þriðjudagur, 15. nóvember 2005

Hressingarganga

Rétt áðan skrapp ég í hressingargöngu. Veðrið var sérstaklega fallegt og frískur haustvindur blés framan í mig. Ég gekk inn götu þar sem lögreglumenn voru að æfa og hinum megin var leikskóli. Þegar ég gekk framhjá honum spurði lítil stelpa mig hvort ég væri lögga. Í stað þess að svara vinkaði ég henni brosandi því annars hefði ég ábyggilega misst löggutitilinn.

Áfram gekk ég í rólegheitum og stoppaði hjá einum af grænmetissölum hverfisins til að kaupa vínber. Meðan ég tíni þau í poka kemur blaðskellandi náungi að mér og skil ég ekki orð. Ég segi honum það og tjáði hann mér að það væri nú bara í góðu lagi. Við spjölluðum svo lítillega um veðrið.

Á leiðinni heim sá ég gaurinn aftur nema nú var hann að fara inn í húsið sitt en vinkaði mér að sjálfsögðu áður en hann hvarf inn. Það er hressandi að fara í hressingargöngu þegar maður býr í litríku hverfi.

Engin ummæli: