fimmtudagur, 20. febrúar 2003

Ritgerðarskrif

Þessi önn fer í það að skrifa B.A. ritgerðina mína og hef ég nú þegar hafist handa. Reyndar hefur undirbúningur staðið yfir frá því í sumar því þá byrjaði ég á fullu að safna heimildum. Hins vegar gengur ekki eins vel að skrifa og að safna heimildum, ég þreytist mjög fljótt og missi áhugann enda gerir maður fátt annað en að sitja við tölvuna allan daginn. Ég myndi þó ekki segja að mér miði ekkert áfram því á þriðjudaginn skilaði ég inn uppkasti að fyrsta kafla en hann er um sögu fólksflutninga til Evrópu.

Eftir þessa törn var kominn tími á smá verðlaun og þar sem ég átti inneignarnótu í Mál og menningu fór ég rakleitt þangað enda er það uppáhaldsbókabúðin mín. Þessa dagana er afsláttur af enskum bókum en ég nýtti mér það þó ekki í þetta skiptið heldur keypti ég bókina um Fridu Kahlo á helmingsafslætti og las hana á augabragði. Mæli pottþétt með henni, sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af suður amerísku sögusviði.

föstudagur, 14. febrúar 2003

Pennaleti

Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur verið latur við dagbókarskrif, en hér kemur smá öppdeit. Undanfarna daga hef ég verið að læra og lyfta. Lyftingarnar ganga mjög vel en lærdómurinn er ekki alveg á sama kalíberi. Þannig er nú það... Annars er allt alveg ágætt að frétta, bæ.

föstudagur, 7. febrúar 2003

Matarboð

Í gærkvöldi var stórt og veglegt matarboð í Hrauntungunni. Sem lystauka (forrétt) notuðum við matarlykt þar sem hún tekur ekkert pláss í maga, í aðalrétt var einfaldur pottréttur frá Asíu ásamt eggjum og að lokum var snæddur evrópskur eftirréttur. Svaka fínt! Það sem gerðist samt í raunveruleikanum var að við buðum Kjartani vini vorum í soðin hrísgrjón og egg og snæddum vínber í desert.