Ferð í Ikea. Gleymdi að taka mynd af strætó, það hefði verið sniðugt og satt og gult og danskt og stundvíst. Já sei sei.
Geithafur fyrir utan Ikea. Hann stendur enn, og ekki í ljósum logum eins og óttast er hverja aðventu. Steingeit líka, og heldur ekki í ljósum logum.
Hrekkjusvín fyrir utan Ikea. Þurfti að labba með því um stærstu verslun landsins og það linnti varla látum alla kílómetrana sem við örkuðum.
Átum á okkur gat í Ikea. Gleymdi að taka fyrir-og-eftir myndir af mallakútum (sem betur fer).
Keyptum jólastjörnu. Keyptum pínulitlar perur í Brynju. Laugavegurinn var pakkaður af fólki á laugardagskvöldi og allar búðirnar opnar til tíu. Finnst mér þetta skemmtilegt? Ójá!
Settum upp jólastjörnu í stofugluggann. Megi hún lýsa og lýsa upp Snorrabrautina.
Aðstoðaði Viri vinkonu í astanga 1 tíma á sunnudagsmorguninn á meðan Baldur fór í leikhús með Stellu og stelpunum. Þau leituðu að jólunum á meðan ég jústeraði og leiðbeindi samviskusömum jógum. Agalega gaman hjá öllum þrátt fyrir ólík verkefni. Engin mynd hér þessu til sönnunar, þið verðið bara að taka mig á orðinu.
Sólarlag í göngutúrnum mínum, Fossvogur. Kul í lofti, rauðar eplakinnar, sjúg-upp-í-nef.
Horfðum á íslensku kvikmyndina Sveitabrúðkaup á sunnudagskvöld. Skemmtileg.
Þriðji í aðventu. Kveiktum á hirðakertinu. Grenið er aðeins farið að þorna en það lyktar enn vel, sem er fyrir öllu. Engar piparkökur þennan sunnudaginn, því má ekki ofgera, en fékk einn hálfmána hjá Stellu, með hindberjasultu, namm.
Ein helgi eftir og svo bara jólin! Og afmæli! Og nýtt ár! Elsku Guð, er þetta ekki svolítið þétt dagskrá?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli