laugardagur, 18. ágúst 2007

Þriðji í köfun

Þá var runnin upp stóri dagurinn. Í gærkvöld var ég að tala við Jimmy og þá sagði hann mér aðeins frá köfunarhugmyndum lokadagsins, semsagt í dag. Hann fór að tala um að vonandi næðum við að fara út á stóra kóralrifið og sjá stóra fiska í seinni köfuninni. Stóra fiska, spurði ég. Hvað meinarðu með því?, og óttaðist svarið hræðilega. SHARKS. I hope we will see some big sharks. Hákarlar. Já, takk.

Ég fraus því ég vissi að nú væri komið að því að koma upp um innbyggða hræðslu mína við þessar skepnur. Fóbía sem erfitt er að losna við svona overnight. Ég svaf nú lítið um nóttina, en endaði með því að semja við sjálfan mig um að taka fyrri köfunina og sleppa hinni og skítt veri með prófið sem við áttum síðan að fá sem fullgildir kafarar. Við þennan samning gat ég loksins sofnað. Innst inni var ég samt viss um að einhvern veginn yrði ég plataður niður í hafdýpin og fyrsta sem ég mundi mæta yrði hákarl. Mig dreymdi hákarla syndandi að mér með opinn kjaftinn alla nóttina þangað til Baldur vakti mig og við af stað.

Ekki þýðir að sína krökkunum einhvern bilbug, heldur var ég með mitt plan. Nú er siglt hraðbyri á King Kong 2 í um 40 mínútur norður af Y-eyjum. Við stoppum þar sem eru baujur og við erum út á rúmsjó á miðjum Thailandsflóa sem er, eins og allir vita, fullur af hákörlum. Þegar við stoppum eru tvö stór blá kafaraskip að færa sig yfir stóra kóralrifið sem er þarna fyrir neðan og skyndilega verður allt vitlaust um borð hjá okkur í kafarahópnum. Franski köfunarkennarinn kom öskrandi niður af þakinu á bátnum og öskraði á liðið hvers vegna enginn væri komin útí. Nú færu allir hákarlarnir fyrst stóru bátarnir væru komnir að fæla þá í burtu.

Það merkilega skeði að allt liðið gusaðist úti á methraða til að missa nú ekki af því að verða étin af hákörlum. Þegar ég stóð eftir einn um borð og Ásdís og Baldur voru komin útí líka sá ég að ekki var um annað að ræða en henda sér útí. Þegar útí var komið var haugasjór og maður hentist upp og niður þangað til maður lét sig sökkva í hafdjúpið þarna úti. Þetta var allt annað en að kafa við stöndina, hér var hyldjúpt undir og ég horfði niður í myrkrið.

Þegar ég er kominn dálítið niður eru vandræði með gleraugun, full af vatni. Ég fer aftur upp og Jimmy með og skiptir við mig. Hann fer strax niður í djúpið en ég held áfram að laga gleraugun og það reddast. OK. Ég er orðinn einn þarna uppi og læt mig súnka niður og á 5 metrum byrja ég að synda að kóralrifinu, þar sem allir eru. Þá kemur risastór gullfiskatorfa syndandi í gegnum mig á sprettinum, glæsileg sjón. Svo skeður það, eftir torfunni kemur ekkert annað en hákarl og stefnir beint á mig kvikindið.

Mér til mikillar furðu var ég alveg sallarólegur og hélt mínu stiki og synti beint áfram. Ég horfði á hann og sá fegurðina. Hann var eins og einkaþota, með stél og vængi, nema flugmannsklefinn á kvikindinu er neðan við trjónuna. Sjálfur skolturinn. Mér leið eins og þegar maður kemur að laxahyl, maður byrjar bara að telja laxana. Ég hugsaði einfaldlega: þarna er einn. Þetta var þá ekki meira mál eftir allt saman.

Hákarlinn synti nú ekki beint á mig heldur til hliðar og mættumst við þarna í dimmu djúpinu án frekari viðkynningar, sem betur fer. Hann synti sína leið og ég mína. Þegar ég náði liðinu voru þau að sökkva sér nógu djúpt til að sjá kvikindin, og að endingu vorum við komin niður á 26 metra dýpi, en við vorum víst að taka próf sem gefur réttindi til hámark 18 metra dýpi. Þegar ég hafði sokkið svona djúpt gaf ég Ásdísi merki um að hækka sig og Jimmy fór með okkur í 20 metrana. Þar var hákarl að synda við hliðina á Baldri og uppað honum og einn var undir Ásdísi en ekki sýndu þeir okkur neinn áhuga.

Kóralrifið sjálft er mjög stórt, tugi metra á hæð og langt eftir því. Eftir að ég var komin í 50 bar af lofti, sem er lágmark, gaf ég Jimmy merki og við fórum upp. 28 mínútna hákarlaköfun hafðist upp úr þessu. Eftir þetta var stímt upp að Y-eyjum og lagt þar upp við bauju. Þessar þrjár eyjar eru gullfallegar og á milli þeirra hefur myndast sandstönd sem tengir þær saman í Y. Þar náðum við 45 mínútna köfun við ótrúlega falleg kóralrif. Þetta var eins og að synda í risagullfiskabúri. Fiskar í öllum regnbogans litum. Við vorum á um 12 metra dýpi, sandurinn undir var ljós og birtan því næg.

Eins og mig grunaði glönsuðum við í gegnum skriflega prófið hjá Jimmy, þegar í land var komið. Öll með yfir 9 og stóðum uppi með prófið um kvöldið. Góður dagur eftir allt og ég var laus við hákarlafóbíuna.

Elfar Ólason, Ko Tao

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elskurnar til hamingju með köfunar prófið!! Nýji sögumaðurinn er held ég að slá ykkur við í góðum sögum, en um að gera haldið öll áfram að blogga svona skemmtilega
Ykkar
Stjáni

Unknown sagði...

Óska ykkur öllum til hamingju með köfunarskírteinin! Þetta hefur greinilega verið alveg frábært námskeið.

baldur sagði...

Takk, takk! Jú námskeiðið var alveg frábært, óhætt að segja það.

Ánægjulegt að heyra að nýi fréttaritarinn slái í gegn, sjálfum þótti mér æðislegt að fá ferskan gust inn á bloggið.

Nú bíð ég bara spenntur eftir bloggsíðu Elfars ;)