fimmtudagur, 16. ágúst 2007

Fyrsti í köfun

Í gær skráðum við okkur á köfunarnámskeið hjá köfunarskólanum New Heaven. Í dag var fyrsti dagurinn af þremur og mættum við snemma upp í skóla í morgun, nýgreidd og spennt. Leiðbeinandinn okkar, Jimmy, er mjög afslappaður og þægilegur einstaklingur sem átti auðvelt með að ná til okkar með fasi sínu.

Áður en við lögðum í’ann út á sjó fór hann yfir þau atriði sem hann ætlaði að kenna okkur þegar út í sjó væri komið. Við urðum líka að máta blautbúninga og froskalappir og pakka þeim í töskurnar okkar. Við fórum því næst á pallbíl út að höfn, klifum þar niður nokkur þrep með níðþungar töskurnar undir búnaðinn og út í langbát sem ferjaði okkur út í King Kong II, stærsta bát köfunarskólans. Þar um borð var allt fullt af köfunarkútum, kennurum og taugaveikluðum nemendum.

Við byrjuðum á því að setja græjurnar saman eftir kúnstarinnar reglum: opnuðum fyrir loftkútana og athuguðum loftþrýsting og loftbirgðir, skoðuðum O hringinn, tengdum því næst öndunargræjurnar (regulator) við loftkútinn og að lokum festum við uppblásanlegt vestið (BCD) við loftkútinn. Við urðum líka að setja saman lóð á belti sem kafarar nota til að stjórna því betur hvernig þeir fljóta í vatninu.

Þegar við vorum komin í blautbúningana og lóðabeltið (mitt var 4 kg) smelltum við okkur í vestið og prufuðum hvort öndunarbúnaðurinn virkaði. Þegar ég steig upp af bekknum með loftkútinn á bakinu hélt ég að hnén myndu gefa sig, svo þungur er búnaðurinn. Með þetta ferlíki á bakinu, beltið um mittið, í þröngum blautbúningi og uppblásnu vesti átti maður að valsa um vaggandi bátinn í leit að froskalöppum og grímu. Ég hélt ég myndi kafna eða kannski æla, ég gerði þó hvorugt.

Þegar Jimmy var búinn að fara yfir hvernig maður ber sig að því að koma sér út í vatnið tók hann eitt skref og búmm!, hann flaut í sjónum. Við vorum næst: gríman á andlitið, öndunargræjan upp í munn eins og stórt snuð, hægri hönd yfir grímunni og vinstri hönd á lóðabeltinu. Og svo eitt stórt skref út af bátnum... ég öskraði í gegnum öndunargræjuna þegar ég féll í sjóinn en áður en ég vissi af var ég farin að anda í gegnum snuðið og flaut makindalega í sjónum.

Fyrsta lexían okkar var þrýstijöfnun, þ.e. kyngja eða blása reglulega lofti inn í eyrun í kafi til að létta á þrýstingnum. Við létum okkur sökkva ofan í sjóinn niður á sex metra dýpi og ofan í kafi lærðum við að bregðast við því ef snuðið kippist út úr munninum, hvernig maður losar um vatn sem kemur inn á grímuna og hvernig maður lætur samkafara sína vita ef loftbirgðir eru á þrotum. Við lærðum líka að losna við sinadrátt úr tám (mjög praktískt) og láta okkur fljóta í kafi (mjög skemmtilegt).

Þennan fyrsta dag köfuðum við rétt undan sólarströnd, í lygnri vík. Köfunin var mjög auðveld í vatninu og ég var fljót að komast yfir agnarögn af skelfingu sem ég fann fyrir á allra fyrstu augnarblikunum. Eftir það naut ég þess í botn að vera í kafi og átti auðvelt með að framkvæma allar æfingarnar. Köfunin fór að verða erfiðari þegar við komum í land og Jimmy afhenti okkur námsefnið: Úbbs! Þykk bók á þremur dögum, takk fyrir. Þrír kaflar þetta fyrsta kvöld. Við litum á hvort annað með smá skelfingu í augum.

Við tókum stefnuna á ítalska veitingastaðinn La Matta niðri við höfnina og sátum þar sveitt yfir lærdómnum eins og menntskælingar að læra undir stúdentspróf, með pizzu á borðinu og allt og litum varla upp úr bókunum.

Engin ummæli: