóku okkur fagnandi og fengum við tugi sabadíka og sabadíkab úr öllum áttum. Á einum stað var meira að segja tæbox veðbanki (plastdúkur á jörðinni). Miðað við önnur fátækrahverfi sem ég hef heimsótt voru aðstæður mjög góðar, rennandi vatn og rafmagn og engin skítafíla.

Fimmti heimurinn blasti svo við þegar komið var í gegnum þann fjórða: gullflúrað musteri til heiðurs Búdda. Gullflúraða musterið var vægast sagt gullfallegt og samanstóð af nokkrum byggingum og afgirtum garði. Þegar kemur að flúri eru Tælendingar að mínu mati heimsmeistarar.

Sjötti heimurinn var svo Lumphini garður en hann kannast einhverjir lesendur sjálfsagt við frá síðasta Bangkokstoppi. Þar var tekinn góður hringur, æfingar og að sjálfsögðu kíktum við í þolfimitíma. Til þess að gera ferðina asíska í gegn hossuðumst við með tuc-tuc (léttivagni) heim á hótel.

Sjöundi og síðasti heimur (sjöundi himinn) dagsins var sannarlega nýr því karldýr þessa ferðatríós gerðu sér lítið fyrir og skelltu sér bæði í hand- og fótsnyrtingu. Þetta ku hafa verið fyrsta skipti fyrir báða og því alveg kominn tími á að prófa. Öllum að óvörum var þetta ofsalega notalegt dekur og vitanlega stefnt á aðra heimsókn þegar neglurnar fara að vaxa aftur.

Þrjú spor í ilina

Þegar ég fór í mína daglegu heimsókn á læknastofuna í dag leit hjúkkan upp frá afgreiðslunni og sagði brosandi: Bad news. Ég fékk hnút í magann en reyndi að sjálfsögðu að sannfæra mig um að þetta væri tælenskur húmor sem ég einfaldlega skildi ekki.

Það kom svo í ljós að fréttirnar voru bæði góðar og slæmar, en þó miklu frekar góðar en slæmar. Sárið var búið að gróa það vel neðan frá og öll sýking horfin svo læknirinn taldi að tímabært væri að sauma fyrir það og leyfa því gróa. Það voru góðu fréttirnar. Slæmu fréttirnar voru að sjálfsögðu þær að til að sauma fyrir sárið þarf að sauma spor í ilina mína og af því var ég ekki parhrifin. Ég fékk staðdeyfingu en það var engu að síður frekar sárt að láta stinga sig með nál í sárið og finna fyrir sauminum renna gegnum götin sem læknirinn var búinn að stinga gegnum ilina.

Í heildina voru sporin aðeins þrjú og hefðu að mínu mati ekki mátt vera fleiri. Eftir aðgerðina var mér plantað inn í loftkælt herbergi pabba með ávexti, ís og drykki í ísskápnum meðan þeir tveir fóru á tölvuveiðar. Ég hafði úr að velja að horfa á sjónvarpið eða kíkja í bækurnar The secret life of bees og Water for elephants, sem sagt algjör dekurrófa.

Þegar strákarnir snéru aftur með tölvuna í farteskinu lumuðu þeir á Nelly Furtado disknum Loose fyrir sjúklinginn með sporin í ilinni, sárabætur á Saumadegi eins og pabbi kallar daginn. Eins og ég segi, algjör dekurrófa.

Af litlum hvolpi, lauki og svölum bíósal

Við byrjuðum daginn á því að fá okkur morgunmat á Oh My Cod en ég hef lagt það í vana minn að fá mér kornflögur og mjólk þar á hverjum degi. Það hljómar sem afskaplega hversdagslegur morgunmatur en þegar maður hefur ekki fengið kornflex í fleiri mánuði er eins og um kóngafæðu sé að ræða. Hvernig verð ég þegar ég kem heim og fæ Cheerious?

Með okkur í morgunmat var sá allra minnsti hundur sem ég hef augum litið. Minni en kettlingur, minni en naggrís, þó aðeins stærri en hamstur. Átta vikna og forvitinn og bræddi hjörtu okkar allra. Hann varð alveg ástfanginn af Baldri og vildi kúra í hálsakotinu og þegar Baldur lagði hann frá sér varð úr grátur og gnístan tanna.

Eftir morgunmat fóru strákarnir með fartölvuna í viðgerð og á meðan hékk ég inn á lofkældu netkaffi og lét fara vel um mig. Ég hafði ofan af fyrir mér með því að horfa á Nelly Furtado myndbönd og komst að því að hún er algjör töffari.

Í kvöld fórum við svo út í Siam Discovery Center og borðuðum á ástralska veitingastaðnum Outback. Við fengum okkur m.a. djúpsteiktan lauk og franskar kartöflur með osti en komumst að þeirri niðurstöðu að Outback í Flórída stendur sig betur á því sviði.

Við enduðum kvöldið kappklædd í bíóhúsi. Höfðum pakkað sokkum og peysum í tösku sem við snöruðum okkur í þegar inn í sal var komið, og gátum eftir það setið í rólegheitum í ofurloftkældu rýminu. Urðum að sjálfsögðu að standa upp þegar konungshyllingin rann yfir tjaldið, þó það hafi þurft að hnippa ansi oft í grandalausan ferðamanninn frá Kópavogi. Við getum óhikað mælt með bíóhúsunum í Bangkok og enn fremur mælum við með Ratatouille, hún er æði!

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

Menningaraðlögun

Menningaraðlögun Elfars gengur alveg hreint með ágætum og virðast tælenskir siðir fara einkar vel í hann eins og aðra Íslendinga. Í kvöld var tekið nýtt skref í menningarprógramminu og borðað á einum af götustöðum hverfisins. Þetta eru ákaflega einfaldir staðir að sjá, oft á tíðum eldhúsborð á hjólum með snyrtilega röðuðum plaststólum og borðum á götunni og gangstéttinni í kring.

Oftar en ekki er besta matinn að finna á þessum stöðum og var það einmitt raunin í kvöld. Yndislegir tælenskir réttir í lange baner, hver öðrum betri. Það sem þessir staðir hafa líka fram að færa er stemning sem er víst ekki hægt að framkalla neins staðar annars staðar en úti á götu í Tælandi. Tælensk menningaraðlögun ætti að mínu mati að kallast menningaraðlöðun og ekkert annað!

Eftir matinn var Ásdís borin upp á herbergi en við Elfar tókum rölt um Khao San og nokkrar hliðargötur. Eins og venjulega var stemningin lífleg og margt um manninn þó óvenju fáir tuc-tuc bílstjórar hafi reynt að koma okkur á ping-pong sýningar.

Af öðru og alls óskyldu þá prófaði Ásdís einn af yngstu þjóðaréttum Skota í dag. Eins og svo margt á matseðli þeirrar heilsumeðvituðu þjóðar innihélt rétturinn hvorki harða fitu né sykur (lesist sem öfugmæli). Þessi réttur er ekkert annað en... tromm, tromm, tromm: Djúpsteik Mars!

miðvikudagur, 1. ágúst 2007

Farokh Bulzara

Flestir á fróni kannast við hinn ágæta söngvara Queen: Farokh Bulzara, betur þekktan sem Freddie Mercury. Sumir kunna meira að segja svo vel að meta hljómsveitina og þá sérstaklega Freddie að ástæða þótti til að mæta til Óskars klæðskera og spyrjast fyrir um hvort hann gæti hrist eitthvað af litríkum fataskáp kappans fram úr erminni.

Þegar á hólminn var komið reyndist Óskar, sem er frá Búrma, ekki hafa hugmynd um hvern við værum að tala um. Ég brá á það ráð að leita uppi myndir af Freddie á netinu sem Óskar vildi ólmur prenta út, hverja á fætur annarri. Honum leist heldur betur vel á hugmyndina og lét hrifningu sína á myndunum í ljós með upphrópunum á borð við: Elegant, classic, very tasteful!

Svona hélt þetta áfram í smástund og þegar við kvöddum Óskar hélt hann ekki aðeins á myndum af Freddie heldur líka Napoleoni nokkrum Bonaparte (Napoleon var þó bara í gríni). Þar sem hungrið var eitthvað farið að segja til sín drifum við okkur á svakafínan amerískan veitingastað í miðri Bangkok og nutum veitina undir söng og spilamennsku þrælgóðs dúetts. Kom dúettinn víða við og spilaði m.a. Jack Johnson, Arlow Guthrie og Extreme. Við tippuðum þá meira að segja til að fá eitt aukalag.

Þegar við svo komum út af staðnum, södd og sæl, var fólk í óðaönn að stilla upp varningi fyrir næturmarkað. Klukkan var að skríða í miðnætti svo það er óhætt að segja að markaðurinn beri nafn með rentu. Við létum aðra um markaðinn og rúlluðum heim á leið til að lúlla í vorn haus.