Við tókum kajak á leigu í dag og fórum í smá dagsferð um öldurnar og bárurnar hér utan við Koh Tao. Ég varð að sjálfsögðu að gæta fyllstu varúðar með fótinn og fór því til hjúkkunnar minnar sem smellti á mig vatnsheldum plástri og góðum umbúðum: Tada!
Strákarnir voru búnir að kynna sér kajakana í nágrenninu og gerðu sér því grein fyrir því út í hvað við vorum að fara. Það gerði ég ekki. Ég var til að mynda sú sem var ólm í að taka myndavélina með í för, hugsunin var einhvern veginn svona: til hvers að sigla um hafflötinn og flatlendið og frysta þá upplifun ekki í tíma?
Þegar út á sjó var komið var ég hins vegar guðs lifandi fegin að hafa ekkert flóknara með í för en pilsið utan á mér og snorkgræjurnar til fóta. Sjórinn svoleiðis óð inn í kajakinn, við náðum ekki einu sinni að segja Sko okkur! áður en við vorum orðin rassblaut. Sem betur fer var sjórinn ótrúlega heitur svo það var bara notalegt að sitja í polli.
Þar sem árarnar voru aðeins tvær sat ég fyrir miðju eins og róni í ringulreið á meðan strákarnir réru eins og þrælvanir róðrakappar. Þegar við komum út úr víkinni sigldum við fyrir höfða, hann prýðir óskaplega falleg klettamyndun. Við sigldum inn nágrannavíkina sem heitir hinu aðlaðandi og viðeigandi nafni Hákarlavík. Þar réru strákarnir í land, drógu kajakinn upp að skugga trés og því næst tróðum við okkur í froskalappir og snorklgræjur. Í Hákarlavík er nefnilega mikið af kóral í miklum grynningum og kóralinn er auðvelt að skoða með því að snorkla þar um kring.
Það gekk frekar upp og ofan að snorkla í Hákarlavík en góðu fréttirnar eru þær að við sáum enga hákarla. Við vissum ekki einu sinni að hákarlar væru tíðir gestir þar um grundir, ætli við hefðum lagt af stað eins kát í bragði í kajakför hefðum við vitað það? Efast um það. Við sáum hins vegar mikið af litríkum smáfiskum sem ég kalla bara Nemofiska, og svo má ekki gleyma ígulkerjunum sem ég vildi ekki stíga á. Það getur verið hægara sagt en gert að forðast þau þegar maður fær sinadrátt í tærnar og er við það að drukkna af sjó í munnstykkinu en það hafðist þó. Held samt að ég hafi stigið á eitthvað sem líktist sjávarsnigli, skúsa mía.
Kajakferðin var ekki bara velheppnuð dagsferð heldur einnig lærdómsrík og góður undirbúningur fyrir morgundaginn. Þá förum við nefnilega í okkar fyrstu köfun. Djeddjað!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli