miðvikudagur, 29. júní 2011

Rishkesh í máli og myndum

Við erum búin að ákveða að segja frá því sem á daga okkar dreif í Rishikesh í máli og myndum. Þannig komum við frekar til að muna eftir ýmsum skemmtilegum atburðum og þið lesendur góðir fáið fréttir frá framandi slóðum. Það mætti kannski ætla að þetta verði stutt færsla þar sem langt er um liðið, en svo er aldeilis ekki. Þetta er löng færsla.

Útsýni yfir Ganges
Útsýni yfir ánna Ganga

Eftir strembna ferð upp eftir til Rishikesh í skröltand rútuskratta komum við okkur fyrir á því allra fábrotnasta gistiheimili sem ég hef komið á. Við hittum tvo Rúmena á leið okkar upp til Rishikesh og deildum saman ricksaw síðasta spölin, og þau samfærðu okkur um að Namaste guesthouse væri æðislegt. Mér fannst það ekki. Ber steypa á gólfinu, rúmföt sem virtust ekki hafa verið þvegin og handklæði sem lyktuðu af tjöru. Samt ekki svo slæmt fyrir 180 rúpíur á nótt. Við létum okkur hafa það að fyriberast þarna í þrjár nætur og notuðum tímann á milli til að skoða alla, og þá meina ég ALLA, þá gististaði sem voru í grennd við yoga shalað okkar. Fundum loks fínt herbergi á Green Hills Cottage hjá þeim Krishna og Alberti, og enduðum á að gista hjá þeim í sex vikur í frábæru yfirlæti. Við vorum svo góð auglýsing fyrir hótelið að undir lokin vorum við orðin fjögur úr jógagrúppunni okkar sem gistum þarna, öll í einum, sætum hnapp.

Baldur, Albert og Krishna skoða myndir af Íslandi

Alla morgna utan laugardaga röltum við upp úr hálf átta niður í jóga shala til að stunda okkar æfingar. Við vorum svo stirð á fyrstu æfingunum að það var átakanlegt á að horfa, og einstaklega sársaukafullt að ganga um og vera til fyrstu dagana á eftir. Ef maður skiptir út jógaæfingum fyrir hoss í rútum þá má svo sem reikna með slíkum árangri. Jóga shalað okkar var í u.þ.b. 10 mínútna göngufæri frá hótelinu okkar, neðar í dalnum, sem þýddi að eftir æfingar, þegar maður er hvað uppgefnastur yfir daginn, var heimferðin ávallt upp í mót. Hins vegar gat það komið sér vel að hallinn væri niður í mót á morgnana því þá var auðveldara að spretta úr spori ef við heyrðum í asnabjöllu (kem betur að þessu síðar).

Ásdís stúderar / Jógar á morgunæfingu

Jóga shalað var á efstu hæð á hóteli sem hefur mátt muna fífil sinn fegurri. Allt úr óþéttu gleri og málmi svo að við fundum fyrir hverri einustu vindhviðu. Og morgnarnir og kvöldin í Rishikesh eru sannarlega vindasöm. Að heyra í gnauðinu í vindinum og hvernig hann skók allt shalað að utan minnti helst á vetrarbyl heima nema bara ekki eins huggulegt því shalað var lítið sem ekkert upphitað og það var kalt. Og varð svo enn kaldara. Eftir því sem leið á dvölina mátti sjá skýra fylgni milli þess hve mikið hafði kólnað og hve bústin og bosmamikil við vorum á leið á æfingar. Yfir jógafötin klæddum við okkur í buxur, peysur og stakka, pasmínur og sokka. Allt sem við fundum. Kjöguðum svo á æfingu og týndum hægt og rólega af okkur varaspjarirnar eftir því sem uddjya öndunin tók að virka.

Kappklædd á æfingu í vetrakulda Indlands

Þetta dúlluðum við okkar við sex daga vikunnar, tvo tíma á dag. Þess utan fórum við líka í svokallaða Yin yoga tíma tvisvar í viku, tvo tíma í senn. Þar leið okkur eins og gamalmennum við hlið samnemenda okkar sem létu sér fátt um finnast að renna í slitt og spíkat, fulla dúfu og ég veit ekki hvað. Stundirnar á milli tíma voru oft nýttar í að undirbúa jógakennaranámið, þá oft á svölunum okkar með útsýni yfir hæðir Himalayafjallanna. Eða þá að við sátum og lásum í góðri bók, horfðum á ógrynni auglýsinga í sjónvarpinu með smá bútum af kvikmynd inn á milli eða kjöftuðum við jógavini okkar. Hópurinn sem var að æfa með Louise Ellis þegar okkur bar að garði var fámáll til að byrja með en okkur tókst að hrista alla rækilega saman með reglulegum boðunum í sameiginlegan morgunmat eftir æfingar. Þannig kynntumst við frábæru fólki sem við vonumst til að sjá aftur einhvern daginn.

Baldur, Maite & Olle / Hópmynd í shalanu

Við fórum í þrjár dagferðir sem vert er að segja frá. Sú fyrsta snerist um Bítlana, en við fórum og heimsóttum það sem kallast Bítlaashramið í Rishikesh. Þar dvöldu Bítlarnir víst fyrir einhverjum áratugum og sömdu efni í plötu. Eftir dvöl þeirra í þessu tiltekna ashrami blés starfsemi þess víst út, slík var aðsóknin, en í dag er þarna algör draugabær. Einhverjir flækingar hafa tekið sér bólfestu innan veggja ashramsins, halda hliðinu læstu og rukka ferðamenn um aðgang. Þeir segjast vera að vinna fyrir stofnun sem sér um viðhald og varðveislu sögulegra minja.

Þetta voru lítil hús

Maður veit aldrei hverju maður á að trúa hér í Indlandi nema því að trúa aldrei neinu, svo eftir nokkurt streð tókst okkur að semja við þá um hópafslátt fyrir okkur sex sem vorum saman á ferð. Við gengum um grundir ashramsins og stemmningin var notaleg og ljúf. Þarna hefur gróðurinn fengið að vaxa villt í allavega heilan áratug og aparnir eru hæstánægðir með friðinn þarna. Áhugaverðast fannst mér samt að virða fyrir mér byggingarnar og forvitnilegan arkitektúrinn. Margar bygginganna minntu helst á lítil stubbahús, eða kannski að Hobbitaholur sé virðulegri lýsing.


Önnur ferðin var farin með nokkurn veginn sama fólkinu. Við gengum upp að fossi sem er í um klukkutíma göngufæri frá ánni Ganga. Það var svalandi að komast aðeins út úr ysi og þys Laxman Jhula (hverfinu okkar), hvíla sig smá stund á látlausum bílflautunum og asnabjöllunum. Þaðan röltum við svo hærra upp í hlíðarnar þangað til við komum að litlu fjallaþorpi, Patna. Þetta er ábyggilega fallegasta þorp sem ég hef séð á Indlandi. Allt snyrtilegt, huggulegt og með eindæmum kyrrlátt. Íbúarnir virðast leggja mikla rækt við rósir og önnur skrúðblóm því allt var í litríkum blóma.

Blóm
Það voru blóm sem tóku á móti okkur í þorpinu

Við höfðum gengið smá spöl innan þorpsins þegar á móti okkur tók aldraður herramaður. Hann vildi endilega bjóða okkur heim til sín í chai. Garðurinn hans skaraði alveg fram út því sem við vorum búin að sjá fram til þessa, og hann var meira að segja með avókadó tré í bakgarðinum sem hann hafði ræktað upp af grísku avókadófræi. Meira að segja upp í fjallabæ á Indlandi nær hnattvæðingin að pota fingrum sínum.

Konurnar í þorpinu / Gestir og gestgjafar

Konan hans sauð handa okkur chai á hlóðum, og á meðan við sötruðum á því tók hún til við að elda handa okkur einhvers konar semolina korngraut með möndlum, kardimommum og mjólk. Síðan sýndu þau okkur stolt myndaalbúmið sitt sem einmitt var stútfullt af myndum af þeim við hlið hinna ýmsustu ferðamanna sem álpast hafa inn í þorpið í gegnum árin. Þegar við vorum búin að gæða okkur á gómsætum korngrautnum kvöddum við þau hjón með trega. Litla þorpið Patna hafði sýnt mér hlið á Indlandi sem ég hafði fram til þessa aðeins átt von í hjarta um að sjá.

Glaðir í baði
Baðferð í Ganga

Í þriðju ferðinni fóru jógarnir til heilaga bæjarins Haridwar til að taka út bæjarlífið og fylgjast með puju, eða helgiathöfn, sem fer fram á hverju kvöldi við sólsetur við bakka Ganga. Við leigðum okkur leigubíl og héldum af stað undir þeim skemmtilegu formerkjum að við værum að fara í school trip. Rétt utan við bæinn er risavaxinn stytta af guðinum Shiva sem við urðum að mynda í bak og fyrir. Við gengum síðan meðfram ánni og fylgdumst með fólki baða sig. Það minnti um margt á lífið í Varanasi nema töluvert afslappaðra og fámennara. Pujan sjálf var síðan tiltölulega einföld í sniðum en áhrifarík engu að síður. Þegar myrkrið skall á gengu sérstakir eldberar milli sitjandi fólksins og buðu þeim er vildu upp á heilun af heilögum eldi. Til að hljóta blessun eldsins ber maður hendurnar að eldinum og færir svo lófana að andlitinu og yfir höfuðið rétt eins og maður væri að skola á sér andlitið í vatnslaug. Falleg og áhrifarík helgiathöfn.

Heilagur eldur í mannþrönginni

Af öðru skemmtilegu sem við gerðum má nefna fjögurra daga Thai Yoga Massage námskeið sem við sóttum, og indverskt matreiðslunámskeið. Hins vegar er miklu skemmtilegra að enda þessa færslu á að segja frá samskiptum okkar við dýrin í Rishikesh; apana og asnana.

Í Rishikesh sem og víðar um Indland eru asnar notaðir sem burðardýr. Yfir bakið á þeim eru strengdir níðsterkir strigapokar sem síðan eru fylltir til hliðana af sandi, möl eða múrsteinum. Og þetta ferja asnarnir svo á milli, frá stórri hrúgu af sandi, möl eða múrsteinum yfir að byggingasvæðinu. Já, svolítið öðruvísi en þetta er gert heima nú til dags! Hvað um það, asnarnir byrja yfirleitt sinn vinnudag milli fimm og sex á morgnana og oft vaknaði maður við óminn af litlu bjöllunum sem þeir bera um hálsinn. Þá gat maður velt sér á hina hliðina, viss um að eiga inni allavega klukkutíma svefn.

Asni

Það vildi svo þannig til að leiðin okkar niður í jóga shala reyndist líka vera leið asnanna yfir á vinnusvæðin. Því fór það svo að á hverjum morgni sendum við upp bæn um að verða ekki samferða ösnunum þann daginn. Hvað sem þeim bænum leið fór oft svo að við ýmist mættum þeim eða urðum að fletja okkur upp við húsvegg þegar þeir komu hlaupandi á eftir okkur og framúr okkur með hlössin sín, og hirðirinn hlaupandi á eftir með prik á lofti, hvetjandi þá áfram á einhverju dýramáli sem hljómaði svona: Hohoho, hehehe, hmhmhm. Verst var það þegar tvö teymi asna mættust á þröngum stígunum milli húsanna. Það þýddi yfirleitt bara eitt: við vorum föst í asnatappa. Þannig að í hvert sinn sem við svo mikið sem heyrðu í einni lítilli asnabjöllu tókum við á rás niður hlíðina til að forðast þann vandræðagang og verða okki of sein í tíma.

Langoor api í mestu makindum

Að lokum eru það blessaðir aparnir en nóg var af þeim í Rishikesh. Það eru tvær tegundir apa þar á bæ, langoor apar sem eru hærri, stærri og með langt skott, og rhesus aparnir sem eru allir minni en alveg jafn færir um að skjóta manni skelk í bringu. Fram að Rishikesh höfðum við ferðast fyrst í sex mánuði um Indland og síðan fimm vikur án þess að til nokkurra átaka kæmi milli okkar og apa. Í Rishikesh eru þeir hins vegar þekktir fyrir yfirgang og við gættum ekki nógu vel að okkur.

Eitt sinn vorum við á rölti milli Laxman Jhula og Ram Jhula og höfðum staldrað við hjá hnetusölumanninum til að fá hjá honum poka af nýristuðum og heitum jarðhnetum. Við héldum síðan för okkar áfram, gæðandi okkur á hnetunum og njótandi lífsins þessu megin Ganga árinnar. Engin umferð manna eða bíla, engar byggingar, bara við, vegurinn og skógurinn. Kemur þá ekki aðvífandi frakkur langoor api sem gerir sér lítið fyrir og stekkur á Baldur og tekur að rífa í ólina á töskunni hans. Notar svo takið sem hann er kominn með til að stíga upp á lærið á Baldri og teygja sig í hnetupokann. Baldur er ansi útlimalangur en það dugði ekki til því apinn náði að slá í pokann og áður en við vitum af eru hnetur fljúgandi í loftinu og sekúndu síðar eru þær útum allt á jörðinni fyrir framan okkur.

Hnetusalinn
Hnetusalinn / Langoor apar að pjattast

Það er ekki að spyrja að því, í sömu andrá koma tíu aðrir hlaupandi á móti okkur, ekki mjög vinveittir að sjá. Ég fraus af skelfingu og á bak við mig heyri ég Baldur hvæsa og baða út öllum öngum til að virka stærri og þar með meira ógnandi. Apagengið hikaði og hélt sér í nægilegri fjarlægt til að við gætum flúið af vettvangi, einum vænum hnetupoka fátækari en blessunarlega laus undan öpunum.

Og rhesus aparnir, þeir eru svo sannarlega engir englar heldur. Hvæsandi á mann úr laufþykkni og berandi tennurnar þannig að hjartað hættir að slá. Ráðast á mann á almannafæri og hrifsa af manni poka fullan af guava ávöxtum. Og ég sem hafði keypt guavað sérstaklega í því skini að smakka það í fyrsta sinn. Það er ekki að ósekju sem við mannfólkið uppnefnum hvort annað apa þegar gengið er yfir strikið!

Fleiri myndir frá Rishikesh er að finna í albúminu okkar.

mánudagur, 27. júní 2011

Þögnin rofin

Loksins látum við í okkur heyra á þessum vettvangi! Undanfarnir mánuðir hafa ekki beinlínis boðið upp á safaríkar ferðalýsingar þar sem við höfum fyrst og fremst verið staðsett á hverjum stað fyrir sig til langs tíma og varið tíma okkar í jóga. Við höfum látið duga að minna á okkur í gegnum Facebook og hefur það að okkar mati komið vel út.

Seinast þegar við létum heyra í okkur vorum við í Rishikesh. Koma okkar þangað markaði ákveðin tímamót í ferðinni; við hættum bakpokaflandri og í staðinn sóttum við jógatíma hjá Louise Ellis. Þess á milli lásum við og undirbjuggum okkur fyrir jógakennaranámið, rifjuðum upp hvernig maður spilar á spil, fórum í gönguferðir og borðuðum góðan mat með góðum jógum.

Eftir sex yndislegar vikur í Rishikesh héldum við för okkar áfram suður á bóginn, sem var mjög viðeigandi og skynsamlegt í ljósi þess hve kalt var orðið norður frá í Rishikesh, og einkum og sér í lagi ef tekið er mið af því hve illa búin við vorum (og erum enn) fyrir kulda og vosbúð!

Fyrripart desembermánaðar flugum við til fylkisins Tamil Nadu, nánar tiltekið fórum við til uppáhaldsbæjarins okkar Auroville. Við dvöldum einmitt þar fyrir fjórum árum og vorum yfir okkur hrifin af rauðu leirvegunum sem maður þeytist eftir á mótorhjólinu. Þar dvöldum við í fjórar vikur og æfðum jóga hjá Monicu Marinoni.

Við tókum okkur tæplega viku jólafrí og fórum til smábæjarins Puttaparthi til að hitta fjölskylduna okkar, Stellu, Kristján og stelpurnar sem voru komin til Indlands til að heimsækja Sigrúnu móður Kristjáns. Við tókum næturrútu frá Pondy til Bangalore á aðfangadag og því fór það svo að á afmælisdaginn minn jóladag vaknaði ég í rútu við smellin jólalög sem ómuðu úr hátölurum rútunnar.

Frá Auroville flugum við svo snemma í janúar yfir til strandfylkisins Goa, þar sem jógakennaranámið fór fram. Þar dvöldum við í hvorki meira né minna en fjóra mánuði! Við komum tímanlega og fórum seint :) Námið tók níu vikur og var þar sem maður kallar á lélegri íslensku intense. Námið fór fram á vegum Brahmani Yoga Centre í Anjuna, og var í alla staði frábært. Við vorum að frá sjö á morgnana til sjö á kvöldin og fólst dagskráin m.a. í daglegri 2ja tíma jógaæfingu á morgnana, klukkutíma kvöldæfingu og klukkutíma önduaræfingum og hugleiðslu.

Þess á milli vorum við á fullu að fara yfir námsefnið, en þar var af nógu að taka: jógakennslufræði, jústeringar á stöðum, anatómía og jógaheimspeki svo eitthvað sé nefnt. Við sóttum líka svokallaða Talk through tíma þar sem við kenndum samnemendum okkar stöðurnar og fengum umsagnir um hvernig við stóðum okkur. Nokkrum sinnum í viku aðstoðuðum við í alvöru jógatímum. Undir lok námsins tókum við lokapróf þar sem við nemarnir kenndum 90 mínútna tíma frá A-Ö. Það gekk ljómandi vel og allir flugu í gegn enda var hér einstaklega vandaður hópur á ferð :)

Eftir að jógakennaranáminu lauk leið okkur örlítið eins og við hefðum verið í níu vikur inn í þvottavél á fullri vindu. Við vorum þreytt og undin, svo við tókum okkur góðan tíma í að ná áttum og melta það ógrynni af upplýsingum sem við höfðum meðtekið á þessum níu vikum. Við nutum þess að fara aftur í hlutverk ferðmannsins og skoða Panjim, höfuðborg Goa fylkis, fara í bíó og á strendurnar. Eftir nokkrar vikur af þessum vorum við hins vegar komin með nóg af hitanum og rakanum í Goa og héldum norður á bóginn.

Í byrjum maí flugum við upp í Himalayafjöllin til að dvelja á öðrum uppáhaldsstað okkar á Indlandi: McLeod Ganj. McLeod er smábær rétt fyrir ofan Dharamsala. Frægð og vinsældir þessa smábæjar má rekja til þess að hér býr Dalai Lama og því er bærinn líka að vanda uppfullur af tíbetsku flóttafólki og búddanunnum og munkum hvaðanæva.

Hér erum við enn í góðu yfirlæti. Í byrjun dvalar okkar var veðrið dásamlegt upp á hvern einasta dag: heiðskír himinn og ferskt og þurrt loft með barrnála angann í golunni. Veðrið minnti einna helst á sumardagana heima, eins og þeir gerast bestir. Við nýttum okkur þá auknu orku og framkvæmdagleði sem kemur yfir mann þegar maður loks sleppur úr þrúgandi hita og raka til að ganga hér um fjöll og firnindi. Við fundum fossa sem við vissum ekki af, sólböðuðum okkur á klettum innan um forvitna hunda og gapandi geitur, gengum upp að stöðuvatni sem reyndist vera tómt o.s.frv. Í stuttu máli sagt: Yndislegt líf á yndislegum stað.

Nú hefur veðrið hins vegar aðeins breyst og monsoon rigningarnar eru farnar að herja á litla fjallabæinn okkar. Og eins og áður hefur komið fram, þá erum við einstaklega illa búin undir vond veður, svo við erum farin að hugsa okkur til hreyfings. Við lofum engu, en vonum samt að við látum vita af ferðum okkar hér á næstu vikum :)