Við vorum dugleg að hafa ofan af fyrir okkur í síðustu viku. Kannski er réttara að segja að sjónvarpið hafi haft ofan af fyrir okkur því téð afþreying var í formi kvikmyndagláps.
Á eftirminnilega miðvikudegi horfðum við á hina óviðjafnanlegu og sískemmtilegu Grease sem við höfðum orðið okkur úti um í barnadeild grenndarbókasafnsins. Ég hef örugglega séð þessa mynd oftar en hundrað sinnum, sumarið 1994 var ég til að mynda með hana í láni og horfði á hana nokkrum sinnum í viku. Þó svo að ég hafi breyst á þessum áratug síðan ég sá hana síðast fannst mér hún jafnskemmtileg og áður og svo kunni ég enn textana við öll lögin!
Á föstudagskvöld var ákveðið að hafa kósýkvöld og því röltum við út í grenndarræmuleiguna og tökum tvær á 50. Í þetta sinn urðu myndirnar Garden State og The Bourne Supremacy fyrir valinu. Eins ólíkar og þær nú eru voru báðar það sem kalla mætti góð afþreying. Ég mæli meira að segja með þeirri fyrrnefndu, mjög hlý og hugljúf en líka ponku skrýtin og klikk.
Af afþreyingarefni sem völ er á frá kvikmyndum vorum við sem sagt komin með söngleik, gamandrama og spennumynd. Hverskonar sjónvarpsmaraþon væri þetta ef draugaganginn vantaði? Við horfðum því á alla fyrstu seríuna af Riget og sátum límd við skjáinn á meðan.
Þessu glápi lauk síðan í gær á léttum nótum þegar við horfðum á Monsters, Inc. Það er ein af mínum uppáhaldsteiknimyndum því hún fær mig til að hlæja mig máttlausa.
Og munið svo: að horfa á kvikmynd er góð skemmtun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli