fimmtudagur, 27. desember 2012

Jól og afmæli

Þá eru helgustu dagar jóla liðnir og þetta hafa verið alveg dásamleg jól! Er ekki hægt að endurtaka leikinn bara strax í dag?

Þetta voru yndisleg jól með öllu tilheyrandi: söngur tenóra niðri á Ingólfstorgi á Þorláksmessu og heitt súkkulaði eftir á; labbitúr í Fossvogskirkjugarð á aðfangadegi - eins og að koma í Kringluna á góðum degi svo margt var um manninn; góður matur, gott fólk og góðar gjafir (iittala jólin 2012!); miðnæturmessa með Páli Óskari og Móniku í Fríkirkjunni; jóladag sem bar upp á afmælisdag (aldrei þessu vant...); jólaboð og jólaspil (ég er orðspekingurinn!) á jóladag; jólaboð og jólarabb á 2. í jólum; konfekt, konfekt, konfekt; 33 túlípanar frá Amsterdam (lúv it!) og aðrar frábærar afmælisgjafir; jólatónlist, jólakúr og jólakós; hnetusteik í öll mál; Baggalútur; greniilmur; sofið út... Já, af hverju geta jólin ekki verið sérhvurn dag?

Hér að neðan gefur að líta nokkrar myndir - snapshots - af þessum yndislega tíma ársins. Það er nefnilega svo margt að upplifa með augunum á jólunum og myndavélin er svo skemmtileg að hún grípur augnablikin oft ekkert síður en augun.

Á þessum jólum þá:

Stóð þessi fura í Fossvogskirkjugarði skreytt rauðum slaufum

Tréð skreytt slaufum
 
 Kveiktum við á fjórða kerti aðfangakransins á Þorláksmessu, þegar við vorum búin að ganga Laugaveginn og komin inn með heitt piparmyntusúkkulaði í bolla og nýbakaðar smákökur.  

4. í aðventu

 Fengum við okkur grjónagraut í hádegismat og Baldur faldi möndluna - sem ég svo fann! Og rauðir og jólalegir túlípanarnir fengu að koma með okkur heim úr búðinni.
 
Grjónagrautur með möndlu
 
Var möndlugjöfinni pakkað inn...
 
Möndlugjöfin
 
Og hún opnuð! Reyndist vera kvæðin hans Jóhannesar úr Kötlum um jólakomuna!

Möndlugjöfin

Settumst við til borðs klukkan sex á aðfangadag, þegar bjöllunum hafði verið hringt og orðið heilagt.
 
Aðfangadagur
 
Fengu allir jólabland í glasið sitt.
 
Untitled
 
Var reyktur silungur og fyllt egg í forrétt.
 
Untitled
 
Forréttur
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled

Var jólatréð hlaðið pökkum!
 
Jólatréð og gjafirnar

Voru pakkarnir hver öðrum fallegri!
 
Jólapakki
 
Untitled
 
Jólapakki

Var tekin góð pása á jóladag - eftir hátíðarmessu og fyrir jólaboð hjá pabba og Huldu - þar sem konfekt, jólabland og bók komu við sögu.
 
Huggulegheit á jóladegi

Og heitt súkkulaði í nýju bollunum!
 
Heitt súkkulaði í nýjum bolla
 
Untitled

Blómstruðu rauðu túlípanarnir.
 
Rauðir túlípanar
 
Blómstruðu appelsínugulu, rauður og fjólubláu túlípanarnir frá Amsterdam.
 
33 túlípanar frá Amsterdam
 
Átti þessi stelpa afmæli!
 
Afmælisstelpan og túlípanarnir
 
Untitled
 
Myndalegur vöndur
 
Átti þessi stelpa fullt í fangi með túlípana!
 
Fangið fullt af blómum

sunnudagur, 23. desember 2012

Jólabaksturinn

Ég demdi mér í jólabaksturinn í gær og tók hann á einu bretti. Ég varð reyndar að fara til mömmu til að komast í bakarofn og fyrir vikið varð ég að undirbúa mig vel heima áður. Hnoða í deig, hræra í hrærur, vega og mæla. Sparaði mér að burðast með öll kílóin af hveiti, púðursykri, hjartarsalti, matarsóda, negul, engifer og kanil og svo mætti lengi telja. Í staðinn rogaðist ég bara með tilbúin deigin, pökkuð svo fallega inn í álpappír að það var næstum synd að taka utan af þeim.

Ég bakaði hvorki meira né minna en fimm sortir: hálfmána, lakkrístoppa, engiferkökur, sesamkex og súkkulaðibitakökur. Með dyggri hjálp mömmu náðist þetta í tæka tíð en það eru engar ýkjur að dagurinn fór í þetta. Ekki amaleg leið til að verja degi.

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa því í orðum hvað það var gaman að baka og hvað smákökurnar voru fallegar og gómsætar. Læt myndirnar tala sínu máli. Læt þó fljóta með að þær eru algjör nammi!

Sesamkexdeig
 
Untitled
 
Sesamkex
 
Untitled
 
Súkkulaðibitakökur
 
Kökurúllur
 
Engiferkökur í bígerð
 
Lakkrístoppar beint úr ofninum
 
Untitled
 
Mótað
 
Rabarbarasulta
 
Engiferkökur
 
Sultar
 
Mundar keflið
 
Engiferkökur og hálfmánar
 
Lakkrístoppar
 
Untitled
 
Hálfmánar

fimmtudagur, 20. desember 2012

Hnetusteik

 
Jólamaturinn

Ah, gott dagsverk að baki. Útbjó jólahnetusteikina í hádeginu, fór út að labba í sólarhádeginu og kláraði jólagjafainnkaupin í Kringlunni. Rölti svo heim með Baldri, reiðhjóli og mörgum bögglum, í léttri og endurnærandi rigningu. Já, nú er ekki mikið eftir af jólaundirbúningi. Búin að senda nokkur jólakort til Noregs og Svíþjóðar, búin að versla þorrann af jólamatnum og góðgætinu og búin að pakka flestum gjöfum inn. Já, ég er bara þrælsátt.
 
Alltaf jafn sætur

Ég ætla hér að deila með ykkur uppskriftinni að hnetusteik úr bókinni hennar Sollu, Grænn kostur Hagkaupa. Ég er núna búin að útbúa jólahnetusteik eftir þessari uppskrift þrjú jól, fyrst jólin 2008 og síðast í fyrra, í litla kofanum okkar við sjóinn, á litlu eyjunni utan við Helgelandsströndina. Það var þá sem ég áttaði mig á því að maður þarf enga matvinnsluvél eða fínar græjur til að útbúa hnetusteik, þetta er sáraeinfalt. Svolítil handavinna en afskaplega einföld og ef maður gefur sér tímann þá er þetta skemmtileg handavinna. Og fær maður að borða hana! Besta handavinna ever.

Tada, jólamaturinn í ár... Uppskriftin hér að neðan er fyrir fjóra, þ.e.a.s. hún hefur dugað okkur Baldri í tvær heilar máltíðir, aðfangadag og jóladag. Tvöfaldið hana ef þið eruð fjögur í heimili og viljið eiga afganga fyrir næsta dag.

Hvað:
Góð olía til steikingar
1 laukur
100 g sæt kartafla, skræld
100 g sellerírót, skræld
2 msk tómatmauk
1 msk timjan
1 msk karrý
chilli af hnífsoddi
hálf msk sjávarsalt eða Herbamare
100 g soðnar og skrældar kartöflur
150 g soðin hýðisgrjón
100 g kasjúhnetur
100 g heslihnetur
Raspur: 50 g sesamfræ

Hvernig:
Saxið laukinn og rífa niður sætu kartöfluna og sellerírótina. Steikið á pönnu ásamt tómatmauki og kryddi, látið malla í 20 mín. Leyfið að kólna. Ristið og malið hneturnar. Stappið kartöflurnar saman við hýðisgrjónin, bætið síðan við tómatblöndunni af pönnunni og hnetunum. Hrærið vel saman. Hægt er að nota hrærivél en ég hef alltaf notað handaflið og víða, góða skál.

Því næst þarf að móta hleif úr deiginu og þá er tvennt í boði: að sturta deiginu á bökunarpappír og móta með höndunum kræsilegan hleif, eða klæða form með bökunarpappír og sturta deiginu ofan í það. Það má síðan baka hleifinn í forminu en þá verður skorpan ekki eins bökuð og skemmtileg eins og hún verður ef hann er bakaður á plötu svo ég valdi að fara millileið. Ég sturtaði deiginu í form og notaði það til að hjálpa mér að forma hleifinn, en síðan mun ég kippa hleifinum upp úr forminu og baka á bökunarpappír.

Veltið hleifinum upp úr sesamfræjum til að mynda rasp. Bakið við 200°C í 30-40 mín., passið að hafa hleifinn ekki of lengi í ofninum svo hann þorni ekki.

Það sem er gott við hnetusteikina er að hægt er að útbúa hana tímanlega og frysta, sem er einmitt það sem ég geri fyrir þessi jól og hef gert áður. Þá er bara að muna að kippa steikinni úr frysti í tæka tíð!

Meðlætinu með hnetusteikinni eru auðvitað engin takmörk sett. Við höfum vanist því að borða hana með brúnuðum kartöflum, sveppasósu, rauðkáli og grænum baunum. Við höfum einnig prófað að hafa Waldorf salat með en fundist það of þungt og mikið. Einnig höfum við prófað sætkartöflumús sem var mjög ljúffeng. Ferskt gulrótasalat kemur líka mjög vel til greina.

Nú mega jólin bara koma, það held ég nú!

Hnetusteik
 
Hnetusteik
 
Hnetusteik
 
Hnetusteik

mánudagur, 17. desember 2012

Helgin í myndum og ekki myndum

Hér eru myndir og ekki myndir af því markverðasta þessa helgina:

Ferð í Ikea. Gleymdi að taka mynd af strætó, það hefði verið sniðugt og satt og gult og danskt og stundvíst. Já sei sei.

Geithafur fyrir utan Ikea. Hann stendur enn, og ekki í ljósum logum eins og óttast er hverja aðventu. Steingeit líka, og heldur ekki í ljósum logum.

Hrekkjusvín fyrir utan Ikea. Þurfti að labba með því um stærstu verslun landsins og það linnti varla látum alla kílómetrana sem við örkuðum.

Átum á okkur gat í Ikea. Gleymdi að taka fyrir-og-eftir myndir af mallakútum (sem betur fer).

Keyptum jólastjörnu. Keyptum pínulitlar perur í Brynju. Laugavegurinn var pakkaður af fólki á laugardagskvöldi og allar búðirnar opnar til tíu. Finnst mér þetta skemmtilegt? Ójá!

Settum upp jólastjörnu í stofugluggann. Megi hún lýsa og lýsa upp Snorrabrautina.

Aðstoðaði Viri vinkonu í astanga 1 tíma á sunnudagsmorguninn á meðan Baldur fór í leikhús með Stellu og stelpunum. Þau leituðu að jólunum á meðan ég jústeraði og leiðbeindi samviskusömum jógum. Agalega gaman hjá öllum þrátt fyrir ólík verkefni. Engin mynd hér þessu til sönnunar, þið verðið bara að taka mig á orðinu.

Sólarlag í göngutúrnum mínum, Fossvogur. Kul í lofti, rauðar eplakinnar, sjúg-upp-í-nef.

Horfðum á íslensku kvikmyndina Sveitabrúðkaup á sunnudagskvöld. Skemmtileg.

Þriðji í aðventu. Kveiktum á hirðakertinu. Grenið er aðeins farið að þorna en það lyktar enn vel, sem er fyrir öllu. Engar piparkökur þennan sunnudaginn, því má ekki ofgera, en fékk einn hálfmána hjá Stellu, með hindberjasultu, namm.

Ein helgi eftir og svo bara jólin! Og afmæli! Og nýtt ár! Elsku Guð, er þetta ekki svolítið þétt dagskrá?


Steingeit og jólageithafur Ikea
 
Í stríðnisham
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Þriðji í aðventu