laugardagur, 28. febrúar 2004

Röfluteiknir

Einum deginum enn varið í excel og visual basic verkefni. Þetta er nú svolítið sniðugt dót. Í haust setti ég allt dótið í reikningshaldi upp í virðuleg excelskjöl og var frekar ánægður. Nú er öldin aldeilis önnur og finnst mér haustverkefnin bara vera kidstuff við hliðina á því sem ég gerði t.d. í morgun.

miðvikudagur, 25. febrúar 2004

Klambur

Sit hérna í Odda og klambra saman excelverkefni, gekk betur með það heima svo ég held ég fari þangað aftur.

miðvikudagur, 18. febrúar 2004

Engin fyrirsögn í dag

Í gærkveldi fór ég í mat til Péturs afa og borðaði einn af mínum uppáhalds réttum, soðna ýsu og kartöflur. Rétturinn er sennilega með því einfaldasta sem matreiðsla býður upp á en að mínu mati felst snilldin einmitt í einfaldleikanum.

Nú sit á Þjóðarbókhlöðunni, the national bookbarn á ensku, og er að safna kjarki í reikningshaldið. Ahhhh! Held hann sé kominn og þá er ekki annað að gera en að vinda sér í verkið.

sunnudagur, 15. febrúar 2004

Sunnudagsmorgnar
Eitt yndislegt við að búa í vesturbænum er að heyra í kirkjuklukkunum á sunnudagsmorgnum. Sérstaklega á svona fallegum og heiðskírum degi. Sérstaklega í febrúarmánuði sem hefur fært okkur vorveður tveimur mánuðum fyrir tímann. Ah, það er yndislegt að vera til :)

fimmtudagur, 12. febrúar 2004

Naglasúpan

Í gær bjó ég til naglasúpu. Þannig var að ég ætlaði að fá mér smá kraftasnarl, til að stúta pestinni, en bætti alltaf meiri mat í pottinn. Ekki linnti látunum fyrr en ég var búinn að búa til kraftmikla grænmetis- og baunasúpu sem dugði okkur Ásdísi í kvöldmat gærdagsins og hádegismat í dag.

Súpan gerði sitt gagn og er ég allur að koma til en svo að allt sé öruggt er Ásdís að útbúa indverskan karrýrétt og köku í desert. Ég reikna því með að vera orðinn fullur af orku og flensulaus á morgun. 7-9-13 ;)

þriðjudagur, 10. febrúar 2004

Gargl

Búinn að hanga heima síðan á sunnudag með hálsbólgu og skítaslen. Síðan ég sjúkdómsgreindi sjálfan mig á sunnudag hef ég etið mikinn chili pipar, fullt af engifer og garglað hálsinn með hálfu Atlantshafi. Þrátt fyrir harkalegar aðgerðir er skrattinn ekki enn farinn en ég bind miklar vonir við að svæla hann út í dag.

Ég tek fram að ég hef ekki látið mér leiðast í þessu ströggli. Ég hef sofið heil ósköp og þegar maður sefur mikið þá dreymir mann tóma steypu og það jafnast nú alveg á við böns af bíóferðum.