Í morgun mættum við öðru sinni í köfunarskólann og fengum að fara aðeins meiri köfunarferð en í gær. Til fylgdar við okkur fengum við eiganda skólans, Dave, og nokkra nemendur frá háskóla í Bangkok sem þangað voru komnir til að rannsaka ástand kóralla á svæðinu.
Við fórum í tvær kafanir og var lífríkið mun litskrúðugra en í gær. Þessar kafanir voru fullgildar kafanir, sú fyrri niður á 9m dýpi en sú seinni á 12m dýpi. Eitt af því fallegasta sem við sáum var fiskur sem kallaður er Titan Trigger Fish en Jimmy, kennarinn okkar, truflaði mig í því glápi með því að vísa okkur með rólegum handahreyfingum burt frá fiskinum.
Þegar upp á yfirborðið var komið sagði hann okkur að nú væri fengitími hjá þessari tegund og því væru þeir varir um sig (lesist varasamir). Ég var líka ekki alveg viss hvernig ætti að bregðast við þegar hann stímdi að mér á fullri fart en nú veit ég að ég brást víst rétt við, halda kyrru fyrir og fara svo rólega í burtu meðfram botninum.
Þar sem ég var ekki með myndavélina tók ég þessa að láni frá wikipediu en hún er af nákvæmlega eins fiski og þeim sem varði hreiður sitt af svo mikilli hugprýði eða eins og Jimmy orðaði það: How would you react if someone came into your living room like that?:
Á ekki bara að sópa þessum köfurum undir teppið?
Köfunarferðirnar voru ekki eingöngu skemmtikafanir því við lærðum líka ný trix og ber þar helst að nefna buddy breathing. Þetta er eitt af því sem gæti þurft að nota þegar kafari gefur hinum merki um að hann vanti loft. Sá sem fær merkið dregur þá að sér andann, tekur út úr sér öndunarbúnaðinn og leyfir hinum að anda tvisvar og svona gengur það koll af kolli meðan vandamálið er leyst eða þangað til báðir eru komnir á öruggan stað á yfirborðinu. Við stóðum okkur með prýði en það verður samt að viðurkennast að fyrst finnst manni nú ekkert voðalega notalegt að þurfa að taka lífæðina út úr munninum.
Ekki voru teljanleg vandræði í köfununum fyrir utan míglek gleraugu Elfars. Við slíkar aðstæður þarf sífellt að tappa vatni af gleraugunum og getur það verið þreytandi á miklu dýpi. Lesendur velta því vafalaust fyrir sér hvernig hægt sé að tæma gleraugun neðansjávar en það er einfaldara en það hljómar. Maður hallar höfðinu einfaldlega aftur, lyftir gleraugunum lítið eitt og blæs kröftuglega út um nefið. Í seinni köfununni lánaði Jimmy Elfari gleraugu úr einkasafni sínu og var vandamálið þar með úr sögunni.
Eftir sjóvolk og samkvæmisdansa við Trigger fisk hefði nú verið notalegt að fá sér gott í gogginn og beint að sofa. Það var hins vegar ekki uppi á tengingnum því á morgun er próf og nóg var okkur sett fyrir af heimaverkefnum.
1 ummæli:
Vá... það má greinilega lesa öfund úr augum okkar hér á kaaalda klakanum... þetta er bara brill hjá ykkur! Biðjum agalega vel að heilsa - Kv., Siggadís JB
Skrifa ummæli