laugardagur, 29. nóvember 2003

Jólastúss

Hið árlega jólastúss var tekið með trompi í dag. Við fórum í heljarinnar verslunarleiðangur í Kópavoginn, Smárann og Smáralindina nánar tiltekið, og keyptum nokkrar jólagjafir, fengu hugmyndir að enn öðrum gjöfum, keyptum svo jólapappír, borða og hnotur (sem Baldri finnst afskaplega fyndið orð).

Svo fórum við niður í geymslu (yndislegt fyrirbæri) og náðum í jólahjólakassana sem geyma allt jólaskrautsdótið okkar. Rétt í þessu vorum við að klára að setja upp jólaseríuna og þökk sé sogtöppunum sem keyptir voru í fyrra varð ekki um neinn pirring að ræða við að setja upp blessuð ljósin. Því er stofan okkar núna böðuð marglitri birtu og eldhúsið er sem áður rauðglóandi.

Og núna kemur að verðlaununum fyrir að standa okkur svona vel í dag: Jarðarber og bláber með miklum rjóma á meðan við horfum á hina frábæru grínmynd Christmas Vacation með Chevy Chase. Ohh, það verður sko gaman!

Einn góður

Dyggasti lesandi dagbókarinnar sendi okkur þennan brandara áðan. Ég má til með að droppa honum á netið.

Nonni litli er í sjötta bekk grunnskóla. Dag einn var samfélagsfræði og þá spurði kennarinn hvað feður þeirra störfuðu.

Börnin svöruðu eins og þeim er lagið: Pabbi minn er lögga, brunaliðsmaður, skrifstofumaður, vinnur í verslun og svo framvegis. En kennarinn tók eftir því að Nonni litli var óvenju hljóður og lét lítið fara fyrir sér.

Hvað gerir svo pabbi þinn, spurði kennarinn Nonna litla.

Hann dansar nakinn fyrir framan karla á öllum aldri á veitingastað á kvöldin og á næturnar. Svo græðir hann fullt á því að fara með þeim áhorfendum sem best bjóða út í portið á bak við veitingastaðinn þar sem hann dansar einkadans fyrir þá í nokkrar mínútur.

Kennarinn varð eðlilega mjög undrandi yfir svari Nonna litla og í miklu fáti skipaði hann hinum krökkunum að fara að lita, en Nonna litla tók hann afsíðis.

Er þetta alveg satt sem þú sagðir um hann pabba þinn ... dansinn og allt það? Nei, nei, sagði Nonni litli feiminn. Pabbi vinnur hjá Kaupþingi-Búnaðarbanka en ég þorði sko alls ekki að segja það fyrir framan hina krakkana.

fimmtudagur, 27. nóvember 2003

Me like

Áðan hringdi Ásdís í mig og sagðist vera komin heim. Ég var steinhissa því hún hafði ætlað að droppa við hjá mér.

Nú er ég kominn heim og mér líkar vel við jólapúkann Ásdísi.

Þjófstartað

Ég er nú meiri púkinn. Ég sagðist ætla að koma við upp í Odda á leið minni heim frá Bókhlöðunni svo við Baldur gætum verið samferða heim. Í staðinn arkaði ég bara beint heim og setti upp litla, míni jólaseríu. Já, ég veit ég ætlaði að bíða þar til á morgun en ég bara gat það ekki!

Ég setti litla, sæta, rauða seríu á eldhúsinnréttinguna og nú rauðglóir eldhúsið í skammdeginu. Mjög kósý. Nú er bara að sjá hvað Baldri finnst, hann veit nefnilega ekki af þessu þjófstarti mínu ennþá. Ætli hann sé tilbúinn að fara í jólaskap eins og ég?

Enn að

Enn er unnið að lausn reikningshaldsverkefnisins. Hvernig ætli það sé að vera hugmyndaríkur jarðvöðull? Ég varpa þessari spurningu einfaldlega til að nota þetta sérdeilis svala orð.

Ég er ekki alveg viss um hvað reikningshaldskennarinn minn, hann Bjarni, átti við en ég held hann hafi verið að tala um brautryðjendur.

miðvikudagur, 26. nóvember 2003

Styttist

Í morgun var ég að renna yfir atriði síðustu vikna í stærðfræðinni. Upprifjun. Nú er nefnilega komið að síðasta hlutaprófi annarinnar í stærðfræði og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Það styttist í kennslulok, þar með styttist í lokapróf og á eftir þeim kemur jólafríhíhí!

zzz...

Ó mig auma, ég er enn á fótum og sjáið bara hvað klukkan er! Ég er enn upp á skrifstofu á Hótel Sögu og klukkan er að ganga þrjú. Sem þýðir að ég á eftir að labba alein heim í kuldanum og myrkrinu (sniff).

Annars er ég búin með ritgerðina mína fyrir hnattvæðingarkúrsinn sem ég á að skila á morgun og það er frábær staðreynd sem ég fíla :) Það þýðir að ég get strax í fyrramálið hafist handa á seinstu ritgerðinni minni :( - ekki svo skemmtileg tilhugsun. Jæja, ég get huggað mig við það að þegar henni er lokið má ég byrja að jólaskreyta og ef það er ekki huggun harmi gegn þá veit ég ekki hvað.

Úpps, klukkan meira gengin í þrjú, best að haska sér af stað út í þetta hvíta, kalda, mjúka... hvað kallast þetta aftur? Mér hefur verið tjáð að þetta hafi ekki sést á götum eða himni borgarinnar síðan á síðustu öld. Einhverra hluta vegna er ég farin að syngja jólalög. Jæja, og nú heim!

þriðjudagur, 25. nóvember 2003

Ritgerð, ritgerð og... jú ritgerð

Læt loks í mér heyra. Hef verið ansi upptekin þessa önn enda fyrsta önnin í meistaranámi svo það er vissara að hafa nóg fyrir stafni, annars er eitthvað mis :)

Hef setið sveitt (ja... kannski smá ýkjur) við undanfarna daga að klára ritgerðir eins og þorri annarra háskólanema geri ég ráð fyrir. Kem til með að skila þeirri fyrstu eftir nákvæmlega 27 mínútur og er sátt við hana. Á morgun á svo að skila annarri ritgerð (ekki búin með hana) og á föstudaginn rétt fyrir kl. 11 að morgni verð ég laus allra mála vona ég þegar seinasta ritgerðin rennur úr hlaði.

Jæja, læt þetta duga í bili af námsfréttum - vonandi heyrið þið aftur í mér fyrir jól!

mánudagur, 24. nóvember 2003

Hrappur og Skellur

Þessa dagana er ég að vinna í síðasta skilaverkefni annarinnar. Verkefnið er í reikningshaldi og tryggir manni próftökurétt auk þess að vera ágæt æfing.

Ekki eru viðskiptamennirnir í verkefninu félegir. Fyrirtækin heita t.d. Hrappur, Skellur og Sandkastalinn. Ekki þarf að spyrja að því að Hrappur ehf. skuldar mér. Í Lögbirtingarblaðinu var hann svo listaður upp ásamt öðrum vandræðagemsum og kom þar fram að engar eignir hefðu fundist í búinu að lokinni skiptameðferð. Eru þetta einhverjir Glistrup gæjar? Hrappur, ef þú lest þetta þá skaltu vita að enginn svíkur Baldur í Líf og leik ehf. Enginn!

Þetta var aðeins hættulaust útsýnisflug. Vonandi voru allir með beltin spennt en hafi einhverjar les-endur orðið fyrir óþægindum undanfarnar tvær mínútur eru þær beðnar velvirðingar. Það sem við flugum yfir var hin sandblásna og sýrubaðaða eyðieyja Reikningshald 1. Vonandi nutuð þið ferðarinnar, takk fyrir.

laugardagur, 22. nóvember 2003

Ýmislegt

Allt gott af okkur. Keyptum tölvu í gær, alltaf gaman að fá eitthvað nýtt. Þessa dagana höfum við verið dugleg að fá okkur eitthvað nýtt, fengum okkur líka smá kommóðu í ganginn og nýja mottu. Þannig að síðan ég bloggaði síðast hef ég lítið gert annað en að læra og eyða, djók.

Þetta er fínt allt saman. Er að verða búinn í vinnunni, smá trafík hér í dag, fólk duglegt að vinna. Gott hjá því. Jammajammíjamm og góða nótt bara.

mánudagur, 17. nóvember 2003

Uppgjör virðisauka

Jæja, búinn með megnið af reikningshaldi dagsins. Þá er líklega best að skella sér niður á kaffistofu og smjatta á smá ma-kríli. Að öllum líkindum mun ég svo halda aftur upp stigann og gera upp fleiri vaskreikninga eða eitthvað í þeim dúr. Í dag er nefnilega reikningshaldsdagur :)

Alls engin pattstaða

Í morgun ætluðum við að fara að lyfta en hættum við. Ástæðan fyrir því var sú að þegar við stilltum vekjaraklukkurnar í gærkveldi þá gleymdum við að reikna með tíma í að hjóla því við erum ekki enn búin að fara að láta tékka á bílnum. Ekki var nú málið svo alvarlegt að við værum í pattstöðu. Nei, aldeilis ekki! Við tókum bara fram útiskóna og skelltum okkur í hálftíma kraftgöngu.

Vegna forfalla í morgun verður farið að lyfta í fyrramálið, sama hvað.

sunnudagur, 16. nóvember 2003

Harkan sex

Jæja, hálfur mánuður eftir af kennslunni. Er uppi í skóla núna eins og ég mun sennilega verða alla næstu daga. Maður verður að sýna smá úthald á endasprettinum. Er það ekki?

laugardagur, 15. nóvember 2003

Hábeinn

Í dag fótbrotnaði ég ekki (so far) og var svo heppinn að fá ekki hjartaáfall í prófi. Þetta segi ég að gefnu tilefni. Ég er svo ári jákvæður gæji.

Í gær var ég heima að læra fyrir prófið og eftir ákveðinn tíma ætlaði ég að skella mér í krossapróf á netinu. Þá ákvað tölvan að fá það sem ég kalla taugaáfall dauðans. Þar sem tölvan virkaði ekki og ég var hættur að virka að mestu leyti spurði ég Ásdísi hvort hún væri ekki til í stuttan labbara.

Hún stakk upp á sundferð og fannst mér það vera snjallræði svo við bara stukkum út í bíl og... ...hann var rafmagnslaus. Á þessu augnabliki áttaði ég mig á því að einhver eða eitthvað hlyti að hafa ansi fastmótaðar hugmyndir um að ég skyldi sitja heima og læra the good old fashion way. Svo ég bara gerði það og hafði gaman af.

Eins og fram hefur komið er ég alheill og sæll. Það eina sem hefur breyst eru aðstæður. Ég er nú almennt svo heppinn að Hábeinn heppni ætti að öfunda mig, t.d. gengur hann um allt buxnalaus og enginn bendir honum á það. Það myndi nú teljast fremur óheppilegt í voru samfélagi.

föstudagur, 14. nóvember 2003

Allt annað líf

Síðast þegar ég bloggaði þá vorum við nett. Nú erum við orðin nettari. Nettengingin hefur að vísu ekkert breyst en vinnuaðstaðan hefur batnað til muna. Undanfarið höfum við haft japanska vinnuaðstöðu, þá á ég við að til þess að hafa skjáinn í skikkanlegri vinnuhæð var gólfið besti kosturinn til setu.

Þessu kipptum við hins vegar í liðinn í gær og keyptum netta einingu sem hentar vel, sérstaklega ef manni finnst betra að sitja í stól. Nú sit ég í stól og blogga og lyklaborðið er ekki á lærunum á mér heldur á borði fyrir framan mig. Allt annað líf!

Ég er orðinn frekar þreyttur á þessari færslu þar sem bloggerinn vill ekki virka rétt. Það var einhver viðbót hér en þið missið bara af henni í bili.

mánudagur, 10. nóvember 2003

Nett

Nú erum við nett. Eins og flestir vita þá lagaði ég tölvuna okkar um helgina og nú erum við nett. Nett hvað? Þetta er nýtt slanguryrði sem ég ætla að innleiða í okkar ástkæra ylhýra mál. En hvað þýðir það?

Kommoon, það er stytting á nettengd, nettengdur og svoleiðis. Nú þegar maður er orðinn nettur má búast við því að maður verði meiri þátttakandi í samfélaginu og kynni sér oftar hvað sé á seyði á t.d. mbl.is.

laugardagur, 8. nóvember 2003

Mikið fjör

Við náðum á fyrirlesturinn hans Attenborough og ekki nóg með það heldur hittum við gaurinn og fengum eiginhandaráritun. Fyrirlesturinn var mjög skemmtilegur og var í raun bara heppni að við skyldum komast inn. Líklega hefði verið eðlilegra að halda þetta í Háskólabíói þar sem margir fóru fýluferð. Fyrirlesturinn endaði á umfjöllun um paradísarfuglinn sem er sennilega eitt svalasta dýr jarðar, þvílíkir töffarar!

Eftir fyrirlestur og áritun hittum við svo Stellu Soffíu og fengum hjá henni tvær myndir og geisladisk. Líklega hefur Stella smitað mig af vírus sem er víst að gera út af við heimsbyggðina. Ég held að ég sé með krónískt tilfelli og ætla ekki að reyna neinar lækningaaðferðir. Mér er sagt að það sé hægt að lifa með þessu ansi lengi.

laugardagur, 1. nóvember 2003

Bara að pæla

Hvað var Paltrow eiginlega að hlusta á? Ég held ég láti það vera í bili.