miðvikudagur, 26. nóvember 2003

zzz...

Ó mig auma, ég er enn á fótum og sjáið bara hvað klukkan er! Ég er enn upp á skrifstofu á Hótel Sögu og klukkan er að ganga þrjú. Sem þýðir að ég á eftir að labba alein heim í kuldanum og myrkrinu (sniff).

Annars er ég búin með ritgerðina mína fyrir hnattvæðingarkúrsinn sem ég á að skila á morgun og það er frábær staðreynd sem ég fíla :) Það þýðir að ég get strax í fyrramálið hafist handa á seinstu ritgerðinni minni :( - ekki svo skemmtileg tilhugsun. Jæja, ég get huggað mig við það að þegar henni er lokið má ég byrja að jólaskreyta og ef það er ekki huggun harmi gegn þá veit ég ekki hvað.

Úpps, klukkan meira gengin í þrjú, best að haska sér af stað út í þetta hvíta, kalda, mjúka... hvað kallast þetta aftur? Mér hefur verið tjáð að þetta hafi ekki sést á götum eða himni borgarinnar síðan á síðustu öld. Einhverra hluta vegna er ég farin að syngja jólalög. Jæja, og nú heim!